18.10.1962
Neðri deild: 4. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (1995)

9. mál, efnahagsmál

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það eru nokkur orð út af því, sem hæstv. ráðherra hélt fram.

Hann bendir fyrst á, að við þetta frv. vanti ákvæði um innlánsvextina samsvarandi og um útlánsvextina. Þetta er alveg rangt hjá hæstv. ráðherra. Það má fremur segja, að í þessu frv. séu hvorki bein ákvæði um útlánsvextina né innlánsvextina. Ákvæðin í þessu frv. um útlánsvextina eru þau að breyta okurlögunum aftur í það horf, sem þau voru, áður en ríkisstj. fékk okurlögin afnumin til þess að geta hækkað vextina.

Það varð að fá okurlögin afnumin eða breytt verulega, til þess að ríkisstj. gæti hækkað vextina. Við viljum færa þessi ákvæði aftur í sama horf, og að okkar skilningi þýðir það, að vextirnir megi ekki vera undir neinum kringumstæðum yfir 8%, og það er yfirlýst stefna okkar, að þeir verði færðir aftur í sama horf og þeir voru. Innlánsvextir mundu að sjálfsögðu fylgja með, og fór ég ekkert dult með það í minni framsögu. Ég eyddi miklu af mínum ræðutíma, sem hæstv. ráðherra þykist ekki hafa heyrt, til þess að sýna fram á, að það hafi verið meira en vafasamur gróði fyrir innistæðueigendur í landinu, að ríkisstj. tók upp þessa nýju efnahagspólitík, hvar af vaxtahækkunin var einn liðurinn. Mér heyrðist á því, sem hæstv. ráðherra sagði, að hann hefði alveg lokað að sér, á meðan ég flutti þennan kafla ræðunnar.

Hæstv. ráðherra segir, að sparifjáreigendur hafi grætt 170 millj. á þessari vaxtapólitík ríkisstj. Ég er alveg hissa, að hæstv. ráðherra skuli leyfa sér málflutning eins og þennan. Heldur hæstv. ráðherra, að dýrtíðaráhrif vaxtahækkunarinnar séu engin og þau komi ekkert innistæðueigendunum við? Ætlar hæstv. ráðherra að halda því fram, að hin gífurlega vaxtahækkun hafi engin áhrif haft til aukningar á dýrtíðinni, og vill hæstv. ráðherra líta algerlega fram hjá því, hvílíka gífurlega hækkun á dýrtíðinni efnahagsmálastefna ríkisstj., hvar af vaxtahækkun er einn liðurinn, hefur haft fyrir sparifjáreigendurna? Það er enginn vafi á því, að þeir hafa orðið fyrir tjóni, þegar á heildina er litið, af efnahagsmálastefnu ríkisstj., — alveg tvímælalaust orðið fyrir stórkostlegu tjóni, en engan hagnað haft.

Uppástunga okkar um að taka upp aðra vaxtapólitík er miðuð við, að sú vaxtapólitík gæti orðið liður í efnahagsmálastefnu, sem fremur gæti stuðlað að stöðugu verðlagi og stöðugu verðgildi á sparifé heldur en sú stefna, sem hæstv. ríkisstj. hefur framfylgt og hvar af vaxtahækkunin er einn liðurinn. Það er ekki hægt að líta aðeins á vaxtamálið eitt í þessu sambandi, heldur verður að líta á þær ráðstafanir, sem hér hafa verið gerðar, í heild, sem vaxtapólitíkin er einn liðurinn í. Á þetta vitaskuld alveg eins við bollaleggingar hæstv. ráðherra um hagnað eða tjón innistæðueigenda í framtíðinni í sambandi við vextina.

Þá sagði hæstv. ráðherra, og það var raunverulega aðalkafli ræðu hans, að ég hlyti að vita miklu betur en ég vildi láta koma fram í mínum málflutningi, í sambandi við útlánapólitíkina og efnahagspólitíkina, og hann þekkti mig ekki að þessu leyti fyrir sama mann og ég hefði verið, þegar hann hefði átt sæti með mér í ríkisstj. Ég vil gera þetta örlítið að umtalsefni, að gefnu tilefni frá hæstv. ráðherra. Og ég vil svara þessu að sumu leyti með spurningum.

Við leggjum til hér, að vextirnir verði færðir í það horf, sem þeir voru, áður en núverandi ríkisstj. tók upp nýja efnahagsmálastefnu. Er þessi till. okkar í samræmi eða ósamræmi við það, sem ég hélt fram, þegar ég var í ríkisstj.? Ég spyr hæstv. ráðherra. Við leggjum til, að vextirnir verði færðir í það horf, sem þeir voru langmestan hluta af þeim nærri 20 árum, sem ég hef átt sæti í ríkisstj. En þetta segir hæstv. ráðherra að sé vottur þess, að hann geti ekki þekkt mig fyrir sama mann og ég var þá. Þó legg ég til, að það sé tekinn upp aftur sá sami háttur og var í þá nærri tvo áratugi, sem ég átti sæti í ríkisstj. Þetta er málflutningur hæstv. ráðherra. Hver hefur breytzt? Ætli það sé ekki fremur hæstv. ráðherra, sem hefur breytzt og hafi nokkuð annan hátt á upp á síðkastið í ýmsum efnum en var, þegar hann var í ríkisstj. áður? (Gripið fram í: Ætlarðu að ræða um bindinguna?) Já, ég er að koma að því með bindinguna.

Kemur þá aftur spurningin: Hvað leggjum við til, ég og Framsfl., í sambandi við sparifjárbindinguna? Að hætta að binda. Og ég spyr enn: Var tekinn hluti af sparifjáraukningu þjóðarinnar og lokaður inni í Seðlabankanum þau nærri 20 ár, sem ég var í ríkisstj.? (Gripið fram í.) Nei, aldrei. Það var aldrei gert. M.ö.o.: ég er að stinga upp á, að í þessu tilliti verði höfð sama stefna og var fylgt í þau nærri 20 ár, sem ég var í ríkisstj. Svo kemur þessi hæstv. ráðherra og segir: Ég þekki ekki þennan fyrir sama mann. Þetta er einhver annar maður. Hann hlýtur að vita betur þessi maður, — hann hlýtur að vita betur. — Þetta er málflutningur hæstv. ráðherra.

Við skulum þá taka afurðalánin í þessu sambandi. Hvað er það, sem við stingum upp á í afurðalánamálinu? Er það eitthvað allt annað en það, sem við héldum fram, þegar við vorum í ríkisstj.? Nei, við erum að stinga upp á, að það sé hafður nákvæmlega sami hátturinn á afurðalánum fyrir sjávarútveginn og var allan þennan tíma. Og í landbúnaðarmálum erum við að leggja til, að það verði tekinn upp sami háttur og hafður var, lánakerfi, sem við vorum búnir að byggja upp, þegar þessi meiri hluti tók við.

Svo kemur rúsínan í pylsuendanum og hún er þessi: Það sé alveg ómögulegt að sjá afkomu landsins út á við borgið með öðru móti en því að taka hluta af sparifjárinneigninni og loka hann inni í Seðlabankanum og halda honum úr umferð, og það hljóti að vera mælt gegn betri vitund, að nokkur maður skuli stinga upp á, að við þetta verði hætt, því að það, sem við stingum upp á, er, að það verði hætt að loka inni. Ég legg áherzlu á, að það verði hætt að loka inni hluta af sparifénu. Við höfum alls ekki lagt til, að það yrðu á einum degi settar út þær 500 millj., sem búið er að loka inni. Það er því ekkert annað en útúrsnúningur hjá hæstv. ráðherra, ef hann vill fá það út úr okkar orðum, að við leggjum til, að það séu á stuttri stundu lánaðar út þær 500 millj., sem búið er að leggja inn. Það mundi verða of mikil röskun. En við leggjum höfuðáherzlu á, að það sé hætt að loka inni sparifjáraukninguna, m.ö.o. tekin upp sú sama pólitík, sem við fylgdum og beittum okkur fyrir allan þann tíma, sem við vorum í ríkisstj.

Og þá kemur spurningin : Hvernig var þá afkoma landsins út á við? Var hún ekki gersamlega botnlaus og alveg óhugsandi að halda þannig áfram? Hvernig var hún?

Í árslok 1958, þegar Framsfl. var síðast í stjórn, allt fram undir árslok 1958, var gjaldeyrisinneign, enda þótt þessi innilokunarpólitík kæmi ekki til greina. Þá var inneign á gjaldeyrisreikningum bankanna, veruleg inneign á gjaldeyrisreikningum bankanna. Ég fullyrði, að þegar á heildina er litið, þegar á heildarafkomu þjóðarbúsins er litið, var aðstaðan þá betri en hún er núna eftir þessi innilokunarúrræði hæstv. ráðh.

Þetta liggur í því einfaldlega, að það er hægt að sjá hag landsins út á við borgið með öðrum ráðum fremur en þeim að taka fjármagnið úr umferð á þann hátt, sem nú er gert. Það er líka hægt með þeirri einföldu aðferð, sem notuð hefur verið hér áratugum saman, að nota yfirleitt það fjármagn, sem í landinu safnaðist, til þess að lána mönnum í framleiðsluna og til alls konar starfsemi í landinu í því trausti, að með því aukist útflutningsverðmætin, framleiðsluverðmætin og hag þjóðarinnar sé á þann hátt borgið. Það kann vel að vera, að það verði með því móti minna í kassanum. Ég skal ekki draga dul á, að það verði með því móti stundum minna í kassanum. En ég fullyrði, að með þessu móti, með því að sigla djarflega að þessu leyti og nota fjármagnið á þennan hátt, verða þjóðartekjurnar og framleiðslan meiri, þegar til lengdar lætur, og afkoman betri en með hinni aðferðinni, sem hæstv. ráðh. og hans félagar hafa lagt aðaláherzlu á, þ.e.a.s. að draga fjármagnið inn, draga sig saman og reyna að skapa jafnvægi eftir þeirri leiðinni, þ. á m. með allstórum gjaldeyrissjóði. Með því móti verður framleiðslan minni en hún gæti ella verið, og hæstv. ráðh. getur ekki bjargað sér frá þeirri staðreynd með því að benda á, að framleiðslan hafi verið mikil og nóg atvinna nú undanfarið þrátt fyrir þennan inndrátt á fénu, af þeirri einföldu ástæðu, að til greina hafa komið algerlega óvenjulegar ástæður, svo sem útfærsla landhelginnar og sá stórkostlegi fjörkippur, sem kom í framleiðsluna við sjávarsíðuna vegna þeirrar útfærslu, nærri því bylting í þeim málum, enn fremur alveg óvenjulegur sjávarafli að öðru leyti, eins og síldveiðarnar sýna, og síðast, en ekki sízt, sú uppbygging, þau framleiðslutæki, sem búið var að afla inn í landið, áður en þessi nýja pólitík var tekin upp. Allt þetta varð til þess, að framleiðslan hefur orðið mikil. Og ætli það hefði ekki orðið heldur lítið í gjaldeyrissjóði hæstv. viðskmrh. þrátt fyrir samdráttinn á sparifénu, ef síldveiðarnar hefðu brugðizt í sumar?

Það, sem okkur ber á milli, er og hlýtur að vera það, að ég legg höfuðáherzluna á að sigla djarft í þessum efnum. Það getur vel verið, að gjaldeyrissjóðurinn verði eitthvað minni stundum fyrir það, þá siglingaraðferð, eins og verið hefur á undanförnum áratugum, en ég held því hiklaust fram, að með því verði afkoma þjóðarbúsins í heild bezt, bæði út á við og inn á við, og einstaklinganna og það sé stórtjón að þeirri pólitík, sem hæstv. ríkisstj. virðist enn þá ætla að fylgja, ef maður á að taka fullkomlega með nafnverði yfirlýsingar hæstv. viðskmrh. um, að enn þá verði að halda áfram í sömu stefnu.

Spurning hæstv. ráðh. um, hvernig við hugsum okkur, að þessar 500 millj. séu taldar út í skyndi og hvernig eigi að mæta því, er algerlega út í hött, því að frv. fjallar fyrst og fremst um að hætta að binda hluta af innstæðunum í Seðlabankanum. En það yrði að leysa út í áföngum það fjármagn, sem þarna hefur verið sett inn og bundið, og færi það vafalaust eftir ástæðum í framleiðslulífi og efnahagslífi landsins að öðru leyti, hvað óhætt væri að gera í því. En aðaláherzluna leggjum við á að hætta við þessa bindingu, eins og greinilega kemur fram í öllu því, sem ég hef sagt um þetta, og í grg. frv.

Hæstv. ráðh. hélt hér bókhaldstíma, sem út af fyrir sig var ákaflega fróðlegur. En hvernig sem hann veltir fyrir sér bókhaldshlið þessara mála, er algerlega óhugsandi að komast fram hjá því, að hér er um tvær meginstefnur að ræða og er ég talsmaður fyrir annarri, og hún er sú að tjalda öllu, sem til er, til þess að reyna að auka framleiðsluna og leggja meira upp úr því að eignast góð framleiðslutæki og öflug, eins og gert hefur verið og gert var allan þann tíma, sem ég vann að þessum málum, heldur en því að eignast nokkrar gjaldeyriskrónur á reikningum, þó að nauðsynlegt sé að hafa þar eitthvert fé til þess að geta borgað dagleg útgjöld. En á hinn bóginn er svo aftur hæstv. ráðh., sem leggur höfuðáherzluna á, að það verði að draga saman í þessu efni, og vill nota til þess þær aðferðir, sem brúkaðar hafa verið.

Niðurstaðan af framleiðslustefnunni eða uppbyggingarstefnunni í þessu efni lá fyrir í afkomu þjóðarbúsins, eins og hún var í árslok 1958. Þá hafði í raun og veru þessari stefnu, sem ég kalla uppbyggingarstefnu, þ.e.a.s. að tjalda öllu því, sem til var, til að auka framleiðsluna og þjóðartekjurnar, nota allt fjármagnið í því skyni, sem hægt væri að ná saman, verið fylgt eiginlega alveg frá 1927. Og niðurstaðan varð langsamlega glæsilegasta framfaratímabil í sögu íslenzku þjóðarinnar, og afkoma þjóðarinnar út á við var góð og hefur enn aldrei verið betri en hún var í lok þessa tímabils.

En þá vil ég leyfa mér í framhaldi af þessu að biðja hæstv. ráðh., af því að hann vildi fá skýringar hjá mér í þessum efnum, þá vildi ég biðja hæstv. ráðh. að skýra það fyrir mönnum, hvernig hann ætlar að leysa úr þeim hnút, sem efnahagsmálin eru nú í komin, þar sem hann hefur lýst því yfir, að það verði enn að halda áfram þessari pólitík, að loka inni hluta af sparifénu og halda því frá umferð. Hvernig ætlar þá hæstv. ráðh. að útvega allt það gífurlega lánsfé, sem þarf að vera á boðstólum á næstu missirum, miðað við það, hvernig er búið að fara með þessi mál, ef uppbyggingin á ekki að stöðvast í sjávarútvegi, landbúnaði, varðandi uppbyggingu iðnaðarins og íbúðirnar? Hvernig ætlar hann að leysa úr þessu, ef hann ætlar að halda áfram að reka þessa pólitík, að loka inni verulegan hluta af sparifjáraukningunni í landinu? Ég held, að það sé alveg óhugsandi annað en það verði að breyta um stefnu að þessu leyti. En hjá ráðh. kom ekkert fram í þá átt, heldur eingöngu hitt, að það yrði enn að halda áfram í sömu átt. En hvernig ætlar hæstv. ráðh. að leysa þennan hnút?

Hæstv. ráðh. hlýtur að vera það algerlega ljóst, að allar lánveitingar til fjárfestingarlánastarfsemi í landinu eru gersamlega komnar út úr samræmi við kostnaðinn við að koma framkvæmdunum upp. Ef ekki á að verða gífurlegur samdráttur á næstunni, verður annaðhvort að auka lánsfjárveitingar innanlands í þessu skyni til að leysa úr þessum hnút eða taka meira af erlendum lánum, og verður þó að grípa til hvors tveggja. En hvernig ætlar hæstv. ráðh. að auka nægilega lánsfjárframboð innanlands til þess að mæta þessari gífurlegu þörf, sem nú liggur fyrir, ef hann ætlar að halda áfram þessari innilokunarpólitík á sparifénu? Er kannske meiningin, að næsta skrefið í þessum málum verði að taka stórlán erlendis, en loka samhliða áfram í sívaxandi mæli inni sparifjáraukninguna innanlands? Ég spyr.

Þá var hæstv. ráðh. að minnast á, að það væri minna fé bundið utan af landi en menn vildu vera láta, og nefndi margar tölur í því sambandi. Hæstv. ráðh, getur ekkert séð af þeim tölum, sem fyrir liggja, hvaða fé er utan af landi og hvaða fé er annars staðar frá, vegna þess að fólk úti á landi á alveg jöfnum höndum innistæður sínar í Reykjavíkurfjármálastofnunum og fjármálastofnunum annars staðar. Bollaleggingar hæstv. ráðh. í þessu sambandi hafa ekkert gildi. Og varðandi það, að lítið hafi vaxið féð í innlánsdeildunum og það komi fram af því, hversu lág sú fjárhæð er, sem bundin hefur verið af fé innlánsdeildanna, þá er hæstv. ráðh. bezt að minnast þess, að þau rangindi, sem framkvæmd voru, þegar innlánsdeildir kaupfélaganna voru settar á bekk með útlánastofnunum, eru ekkert minni fyrir því, þó að minna hafi komið frá innlánsdeildunum í bindingu en hæstv. ríkisstj. og ýmsir aðrir hafa kannske álitið fyrir fram.

Það hefur sýnilega dregið mikið úr starfsemi innlánsdeildanna undanfarið, sem er vitanlega til stórtjóns fyrir almenning í landinu og þau byggðarlög, sem þarna eiga hlut að máli. Þessi tala, sem nefnd var, sýnir, að það hefur dregið stórkostlega úr starfsemi innlánsdeildanna, en talan réttlætir á engan hátt þau rangindi, sem þarna voru höfð í frammi. En rangindin voru fólgin í því, að innlánsdeildir kaupfélaganna eru ekki útlánastofnanir, en voru settar á bekk með þeim. Það, sem menn leggja í innlánsdeildirnar, er alveg hliðstætt því fé, sem ýmsir leggja inn í einkafyrirtæki og eiga inni í einkafyrirtækjum á reikningum, og ekkert af því fé er háð bindingarskilyrðunum. En innlánsdeildaféð var tekið út úr og sett á bekk með fjármagni útlánastofnana. Þetta er fé, sem notað er í rekstri samvinnufélaganna. Ef það ætti að gilda sama fyrir alla í þessu, þá ætti líka að binda hluta af því fé, sem menn eiga inni hjá einkafyrirtækjum, sem starfa í iðnaði og viðskiptum. Engu slíku hefur verið stungið upp á, enda er ég ekki að stinga upp á slíku, heldur bara að benda á þau rangindi, sem þarna voru lögfest, þar sem innlánsdeildir voru settar á bekk með útlánastofnunum, þar sem þær eiga ekki að vera, en ekki hafðar á bekk með hliðstæðum fyrirtækjum í iðnaði og viðskiptum. Innlánsdeildirnar eru ekkert annað en reikningsform, sem haft er fyrir það fé, sem menn leggja kaupfélögum til sem rekstrarfé.