22.10.1962
Efri deild: 6. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

46. mál, ríkisreikningurinn 1961

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ríkisreikningurinn fyrir 1961 hefur nú verið prentaður og lagður fram á Alþ. Frv. til l. um samþykkt á honum liggur hér fyrir til 1. umr. Yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna, þeir sem kosnir eru af Alþingi, hafa gert athugasemdir við reikninginn. Eru þær prentaðar aftan við hann ásamt svörum við þeim athugasemdum, og að lokum koma till. yfirskoðunarmanna Alþingis við ríkisreikninginn. Þessar athugasemdir eru 28 að tölu. Telja þeir, að ýmsum aths. sé fullnægt með svörunum, aðrar séu til athugunar framvegis, en þeir hafa engar talið þess eðlis, að ástæða sé til að vísa þeim til aðgerða Alþingis, eins og alloft hefur verið.

Varðandi greiðslujöfnuð ríkissjóðs á árinu 1961 er gerð sérstaklega grein fyrir honum í reikningnum á bls. XXXIII. Þar er vikið að því, sem stundum hefur áður verið gert að umtalsefni, að reglur um það, hvernig skuli reikna greiðslujöfnuð ríkissjóðs, — greiðsluafgang eða greiðsluhalla, — hafa verið nokkuð á reiki, og enn er engin föst regla viðurkennd í þessu efni. Þegar notaðar eru þær reglur, sem ríkisbókhaldið hefur fylgt allmörg undanfarin ár, telst greiðsluafgangur ríkissjóðs fyrir árið 1961 vera 57 millj. kr. Seðlabanki Íslands og ýmsar alþjóðlegar fjármálastofnanir hafa nokkuð annan hátt á við útreikning á greiðslujöfnuði. Þegar þær reglur eru notaðar, sem m.a. koma fram í Fjármálatíðindum, er Seðlabanki Íslands gefur út, verður tekjuafgangurinn á árinu 1961 72.4 millj. kr., í stað 57 millj. kr. eftir reglum ríkisbókhaldsins. Ég vil benda á það, að sú tala, sem kölluð er „mismunur“ aftast í þessu frv., sýnir ekki greiðslujöfnuðinn.

Ýtarlegur undirbúningur undir setningu nýrrar löggjafar um ríkisbókhald og endur. skoðun hefur farið fram, og hefur þá verið fyrirhugað að koma á verulegum breytingum á uppsetningu fjárlaga og ríkisreiknings og meira samræmi þar á milli. Einnig hefur verið lögð áherzla á að reyna að komast að niðurstöðu um fastar reglur, sem gilda skuli um útreikning á greiðslujöfnuði ríkissjóðs. Væntanlega yrðu þær reglur lögfestar, svo að fullkomið samræmi yrði frá ári til árs. Það er mjög mikil vinna, sem liggur í þessum undirbúningi, og ekki er hægt á þessu stigi að segja, hvenær honum verði lokið, svo að unnt verði að leggja frv. fyrir Alþingi um þetta efni.

Ég tel ekki ástæðu á þessu stigi til að fara fleiri orðum um ríkisreikninginn, en legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og til hv. fjhn.