03.12.1962
Efri deild: 25. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (2092)

56. mál, vegagerð á Vestfjörðum og Austurlandi

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég hef gert í þessari hv. d. nokkuð ýtarlega grein fyrir þeim rökum, sem ég tel liggja til þess, að þetta frv. eigi fram að ganga, og ég skal reyna að endurtaka lítið eða ekkert af því. En út af því, sem hér hefur fram komið, vildi ég segja örfá orð.

Því er ekki mótmælt, að jöfnun milli kjördæmanna hafi verið sú meginregla, sem farið hefur verið eftir, hvaða ríkisstj. sem hér hefur setið við völd og hvaða meiri hluti sem hér hefur setið á Alþingi. Og við, sem erum búnir að vera lengi hér á Alþingi, munum skilja, að það hefur verið erfitt að breyta þeirri reglu. Það hefur komið hér fram, að það misrétti, sem sýnt hefur verið fram á að Vestfirðir og Austfirðir búa við, hljóti að stafa af því, að ódugnaður hafi átt sér stað hjá þeim þingmönnum, sem hafa gegnt störfum fyrir þessa landshluta. Ég skal ekki fjölyrða hér um aðgerðir mínar í minni sýslu, en æði oft hafa andstæðingarnir látið það fylgja sem skýringu á kjörfylgi mínu í sýslunni, hve mikið hafi verið gert í vegamálum þar og hve mjög ég hafi dregið fram hlut minnar sýslu í átökunum um vegaféð. En látum þar við sitja. Ég býst við, að fáir haldi því fram, a.m.k. af hv. andstæðingum, að sá maður, sem hefur lengi verið þm. fyrir Barðastrandarsýslu, Gísli Jónsson, hafi ekki verið útréttingasamur í fjárveitingum til sýslunnar. Og ég a.m.k. hef séð, ekki einu sinni, heldur tugum sinnum skýrslur í Morgunbl. um það, hve mikið fjárveitingar til vega þar færu fram úr því venjulega, sem veitt væri til annarra kjördæma í landinn. Og ég geri ráð fyrir, ef hv. varaþm. Sigurður Bjarnason hlustaði á þessar umr., þætti honum það einkennilegt, ef hv. flokksmenn hans hér á Alþingi færu að bera honum það á brýn, að hann hafi ekki sýnt fullan dugnað í því að útvega fé til Norður-Ísafjarðarsýslu. Þeir menn, sem þannig tala, skilja ekki eðli málsins.

Eðli málsins er það, að það er erfiðara að leggja vegi á Austfjörðum og Vestfjörðum en í öðrum kjördæmum landsins, og hefur verið margtekið fram, að þetta stafar af landslagi, þar sem miklu minna vinnst í vegalagningu um erfið landssvæði en þau, sem betur eru til vegalagningar fallin. En eins og menn vita, hafa ekki verið, hvaða stjórnir sem setið hafa, tök á því að leiðrétta þetta, vegna þess að það vitum við öll, sem höfum setið hér á þingi um langt skeið, að lán í vegi hefur verið bannorð hér á Alþingi, — lán í vegi hefur blátt áfram verið bannorð hér á Alþingi. En ég hef ekki séð, að aðrar leiðir séu færar í málinu heldur en lánaleiðin. Og reynslan þessi 3 ár, sem liðin eru, síðan núverandi stjórn tók við og stjórnarflokkar, sýnir það, að þó að þeir í öðru orðinu lái þeim, sem áður hafa verið við völd, að hafa ekki leiðrétt þetta mál, þá veitist þeim það þungt eins og öðrum stjórnum. Ég býst við, að erfitt verði að koma því fram í fjvn. að veita stórfé fram yfir þær fjárveitingar, sem venjulegar eru í önnur kjördæmi, til Austfjarða og Vestfjarða, og ég lái þeim það ekki, þó að þeir komi því ekki fram. Það er þess vegna upplýst mál, að það var ekki önnur leið til í málinu en lánaleiðin, sérstök fjárveiting til þess að laga það misrétti, sem þarna er orðið.

Það er vitanlega alveg rétt, sem hér hefur fram komið í ræðum hv. þm., sem mótmæla þessu frv., að það er þörf fyrir vegi annars staðar, — mjög aðkallandi þörf fyrir vegalagningu annars staðar. En hér er talað um að leiðrétta það misrétti, sem þessir fjórðungar landsins hafa sérstaklega orðið fyrir, og það er mál, sem ætti ekki að þurfa að þola bið. Þessir fjórðungar hafa orðið sérstaklega út undan. Þeir hafa orðið fyrir misrétti, og það er þetta misrétti, sem við förum fram á að verði leiðrétt og að þeim leiðum, sem við bendum á.

En ég hefði ekki tekið hér til máls til að endurtaka að sumu leyti það, sem ég hef áður sagt, ef það væri ekki eitt atriði í ræðu eins þm., sem ég vildi sérstaklega benda á, þar sem kom fram kannske allur sannleikurinn í þessu máli, — sannleikurinn í mótstöðunni gegn því. Það var hv. 9. landsk. þm., sem sagði: Það á að leggja áherzlu á vegi, sem koma nógu mörgum til góða. Það er fyrst og fremst sjónarmiðið, sem hafa verður í vegalagningunni, sagði hann. Ég veit ekki betur en á Vestfjörðum, sagði hann, sé mjög fámennt og sú vegalagning á þar af leiðandi ekki rétt á sér. — Þetta er skýrt talað. Fólkinu hefur nú fækkað á Vestfjörðum, eins og rakið hefur verið hér og skýrslur sýna. M.a. hefur bændum fækkað um 4% seinasta ár. Það heldur því enginn fram, sennilega, að það eigi að leggja veg um Sléttuhrepp og eyðihreppana í Norður-Ísafjarðarsýslu. Og það getur orðið stutt, þangað til verður svo fátt fólk á Vestfjörðum með áframhaldandi fækkun, að það þurfi ekki að leggja þar neina vegi. En hér birtist það, sem er raunverulega aðalatriði málsins. Hafa menn trú á því, að það eigi að vera byggð á Vestfjörðum? Hafa menn trú á því, þó að það sé fámennasta kjördæmið á landinu, að það eigi að leggja þar vegi? Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að það sé af illvilja til Vestfirðinga, að þeir vilja ekki leggja vegi á Vestfjörðum. En það er þetta sjónarmið, sem kom fram í ræðu hv. 9. landsk. þm., sem ræður í þessu máli. Menn hafa ekki trú á því, að það séu gerandi framkvæmdir eins og vegalagning fyrir hin fámennu héruð. Hér kemur fram málið allt, og það var gott, að það kom fram.