03.12.1962
Neðri deild: 24. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í C-deild Alþingistíðinda. (2009)

9. mál, efnahagsmál

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. frsm. meiri hl., erum við fjhn.-menn ekki sammála um, hvernig með mál þetta skuli fara í þinginu. Efni frv. er lækkun á vöxtum. Það er lagt til í frv., að vextir af afurðavíxlum, sem endurkeyptir eru af Seðlabankanum, megi ekki vera hærri en þeir voru á árinu 1959, 5–5½%. Aðrir vextir skulu einnig lækka, þannig að þeir verði einnig þeir sömu og þeir voru 1959, og eldri lög um bann við okri o.fl. skulu koma aftur í gildi, þ.e. þau, sem giltu 1959. Þá er lagt til í frv., að burt verði fellt úr lögum frá 1960 ákvæðið um, að ríkisstj. ákveði vexti og lánstíma hjá stofnlánasjóðum. Og í þriðja lagi er lagt til í frv., að numin verði úr lögum heimild Seðlabanka Íslands til að heimta hluta af sparifé innlánsstofnana inn á bundinn reikning.

Vaxtahækkunin, sem framkvæmd var 1960, var byggð á ákvæði í efnahagslögunum, sem við leggjum til að hér verði breytt. Afleiðingar af þessari vaxtahækkun hafa orðið miklar og margvíslegar. Vaxtahækkunin hefur t.d. átt drjúgan þátt í hinni stórfelldu dýrtíðaraukningu, sem síðar hefur orðið. Vaxtahækkunin hefur leitt af sér hækkun byggingarkostnaðar og stofnkostnaðar atvinnufyrirtækja, hækkun vöruverðs og þar með framfærslukostnaðar. Henni hefur fylgt hækkun framleiðslukostnaðar, þ.e.a.s. rekstrarkostnaðar atvinnufyrirtækja.

Því var haldið fram, þegar vextir voru hækkaðir, að með því mundi draga úr eftirspurn eftir lánsfé. En þetta er þvert á móti, því að vaxtahækkunin ásamt öðrum efnahagsráðstöfunum ríkisstj. hefur aukið mjög lánsfjárþörf framleiðenda, útvegsmanna, iðnaðarmenna og bænda. Vegna aukinnar dýrtíðar þarf meira lánsfé til stofnunar atvinnufyrirtækja en áður var. Vaxtahækkunin ásamt öðrum ráðstöfunum ríkisstj. hefur þó valdið samdrætti á sumum sviðum. t.d. íbúðarhúsabyggingum. Samkv. skýrslum hefur verið hafin bygging færri húsa nú en áður. En sá samdráttur mun auka þörfina fyrir byggingar síðar og hafa þá í för með sér enn meiri eftirspurn eftir lánsfé til þeirra framkvæmda. Þess er að geta, að innlánsvextir voru hækkaðir, um leið og útlánsvextirnir voru hækkaðir. Hækkun innlánsvaxta átti að bæta hag sparifjáreigenda. En þannig hefur farið, að hagur þeirra hefur stórversnað síðustu árin. Íslenzka krónan hefur fallið ákaflega mikið í verði, síðan efnahagslögin frá í febrúar 1960 komu í gildi. Til viðbótar þeirri miklu lækkun krónunnar, sem þá átti sér stað, kom enn ný krónulækkun sumarið 1961, eins og kunnugt er. Reynsla sparifjáreigenda af stefnu núv. ríkisstj. hefur orðið ákaflega ömurleg. Vaxtahækkunin, sem þeir fengu, hefur eyðzt í stórvaxandi logum dýrtíðarinnar. Ekki nóg með það, að þeir hafi tapað þannig vaxtahækkuninni, allir vextirnir, sem þeir hafa fengið, og mikið af höfuðstólnum hefur farið sömu leiðina. Hagsmunir þeirra verða ekki tryggir með vaxtahækkun út af fyrir sig. Það sýnir reynslan.

Heimild ríkisstj. í 32. gr. efnahagsl. til að ákveða vaxtakjör og lánstíma hjá fiskveiðasjóði, stofnlánadeild sjávarútvegsins, byggingarsjóði sveitabæja, ræktunarsjóði, byggingarsjóði ríkisins og byggingarsjóði verkamanna og raforkusjóði hefur verið notuð þannig, að vextir hafa þar verið hækkaðir af útlánum eins og öðrum og lánstími í sumum tilfellum styttur. Víðast mun það hafa verið 2½%, sem hækkunin nam á vöxtum hjá þessum sjóðum, í einstökum tilfellum 2%. Lánakjörin hjá þessum sjóðum hafa alltaf áður verið ákveðin í lögum frá Alþingi, bæði vextir og lánstími, og þannig teljum við flm. frv., sem hér liggur fyrir, að þetta eigi að vera. Byggingar- og landnámssjóður var stofnaður með lögum 1928. Fáum árum síðar voru sett lögin um verkamannabústaði. Og þá voru ákveðin lán úr þessum sjóðum með lágum vöxtum. Einnig var svo um langan tíma, að menn áttu kost á því að fá lán úr ræktunarsjóði og fiskveiðasjóði með lægri vöxtum en algengir voru á þeim tíma. Það var lagt fram fé úr ríkissjóði til að lækka vexti af lánum þessara sjóða. Þar kom fram stuðningur hins opinbera við uppbygginguna í landinu. Þörfin fyrir þann stuðning er enn fyrir hendi, og möguleikar hins opinbera til að veita slíkan stuðning eru áreiðanlega ekki minni en áður var. Þegar framlögin til byggingar- og landnámssjóðs hófust 1929, voru ríkistekjurnar um 10 millj. kr. Nú eru þær áætlaðar, samkv. fjárlfrv., sem fyrir liggur, yfir 2000 millj. Á þeim tíma, 1929, námu fjárframlögin frá ríkissjóði til byggingar- og landnámssjóðs og ræktunarsjóðs um 2,8% af ríkistekjunum. Við sjáum af því, að það væri há upphæð, sem þessir sjóðir fengju, ef það væri eitthvað í líkingu við það, sem þá var, í hlutfalli við ríkistekjurnar.

Vegna dýrtíðarinnar er nú mjög mikil þörf á að veita fólki aðstoð við að koma upp íbúðarhúsum með hagstæðum lánakjörum, bæði hvað snertir vexti og lánstíma. Einnig þarf að styðja nauðsynlega uppbyggingu í atvinnurekstri með hagkvæmum stofnlánum. Á þann hátt þarf að styðja fjöldann til sjálfsbjargar, og eins og áður er það Alþingi, sem á að ákveða þessa aðstoð. Við teljum ekki rétt, að það sé ríkisstj., sem ákveði þetta. Það á Alþingi að gera, eins og áður var. En þetta er ekki eina dæmið um, að ríkisstj. sú, sem nú starfar, hafi hrifsað til sín vald, sem áður hefur verið hjá þinginu. Má í því sambandi nefna gengisskráninguna, það var deilumál á síðasta þingi.

Þá er, eins og ég sagði áður, lagt til í þessu frv., að afnumin verði heimild Seðlabankans til þess að heimta hluta af sparifé innlánsstofnana inn á bundna reikninga. Hæstv. viðskmrh. gaf þær upplýsingar fyrr á þessu þingi, að bundna spariféð mundi nema þá um 400 millj. kr., ef ég man rétt. Heimild Seðlabankans til bindingar á sparifé hefur verið notuð þannig, að bankinn hefur eigi aðeins krafið viðskiptabanka og aðrar stærri innlánsstofnanir um hluta af sparifjáraukningunni, heldur einnig minni sparisjóði og innlánsdeildir, sem hafa svo litið sparifé í sínum vörzlum, að binding á hluta af því hefur engin áhrif á þróun peningamálanna í landinu. En þó að þar sé ekki um stórar upphæðir að ræða, miðað við heildarveltu peningastofnana landsins, verður burtflutningur þeirra úr héruðunum, þar sem þessar litlu innlánsstofnanir eiga heima, til þess að auka þá erfiðleika, sem þar eru víða vegna vöntunar á fjármagni. Lánsfjárþörfin er stórum meiri en áður vegna dýrtíðarinnar. Menn vantar fé að láni til að byggja íbúðarhús og atvinnuhúsnæði, til að kaupa framleiðslutæki og einnig til atvinnurekstrar. Hér þarf mikið fé. Spariféð þarf að vera í umferð. Því fylgir engin verðbólguhætta. Það verður áreiðanlega fullerfitt að fullnægja lágmarksþörfinni fyrir lánsfé, þótt sparifé sé notað. Það verður ekki hægt að leggja fram eða útvega nægilegt fé til nauðsynlegustu framkvæmda og atvinnurekstrar, ef haldið verður áfram að binda hundruð milljóna af sparifénu í Seðlabankanum. Í máli þessu hefur verið sýnt fram á: Í fyrsta lagi, að háu vextirnir hvíla mjög þungt á öllum þeim fjölda, sem þarf á lánsfé að halda til nauðsynlegrar uppbyggingar, öflunar atvinnutækja og atvinnurekstrar. Vaxtahækkunin hefur ekki tryggt hagsmuni sparifjáreigenda. Hagur þeirra hefur stórversnað, síðan vextirnir voru hækkaðir. Í öðru lagi, að enn þarf sem fyrr að styðja nauðsynlegar framkvæmdir og framleiðslustarfsemi með hagkvæmum stofnlánum til bygginga og til atvinnuveganna, og Alþingi á að ákveða vexti og lánstíma hjá þeim lánasjóðum. Í þriðja lagi, að lánsfé skortir til nauðsynjaframkvæmda, svo sem húsbygginga, kaupa á atvinnutækjum og til atvinnurekstrar, og ekki er sjáanlegt, að fært sé að bæta úr lágmarksþörfinni fyrir lánsfé, ef haldið verður áfram að taka spariféð til bindingar í Seðlabankanum, eins og nú er gert. Heimildina til þess ætti því að nema úr lögum.

Að öðru leyti vísa ég til nál. þess, sem ég gaf út 31. okt. um þetta mál og er á þskj. 74, og ég legg til, herra forseti, að frv. þetta verði samþykkt.