19.10.1962
Neðri deild: 5. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (1975)

15. mál, lánsfé til húsnæðismála

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt þrem öðrum þm. Alþb., hv. 4. landsk., hv. 7. landsk. og hv. 11. landsk., að flytja frv. til l. um útvegun lánsfjár til húsnæðismála og um nokkrar breyt. á l. um húsnæðismálastofnunina. Það er rétt að gera þá í fyrsta lagi grein fyrir ástæðunum til þess, að við álítum nauðsynlegt að flytja að mörgu leyti svo róttækt frv. sem þetta er og frv., sem samt um leið er aðeins ætlað til að hjálpa úr því ástandi, sem nú hefur skapazt, fyrst um sinn. Ætla ég að gera nokkra grein fyrir, hvernig komið er nú og hvernig á því stendur.

Það hefur farið svo undanfarin þrjú ár, að það hefur í sífellu farið fækkandi þeim íbúðum, sem menn hafa lagt í að byrja að byggja. Og það hefur jafnframt farið fækkandi þeim íbúðum, sem menn hafa fullgert. M.ö.o.: það er verið að lama þrek almennings til þess að koma upp íbúðum, fá þak yfir höfuðið. Hvað snertir íbúðirnar, sem menn hafa byrjað á að byggja, hefur þróunin verið sú, að 1959, á fyrsta ári viðreisnarstjórnarinnar, var byrjað að byggja 1597 íbúðir alls í landinu, árið 1960 var byrjað að byggja 1013 íbúðir og árið 1961 var byrjað að byggja 770 íbúðir. M.ö.o.: helmingi færri lögðu í það á árinu 1961 að byrja að byggja heldur en þeir, sem höfðu lagt í það 1959. Það er því engum efa bundið, að það fer sífækkandi þeim fjölda íbúða, sem menn leggja í að byggja, þótt það kunni hins vegar eitthvað ofur lítið að breytast frá ári til árs. Ef við lítum hér á Reykjavík, verður sama myndin uppi, þegar maður athugar það t.d. þannig, hvað fullgert sé af íbúðum. 1957 voru fullgerðar 935 íbúðir í Reykjavík, og ég býst við, að það hafi verið hámark þess, sem fullgert hefur verið á einu ári, 1958 voru fullgerðar 865, 1959 voru fullgerðar 740, 1960 voru fullgerðar 642 og 1961 541. Nú er þeim mönnum, sem farið hafa með borgarstjórnarmál Reykjavíkur, kunnugt um, að þegar ein ýtarlegasta rannsókn var gerð — ég held árið 1946 — á því, hvað þyrfti að byggja í Reykjavík til þess í senn að útrýma slæmum og heilsuspillandi íbúðum og til þess að byggja yfir þann mannfjölda, sem hér bætist við, ýmist fæðist og vex hér upp eða flyzt að, þá þyrfti að byggja a.m.k. rúmar 600 íbúðir í Reykjavík á ári miðað við árið 1946. Og ef ég man rétt, var það svo einmitt árið 1946 eða 1947, að þá voru byggðar, held ég, um 640 íbúðir, það var náð þeirri tölu þá. Síðan fór því fækkandi, og ef ég man rétt, var það á árinu 1951 líklega komið niður í 251 íbúð eða eitthvað þar í kring, — ég skal ekki fara nákvæmlega með tölurnar, en a.m.k. var það á þriðja hundrað, þannig að það kom þarna langt tímabil, þar sem miklu minna var byggt en nauðsynlegt var. Síðan kom góð skorpa á árunum 1956–58, sem hélt síðan nokkuð áfram næstu árin á eftir og fór sídvínandi, þangað til að nú, 1961, er það komið niður í 541 íbúð, sem fullgert er, enda nú þegar farið að bera ákaflega mikið á því hér í Reykjavík, að húsnæðisskortur er verulegur. Bæði hefur húsaleiga hækkað gífurlega og líka orðið ákaflega erfitt að fá íbúðir.

Hér á árunum, þeim vandræðaárum 1950 og 1951 og þar í kring, var gengið þannig að mannskapnum hér á Íslandi, að mönnum var bannað að byggja nema með sérstöku leyfi yfirvalda í Reykjavík. Á þeim helmingaskiptaárum íhalds og Framsóknar, þegar þeir góðu flokkar tveir sátu við ríkisstj., þá var það í fyrsta skipti lögleitt á Íslandi, að menn mættu ekki byggja þak yfir höfuðið nema því aðeins að fá leyfi frá einni nefnd í Reykjavík. Og þannig var dregið úr húsbyggingunum á þeim árum. Það þurfti langa og harða baráttu til að fá hnekkt því byggingarbanni, enda kom í ljós í þeirri baráttu, sem háð var hér á Alþingi þá, að það var haldið allsterklega í spottann. Það var nefnilega hvorki meira né minna en hótað að gera vissar, slæmar ráðstafanir í sambandi við meðferð amerísks fjár eða fjár á Íslandi, sem meira eða minna kom undir mótvirðissjóðinn, svo framarlega sem menn færu hér á Alþingi að slaka til um bannið á íbúðabyggingum. Ég skal ekki rifja þá sögu upp, en vert er, að menn muni, að það var sú tíð, að Íslendingum var bannað að byggja.

Það, sem nú er hins vegar verið að gera, eftir að frelsið svokallaða á að vera komið á, það er, að nú er verið að banna þetta sama með pólitík peningavaldsins í landinu. Nú er verið að banna þetta sama með okurvöxtum og lánaneitunum. Nú er dýrtíðinni, okurvöxtunum og bankavaldinu beitt til þess að ná þessu sama banni fram, síminnkandi íbúðabyggingum. Það, sem áður var fyrirskipað með lögum frá Alþingi, sem var að vísu harðvítug kúgun og ill, en var þó opinská, það sama er nú verið að framkvæma með því að gera þetta á duldari hátt, með því að beita áhrifum peningavaldsins. En afleiðingin af hvoru tveggja er sú sama. Það er nú þegar að koma að því, að það er byggt allt of lítið, — meira að segja allt of lítið, þó að miðað sé við það, sem nauðsynlegt var fyrir 16 árum hér í Reykjavík. M.ö.o.: það hefur þegar komið í ljós, að það eru allt of fáir, sem treysta sér til þess að leggja í að byggja, það er allt of lítið byggt og það er nú þegar orðið neyðarástand í þessum efnum.

Enn fremur hefur annað gerzt á þessum þrem árum. Íbúðirnar hafa orðið miklu dýrari. Dýrtíðarpólitík ríkisstj., þeirrar ríkisstj., sem stökk fram af hengifluginu og lét vísitöluna fara eins upp og hún þóttist ætla að forða frá að hún færi, þegar hún talaði djarfast, þegar hún tók við, — dýrtíðin hefur vaxið þannig, að hvað snertir t.d. vísitöluna fyrir byggingarkostnað voru byggingar nú í júní 1962 30% dýrari en þær voru 1958, og nú í október verða þær að öllum líkindum 33.5% dýrari en þær voru 1958. M.ö.o.: ef við tökum íbúð, sem hefði kostað 1958 400 þús. kr., þá er hún nú 130 þús. kr. dýrari, kostar 530 þús. kr. að byggja hana. M.ö.o.: það fólk, sem hefur lagt út í það í trausti á viðreisnina, í trausti á frelsi einstaklingsins, í trausti á allar þær gyllingar og loforð, sem þá voru gefin um, að nú ætti að afnema alla óreiðuna og vandræðin, öngþveitið, dýrtíðina og ég veit ekki hvað og hvað, — þeir, sem lögðu út í byggingar í þessu trausti 1959, hvað hafa þeir fengið frá ríkisstj.? Þeir hafa fengið á sig 130 þús. kr. hækkun á því að byggja eina íbúð og enga lánveitingu út á það. Fólkið hefur byrjað í góðri trú, haldið, að þeir menn, sem stjórnuðu þjóðinni, töluðu satt, og menn hafa verið að reyna að vinna verk, sem er ekki fyrir þá sjálfa aðeins, heldur komandi kynslóðir. Menn eru að byggja hér hús, sem koma til með að standa 100–200 ár, og þeim er ekki aðeins uppálagt að borga þetta yfirleitt upp á kannske tveimur áratugum, heldur er, meðan þetta fólk er að byggja, bætt ofan á frá ríkisstjórnarinnar hálfu 130 þús. kr. í kostnað með dýrtíðinni. Maður gæti sagt, að þetta væri raunverulega að tæla fólk út í ófæru, að fara svona að.

Sjálfstfl. hefur hvað eftir annað lýst því yfir, að það sé hans stefna, að hver maður eigi sína íbúð, og náttúrlega frá því sjónarmiði hlýtur það að eiga að vera stefnan, að ríkisvaldið aðstoði menn á eðlilegan hátt og skynsamlegan með slíkt, því að það er talað um, að hver maður eigi að eiga sína eigin íbúð og ekki bara þeir ríkustu. En fyrir þá, sem af mikilli bjartsýni — við skulum segja 1959 — byrja á að byggja, 1597 manns á Íslandi, það er eins og þetta fólk hafi bara fengið á sig stórhríðarbyl, svo að segja sé að verða úti. Þannig er dýrtíðarbylurinn, sem ríkisstj, hefur skipulagt gagnvart þessu fólki. Og það er ekki nóg með dýrtíðina, sem þannig hefur verið skipulögð, vextirnir hafa verið hækkaðir þannig, að það er svo að segja ókleift fyrir menn að ætla sér að búa í þeim húsum, sem verið er að koma upp nú. Og hvernig ætla menn, þegar sæmilegar fjögurra herbergja íbúðir eru farnar að kosta hálfa milljón og vextirnir eru reiknaðir 10% eða upp undir það, 9–10%, — hvernig ætla menn þá fólki að búa í slíkum íbúðum, á sama tíma sem í dýrtíðarvísitölunni er reiknað með, að menn eigi að geta lifað á 67 þús. kr. á ári? Þær ráðstafanir, sem hér hafa verið gerðar í húsnæðismálum af hálfu ríkisstj., þekkjast hvergi á byggðu bóli, svona vaxtaokur eins og hér tíðkast nú, svona gífurleg aukning dýrtíðar eins og hér hefur verið framkvæmd og svona léleg og lítil lán eins og hér eru veitt. Þau tíðkast ekki a.m.k. í okkar nágrannalöndum.

Í nýútkomnu Nordisk Kontakt nr. 10 er minnzt á ýmislegt í sambandi við þetta á Norðurlöndum. Og þar er sagt frá því á bls. 583, að hluti hinna opinberu lánveitinga í fjárfestingu í íbúðarhúsabyggingum sé í Svíþjóð 50%, Danmörku 55% og Noregi 47%. M.ö.o.: það þykir sjálfsagður hlutur, að um helmingurinn a.m.k. af því, sem fest er í íbúðum, komi frá því opinbera beint. Og við vitum, að einmitt á ýmsum Norðurlöndunum hefur verið framkvæmd löggjöf, sem er til fyrirmyndar í þessum efnum. Það hefur verið jafnvel um tíma framkvæmt þannig, að menn hafa fengið að láni upp undir 90% af byggingarkostnaði íbúða, að menn hafa fengið þetta fé að láni allt til 80 og 90 ára og að menn hafa fengið þetta fé að láni með 2–4% ársvöxtum, m.ö.o. félagslega mjög vel skipulagðar íbúðir, sem gátu ekki lent í braski, en gerðu mönnum mögulegt að heita a.m.k. og vera raunverulegir eigendur þessara íbúða með því að borga eftir þær það, sem var raunverulega rífleg húsaleiga. Þetta er hægt að gera, svo framarlega sem peningamagnið er tekið þeim tökum, að reynt er að stjórna löndunum a.m.k. á einhverjum sviðum með velferð fólksins fyrir augum.

Hvert er nú orðið ástandið hér vegna þessa ástands í byggingarmálunum? Ástandið er orðið þannig, að fyrir það fólk, sem nú er að byggja eða hefur verið að byggja á undanförnum árum og lent í þessum dýrtíðarvandræðum, þá er þess hlutskipti orðið endalaus þrældómur. Það er eingöngu með þrældómi að vinna sína ekki aðeins 10–12 tíma á dag, heldur sunnudaga og orlofin líka og helzt þannig, að bæði maður og kona vinni úti og öllu heimilislífi sé sundrað, — það er eingöngu með slíku móti, sem menn eru að reyna að kljúfa þetta ástand, sem ríkisstjórnarpólitíkin hefur sett menn í. Og það, sem vofir yfir fjölda af því fólki, sem er að berjast í þessu, er beinlínis heilsutjón, auk þess sem það fer á mis við ákaflega mikið af eðlilegu menningarlegu og félagslegu lífi. Og ofan á allt þetta bætist svo, — ég tala nú ekki um, ef sú pólitík ríkisstj. heppnaðist að einhverju leyti, að hér færi að verða atvinnuleysi, — missir eignanna á eftir eða það, að íbúðirnar stöðvast í miðju kafi, eins og er nú með fjöldann af íbúðum. Ef menn ganga hér inn eftir Laugaveginum eða kannske keyra sumir, þá geta þeir séð eitt hús vinstra megin við Laugaveginn, þegar keyrt er inn eftir, sem ber nafnið Viðreisn. Það er flutt inn í tvær neðri hæðirnar í því. Tveim efri hæðunum er ólokið enn þá. Það stöðvaðist um það leyti, sem viðreisnin fór að blómgast, og það hefur ekki verið hægt að halda áfram með það síðan. Og menn geta séð þess dæmi nokkuð víða hér í Reykjavík, að þannig hefur verið stöðvað, kaldi blástur viðreisnarinnar hefur komið þannig við menn.

Þegar er orðið ástandið slíkt, þegar neyð er að verða hjá fjölda fólks, eignamissir vofir yfir og annað slíkt, þá er ekki nema eðlilegt, að menn spyrji: Er þetta ástand óhjákvæmilegt? Er Ísland svona fátækt? Ég vil svara því algerlega neitandi. Það eru nægir peningar til hér á Íslandi, bæði hjá einstökum auðmönnum, ekki sízt hér í Reykjavík, og hjá því opinbera. Það, sem hér er að gerast, er, að það er verið að berja fram efnahagsstefnu, sem er að skapa hér á Íslandi alræði peningavaldsins. Það er verið að beygja þjóðfélagið undir það að safna auði og það mest í einstakra manna hendur, beygja mennina undir það að gera það æðsta takmarkið og fórna fyrir það heilsu og velferð að láta fara fram sem mesta auðsöfnun, og það, sem verið er að gera, er að fórna hagsmunum og velferð og heilsu þeirra, sem eru traðkaðir undir í þessu vægðarlausa kapphlaupi, sem hér er verið að skipuleggja. Það, sem hefur verið að ágerast nú undanfarið, er, að mismunurinn á milli mannanna er að verða miklu meiri en hann var hér á Íslandi fyrr. Það virðast vera að rísa upp hér í Reykjavík nú auðkýfingar, sem virðast varla vita, hvað þeir eiga við sína peninga að gera, á meðan aðrir verða að þræla baki brotnu og hafa samt ekki nóg. Svo að maður snúi sér að húsnæðismálunum, það virðast jafnvel vera auðkýfingar hér í Reykjavík, sem gefa börnum sínum heilar villur, búa þær að húsgögnum og láta bílinn standa fyrir utan, þegar þetta kornunga fólk er að gifta sig, hvað heilbrigt sem það kann nú að vera uppeldislega að búa þannig að sínum börnum, á meðan aðrir verða að þræla og þræla og sjá ekki út úr því. Og það gæti verið fróðlegt fyrir hv. þm. að kynna sér, hvers konar ástand það er, sem ríkir hér í Reykjavík nú í þessum efnum, ekki aðeins í bröggunum, sem þeir eru búnir að hafa fyrir sér í 20 ár, heldur líka í þeim nýju, stóru húsum, sem eru að rísa hér upp núna og neitað er um sjálfsögðustu þægindi. Það, sem er og hefur verið að gerast á þessum þremur árum, er að gera Ísland að þjóðfélagi gífurlegra stéttamótsetninga, mótsetninga milli auðs og óhófs annars vegar og vinnuþrældóms hins vegar. Og það er þetta ástand, sem er orðið óþolandi. Og það er þetta ástand, sem ekki sízt sýnir sig í þeim misjafna aðbúnaði, sem unga fólkið á við að búa, sem nú er að vaxa upp. Og hvað gerir svo ríkið, ríkisvaldið gagnvart þessu? Reynir þetta ríkisvald að draga úr þessum mótsetningum, — að jafna þessi kjör? Nei, þvert á móti. Ríkisvaldið hefur á undanförnum árum tekið úr umferð hjá sparisjóðum og viðskiptabönkum 490 millj. kr. og fryst það. 490 millj. kr. eru til í frystihúsi Seðlabankans, það fé, sem það fólk m.a. vantar, sem vinnur baki brotnu við að reyna að byggja íbúðir fyrir framtíðina á Íslandi og sjálft sig. Og þessu fólki hefur verið neitað um lán. Það er þannig verið að níðast á þeim, sem fátækir eru, níðast á þeim, sem skortir peningana, en taka peningana til þess að ráðstafa þeim meir og meir handa auðmönnunum hér í Reykjavík, sumpart til þess að reyna að græða á þeim, sumpart til þess að reyna að sóa þeim. Ríkið hefur verið tekið í ríkara mæli en fyrr í þjónustu auðkýfinganna. Jafnvel hæstv. forsrh. fann ástæðu til þess að tala um það, ekki bara Mallorcaferðirnar, heldur líka flugferðirnar til þess að horfa á knattspyrnuleiki í Bretlandi. Það er eins og margir hér viti lítt, hvað þeir eiga við peninga að gera. Fyrir um 100 árum var ort :

„Það er dauði og djöfuls nauð,

er dyggðasnauðir fantar

safna auð með augu rauð,

en aðra brauðið vantar.“

Til allrar hamingju hefur verkalýðshreyfingin getað áorkað því hér á Íslandi, að menn vanti ekki brauð í dag eins og fyrir 30 árum. Um þetta leyti, í okt. 1932, skorti marga brauð hér í Reykjavík, þegar átti að fara að lækka launin, svo að þeir, sem voru í atvinnubótavinnu, áttu að lifa á einnar viku vinnu á mánuði. En menn skortir aðra hluti, sem eru jafnsjálfsagðir, miðað við það stig þjóðfélagsins og það tæknistig, sem við nú stöndum á, eins og brauðið var fyrir hundrað árum. Þegar þetta var ort, var auðurinn, sem talað er um, í höndunum á nokkrum einstaklingum, sem höfðu nurlað honum saman. Nú er auðurinn sumpart í höndum nýríkrar yfirstéttar, sem hér hefur vaxið upp, sumpart í höndum ríkisins sjálfs, en því ríki er nú stjórnað með hag þessarar yfirstéttar þannig fyrir augum, að það er legið á þessum peningum eins og ormur á gulli og hindrað, að fólkið fái þetta fé, sem það þarf að nota.

Þegar við stofnuðum lýðveldi hér á Íslandi, var það okkar draumur, að við værum endanlega lausir út úr því að haga okkar þjóðfélagi að einhverju leyti með tilliti til bókhaldsins hjá hvort heldur væri dönskum einokunarkaupmönnum eða enskum bönkum. Okkar draumur var, að hér yrði stjórnað þannig, að það væri velferð fólksins, sem fyrst og fremst væri höfð fyrir augum, að það væri afkomuöryggi, sem tryggt var. Og í fyrstu stjórn, sem mynduð var, eftir að lýðveldið var stofnað, var líka gengið út frá og sköpuð róttækari og betri húsnæðismálalöggjöf en nokkru sinni áður hafði verið sett hér á Íslandi. Það var vilji þjóðarinnar þá að stefna í átt til vaxandi jafnaðar og lýðræðis á Íslandi og reyna að sjá til þess, að þjóðfélaginu yrði stjórnað í þágu fjöldans.

Það, sem nú hefur hins vegar gerzt og það alveg sérstaklega á síðustu þrem árum, er, að það hefur verið skipulega með efnahagsstefnu hæstv. ríkisstj. unnið að því að skapa hér kaldrifjað þjóðfélag ójafnaðar og peningavalds, hatramms peningavalds, þjóðfélag hrópandi stéttamótsetninga. Það virðist vera auðveldara í dag að byggja listrænt útbúna næturklúbba í Reykjavík heldur en fyrir fátækar fjölskyldur að koma sér upp íbúðum. Það virðist vera hægt að treysta meira á kaupgetu þeirra, sem geta fleygt sínu fé út fyrir óhófið, heldur en hvað unnið er að því að reyna að tryggja, að það duglega fólk, sem vill vinna eins og það getur til þess að koma sér upp íbúðum, geti gert það. Það er þessi öfugþróun í okkar þjóðfélagi, sem verður að stöðva. Við verðum að byrja aftur að reyna að þróa okkar þjóðfélag í áttina til jafnaðar og til lýðræðis og hverfa burt frá því alræði peningavaldsins, sem nú er verið að heygja þjóðfélagið undir.

Það frv., sem við hér flytjum, miðar að því að reyna nú þegar að hjálpa því fólki, sem lent hefur í þessari stórhríð dýrtíðarinnar hjá hæstv. ríkisstj., og skapa því möguleika til þess að geta unnið áfram að sínum íbúðum og til þess að geta haldið þeim og þjóðfélaginu þannig um leið möguleika til hagnýtrar fjárfestingar. Það eru tvö höfuðatriðin í þessu: Í fyrsta lagi hvað snertir byggingarsjóð verkamanna, þar er ástandið þannig, að 200 manns hafa sótt um lán og enga úrlausn fengið. En með lögum var gengið út frá því, þegar þeim var breytt seinast, og mikið talað um, hve miklar framfarir það væru, að það ætti að tryggja þeim 300 þús. kr. hverjum. Og þarna er einmitt um þá að ræða, sem fátækastir eru, því að þarna komast ekki aðrir að en þeir, sem hafa tiltölulega mjög lág laun. Og það, sem við leggjum til, er, að það verði tekið af því fé, sem Seðlabankinn hefur fryst, 60 millj. kr. beint í þennan byggingarsjóð. Þannig væri hægt að leysa undireins úr þörf allra þessara 200, sem sótt hafa og hafa beðið eftir lánum. Í öðru lagi er lagt til, að húsnæðismálastofnun ríkisins og byggingarsjóði ríkisins sé gert fært að gera nú skjótar og betur við það fólk, sem sótt hefur til hans undanfarið, heldur en verið hefur. Það er lagt til, að það sé látið óbreytt standa, sem áður var, að 100 þús. kr. lánin séu hámark fyrir þá, sem byrjuðu að byggja fyrir 1. jan. 1959, en það er lagt til, að frá 31. des. 1958 séu öllum þeim, sem lagt hafa út í íbúðarhúsabyggingar, eftir að viðreisnarstjórnin tók við, tryggð allt að 200 þús. kr. lán. Ég vil vekja eftirtekt á því, að þó að þetta 200 þús. kr. lán væri tryggt, þá er það samt miklu minna en nú er á öðrum Norðurlöndum. Og ég vil vekja athygli á því enn fremur, að þó að þarna væri bætt við það, sem áður var ákveðið, 100 þús. kr., þá nægir það ekki einu sinni fyrir þeirri dýrtíðaraukningu á meðalíbúð, sem orðið hefur á tíma viðreisnarstjórnarinnar. M.ö.o.: það er lagt til aðeins að reyna að taka meiri hlutann af þeim skakkaföllum, sem viðreisnarstjórnin hefur valdið almenningi, sem hefur farið að byggja hús á hennar tímum, — taka meiri hlutann af þessum skakkaföllum yfir á ríkið í lánveitingum. Það er ekki farið fram á mikið. Og þó er alveg gefið mál, að því fólki, sem nú er í nauðum statt, mundi finnast þetta mikil bót, það er ekki svo góðu vant. Svo er enn fremur lagt til til þess að reyna að hvetja einhverja menn til þess að byrja að byggja nú, að þeim, sem byrja hér eftir, t.d. frá 1. okt. þessa árs, séu tryggðar 250 þús. Það yrði samt ekki helmingur af því, sem raunverulega þyrfti. Og peningarnir eru til í þetta, þ.e. 260 millj. kr. leggjum við til að taka úr frystihúsi Seðlabankans og setja í þetta. Þá væru komnar í byggingarsjóð verkamanna og byggingarsjóð ríkisins 310 millj., og samt sem áður eru eftir 180 millj. í frystihúsinu. Það er svo sem ekki verið að tæma það strax, þannig að það þarf ekki að afsaka sig núna með því, sem þið heyrðuð stundum fyrr, að það væru engir peningar til. Sú afsökun var að vísu alltaf ósönn. Það sýndi sig bezt fyrir 30 árum, 9. nóv. 1932, þegar sagt var, að engir peningar væru til, til þess að hægt væri að borga bláfátækum verkamönnum kr. 1.45 um tímann, og þyrfti að lækka niður í krónu þess vegna, — mönnum í atvinnubótavinnu, sem áttu að lifa af einnar viku vinnu og draga fram líf fjölskyldunnar með því. Þá var líka sagt, að það væru engir peningar til. Nú er miklu erfiðara að segja slíkt. Það voru nógir peningar til um kvöldið 9. nóv. Nú er miklu erfiðara að segja slíkt, vegna þess að hagskýrslurnar tala þar á móti. Það liggja 490 millj. kr. hérna fyrir handan Austurvöll. Það er ekkert nema taka þær og setja þær út í þjóðlífið. Við höfum ekkert við það að gera að láta þetta liggja svona og fórna velferð mannanna fyrir það á meðan. Þetta auðsöfnunarbrjálæði, sem er verið að ala upp í Reykjavík nú, þarf að stöðva. Það er ekki aðeins verið að gera þeim erfiðara fyrir, sem fátækari eru, heldur er líka verið að smækka þjóðina, og við verðum ekki íslenzk þjóð, ef við höldum svona áfram. Við höfum aldrei verið sú þjóð, sem við höfum verið, vegna peninga, við höfum aldrei haft svo mikið af þeim. Ef á að fara að gera okkur að þrælum Mammons þannig og innrétta þjóðfélagið með það fyrir augum að safna fé, þá smækka og smækka Íslendingar andlega og siðferðislega. Og það er tími til kominn, að það sé horfið burt frá þeirri stefnu.

Það, sem hér liggur þó fyrst og fremst fyrir, er að tryggja nokkurt réttlæti. Ég held, að þeim, sem standa í því erfiða verki að reyna að koma þaki yfir höfuðið á sér og um leið að byggja fyrir framtíðina, — það er ekki byggt svo illa hér á Íslandi nú, að það dugi ekki 100–200 ár, þannig að það eru verðmæti í þessu, sem halda sér, og það nær engri átt að ætla að láta þessa kynslóð borga þetta upp á hálfum mannsaldri. Sú fjármálapólitík, sem miðast við slíkt, er kúgunarpólitík, sem er ekki hægt að þola. Það er verið að píska út úr fólkinu með þessum vinnuþrældómi auðsöfnun m.a. handa komandi kynslóðum, sem er alveg óþarflega mikil, enda er það engin tilviljun, hvað menn bókstaflega af of mikilli vinnu deyja nú af sjúkdómi, sem kallaður er hjartasjúkdómur, og allt mögulegt annað slíkt, sem er ekkert annað en vinnuþrælkun.

Hér er um tvennt að ræða í senn. Það er réttlætismál handa þeim, sem eru að berjast í að byggja og reyna að koma sér upp íbúðum, og þjóðþrifamál, að koma upp almennilegum íbúðum handa fólkinu í landinu. Í þessu sambandi er líka nauðsynlegt, að brotið verði blað hvað þá pólitík snertir, að vextirnir af íbúðalánum verði ekki eins háir og undanfarið hefur verið. Það er lagt til, að þeir séu settir niður í 4%. Ég vil vekja athygli á því, að það tíðkast ekki í nokkru landi að reka lánapólitík þannig, að vextir séu þeir sömu af íbúðalánum og t.d. af hvaða víxlum sem vera skal. Það er gerður greinarmunur á því, hvort menn eru að slá sér víxil í hitt og þetta, sem er óþarfi, eða hvort menn ern að byggja hús, sem eiga að standa hér öldum saman.

Í nágrannalöndum okkar, eins og Norðurlöndum, þykir sjálfsagt að reyna að hafa þessa vexti sem lægsta. Og fyrir 30 árum, í því fátæka Íslandi, sem þá var, voru vextirnir, sem voru ákveðnir fyrir byggingarsjóð verkamanna upphaflega, 2 og 2½%, og það er ekki fyrr en á þessum síðustu og verstu tímum, þegar þessi hreinu amerísku peningasjónarmið eru að verða drottnandi hér á landi, að farið er að hækka vextina svo ægilega eins og gert er. Það er hrein vitfirring að ætla að láta borga 8–9% vexti af íbúðum, sem venjulegar manneskjur eiga að búa í, enda náttúrlega verður ekki nema ein afleiðing af þess háttar vaxtapólitík. Það verða sífelldar launahækkanir eða sífelld verðbólga, vegna þess að það stendur ekkert þjóðfélag, ekkert atvinnulíf undir því. Ef íslenzkir atvinnurekendur yfirleitt hefðu eitthvert hundsvit á að stjórna sínu atvinnulífi, mundu þeir hafa fyrst og fremst barizt fyrir því, að það væru lágir vextir til íbúðahúsabygginga og löng lán, til þess með því móti að það, sem verkamaðurinn þarf að eyða í húsnæði, væri sem allra minnst, til þess að þeir þyrftu ekki út á hans nauðþurftir að borga honum hærri laun og til þess að þeir gætu haft sínar vörur, þær sem þeir flytja út úr landinu, ódýrari þess vegna. Það er ekkert spursmál t.d., að iðnaðarauðmagnið í Danmörku hefur alltaf skilið vel þá réttu pólitík danskra sósíaldemókrata að reyna að halda niðri verðinu á íbúðum. Það eru enn sem komið er í Höfn húsaleigulög um, hve há húsaleiga megi vera, í íbúðum, sem byggð voru fyrir fyrra stríð, í íbúðum, sem byggð voru fyrir síðara stríð o.s.frv. Það er húsaleigulöggjöf um þetta allt saman. Það er aðeins hér hjá okkur, þar sem menn rjúka í það í einhverju óðagoti eftir ráðum þekkingarlítilla hagfræðinga, eins og gert var, þegar húsaleigulögin voru afnumin, að halda, að allir peningar eigi á öllum sviðum þjóðlífsins að bera sömu vexti. Það er aðeins hérna, sem menn láta sér detta svona vitleysu í hug. Mér þætti gaman t.d. að sjá útreikning yfir það frá okkar góðu hagfræðingum, hvað mikil fjármagnsmyndun hefur skapazt í Reykjavík einni við afnám húsaleigulaganna fyrir 10 árum, þegar öll hús, sem voru gömul, hækkuðu svo og svo mikið í verði og hægt var að fara að selja þau, vegna þess að menn gátu leigt þau miklu, miklu hærra en áður. Hvað halda menn, að hafi komið í umferð af fé í sambandi við þetta, þegar meiri hl. af öllum húseignum í Reykjavík margfaldast í verði, þegar hús, sem kostuðu, eins og ég þekki t.d. til, venjuleg hús inni á Njálsgötunni, sem kostuðu 30–40 þús. kr. að byggja þau fyrir stríð, voru síðan seld á upp undir eina milljón? Hvað halda menn, að hafi komizt í umferð af fé í sambandi við þessar ráðstafanir? Hvað halda menn, að þetta hafi skapað af verðbólgu og kaupmætti, sem menn skelltu síðan alltaf yfir á og kenndu kaupgetu launanna um? Það er aldrei verið að reikna þetta út, þegar menn eru að reyna að komast fyrir um, hvernig skakkaföllin hafi verið í okkar þjóðfélagi. Það hefur vantað svo jafnvægið í þetta allt saman, að því meira sem menn hafa talað um jafnvægi í þessu, því minna vit hafa menn haft á því að halda því.

Sú vaxtapólitík, sem nú á sér stað viðvíkjandi íbúðarhúsabyggingum, getur ekki gengið. Hún er frá öllu sjónarmiði, kapítalistísku jafnt sem sósíalistísku, jafnómöguleg. Hún er til komin af fáfræði, kannske af braski hjá einstökum, en það er ekki hægt að halda neinu þjóðfélagi gangandi með svona átökum. Og ef meiningin er að reyna að skapa stöðugt þjóðfélag hér á Íslandi, þá er hér verið að vinna gegn því. Einn stærsti auðhringur veraldarinnar, sem ég hef stundum talað um og ekki fallega hér, Unilever-hringurinn, varð fyrst frægur fyrir það að byggja sem þá þóttu tiltölulega mjög góðar íbúðir, út frá því skynsamlega sjónarmiði kapítalismans, að það er eitthvert það praktískasta, sem kapítalisti getur gert, að tryggja sínum verkamönnum góðar og ódýrar íbúðir. Okkar íslenzka auðmannastétt hefur alltaf verið ónýt við að reikna. Hún hefur verið mest fyrir að braska — og braska með ríkisins fé. En ef hún ætlar sér að reyna að koma hér á einhverju þjóðfélagi, sem eigi að haldast og ekki hristast og skelfast tvisvar sinnum á ári, þannig að því liggi við að fara um koll bara út af smákaupdeilu, þá væri sannarlega tími til kominn fyrir hana að átta sig ofur lítið á einföldustu atriðum hagfræðinnar, sem því miður hins vegar hennar hagfræðingar segja henni aldrei frá. Ég held þess vegna, að það litla, sem þetta frv. gerir til þess að sjá um, að peningar komist í umferð, peningar, sem nú er legið á, sjá um, að vextirnir af þeim verði ódýrari en verið hefur, það sé litið spor í rétta átt, — spor, sem kemur þeim mikið að gagni, Sem nú eiga um sárast að binda, og spor, sem gæti síðar orðið til þess að fá menn til þess að stíga stærri skref í þessa átt, því að það er gefið, að þetta frv. er aðeins til þess að leysa neyðina, sem skapazt hefur á undanförnum árum, og vandræði, sem nú eru fram undan. Til heildarlausnar á húsnæðismálunum þarf miklu djarfari og stórfelldari aðgerðir en þær, sem við leggjum til í þessu frv., og það munum við e.t.v. bera fram síðar á þessu þingi.

Það er alveg gefið mál, að það þarf til þess að leysa húsnæðismálin að skapa þarna félagslegt átak, voldugt og mikið félagslegt átak. Eitt af skilyrðunum til þess eru að vísu miklar sjóðmyndanir. En eitt af skilyrðunum til þess, að eitthvert vit sé í slíkum sjóðmyndunum, er stöðvun verðbólgunnar, að það sé hægt að láta peningagildið haldast.

Það var hér á árunum verið að hræða menn með því, að það væri verið að fara fram af einhverju hengiflugi, vísitalan mundi hækka óskaplega, ef vissar ráðstafanir væru gerðar. Vísitalan hefur hækkað svona óskaplega, eins og þá var talað um. Menn eru stokknir fram af þessu hengiflugi. Auðvitað stöndum við á fótunum, þó að við stökkvum fram af þessum hengiflugum, sem hagfræðingarnir sjá. En engu að síður er það gott, að við förum að reyna að laga þessa hluti. Við eigum ekki að láta þetta ganga svona, að þetta lendi allt saman í sífelldum bylgjum hjá okkur með húsnæðismálin.

1945, 1946, 1947, þá stóðum við í hámarki hvað snertir byggingar íbúðarhúsnæðis. Síðan minnkar þetta aftur, eins og ég rakti áðan, alveg niður í það að verða 250 íbúðir fullgerðar í Reykjavík 1951. Síðan vex þetta aftur á tímum vinstri stjórnarinnar, þá komumst við upp í 935 fullgerðar íbúðir í Reykjavík. Og nú sígur þetta aftur. Svona getur þetta ekki gengið hjá okkur, sífelldur öldugangur í þessum húsnæðismálum. Við verðum að reyna að koma slíkri skipan á þetta, að það sé byggt örugglega á hverju ári það, sem þarf til þess, að við getum búið við sæmileg kjör í íbúðamálum. Við getum þetta ákaflega vel, við Íslendingar, og þeir menn, sem þessari þjóð stjórna, hafa enga afsökun í þessum efnum. Ísland er ríkt nú og hefur næga peninga. Og það hefur það, sem er enn þá meira virði, það hefur duglegt fólk, sem er reiðubúið til að vinna meira og lengur jafnvel en nokkurt annað vinnandi fólk í Evrópu. Það ætti ekki þess vegna að vera vandi að stjórna þessari þjóð þannig, að fólkinu ætti að geta liðið vel. En til þess þarf velferð fólksins að vera takmarkið, en ekki auðsöfnunin. Það á ekki að fórna velferð fólksins, eins og nú er gert, með vinnuþrældómnum, vaxtaokrinu og öllu þessu fyrir auðsöfnunina.

Ég vil, herra forseti, leyfa mér að óska þess, að lokinni þessari umr., að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.