29.03.1963
Neðri deild: 62. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í C-deild Alþingistíðinda. (2037)

84. mál, jafnvægi í byggð landsins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki misnota þann tíma, sem hæstv. forseti hefur gefið mér hér til þess að gera stutta aths. út af ummælum hv. 1. þm. Austf. (EystJ). Hann hóf ræðu sína hér með því að mótmæla harðlega þeim ummælum, sem ég hefði haft um afstöðu Framsfl. til þessa máls, og ásakaði fyrst Sjálfstfl. og síðan mig persónulega fyrir að hafa stöðvað það mál vorið 1956, og það eingöngu vegna þess, að ég hefði borið fram 10 brtt. í Ed. Nú er það vitað, að það er þekkt regla hér á Alþingi, þegar er komið undir þinglok, að unnið sé að málum í annarri deild og það svo, að báðar deildir sætti sig við málið, eins og það kemur þá frá þeirri d., sem fyrr hefur haft málið til meðferðar. Og það var það, sem var gert hér. Það var haft fullt samkomulag við stjórnarmeirihl. í hv. Nd. um málið, að það skyldi ná fram að ganga, eins og gengið var frá því í Ed. á þeim tíma. Og það voru þau svik, sem Framsfl. sýndi í málinu. Hv. þm. segir þetta nú í trausti þess, að menn hafi alveg gleymt, hvernig Framsfl. kom fram í þessu máli, alveg eins og hann, eftir að hann sneri baki við samvinnu við Sjálfstfl. og tók upp samvinnu við kommúnistana, sneri við þeim ummælum, sem hann hafði haft um kommúnistaflokkinn, í trausti þess, að menn hefðu gleymt því, hvernig hann gagnrýndi alla þeirra starfsemi áður. En enginn hefur rennt niður öllum sínum eigin ummælum eins lystilega og hv. 1. þm. Austf. gerði um það mál.

Ég skal ekki ræða málið meira, en skal aðeins ljúka mínu máli hér með því að spyrja hv. 1. þm. Austf.: Vill hv. 1. þm. Austf. lýsa því hér yfir, að ef Framsfl. kemst í þá aðstöðu eftir næstu kosningar að geta myndað ríkisstj., þá skuli það gert að ófrávíkjanlegu skilyrði, að frv. á þskj. 104 verði gert að lögum á n.k. Alþingi og málið síðan framkvæmt í samræmi við þau lagaákvæði og að Framsfl. taki ekki sæti í neinni ríkisstj., sem fallist ekki á að skipa þeim málum þannig? Það fer eftir svari hans við þessu, hvort það er rétt, sem ég hef haldið fram, að hér hafi Framsfl. hugsað sér að koma málinu fram með einlægni eða ekki. Svari hann þessari fsp. ekki eða neitandi, þá er það staðfesting á því, sem ég hef sagt hér um flokkinn í sambandi við þetta mál.