05.11.1962
Efri deild: 12. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

46. mál, ríkisreikningurinn 1961

Frsm. (Magnús Jónssoni):

Herra forseti. Fjhn. hefur athugað frv. það, sem hér liggur fyrir um samþykkt á ríkisreikningnum fyrir árið 1961, og svo sem nál. á þskj. 92 ber með sér, leggur n. einróma til, að frv. verði samþykkt óbreytt.

Svo sem ríkisreikningurinn ber með sér, eru aths. við hann í þetta sinn tiltölulega fáar, og engri þeirra aths. er, eins og stundum hefur verið orðað af yfirskoðunarmönnum, vísað til aðgerða Alþingis. Flestar aths. virðast eftir till. yfirskoðunarmanna hafa verið afgreiddar á viðunandi hátt með svörum rn.

Það er ástæða til að nefna það sérstaklega og fagna því, að eftir aths. yfirskoðunarmanna að dæma hefur miðað mjög til hins betra með hina umboðslegu endurskoðun, þannig að frá því að síðasti ríkisreikningur lá hér fyrir á siðasta þingi, hefur eftir aths. að dæma mjög þokað í þá átt, að umboðslegu endurskoðuninni miði betur áfram. Svo sem áður hefur verið vikið að hér í umr., var það eðlilegt, eftir að farið var að hraða ríkisreikningi svo mjög sem raun ber vitni um, að það yrðu nokkur vanhöld á því, að hin umboðslega endurskoðun gæti verið tilbúin með allar sínar athuganir á reikningum ríkisstofnana í tæka tíð, og á s.l. ári vantaði mjög á það, að allir reikningar væru tilbúnir. Nú virðist sem sagt, að þetta sé æ meira að færast í það horf, að endurskoðunin sé að ná þessum aukna hraða við afgreiðslu ríkisreiknings.

Það ber vissulega að fagna því, að ríkisreikningur er tilbúinn það tímanlega, svo sem hér er, að við erum að afgreiða ríkisreikning fyrir s.l. ár. Meðan ríkisreikningur var mörg ár á eftir áætlun, hafði það nánast sögulega þýðingu að vera að stúdera hann, en það er sennilegt, að athuganir á ríkisreikningnum geti orðið raunhæfari og lífrænni, ef reikningurinn, sem verið er að fjalla um, er ekki mjög gamall. En niðurstaða fjhn. er sem sagt sú, að hún hefur engar sérstakar aths. við frv. að gera, það hefur tölulega verið borið saman og ekkert reynzt við það að athuga, og leggur n. til einróma, að frv. verði samþykkt.