03.12.1962
Neðri deild: 24. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (2010)

9. mál, efnahagsmál

Frsm. 2. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram, var fjhn. d. ekki sammála um afgreiðslu þessa máls. Þrír nm., þ.e.a.s. stuðningsmenn stjórnarflokkanna, vilja láta fella frv., en við tveir viljum láta samþykkja það, hv. 1. þm. Norðurl. v. og ég. Ég hef gefið út nál. á þskj. 80 um mína afstöðu.

Meginefni þessa frv. er um það, að lækka skuli vexti niður í það, sem þeir voru, áður en efnahagsmálalögin frá 1960 voru sett. Þessu megin efni frv. er ég samþykkur og við Alþb.-menn. Við höfum flutt hér á þinginu till., sem fara í sömu átt, en ganga þó allmiklu lengra. Ég tel t.d., að það sé full ástæða til þess að gera nokkru meiri lækkun á vöxtum af svonefndum afurðalánum en gert er ráð fyrir í þessu frv. En eigi að síður er ég auðvitað samþykkur því, sem þetta frv. leggur til, þar sem það stefnir þar í rétta átt. Því atriði frv., sem gerir ráð fyrir, að afnumin verði þau ákvæði, að Seðlabankinn geti ákveðið útlánsvexti ýmissa stofnlánasjóða, er ég einnig samþykkur. Eins og kunnugt er, hefur þessi heimild leitt til þess, að vextir af lánum þessara stofnlánasjóða hafa verið hækkaðir allmikið frá því, sem þeir höfðu verið um langan tíma. En við Alþb.-menn höfum einnig flutt hér á þinginu till., sem fara í þá átt að lækka þessa vexti á stofnlánum a.m.k. til samræmis við það, sem áður var, eða áður en efnahagslögin frá í febrúar 1960 voru sett.

Ég sé ekki neina ástæðu til þess að fara að taka hér upp langar umr. um þann ágreining, sem er raunverulega á milli minni hl. og meiri hl. n. um afstöðu til þessara mála. Þessi mál hafa verið rædd hér allmikið og undir fleiri dagskrárliðum en þessum. En sem sagt, afstaða okkar Alþb.-manna er sú, að við styðjum þetta frv., svo langt sem það nær, þótt við hefðum kosið, að það hefði náð nokkru lengra en það gerir í ýmsum efnum.