18.10.1962
Neðri deild: 4. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (1997)

9. mál, efnahagsmál

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Það er aðeins örstutt, enda hef ég nú aðeins athugasemdartíma.

Hæstv. ráðh. sagði, að gjaldeyrisstaðan í árslok 1958 hefði verið nokkuð góð. Það er nú í fyrsta skipti í langan tíma, sem það hefur fengizt viðurkennt og er út af fyrir sig merkisatburður, sem mætti gjarnan minnast. En hann sagði, að það hefði stafað af ýmsum ástæðum, m.a. góðæri. Ætli það gæti ekki skeð, að gjaldeyrisstaða bankanna núna stafaði að einhverju pínulitlu leyti af því, hvernig árferðið er þetta árið? Ég ætla að geyma mér að íhuga það til næsta dags.

Þá sagði hæstv, ráðh. enn, að það væri ósamræmi í afstöðu minni fyrr og nú, því að ég hefði verið með í því að setja löggjöf um Seðlabankann, þar sem heimild væri fyrir bankann til þess að draga sparifé inn. Það er rétt, að ríkisstj., sem ég sat í, átti frumkvæði að því, að þessi löggjöf var sett um Seðlabankann. En þetta ákvæði er vitanlega hægt að nota á fleiri en einn veg. Það er hægt að nota þetta ákvæði til þess að draga inn fé í Seðlabankann og lána það í lífsnauðsynlegustu framkvæmdir þjóðarinnar. Það er líka hægt að nota það á þann hátt, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur notað það. Ég skal játa, að ég sé eftir því að hafa verið með í því að leggja hæstv. ríkisstj. þetta vopn í hendur í seðlabankalöggjöfinni, þegar ég sé, hvernig hún hefur notað það. En hæstv. ráðh. þarf ekki að halda, að hann geti kennt mig við einhverja innilokunarpólitík á sparifé, þó að ég hafi átt þátt í því að setja inn þessa heimild, af þeirri einföldu ástæðu, að þessi heimild var aldrei notuð á þann hátt, sem hæstv. ráðh. og hans félagar hafa notað hana, á meðan ég gat haft um þau mál að segja.

Það voru gerðar efnahagsmálaráðstafanir 1958, eins og hæstv. ráðh. minntist á, eftir að þessi heimild var komin í löggjöfina, og það kom ekki til mála, að inn í þær ráðstafanir væri tekin frysting á sparifé. Vegna hvers? M.a. vegna þess, að ég fyrir mitt leyti og þeir, sem unnu með mér, við höfum ekki verið inni á því, að það væri heppilegt úrræði, aldrei notað það og aldrei viljað ljá máls á því, eins og allur okkar ferill sýnir. Þess vegna finnst mér óviðkunnanlegt, þegar hæstv. ráðh. er að reyna að halda því fram, að ég hafi aðra skoðun nú en áður hefur verið. Hann ætti ekki að gera það. Hann ætti á hinn bóginn frekar að snúa sér að því að sýna fram á, að mín skoðun sé út af fyrir sig röng, en láta þetta ekki henda síg.

Þá sagði hæstv. ráðh. nú síðast, að það vantaði ekki aukin útlán í landinu núna, því að allir hefðu atvinnu. Ég er hæstv. ráðh. algerlega ósammála um þetta og vil leggja mikla áherzlu á það, eins og komið hefur fram hér í því, sem við höfum rætt. Ég álit nefnilega, að það sé alveg bókstaflega óhugsandi að rífa þjóðina út úr þeirri sjálfheldu, sem hún er komin í, nema með stóraukinni fjárfestingu. Og í þá auknu fjárfestingu þarf stóraukin lán, bæði að nota okkar eigin lánsfé og vafalaust líka einhver erlend lán. En hvernig í ósköpunum á að komast út úr þessu öngþveiti, sem orðið er, t.d. í íbúðamálunum, landbúnaðarmálunum, varðandi stofnkostnað og annað slíkt, sjávarútvegsmálunum, öðruvísi en með því að stórauka útlánin? Þau verða auðvitað að stóraukast, og það verður að finna grundvöll fyrir því. Um þetta er ég hæstv. ráðh. ósammála, einnig um það, að útlánaaukning geti ekki átt rétt á sér, þótt ekki sé atvinnuleysi. Mér skilst á hæstv. ráðh., að engin útlánaaukning eigi rétt á sér, nema það sé atvinnuleysi. Ég er algerlega ósammála því, vegna þess að við þurfum einmitt að reyna að auka tekjurnar hjá einstaklingunum, sem nú eru orðnar allt of litlar, með aukinni framleiðslu og aukinni framleiðni, tækni og auknum vélakosti, og í allt þetta þarf peninga og m.a. lán.