17.12.1962
Neðri deild: 29. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í C-deild Alþingistíðinda. (2102)

49. mál, félagsheimili

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Ég stend ekki upp til þess að andmæla þessu frv. Ég mundi fagna því, ef þetta ákvæði í frv., að styrkurinn, sem félagsheimilasjóður greiðir til félagsheimilanna, hækkaði, yrði til þess að þjappa sveitarfélögunum saman um byggingu þessara heimila, því að mér sýnist lítið vit í því, að hvert sveitarfélag í landinu sé að reisa milljónahús til þessarar starfsemi, þegar auðvelt er, eins og víða er í landi okkar, ekki sízt síðan samgöngur hafa allar batnað, að sveitarfélögin sameinist um byggingu þessara félagsheimila. En ég vil aðeins nota þetta tækifæri til þess að benda á, að það er nú svo komið fyrir félagsheimilasjóði, að hann er alls ómegnugur að standa undir þeim verkefnum, sem honum er ætlað að styrkja. Hann mun nú skulda ýmsum félagsheimilum í landinu margar millj. Mér er nær að halda, að það séu um 15 millj., sem hann skuldar þeim félagsheimilum, sem er verið að byggja, og þegar svo er, þá sýnist raunar ekki mikið gagn í því að leggja til, að honum sé ætlað að greiða 50% í stað 40% byggingarkostnaðar, sem nú er. Ég bendi á þetta og vil leyfa mér að beina því til hæstv. menntmrh., sem hefur með þessi mál að gera, og raunar til ríkisstj. allrar að athuga vel, hvernig leysa má úr þessum vandkvæðum félagsheimilasjóðs.