29.03.1963
Neðri deild: 62. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í C-deild Alþingistíðinda. (2035)

84. mál, jafnvægi í byggð landsins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki misnota leyfi hæstv. forseta til þess að gera aths., en ég hef þegar talað tvisvar í málinu. Tilefni til þess, að ég geri þessa aths., er ræða sú, er flutt var nú síðast af hv. 3. þm. Austf. (JP). Þeim kafla ræðu hans, sem fjallaði um það, að við framsóknarmenn hefðum átt að flytja frv. okkar sem breytingu á l. um atvinnubótasjóð, þarf ég ekki að svara, því að ég hef þegar svarað því í minni fyrri ræðu í alllöngu máli. Má vera, að hv. þm. hafi ekki verið í salnum þá stundina, sem ég gerði grein fyrir því. En ég þóttist hafa gert fyllilega glögga grein fyrir því, hvers vegna við völdum þá leið að flytja sérstakt frv. í stað þess að flytja frv. um breytingar á þeim lögum, sem nú gilda.

Ég mun ekki heldur svara því, sem hv. þm. ræddi hér um atvinnulífið á Austfjörðum, en hann virtist gera lítið úr þeirri starfsemi, sem þar átti sér stað á þeim tíma, þegar þar var togaraútgerð í því skyni að koma í veg fyrir fólksflutninga úr fjórðungnum. Ég gæti nú samt trúað, að Austfirðingar margir væru honum ekki sammála um það, sem þar eiga hlut að máli, að sú útgerð hafi ekkert gagn gert. A.m.k. var það svo, því var ég vel kunnugur á þeim tíma, að af hálfu Austfirðinga sjálfra var lögð mikil áherzla á, að þessari togaraútgerð væri þá uppi haldið. Ég ætla ekki að ræða um það. Ég ætla ekki heldur að ræða um skilgreiningu hans á því, sem hann nefndi framsóknaranda og sjálfstæðisanda. Það fannst mér nú satt að segja vera hálfgert pex og ætla ekki að taka þátt í samanburði á þessum tveimur öndum. En ég vildi, um leið og ég þakka hv. þm. fyrir þá yfirlýsingu, að hann sé áhugamaður um að nýta gæði landsins, sem ég hefði að vísu kosið að hann hefði lagt áherzlu á með því að greiða atkv. með þessu frv., endurgjalda honum þá yfirlýsingu með því að leiðrétta misskilning, sem mér virðist gæta hjá honum á þessu frv., og það var erindi mitt með því að biðja um þessa aths. En hv. þm. virðist eins og fleiri, sem að dagskránni standa, ekki hafa gert sér fulla grein fyrir því, hvað í frv. felst. Hann sagði t.d., að frv. byrjaði á ákvörðun um stjórn sjóðs og nefnd þá, sem á að standa fyrir áætlunum, og væri að því leyti frábrugðið 1., að það byrjaði á ákvæði um þessa stjórn. En það gerir frv. alls ekki. Frv. byrjar á því að skilgreina tilgang hinna væntanlegu laga, og 1. gr. þess hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Tilgangur þessara laga er að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með rannsóknarstörfum, áætlanagerð og fjárhagslegum stuðningi til framkvæmda og eflingar atvinnulífi í þeim landshlutum, þar sem bein eða hlutfallsleg fólksfækkun hefur átt sér stað undanfarið eða er talin yfirvofandi.“Á þessu hefst frv., en ekki á ákvæðum um stjórn. Og sú skilgreining, sem þarna er gerð á þeim tilgangi l., er allt önnur og gleggri en sú, sem felst í l. um atvinnubótasjóð.

Þá sagði hv. þm., að það væri m.a. munurinn á þessum tveim öndum, sem hann nefndi, framsóknarandanum og sjálfstæðisandanum, að framsóknarmenn vildu láta allt koma ofan frá, vildu hafa einhverja yfirstjórn, sem hugsaði fyrir fólkið í byggðum landsins, en það vildu sjálfstæðismenn ekki, og virtist hann draga þá ályktun af þessu frv. Þetta virðist mér einnig bera vott um það, að hv. þm. hafi ekki kynnt sér frv. sem skyldi, því að einmitt í þessu frv. er sérstakt ákvæði, sem er nýmæli, að mínum dómi mjög merkilegt nýmæli, og felst í 13. gr. þess. Þar er einmitt gert ráð fyrir því, að hreppsnefnd, bæjarstjórn eða sýslunefnd, ein eða fleiri saman, geti ákveðið að koma sér upp sérstökum jafnvægissjóði á sínu svæði og þá eigi þessi sérstaki jafnvægissjóður fólksins í þessu byggðarlagi, sem það sjálft ræður yfir, að njóta stuðnings úr þeim allsherjar jafnvægissjóði, sem frv. gerir ráð fyrir, þannig að þetta er slíkt öfugmæli hjá hv. þm., sjálfsagt ekki viljandi fram borið, — það er slíkt öfugmæli, að einmitt í þessu frv. eru sérstök ákvæði um það, að fólkið í byggðarlögunum, í landshlutunum, það geti rekið sjálfstæða starfsemi í þessu efni, ef það óskar að gera það. Þennan misskilning vildi ég leiðrétta.

Og svo held ég, að það sé ekki fleira, sem ég tel ástæðu til að taka fram út af þessari ræðu, og þakka hæstv. forseta fyrir að hafa leyft aths. mína.