29.03.1963
Neðri deild: 62. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í C-deild Alþingistíðinda. (2034)

84. mál, jafnvægi í byggð landsins

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði hér í ræðu sinni áðan, að þetta mál væri búið að vera til 2. umr. hér í þessari hv. d. í 15 daga, að mig minnir, eða réttara sagt frá því að það kom fyrst til þessarar 2. umr. Ég hef ekki til þessa tekið neinn þátt í þessum umr., en vil þó ekki láta alveg hjá líða að segja nokkur orð út af þessu máli. Umr. hafa fallið að ýmsu leyti á þann veg eða um þau fyrirbæri í okkar þjóðfélagi, sem mér eru hugstæð, og enda þótt það sé sjálfsagt nokkur meiningamunur á milli mín og flm. þessa frv., að hvað miklu leyti slíkt er rétt að tengja við þetta mál, þá vil ég þó ekki láta hjá líða að segja nokkur orð.

Þetta mál er nýtt frv. um jafnvægissjóð til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Ég vil minna á það hér strax, að fyrir tæpu ári eru afgreidd hér á Alþingi lögin um atvinnubótasjóð. Það mun hafa verið í apríl 1962. Það má vafalaust deila um nafnið, og það mun hafa verið gert, þegar þau lög voru hér til meðferðar. Var þá deilt um m.a., hvort það ætti að kalla þann sjóð atvinnubótasjóð eða jafnvægissjóð, en það nafn er notað í því frv., sem hér liggur fyrir. En ég fæ ekki annað séð en hér sé í verulegum atriðum um mjög skyld mál að ræða, og það raunar svo skyld, að mér finnst það væri nærri því að segja allskringilegt, ef sama Alþingi, sem fyrir tæpu ári afgreiddi lögin um atvinnubótasjóð, færi nú að samþ. það frv., sem hér liggur fyrir. Það væri vegur, ef í niðurlagi þessa frv. væri gert ráð fyrir, að lögin um atvinnubótasjóð væru þá numin úr gildi. Þetta vildi ég nú segja og alveg sérstaklega út af því, að hv. 3. þm. Norðurl. e. var að tala hér um áðan, að sú rökstudda dagskrá, sem meiri hl. fjhn. hefur borið fram út af þessu máli, væri í hæsta máta óþingleg og hið furðulegasta plagg. Ég held, að það megi ekki síður heimfæra það upp á þetta frv. sjálft, þegar athugað er, hvað gert var hér í þessu máli fyrir tæpu ári. Ég skal ekki fara langt út í að rekja hin helztu atriði, en ég vil þó minna á, að í lögunum um atvinnubótasjóð stendur m.a. um hlutverk sjóðsins, að það sé að auka framleiðslu á þeim stöðum í landinu, þar sem þörfin er brýnust, og stuðla þannig að aukinni atvinnu og jafnvægi í byggð landsins. Ég er ekki að lesa þetta upp, hvernig þetta er orðað í þessu frv., sem hér liggur fyrir, en það er mjög á sömu lund. En þó þykir mér rétt að vekja athygli á því, að það er þó dálítill munur á þessum tveimur málum, þegar nánar er að gætt. Lögin um atvinnubótasjóð ganga beint að því að setja ramma um fjármagnið, sem þessi sjóður á að hafa, en frv. um jafnvægissjóðinn byrjar á því að setja upp ramma um heilmikla yfirstjórn, sem á að vinna að rannsóknarstörfum, áætlunargerð o.s.frv. Þetta virðist vera það, sem þarna er lögð megináherzla á, og sem afleiðing koma svo ákvæðin um fjármagn. En þetta, hvað snertir stjórn þessa sjóðs, það er allt saman miklu einfaldara og brotaminna í lögunum, sem samþ. voru í fyrra. Og ég vil nú vekja athygli á því, að ef til vill felst í þessu einmitt sá munur, sem ég vildi segja að væri á framsóknarandanum og hinum sanna sjálfstæðisanda. Í frv. þeirra framsóknarmanna gera þeir ráð fyrir, að þetta komi allt saman ofan frá. Það þarf að hugsa fyrir fólkið. Í lögunum um atvinnubótasjóðinn er veittur þessi stuðningur til þeirra, sem vilja sækja eftir. Þarna er byggt á trúnni á fólkið sjálft, að það finni, hvað þarf að framkvæma, en í frv. þeirra framsóknarmanna er aftur á móti reiknað með, að fyrir það þurfi að hugsa, — fólkið á að bíða. Það er í báðum tilfellum að vísu gert ráð fyrir 5 manna þingkjörinni stjórn eða nefnd, en í frv. þeirra framsóknarmanna er þetta hins vegar, eins og ég hef áður lýst, mikla víðtækara og stjórnin á að vera bundin í sínum störfum allt árið.

Það hefur oft verið rætt hér um þá miklu tilflutninga fólks, sem orðið hafa í landinu á síðustu 20 árum. Ég býst við, að það séu fjölmargar orsakir, sem til þess liggja, en ég held, að það, sem mestu hafi valdið, hafi þó verið hernámið eða tilkoma hins erlenda hers hér á stríðsárunum, því að það er augljóst, þegar manntalsskýrslur eru athugaðar, að upp úr því kemur þessi algera sporðreising, ef svo mætti segja, sem orðið hefur á íbúatölu landsins, og mér finnst, að þetta hafi að mörgu leyti ekki verið nægilega dregið fram, að þarna er um utanaðkomandi ástæður að ræða, sem við Íslendingar réðum ekki við, þegar allt í einu fjölgar kannske um helming á ákveðnu svæði á landinu og þegar öll sú atvinna, sem því fylgdi, hlaut að soga að sér fólk annars staðar að.

Mér þykir rétt að fara fáeinum orðum um ræðu hv. 1. þm. Austf., sem hann flutti hér áður við þessa umr. Hann var mjög að hafa á orði gagnið, sem orðið hefði í sjávarplássunum úti á landi af þessu fé, sem hefði verið veitt til atvinnubóta, og ég tala nú ekki um á vinstristjórnarárunum, þegar það var hækkað úr 10 upp í 15 millj. Mér dettur í hug aðeins að benda á það í þessu sambandi hvað Austurland snertir, að það var nú ekki svo ákaflega mikið gagn að öllu þessu atvinnubótafé. Á þeim árum voru gerðir út togarar fyrir Austurland, og allmikið af atvinnuaukningarfénu fór í það að greiða rekstrarhalla á þessum togurum. Út af fyrir sig gat þetta verið til atvinnuaukningar, jafnvel til uppbyggingar, ef þeir hefðu verið gerðir út á Austurlandi. Það var nú ekki einu sinni svo. Þeir voru ekki einu sinni mannaðir áhöfnum að austan, og ekki heldur að þeir sigldu með þennan afla til vinnslu í frystihúsunum austanlands, heldur munu þeir hafa lagt yfirleitt upp við frystihúsin hér við Faxaflóa, þannig að þó að ætti að láta líta svo út, að það væri verið að veita þetta fé til atvinnuaukningar á Austurlandi, þá var það í reyndinni þannig, að það mun hafa lent hér við Faxaflóa. Ég vil ekki fara með neinar tölur í þessu sambandi, í hvað stórum stíl þetta hafi verið, en þó mun hafa verið um allverulegar fjárhæðir að ræða af því atvinnuaukningarfé, sem átti annars að renna til Austurlandsins. Það kannast allir við sögu Seyðisfjarðar. Það má segja, að það var framsóknarandinn, sem átti að rétta hann við hér á árunum. Hvernig fór það? Þar átti sem sagt að hugsa fyrir fólkið. En nú er Seyðisfjörður í uppgangi, og hann hefur líka um skeið verið laus við þann anda.

Það er þess vegna ýmislegt, sem ber að hafa í huga í sambandi við þetta tal framsóknarmanna í þessum jafnvægismálum. Ég hef verið að virða fyrir mér íbúatölu á Austurlandi nú síðustu árin. Það mætti ætla, að ef það væri svo í raun og veru, sem þeir halda fram, þá horfði þar mjög til auðnar. Þeir segja: Atvinnuaukningarfé er ekki orðið meir en af því, sem það var á þessum ágætu vinstristjórnarárum. — Það mætti því ætla, að nú væri frekar fækkun í þessum sjávarplássum eystra, sem hv. 1. þm. Austf. lagði svo mikið upp úr, að þetta atvinnuaukningarfé hefði hjálpað hér áður og ætti raunar að gera enn. Og ég vil náttúrlega taka undir það, að það er hugsað til þess að veita aðstoð til uppbyggingar atvinnulífi, ekki sízt í sjávarplássum víðs vegar um landið. En þeir segja, framsóknarmenn, að þetta sé nú orðið svo lítið, að það sé ekki orð á því gerandi nú orðið, a.m.k. ekki í samanburði við það, sem var á vinstristjórnarárunum. Ég vil aðeins minna í þessu sambandi á nokkrar staðreyndir. Við skulum taka íbúatölu t.d. í Vopnafirði. Þar hefur fjölgað um 50 manns á síðustu 2 árum, 1960–62. Ef við tökum Höfn í Hornafirði, þá hefur á sama tíma fjölgað þar um 60 manns. Ef við tökum Eskifjörð, þá hefur á þessum 2 árum fjölgað um 90 manns. Og þetta gerist á þeim árum, sem þeir góðu menn segja, að viðreisnarstjórnin hafi svikizt um að hjálpa til með atvinnuaukningarfé. Nei, það er fleira, sem styður að því að byggja upp atvinnulíf í landshlutunum, heldur en þetta atvinnuaukningarfé. Og ég held, að það, sem hefur orðið drýgst til að breyta þessari þróun, sem kemur m.a. fram í þessum tölum, sem ég var hér að nefna um íbúatölu í nokkrum byggðum á Austurlandi, það er það, að við þær ráðstafanir, sem gerðar voru í efnahagsmálum, og þá stefnubreytingu, sem varð 1960, sköpuðust nýir möguleikar fyrir þetta fólk. Það hefur fengið nýja trú, og það sýnir, að það er óhætt að trúa á fólkið. Það þarf að skapa möguleikana til þess, að það fái að njóta sín. Það þarf ekki fyrst og fremst að hugsa fyrir það, hvað eigi að gera á þessum og þessum stað, með einhverjum ráðum eða nefndum eða stjórnum, það þarf að skapa skilyrði í þjóðfélaginu, sem gefa þessum krafti möguleika til þess að njóta sín. Og mér finnst, að þessar tölur um íbúa í þessum plássum á Austurlandi bendi til þess, að ekki sé á rökum byggður allur sá hrunstefnusöngur, sem framsóknarmenn hafa nú uppi um landsbyggðina. Ég verð þess vegna að segja, að ég get af hjartans einlægni tekið undir þau orð Gísla Guðmundssonar alþm., sem hann sagði hér í lok sinnar framsöguræðu um þetta mál og hljóðuðu svo, með leyfi hæstv. forseta: „Því skal ekki trúað, að Íslendingum séu svo ill örlög sköpuð nú á tækniöld að leggja land sitt í eyði.“ Undir þessi orð get ég tekið af hjartans sannfæringu, en ég held aðeins, að hann sjái ekki alveg rétt, hvernig þurfi að starfa til þess að fyrirbyggja, að þessi örlög bíði okkar. Ég held, að ef við höfum trúna á fólkið og veitum því möguleikana, m.a. með því að hafa hér sjóð, hvort sem við köllum hann jafnvægissjóð eða eitthvað annað, ásamt öðrum lánsstofnunum í landinu, þá gerum við þessu framtaki og þessari trú einstaklinganna mögulegt að njóta sín. Ég get alveg tekið undir það, að ég vildi gjarnan, að þessi atvinnubótasjóður væri stærri en hann er nú, og það er mál, sem jafnan er möguleiki að breyta. Það er jafnan möguleiki að efla þennan sjóð. En ég held, að það séu ekki nein rök fyrir því nú að fara að breyta um til þess að samþ. frv. þeirra framsóknarmanna. Ég sé ekki, að það taki í neinu fram þeim lögum, sem nú eru í gildi, nema síður sé, eins og ég hef hér áður lýst. En hvað stærð sjóðsins snertir, vil ég aðeins endurtaka það, að það er vitanlega æskilegt, að hann sé sem stærstur, og ég held, að það hefði verið miklu eðlilegri og skynsamlegri afstaða hjá þeim framsóknarmönnum, ef þeir vildu sýna einhverjar till. í þessu máli, að þeir hefðu þá lagt til, að hann væri eitthvað efldur. Ég fæ ekki séð, að það væri nokkur glóra í þeirri afgreiðslu hér á hv. Alþingi, ef það samþ. nú þetta frv. þeirra framsóknarmanna ofan á lögin um atvinnubótasjóð. Og þó að það megi kannske deila um orðalag og annað í þessari rökstuddu dagskrá, sem meiri hl. í fjhn. hefur borið fram í þessu máli, þá virðist mér, að hún sé mjög eðlileg afgreiðsla á þessu máli.

Ég vona, að ég hafi aðeins gert skiljanlegt, hvað fyrir mér vakir. Það er ekki háttur okkar stuðningsmanna ríkisstj. að vera hér oft í ræðustóli á Alþingi. En ég taldi ekki rétt, af því að umræður hafa hnigið í þá átt, sem þær hafa gert, að láta það með öllu ógert að segja hér nokkur orð. Og ég vil að lokum undirstrika það, að ég mun áreiðanlega ekki vera minni áhugamaður um það að halda landinu byggðu og nýta gæði þess bæði til lands og sjávar heldur en aðrir þeir ræðumenn, sem hér hafa talað í þessu máli.