30.10.1962
Efri deild: 9. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í C-deild Alþingistíðinda. (2081)

56. mál, vegagerð á Vestfjörðum og Austurlandi

Flm. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Við flm. þessa frv. höfum flutt það á þrem undanförnum þingum. Í tvö skiptin hlaut það ekki afgreiðslu, en á síðasta þingi var því vísað til ríkisstj. með þeim röksemdum, að nefnd væri starfandi á vegum ríkisstj. til þess að rannsaka vegalögin og endurskoða vegakerfið og mundi hún taka lausn þessa máls, sem hér liggur fyrir, einnig til athugunar. Heyrzt hefur, að umrædd nefnd hafi skilað einhverju áliti, en ekki er flm. þessa frv. kunnugt, að hún bendi á neinar leiðir til þess að leiðrétta það ranglæti, sem með frv. þessu er ætlunin að reyna að ráða bót á. Þess vegna er frv. flutt, til þess að gera enn eina tilraun til að koma því fram, enda er hér um ótvírætt réttlætismál að ræða, og það verður áreiðanlega flutt oftar, ef það nær ekki framgangi á þessu þingi.

Það er viðurkennd réttlætisregla, að þeim gæðum og þægindum, sem veitt eru af almannafé víðs vegar um landið, eigi að vera sem jafnast skipt milli landshluta, enda mun það reynast farsælast í öllu stjórnarfari. Á þessu vill þó verða misbrestur í framkvæmd, og liggja til þess ýmsar ástæður, sumpart lítt viðráðanlegar, en sumpart eru ástæðurnar þær einar, að þess hefur ekki verið gætt nægilega að skipta gæðunum réttlátlega. Þegar vegir eru teknir í þjóðvegatölu, ef það er gert með sanngirni, verður að telja það viðurkenningu þess, að vegurinn sé byggðarlaginu, sem hann liggur um, frá eða til, nauðsynlegur og það sem fyrst. Skv. þessu ætti lagningu þjóðveganna að miða hlutfallslega sem jafnast áleiðis um allt land.

Það var 1958, að vegamálastjóri lét gera skýrslu um vegakerfi landsins, og sést á henni, að mikið misrétti á sér stað í framkvæmd vegamálanna. Í þessari skýrslu vegamálastjóra um þjóðvegina í landinu er þeim skipt í 3 flokka. Fyrst eru lagðir vegir, þ.e. fullgerðir, annar flokkur ruddir vegir, þ.e. bráðabirgðavegir, og þriðji flokkur óbílfærir vegir, þ.e. vegalaust. Þó að hv. þd. séu þær tölur kunnar, sem ég ætla að nefna lítils háttar, þá held ég, að menn hafi alltaf gott af því að rifja þær upp, því að þær sýna mjög greinilega, hvað þessi kjördæmi, sem rætt er um hér í frv., hafa orðið herfilega út undan.

Af þjóðvegunum í Vestfjarðakjördæmi voru 22.2% óbílfærir, í Austfjarðakjördæmi 10%, en í öðrum kjördæmum voru ófærir bílvegir aðeins 1.9%–5.9%. Sem sagt, það eru flestir þjóðvegir fulllagðir í öðrum kjördæmum en þessum tveimur.

Af þjóðvegum í Austfjarðakjördæmi voru 37.2% fullgerðir, í Vestfjarðakjördæmi 46.6%, ekki helmingur, í öðrum kjördæmum er þetta 67.4–87.9%. Óbílfærir þjóðvegir í Vestfjarðakjördæmi og Austfjarðakjördæmi eru næstum helmingi lengri en í öllum hinum kjördæmunum til samans utan Reykjavíkur. Ruddir þjóðvegir eru einnig mun lengri í þessum tveim kjördæmum, þ.e.a.s. hálfgerðir vegir, en í öllum hinum kjördæmunum samanlagt.

Af þessari skýrslu er það þegar auðsætt, að tvö kjördæmi hafa orðið langt á eftir í vegamálum, og ástæðurnar eru augljósar. Til vega og brúa er veitt í fjárlögum árlega sem líkust fjárhæð í hin mismunandi kjördæmi. Þetta hefur verið þannig, að þm. eiga mjög erfitt með að sætta sig við, að þeirra kjördæmi fái minna en önnur kjördæmi. En nú háttar svo til, að kjördæmin eru mismunandi stór og mismunandi að landslagi. Lengd nauðsynlegrar vegagerðar við hið vogskorna Austurland og Vestfirði er miklu meiri en annars staðar í landinu, en auk þess er vegarstæði í þessum landshlutum víða yfir há fjöll og brattar hlíðar, meira en víðast annars staðar, og vegagerðin því mjög dýr um þessi landssvæði. Þótt veittar hafi verið til þessara kjördæma hærri fjárveitingar til vega en til annarra kjördæma, hefur það af augljósum ástæðum ekki nægt til þess að koma í veg fyrir ranglæti, það sanna skýrslur vegamálastjóra augljóslega. Það er alveg ljóst mál, að væri sú leið valin til þess að jafna metin að stórhækka fjárveitingar til vega í þessum tveimur kjördæmum á kostnað hinna kjördæmanna, þá yrði sú aðferð aldrei þoluð af þingmönnum þeirra og það að vonum. Til þess að leiðrétta þetta misrétti er aðeins ein leið, þ.e. að taka lán, eins og bent er á í þessu frv.

Aðferð sú, sem notuð hefur verið til þess að afla fjár til stórbrúa, er mjög svipuð þeirri leið, sem lagt er til í þessu frv. að farin verði. Auðsætt var, að með hinum jöfnu fjárveitingum til brúargerða í kjördæmin var lítt vinnandi vegur að brúa ýmis stórfljót. Þau voru því tekin út úr og til þeirra aflað fjár sérstaklega í brúasjóð með benzínskatti, sem auðvitað lagðist jafnt á alla landsmenn. Það þótti ekki réttlátt og var það ekki heldur að láta þau landssvæði, sem stórfljótin renna um, gjalda þess, að landslagi var þar þannig háttað. Þessi regla ætti einnig að gilda um hinar miklu vegalengdir og fjallgarðana á Vest- og Austfjörðum. Það liggur sama þar til grundvallar. Það hefur að vísu verið regla hér á landi, að ríkissjóður taki ekki lán til vegagerðar, en nú hefur þetta verið gert. Stórlán hefur verið tekið — að vísu án heimildar — til þess að steypa nýjan veg til Keflavíkur. Ég efast ekki um, að umferðin um gamla malarveginn er orðin meiri en malarvegur þolir. Þess vegna er nýja vegarins full þörf. En hitt er alveg fordæmanlegt, að taka þetta lán án lagaheimildar, og verður ekki annað séð en sneitt sé fram hjá lögboðinni og þinglegri afgreiðslu málsins til þess að koma í veg fyrir, að brtt, komi fram frá þm. um lán til fleiri vegaframkvæmda, sem eiga sama rétt á sér og erfitt er að neita um.

Um þetta frv. vil ég segja að lokum, að það er engan sérstakan um það að saka, að Vestfirðir og Austfirðir hafa orðið fyrir misrétti í vegamálum. En skýrslur vegamálastjóra sýna okkur, að þetta misrétti er staðreynd. Fyrir þá, sem á annað borð vilja leiðrétta þetta misrétti, er ekki til nema ein leið, og það er að samþ. efnislega það, sem felst í þessu frv., með þeim breytingum, sem þeir kunna vilja gera á formi þess og við flm. erum fúsir til að taka til athugunar, ef óskað er.

Ég legg svo til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og samgmn.