17.12.1962
Neðri deild: 29. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í C-deild Alþingistíðinda. (2107)

49. mál, félagsheimili

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það er nú augljóst af þeim umr., sem hér hafa farið fram um þetta mál, að þetta frv. leysir ekki allan vanda félagsheimilanna. Og ég verð að segja, að ef hv. menntmn. hefur verið ljóst innihald ræðu hæstv. menntmrh., áður en n. afgreiddi þetta mál, þá hefði hún ekki átt að flýta sér að afgreiða málið, eins og hefur verið gert. Hafi henni hins vegar ekki verið ljóst það, sem hæstv. ráðh. hefur sagt hér, þá skilst mér, að það sé alveg sjálfsögð krafa frá hv. Alþingi að biðja n. um að taka málið aftur til athugunar og sjá, hvort ekki sé hægt að samræma þau sjónarmið, sem hæstv. ráðh. lýsti hér, og gera þær breytingar á heildarlögunum, sem hann talaði um að þyrfti að gera til þess að koma þessum málum í sæmilegt horf.

Ég endurtek því ósk mína til hæstv. forseta um, að umr. um þetta mál verði nú frestað, fleiri upplýsingar komi frá n. og nefndin m.a. athugi, hvort ekki sé hægt að samræma þær breytingar, sem hér eru í frv., þeim till., sem hæstv. ráðh. hefur minnzt á, því að hvaða vinnubrögð væru það hér á Alþingi að samþ. þetta frv. og taka svo upp annað nýtt frv. rétt á eftir með þeim úrbótum, sem hæstv. ráðh. hefur bent á í sambandi við lausn málsins í heild?

Ég vil því vænta þess, að hæstv. forseti verði við þessum tilmælum, taki málið út af dagskrá, fresti afgreiðslu til 3. umr. þar til eftir þinghlé. Þá kann að liggja fyrir miklu betur, hvernig hægt sé að bjarga úr þessum vanda fyrir félagsheimilin.