29.03.1963
Neðri deild: 62. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í C-deild Alþingistíðinda. (2032)

84. mál, jafnvægi í byggð landsins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Síðan ég tók til máls við þessa umr. er orðið nokkuð langt liðið. 2. umr. hófst 14. marz. Nú mun í dag vera 29. marz, þannig að við erum nú í þessari hv. d. á 15. degi með 2. umr. þessa frv. En þennan dag, 14. marz, var það, sem ég tók til máls um þetta frv., og hefur ýmislegt komið fram í málinu síðan og ræður verið haldnar af ýmsum hv. þm., en þó er það svo, að 2. umr. er ekki lokið. Nú vildi ég nota tækifærið til þess að beina því til hæstv. ríkisstj. og hæstv. forseta, hvort ekki sé ástæða til að fara að nota tímann betur til fundarhalda, þegar svo langt er liðið á þing sem nú er raun á, t.d. að haldnir verði fundir síðari hluta dags, eins og oft hefur tíðkazt á þingum fyrr, því að fjöldi mála er enn óafgreiddur, sem ýmsir þm. hafa flutt, en hæstv. ríkisstj. hefur nú nýlega lagt fram stór mál, sem munu taka langan tíma. Ég vildi nota tækifærið til þess að beina þessu til þeirra, sem hér ráða fyrir dagskrá og fundarhöldum.

Það, sem nú liggur fyrir til umr. og hefur legið þessa 15 daga, sem liðnir eru síðan málið kom til 2. umr., er frv. á þskj. 104, um ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, og till. sú til rökstuddrar dagskrár, sem hv. meiri hl. fjhn. lagði fram. Og það er þessi till. um rökstudda dagskrá, sem hér mun koma fyrst undir atkvæði að lokinni umr., og þess vegna vil ég enn, eftir að hafa hlýtt á þær umr., sem fram hafa farið, fara nokkrum orðum um hana og ýmislegt í því sambandi.

Það er athyglisvert um þessa dæmalausu dagskrártill., að þeir, sem að henni standa og hana hafa samið, hafa eiginlega mjög lítið lagt til þessarar umr. og ekki staðið fyrir máli sínu. Það er að vísu skýring á því um hv. frsm. n., því að hann mun hafa verið forfallaður, ég ætla vegna veikinda, nokkurn hluta af tímanum. Um aðra hv. þm. úr meiri hl. er mér ekki kunnugt, hvað því veldur, að þeir eru svo fáorðir um þessa till. sína og fáorðir um málið í heild, nema það sé þá það, að þeir hafi á eftir gert sér grein fyrir, hve fráleit þessi dagskrártill. er, eins og hv. frsm. meiri hl., sem er í rauninni sanngjarn maður, raunar viðurkenndi í sinni örstuttu framsöguræðu, sem hann flutti hér í upphafi umr. Í stað þess að þeir, sem að dagskránni standa úr meiri hl. fjhn., stæðu hér fyrir máli sínu og væru til andsvara, þegar sýnt hefur verið fram á, hversu fráleit þessi dagskrártill. er og óhæfileg, hefur hv. 1. þm. Vestf. orðið hér til andsvara af hálfu stjórnarflokkanna í þessu máli. Hann er ekki vanur að víkjast undan sinni skyldu, og honum hefur fundizt það sjálfsagt í þessu efni, að úr því að aðrir urðu ekki til þess, þá yrði hann að gera það fyrir flokk sinn og ríkisstj., sem hv. meiri hl. hefði borið að gera. En ég verð að segja, að það, sem hann hefur haft fram að færa til varnar þessari rökstuddu dagskrá, hefur verið veigaminna en þau rök, sem þessi hv. þm. oft færir fyrir sínu máli, því að hann er vanur að kynna sér vel mál hér í þingi, og vil ég gjarnan láta það koma fram, þó að við séum, eins og gefur að skilja, stundum ósammála, enda þótt við höfum kannske ekki verið það svo mjög í raun og veru í þessu máli, sem hér er um að ræða.

Ég hafði satt að segja vonazt eftir því, þegar hv. 1. þm. Vestf. tók hér til máls fyrir nokkuð mörgum dögum, að erindi hans í ræðustólinn mundi vera það að bera fram brtt, við dagskrána, sem fyrir liggur frá meiri hl. En það varð nú ekki. Og þegar hann fór að mæla með þessu plaggi, sem hann að vísu tók engan þátt í að semja, þá kom mér í hug hið fornkveðna: Heggur sá, er hlífa skyldi. — Og ræða hv. 1. þm. Vestf. hér fyrr í umr., fyrir nokkrum dögum, sem hann að sumu leyti endurtók í ræðu sinni hér áðan, fór mikið í þá átt að deila á Framsfl. fyrir afstöðu hans til mála á þingi fyrir mörgum árum, auk þess sem hann reyndi að mæla dagskránni bót með því að leggja inn í hana einkennilegan skilning, sem ég ætla ekki að gera að umtalsefni. Ég ætla ekki heldur að gera að umtalsefni sögu hans um meðferð frv. um ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, sem flutt var hér á Alþingi fyrir 8 árum. Hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur gert nokkra grein fyrir þeirri meðferð mála, sem þá átti sér stað, og ætla ég ekki að bæta neinu þar við, enda verð ég að segja það, að mér finnst það ekki öllu máli skipta í sambandi við þetta frv., sem nú liggur fyrir, hvernig atkv. hafa fallið á Alþingi um eitt mál eða annað í þessu sambandi fyrir 8 árum. Það hefur að vísu fræðilega þýðingu, eins og önnur saga, þ. á m. þingsaga, en mér virðist það ekki skipta höfuðmáli nú, heldur það mál, sem hér liggur fyrir, og sú afstaða, sem menn vilja til þess taka.

En svo að ég víki aftur að dagskránni, þessari dæmalausu dagskrá á þskj. 363, þar sem svo margt er ranglega staðhæft í stuttu plaggi, þá fjallar hún um það m.a., að í þessu frv. séu ekki nein nýmæli, að sett hafi verið lög um atvinnubótasjóð á síðasta Alþingi og þau lög eigi að nægja. Og þetta vill hv. 1. þm. Vestf. staðfesta með atkv. sínu, að því er virðist. Þó var það svo, að sömu dagana, sem hv. 1. þm. Vestf. var að lýsa því yfir hér, að hann væri samþykkur dagskránni, sem lýsir yfir því, eð lögin frá 1962 um atvinnubótasjóð séu fullnægjandi, lagði hann fram hér í hv. sameinuðu þingi till. til þál. ásamt samþm. sínum og samflokksmanni, 3. þm. Vestf. Þegar þeir voru að semja þá till., virðast þeir ekki hafa verið þeirrar skoðunar, að lögin um atvinnubótasjóð væru fullnægjandi, a.m.k. fyrir Vestfirði, því að þar er, með leyfi hæstv. forseta, gerð till. um að skora á ríkisstj. að fela Framkvæmdabanka Íslands að semja 5 ára framkvæmdaáætlun til stöðvunar fólksflóttanum úr Vestfjarðakjördæmi. Þar segir, að áætlunina skuli við það miða, að framkvæmdirnar verði liður í uppbyggingu þeirra staða, sem fólksfækkunin gerir illkleift að halda í byggð, o.s.frv., og í lokin stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Skal áætluninni lokið fyrir lok þessa árs og hún þá lögð fyrir Alþingi ásamt till. um fjáröflun:

Með því að bera fram þessa till. eru þessir hv. þm. Vestf. að lýsa yfir því alveg réttilega, að lögin um atvinnubótasjóð séu ófullnægjandi til þess, að samkv. þeim sé hægt að gera ráðstafanir til stöðvunar fólksflóttanum úr Vestfjarðakjördæmi, og að ný leið til fjáröflunar þurfi að koma til, og það er óskað eftir till. um þessa fjáröflunarleið.

Og það er þá líka bezt að koma að því, sem vikið hefur verið að áður af öðrum þm.: Hvernig gengur framkvæmd þessara laga frá í fyrra um atvinnubótasjóð? Hvernig gengur hún? Hvaða sögu er af því að segja? Hv. 1. þm. Vestf. sagðist ekki hafa frétt um úthlutunina síðustu úr atvinnubótasjóði, sem fram fór fyrir nokkrum dögum, enda mun ekki almennt vera kunnugt enn þá, hvernig sú úthlutun fór fram og hvað þar gerðist. En ég held, að ýmsir hv. þm. viti nú, að það var rétt, sem einn hv. þm. sagði hér á síðasta fundi d., að þegar atvinnubótasjóðsnefndin var búin að reikna út, hversu mikið fé þyrfti til viðbótarlána út á ný fiskiskip, þá var eftir nálægt 1 millj. af þeim 10, sem sjóðnum voru ætlaðar í tekjur á árinu. Þá voru góð ráð dýr, og var nú farið að reikna á ný, og þá kom það í ljós eða var talið koma í ljós, að nokkur af þessum skipum, sem búið var að reikna viðbótarlán út á, mundu ekki koma til landsins á árinu, ekki koma til landsins fyrr en á árinu 1964, og þá var hægt að lækka þessa upphæð, sem er ætluð til viðbótarlána út á fiskiskip, þannig að eftir voru, að ég ætla, 2 eða 3 millj. í allt annað. Og þá var það, eftir því sem mér hefur verið tjáð, — og þetta er víst ekkert launungarmál, þar sem hér er um opinbera stofnun að ræða, sem starfar samkvæmt lögum, — að gripið var til þess ráðs að leita til ríkisstj. og fengið leyfi til þess að úthluta 5 millj. í viðbót eða réttara sagt, að mér skilst, fengið lán hjá ríkissjóði, 5 millj. í viðbót, sem mér hefur verið tjáð að talað sé um að draga frá tekjum sjóðsins á næsta ári. Ég vona, að sú verði ekki reyndin á. En ef það yrði, ef það ætti að draga þessar 5 millj. frá tekjum sjóðsins á næsta ári, þá held ég, að sjóðsstjórninni muni koma til með að þykja þröngt fyrir dyrum.

Hv. 1. þm. Vestf. ræddi um það sjónarmið í þessu sambandi, að því fé, sem hér er um að ræða, ætti í rauninni ekki að úthluta til alls landsins, og þá sá landshluti þar að mæta afgangi, sem bezt stendur að vígi í atvinnumálum. Þetta er sjónarmið, sem í raun og veru hefur legið til grundvallar jafnvægisstarfseminni. Hann sagðist ekki hafa fengið upplýsingar enn þá um úthlutun, sem fram fór nú fyrir nokkrum dögum, en ég get upplýst það nú, og það getur verið fróðlegt fyrir hann og aðra, að af þessu fé, sem úthlutað var úr atvinnubótasjóðnum núna, fór nálega 1 millj. kr. í Reykjavík t.d. Það hefur sjálfsagt verið full þörf á því. En ef atvinnubótasjóðurinn stuðlar að jafnvægi í byggð landsins á þennan hátt, þá er það a.m.k. ekki sú aðferð, sem hv., 1. þm. Vestf. taldi áðan að ætti að vera viðhöfð þar.

Og þá er ég kominn að því atriði, sem hv. 1, þm. Vestf, gerði að umræðuefni síðast í sinni ræðu áðan og er þess eðlis, að það er ástæða til að ræða það sérstaklega, því að hann sagði eitt. hvað á þessa leið: Því að vera að flytja nýtt frv. um ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins? Því ekki að gera till. um breyt. á þeim lögum, sem fyrir eru? — Þetta er alveg réttmæt spurning. Ég get sagt hv. 1. þm. Vestf. það, að þegar við, sem að þessu frv. stöndum á þskj. 104, vorum að vinna að undirbúningi þess, og við lögðum í hann allmikla vinnu, þá kom það mjög til greina í öndverðu að flytja brtt. við gildandi lög um atvinnubótasjóð, og auðvitað var hægt að gera það. En ég vil segja það fyrir mitt leyti, að mér virtist starfsemi atvinnubótasjóðsins komin í það horf og búið að skapa þar þær venjur, að það væri heppilegra, ef ætti að gera nýtt átak í þessum málum, að það væri gert sjálfstætt og ekki í sambandi við þennan sjóð. Hins vegar er í frv. ekkert hróflað við lögunum um atvinnubótasjóð. Hann er að sjálfsögðu gagnleg stofnun og gott, að hann starfi áfram. En hann er ekki með þeim lögum, sem um hann hafa verið sett, og með þeim reglum, sem þar hafa skapazt, það, sem fyrir okkur flm. þessa máls hefur vakað og ég veit líka að hefur vakað fyrir hv. 1. þm. Vestf. Hann er ekki sú stofnun, sem fyrir okkur hefur vakað. Hann er ekki sú stofnun, sem við getum treyst á til að vinna að jafnvægi í byggð landsins á þann hátt, sem við viljum gera.

Það er margt, sem freistandi væri að ræða um, úr þeim umr., sem hér hafa farið fram um málið, en ég skal ekki lengja mál mitt mjög.

Hv. 1. þm. Vestf. er það nokkuð minnisstætt, það vekur hjá honum óþægilegar endurminningar, að hv. 4. landsk., sem nú er, skyldi kalla frv., sem við hv. 1. þm. Vestf. sömdum árið 1956, „litlu, gulu hænuna“, en hann gerði það í umr. þá. Hann kallaði þetta frv. okkar „litlu, gulu hænuna“ og vildi með því gera lítið úr því. Hv. 1. þm. Vestf. getur ekki gleymt þessu. En ég leit dálítið öðruvísi á þetta, sem þarna gerðist. Mér þótti mjög vænt um, það lá við, að ég fagnaði því, þegar hv. 4. landsk. þm. kallaði þetta, sem við lögðum til, jafnvægissjóðinn og það, sem við hann var tengt árið 1956, „litlu, gulu hænuna“ í lítilsvirðingarskyni. Mér þykir alltaf vænt um það, ef einhver vill verða til þess hér á hv. Alþingi, ef ég ber fram eitthvert mál, sem mér þykir horfa til góðs, að kalla það litla, gula hænu í lítilsvirðingarskyni, því að í því felst fyrirheit frá þeim manni eða þeim aðilum, sem að því standa, að gera betur. Og ef maður vill gera vel, þá getur maður aldrei annað en glaðzt yfir því að fá einhvers konar fyrirheit um það, að aðrir ætli að gera betur, því að það er það, sem máli skiptir. Og ef einhver vildi gera svo vel hér í þingsalnum að kalla þetta frv., sem nú er flutt hér, litla, gula hænu, þá skal það engan gleðja meir en mig, þá tek ég það líka sem fyrirheit um það, sem sá, sem það segir, ætli sér einhvern tíma að gera betur, og þá er vel. Það skiptir ekki máli, hver gerir hlutina, hver kemur því fram, sem rétt horfir, heldur að það sé gert.

Ég vildi, að hv. 4. landsk. þm. hefði verið hér staddur á fundinum, en hann er það því miður ekki. En ég held, að ég verði samt að tala svolítið meira um þessa litlu, gulu hænu. Það átti nú eiginlega að verða honum til umþenkingar.

Þessi hv. þm. hefur verið kennari og skólastjóri mikinn hluta af sinni ævi, mjög fróður um uppeldismál. Hann veit, hvað þessi litla, gula hæna er, sem ég var að tala um. Litla, gula hænan er byrjendakennslubók í lestri. Á því að lesa litlu, gulu hænuna hafa íslenzk börn a.m.k. víða um landið lært að lesa. Hún er við það miðuð að gera börnunum auðvelt að læra þessa miklu list allra lista, að lesa móðurmálið. Það þýðir ekki að fá þeim, sem eru að læra að lesa móðurmálið, í hendur — við skulum segja hina ágætu tollskrá, sem hæstv. fjmrh. lagði fyrir Alþingi í fyrradag. Það væri ekki talið heppilegt. En barnið, sem byrjar á Litlu, gulu hænunni, kemst einhvern tíma svo langt, að það verður fært um að komast fram úr tollskránni og ýmsu öðru af því tagi. Og það er svo stundum, að þegar vinna skal að stórmáli, þegar vinna skal að því, sem á að rætast í framtíðinni, þegar vinna skal að hugsjón, þá er stundum bezt að byrja smátt, eins og börnin okkar byrja á Litlu, gulu hænunni, og ég held, að okkur hafi sýnzt þetta, okkur hv. 1. þm. Vestf., þegar við vorum að semja okkar litlu, gulu hænu fyrir átta árum, að það væri kannske ekki rétt að leggja miklu meira til að svo stöddu, þótt við hefðum kannske viljað gera það. En síðan eru liðin átta ár, og ég held, að á þessum átta árum hafi bæði menn og flokkar lært að lesa ýmislegt í íslenzkum þjóðmálum, sem þeir kunnu ekki að lesa fyrir átta árum, og þó alveg sérstaklega í sambandi við það, hvað það sé, sem mestu máli skiptir fyrir íslenzka þjóð um þessar mundir, sem er það að gleyma því ekki, að hún á þetta land og að það er henni ómetanlega mikils virði að eiga þetta land og að hún getur ekki átt það, getur ekki haldið áfram að eiga það, nema hún haldi áfram að helga sér það með byggð sinni, eins og aðrir hafa áður gert, fyrri kynslóðir á undan þeim, sem nú lifa.

Já, menn geta talað um hana með lítilsvirðingu, litlu, gulu hænuna frá 1956. En ég heyrði það a.m.k. í gær, þegar hv. 3. þm. Reykv. var að tala, að hann er orðinn bara sæmilega stautandi á þessu sviði, svo að ég segi nú ekki meira. Hann hefur vaknað til góðs skilnings á þessu máli, þó að ýmislegt, sem hann segði, væri þannig, að ég kæri mig ekki um að gera það að mínum orðum. Hann var þar með ýmsar kenningar, sem eru hans kenningar og hans litla, gula hæna, sem hann er alltaf að kynna fyrir okkur hér. En hann ætlar að styðja þetta frv. Ég gat ekki betur skilið en hann ætlaði að styðja þetta frv., sem hér liggur fyrir. Og ég er ekki alveg viss um, að hann hefði lýst því yfir, ef hann hefði ekki byrjað á því að lesa litlu, gulu hænuna frá okkur hv. 1. þm. Vestf. fyrir 8 árum. Það er rétt, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði hér í gær, að það er lögmál peninganna, sem miklu ræður um það, að fólkið þjappast saman og yfirgefur landsbyggðina. Og það er rétt, að þetta lögmál er svo máttugt, að hér mun ekki verða nema einn endir á, nema því aðeins að þjóðin eða mennirnir, eins og hv. þm. orðaði það, í landinu taki í sínar hendur að ráða því, hvernig byggðin þróast. Það er rétt, að þjóðfélagið sjálft verður að ákveða þessa þróun og láta ekki peningana gera það blint, eins og þessi hv. þm. sagði. Það er rétt, að í þessu efni verða mennirnir að taka valdið af peningunum og þeirra lögmáli. Það er rétt, að í þessu, í því að vinna að jafnvægi í byggð landsins, felst það að ákveða á einn eða annan hátt, hvar atvinnutækin verði staðsett, atvinnutækin og það hið annað, sem mannlegt líf byggist á.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að ýmsum mundi þykja það einkennilegt, að þm. hér í Reykjavík gerðist til þess að fylgja máli eins og þessu, sem hér er fram borið, eða yfirleitt hefði auga fyrir hinu hættulega ójafnvægi í byggð landsins. En þetta er ekkert einkennilegt. Það er ekkert einkennilegt við það. Mér virðist, að þm. Reykv. og þeirra fulltrúar, þeir sem eiga að gæta hagsmuna höfuðborgarinnar, hafi kannske engu minni ástæðu til þess að bera þetta mál fyrir brjósti heldur en fulltrúar hinnar dreifðu landsbyggðar, vegna þess að Reykvíkingar, rétt eins og aðrir, vilja halda áfram að vera Íslendingar. Reykvíkingar rétt eins og aðrir vilja, að Íslendingar haldi áfram að vera sjálfstæð þjóð. En ef okkur tekst ekki að byggja áfram landið og þjóðin safnast saman öll í eina borg, sem verður eins konar borgríki með fáeinum seljum hér og þar úti um landið, þá verður okkar sjálfstæði ekki langvarandi. Reykvíkingar hafa því ekki síður en aðrir ástæðu til þess að styðja að jafnvægi í byggð landsins, og fulltrúar Reykvíkinga eiga að gera sér það ljóst, því fyrr, því betra.

Hv. þm. fórust svo orð, þegar hann var að ræða málið, að það væri gullkistan við Faxaflóa, sem væri undirstaðan að þessari miklu samanþjöppun fólksins hér á litlum stað. Svo kom hið annað, sem þjóðfélagið setti ofan á þessa gullkistu: stjórnarvöldin, ríkisstofnanirnar og bankarnir, allt það, og þannig hefur þetta þróazt. Þetta er rétt mynd, sem hv. þm. hefur dregið upp, að öðru leyti en því, að ég efast um, að það sé gullkistan við Faxaflóa, sem fyrst og fremst hefur skapað Reykjavík. Ég held, að það sé annað, sem hefur lagt grundvöllinn að Reykjavík. Þegar Jón Sigurðsson var að hefja útgáfu Nýrra félagsrita um 1840, tók hann til meðferðar á hverju ári eitthvert stórt mál, sem hann taldi framtíðarmál þessarar þjóðar. Og eitt árið ræddi hann um nauðsynina á því fyrir sérhvert land að eiga sína höfuðborg. Hvert land, sagði hann, þyrfti að eiga sína höfuðborg, og Íslendingar þyrftu að eiga það einnig. Og hann sagði, sem rétt var, að Ísland ætti þá enn engan höfuðstað. Íbúar Reykjavíkur voru þá um 900 manns, álíka og þeir eru núna í Dalvík eða Ólafsfirði, en bærinn miklu fátæklegri. Þá voru hér hús úr höggnum steini, eitt eða tvö kannske, og byggðin var yfirleitt lágreist hérna í bænum þá. Við, sem höfum séð myndir, sem til eru af Reykjavík 18. aldarinnar, t.d. í ferðabókum, við vitum, hvernig þessi núv. borg leit út þá. Hún var engin höfuðborg. Hún var bara ofur lítið sjávarþorp á ströndinni með lítið atvinnulíf. En Jón Sigurðsson sagði: Til að skapa höfuðborg þurfið þið í Reykjavík að fá skútur, seglskútur, sem tíðkuðust þá meðal Frakka, Englendinga og Hollendinga og annarra þjóða til þess að sækja á miðin. Hann sagði: Aðalráðið til þess að koma hér upp höfuðborg er að setja þar á stofn þjóðstofnanir, stofnanir, sem þjóðfélagið setur á fót, þ. á m. Alþingi. Þá mun höfuðborgin koma. Og þetta held ég, að sé undirstaðan að vexti Reykjavíkur. Það er kannske ekki í fyrstu röð gullkistan í Faxaflóa, heldur það, sem þjóðfélagið hefur gert til þess, að hér yrði höfuðborg, og að sumu leyti stjórnin úti í Kaupmannahöfn, sem var farin að setja sína embættismenn niður hér í nágrenninu, því að gullkistur Íslands eru margar. Þær eru ekki aðeins við Faxaflóa, þær eru úti um allt land, þær eru í öllum landshlutum. Það er gullkista í hverjum landshluta. Það er hið mikla ræktanlega land, og það eru miðin, það eru fallvötnin, það er jarðhitinn, og það er margt annað. Og ég vil því segja við hv. 3. þm. Reykv. og aðra, sem eru að tala um þetta á þennan hátt: Ef þið viljið styðja að jafnvægi í byggð landsins, og ef þið viljið gera það í stærri stíl og stíga ákveðnari og stærri skref en gert er með því frv., sem hér liggur fyrir, þá hjálpið þið okkur til þess að opna gullkistur landshlutanna, sem þar eru til staðar. Það er ekki hægt að gera það, nema þjóðfélagið hjálpi til þess. Hjálpið okkur til að virkja Jökulsá á Fjöllum, til að virkja Dettifoss, og svo skulum við sjá, hvaða áhrif það hefur fyrir Norður- og Austurland. Þannig er hægt að sýna í verki, að menn vilji jafnvægi í byggð landsins.

Þetta vildi ég segja við hv. 3. þm. Reykv., sem ætlar að styðja þetta mál. En honum finnst, að ekki sé með þessu frv. stigið nógu stórt skref. Það er rétt, það ætti að vera stærra. En þegar hv. þm. er að tala um hin stóru skref, sem þurfi að stíga í þessu efni, þá dvelur auga hans einkum við áætlanir. Hann er ákaflega gefinn fyrir áætlanir og hefur borið fram hér á Alþingi þing eftir þing frv. um áætlunarráð ríkisins, sem á að leysa mikinn vanda. En einmitt í þessu frv. er gert ráð fyrir áætlunum um þær jafnvægisráðstafanir, sem því er ætlað að stuðla að. Þar segir, að það skuli vera eitt aðalhlutverk jafnvægisnefndarinnar að gera áætlanir um framkvæmdir í einstökum byggðarlögum, enda séu þær við það miðaðar, að með þeim sé stuðlað að jafnvægi í byggð landsins, og áætlun um þetta sé að jafnaði gerð í samráði við sýslunefnd, bæjarstjórn eða hreppsnefnd, eina eða fleiri. Lán og framlög úr jafnvægissjóði skulu ákveðin með hliðsjón af slíkum áætlunum, séu þær fyrir hendi. Það vantar ekki ákvæðin um áætlanir í þetta frv. En hv. 3. þm. Reykv. var eitthvað að tala um áætlun, sem hann sjálfur hefði gert fyrir 18 árum og vildi koma hér á framfæri. Hún byggðist aðallega á því, eftir því sem mér skildist, að í hverjum landsfjórðungi væri einn stór bær, og þá mundi allt annað koma af sjálfu sér. Ég er því alveg sammála, og það er sjálfsagt rétt stefna og mun verða til bóta að efla til fjölmennis og framkvæmda eina höfuðmiðstöð í hverjum landsfjórðungi, þar sem svo hagar til. Norðurland er vel á vegi með að efla sinn höfuðstað, Akureyri. Austfirðir eru að koma sér upp, að því er virðist, höfuðstað við Lagarfljót, á Egilsstöðum. Þótt sá höfuðstaður sé að vísu enn fámennari en ýmsir staðir, sem fyrir eru, þá virðist hann stefna að því og hefur skilyrði til þess að verða slíkur höfuðstaður. Vestfirðingar hafa Ísafjörð, og Sunnlendingar austanfjalls hafa Selfoss. Selfoss er vaxandi nýr bær og hefur ýmis skilyrði til þess að vera höfuðstaður. Það kann að vera, að það verði ekki hann, heldur einhver annar. En þarna er þróun í þessa átt, og kann að vera, að hún eigi ekki að vera alveg fastbundin við landsfjórðungana gömlu, heldur einhverja aðra landshluta. En ég geri ráð fyrir, að það sé alveg rétt, að það sé eðlilegt og það hafi verið stefnan, að í hverjum landsfjórðungi eða landshluta verði ein aðalhöfuðmiðstöð fyrir landshlutann, hún muni veita honum orku. En það er ekki nóg að hugsa um þetta, og það er mjög vanhugsað að minni hyggju, og ég vil, að það komi skýrt fram, að ég tel það mjög vanhugsað, ef það væri t.d. ætlun hv. 3. þm. Reykv. að stefna að því að flytja burt fólkið úr litlu þorpunum við sjávarsíðuna í þessum landshlutum í þennan eina bæ, t.d. að fólkið væri flutt frá Húsavík, Raufarhöfn, Þórshöfn, Dalvík, Ólafsfirði, allt til Akureyrar, og svo væri stefnt að því að gera allt, sem gert er á hinum stöðunum, á Akureyri. Eða ef slíkt væri gert fyrir austan, við skulum segja t.d. í Neskaupstað, að allt væri flutt í Neskaupstað, Seyðisfjörður, Búðir í Fáskrúðsfirði, Reyðarfjörður o.s.frv., og allt það gert í Neskaupstað, sem annars væri gert á hinum stöðunum, það vil ég taka fram mjög greinilega, að það teldi ég mjög vanhugsað að gera slíkt. Og menn verða að gera sér grein fyrir því, að það er ekki hægt að leggja niður þessar byggðir, hvorki hægt né rétt að leggja niður þessi þorp við sjávarsíðuna, sem út af fyrir sig, það sem það nær, byggjast á traustum grunni, sem eru fiskimiðin þar úti fyrir, hin nálægu fiskimið á hverjum stað, og einmitt þessi tiltölulega litlu þorp á ströndinni eru bráðnauðsynleg, nokkuð dreifð, til þess að fiskimiðin notist sem bezt og það þurfi sem minnst fé að leggja í það að ná til miðanna, svo að það sé hægt að nota hér svo lítil fiskiskip sem unnt er o.s.frv. og eyða svo litlu í ferðir fiskiflotans á miðin sem unnt er. Þetta er bezt tryggt með því að hafa verstöðvarnar sem víðast á ströndinni. Þess vegna er það, að þessi fjögurra stórbæja hugsun, sem hv. 3. þm. Reykv. var að fitla hér við og ég hef orðið var við hjá sumum hagfróðum mönnum, hún styðst ekki við raunveruleika, og ég vil vona, að hv. þm. átti sig á því, að þetta er ekki hægt, ef þetta hefur verið meining hans, sem ég vil ekki fullyrða um. En það er rétt að gera þetta að umtalsefni hér, því að ég veit, að víða er tekið eftir því, sem hér er sagt, svo sem vera ber, í þessum sal, að því er varðar slík mál sem þessi, skipulagningu byggðarinnar, og má ekki komast að misskilningur um ætlan manna í þeim málum. Ég tel, að það komi ekki til neinna mála að sameina í örfáa bæi alla sjávarbyggðina, öll fiskiþorpin á ströndum landsins. Þau verða að þróast hvert um sig, þó að hitt geti verið alveg rétt og hárrétt, sem hv. þm. sagði, að efla sem höfuðstað einn bæ í fjórðungi hverjum.

Ég skal nú senn ljúka máli mínu og geri ekki ráð fyrir, að ég þurfi að taka til máls aftur við þessa umr. Það er rétt, sem einhver sagði hér í umr. í dag, að sú starfsemi, sem að því á að miða að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, er ekki bara fólgin í því, sem kallað er þessu nafni. Hún er ekki bara í því fólgin að setja upp jafnvægisnefnd eða stofna jafnvægissjóð, samþykkja lög um jafnvægi í byggð landsins. Sú sama viðleitni, sem í þessu frv. felst og höfundar hinnar dæmalausu rökstuddu dagskrár, sem hér liggur fyrir, vilja nú vægðarlaust drepa við atkvgr., hún kemur fram á margan annan hátt, kemur fram í mörgum öðrum málum. Hún kom fram í máli, sem var hér til umr. áðan á þessum fundi, og fékk þar reyndar sömu örlög og þessu frv. eru ætluð. Hún kemur m.a. fram í því, þegar menn eru að beita sér fyrir því, að ýmsar stofnanir, sem þjóðfélagið hefur sett á fót og starfandi eru hér í Reykjavík, í borginni, sem er að vaxa á kostnað þjóðarinnar, kostnað landsbyggðarinnar, verði fluttar eitthvað til, þegar þær þurfa ekki nauðsynlega að vera í höfuðborginni. Fyrir þessu hafa menn viljað beita sér og verið það ljóst, hverja þýðingu það hefði, minnugir orða Jóns Sigurðssonar fyrir 120 árum. Þeir menn vita, að það, sem þá gilti, sem hann vakti athygli á, þegar um það var að ræða að koma fótum undir höfuðborg, sem sé setja þar upp þjóðstofnanirnar, það gildir einnig fyrir byggðirnar, þegar um er að ræða að efla þær. Það hefur gildi fyrir hverja byggð, ef þjóðfélagið setur þar upp slíka stofnun, og ýmsum hefur dottið í hug, að eitt af því, sem beinast lægi fyrir að gera, væri að mæla svo fyrir, að biskupinn yfir Íslandi, sem var fluttur hingað til Reykjavíkur eftir móðuharðindin, í bágindunum þá, honum yrði aftur fengið aðsetur á hinum forna biskupsstól í Skálholti í Biskupstungum og þar með skapað veglegt menningarsetur í þeim landshluta. Og menn hefur líka dreymt um það, að í fyllingu tímans eða þegar tími væri til þess kominn fengju Norðlendingar einnig sinn biskupsstól á Hólum. Þetta mega sumir ekki heyra nefnt. En fyrir Reykjavík, höfuðborgina, þar sem eru þúsundir manna, sem eiginlega verða aldrei varir við það, að biskupinn sé hér í bænum, vita ekki, hvar hann á heima, vita ekki, hvar hann hefur skrifstofu, og hafa ekkert að segja af þessu embætti, á það nú að vera alveg ófært að gera þetta, að flytja þennan embættismann austur, nema þá a.m.k. að annar kæmi í hans stað, og hér yrðu þá þrír biskupar og sá mestur, sem í höfuðborginni væri, væntanlega. Þetta er bara eitt lítið dæmi um þau átök, sem eiga sér stað á ýmsum vettvangi um þetta, hvort menn vilja í raun og veru gera eitthvað til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. En slík dæmi munu sýna sig mörg á komandi árum. Og í sumum þeim tilfellum er e.t.v. meira undir úrslitum komið en í því máli, sem ég nefndi áðan, þó að ég líti á það sem mikilsvert mál í þessum efnum.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég mótmæli því, sem fram kom hjá hinum mæta 1. þm. Vestf. fyrir nokkrum dögum, að þetta mál, sem hér liggur fyrir, sé fram borið í einhvers konar auglýsingaskyni. Hv. þm. eða aðrir hafa engan rétt til þess að láta sér slíkt um munn fara, og ég vil ekki láta því ómótmælt, þótt slík mótmæli séu raunar óþörf. Við Framsfl.-menn höfum þing eftir þing flutt frv. hér á Alþingi um þetta mál. Og ég hef fyrir mitt leyti reynt á ýmsum vettvangi að leggja því lið. Þess vegna eru svona ummæli um, að mál sé borið fram í auglýsingaskyni, ekki á sínum stað og betur ósögð, og ég geri varla ráð fyrir, að þau séu þannig meint, sem þau virtust bera vott um. Ég held satt að segja, að hv. 1. þm. Vestf. sé í þessu máli miklu gramari við sína eigin flokksmenn og samstarfsmenn í stjórnarliðinu heldur en okkur og að þær sendingar, sem hann sendi okkur, hafi kannske í raun og veru verið öðrum ætlaðar.

Svo skal ég ekki hafa um þetta mál fleiri orð.