12.02.1963
Efri deild: 43. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (2055)

132. mál, stofnlánadeild landbúnaðarins

Bjartmar Guðmundsson:

Herra forseti. Klukkan er nú orðin fjögur, og ég skal því ekki lengja umr., en ég vildi aðeins segja það út af ræðu hv. 1. þm. Vesturl. (ÁB) áðan, að þar sem hann sagði, að ég hefði einhvern tíma lofað því að létta tollum af landbúnaðarvélum, þá er það svo fjarri sannleika, sem nokkuð getur verið. Ég talaði í því máli, þegar breyting á tollafrv. var gerð í fyrra, og bað þá n., sem fengi frv. til umræðu og afgreiðslu, að taka það sérstaklega til athugunar, hvort ekki væri hægt að lækka tolla á landbúnaðarvélum. Þetta var það eina, sem ég sagði um það, og þetta er það eina loforð, sem ég hef gefið, og sjá allir, að mikil rangtúlkun er að kalla slíkt loforð og fjala um svik af minni hálfu í því máli.