12.02.1963
Efri deild: 43. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í C-deild Alþingistíðinda. (2053)

132. mál, stofnlánadeild landbúnaðarins

Bjartmar Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að blanda mér í umr. um þetta frv., sem hér er til umr., um breyt. á l. um stofnlánasjóð landbúnaðarins, því að ég leit svo á, að það væri fyrst og fremst flutt, eins og mörg mál hér í hv. Alþingi, sem sýndarfrumvarp.

En það var ein setning eða tvær í ræðu hv. 1. þm. Vesturl. (ÁB), sem snertu mig á þann hátt, sem málflutningur yfirleitt snertir mig einna verst. Þar var sagt mjög villandi frá. Þingmaðurinn sagði, að bændur væru látnir greiða til stofnlánadeildarinnar 2 kr. eftir lögum, á móti einni, sem ríkið legði fram. Því miður hafði ég ekki búið mig hér út með tölur, af því að ég ætlaði ekki að taka til máls í málinu, en ég held ég muni það rétt upp úr lögunum, að ríkið leggi fram 4.1 millj. í fyrsta lagi, í öðru lagi ca. 8 millj. á móti því, sem bændur leggja fram, og í þriðja lagi það, sem má í þessu tilfelli vel nefna ríkið, það er alþjóð, það sem neytendur greiða, ca. 5 millj., eða í kringum 17 millj. á móti 8 millj., sem bændur leggja fram. Auk þess held ég, að ég muni það rétt, að óafturkræft framlag hafi verið 60.5 millj., sem sumir vilja deila á 10 ár, og mundi þetta þá verða í kringum 27 millj., þegar vextir eru meðtaldir, á móti 8 millj., sem bændur leggja fram á ári.

Ég veit að vísu, hvað fyrir ræðumanni, hv. 1. þm. Vesturl., vakti, þegar hann sagði, að bændur legðu fram til stofnlánadeildarinnar 2 kr., þar sem ríkið legði eina. Hann reiknar með lánavöxtunum. En það er svo algerlega blekkjandi málflutningur, að ég get tæplega hlustað á það ómótmælt. Svona málflutningur tíðkast mjög í blöðum og á pólitískum fundum, en hann ætti sem mest að víkja, því að ég held, að þegar til lengdar lætur, geti enginn á því grætt. Það er auðvitað hægt að slá því upp í blaðagrein, að bændur leggi 2 kr. á móti hverri einni, sem ríkið leggur fram til búnaðarmálasjóðanna, og kannske trúa þessu einhverjir, þegar þeir sjá það í blaðagrein, en þetta er málsmeðferð, sem ég vil mótmæla.

En ég vil taka það fram, að ég efast ekki um einlægan vilja og góðan hjá þeim hv. þm. Framsfl., sem hafa talað fyrir þessu máli, að þeir vilji sveitunum vel. Það kannske þykjast einhverjir fleiri vilja það einnig. En þegar litið er á þetta búnaðarmálasjóðsmál í heild, þá held ég, að það fari ekki á milli mála, að þau lög, sem gerð voru í fyrra um stofnlánadeildina, hafa þó bjargað þessu máli það, að hægt hefur verið að lána út á þær framkvæmdir, sem unnar voru á síðasta ári, eins og lögin gera ráð fyrir. Hins er aftur ekki að vænta, að stofnlánadeildin sé þegar í stað búin að byggja sig svo upp, að hún geti sinnt öllum þeim hlutverkum, sem henni er ætlað að sinna. Og þegar maður er að hugsa um þetta og þá miklu gagnrýni, sem komið hefur fram við þessi lög, þá verður manni að velta því fyrir sér, hvernig stóð á því, þegar yfirfærslugjaldið var lagt á sællar minningar, að þá skyldi ekki vera neitt fé ætlað sérstaklega til stofnlánasjóða landbúnaðarins fram yfir það, sem áður hafði verið, en það hafði verið lengi 4 millj. Auðvitað er ástæðan fyrir þessu sú, að það er ekki hlaupið að því að grípa upp peninga í stórum stíl allt í einu, og þegar núv. ríkisstj. tók við 1959, þá lýsti hún því yfir, að hún mundi gera tilraun til að endurreisa stofnlánasjóðina. Það tók töluverðan tíma, þangað til þau lög, sem samþ. voru hér í fyrra, voru tilbúin og búið að fá niðurstöðu um það, hvernig fjár yrði aflað til þeirra. Það vita allir, sem við fjármál fást, og ekki síður hv. alþm. en aðrir, að það er ekki hægt að gera allt í einu og gripa fé til hvers sem er alveg upp úr götunni.

Ég hef svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Það var þetta eina atriði, sem ég vildi sérstaklega vekja athygli á, sem er svo villandi málflutningur, að ég skil ekki, að hann geti gert gagn nema um takmarkaðan tíma.