11.02.1963
Neðri deild: 37. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í C-deild Alþingistíðinda. (2132)

118. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil nota þetta tækifæri, sem verður við 1. umr. þessa frv., til þess að lýsa þeirri skoðun minni, að eitt hið allra nauðsynlegasta í okkar þjóðarbúskap sé að stórauka rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Það þarf ekki annað en kynnast lítillega þeim glæsilega árangri, sem orðið hefur af því, sem gert hefur verið í þessa átt, til að sannfærast um þetta. Og alltaf verður þessi nauðsyn ríkari og ríkari og alltaf kemur það betur og betur í ljós, hversu glæsilegum árangri er hægt að ná með nægilegri þekkingu.

Það er skemmst að minnast þeirra stóratburða, sem gerzt hafa í sambandi við sjávarútveginn, til að sannfærast um þetta, og hefur þó vafalaust margt gerzt í sambandi við aðrar atvinnugreinar, sem minna ber á í sjálfu sér, en hefur allt að einu gífurlega þýðingu.

Ég mun ekki ræða þetta frv. í einstökum atriðum, en það má segja, að það sé tvíþætt. Annars vegar er að breyta nokkuð skipulagi því, sem er á yfirstjórn rannsóknanna og hvernig þeim er raðað niður í stofnanir, og um þetta er ég ekki reiðubúinn að segja mína skoðun, enda verður þetta vafalaust íhugað, eins og frv. allt, í þeirri n., sem fær það til meðferðar. Ég get ekki heldur gert mér grein fyrir, hvort þær breytingar, sem stungið er upp á í þessu frv., eru í sjálfu sér sérstaklega veigamiklar eða líklegar til að verða að gagni. En þó heyri ég það á því, sem hæstv. ráðh. segir, og sé það á þeim upplýsingum, sem frv. fylgja, að margir mætir menn eiga hlut að því að gera þessar tillögur um breytingar á skipulaginu. Finnst mér því, að gera mætti sér von um, að þær gætu orðið til bóta.

En síðan er hinn þáttur málsins, sem ég vildi leyfa mér að fara um örfáum orðum, og hann er sá, sem lýtur að rannsóknunum sjálfum og sérstaklega hversu mikið fjármagn er veitt til rannsóknanna. Og ég vil segja það hiklaust, að ég álít, að ríkið sjálft verði að leggja meira til þessara rannsókna en gert hefur verið á fjárlögum og heldur en gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég skal ekki leggja dóm á það á þessu stigi málsins, hvort rétt muni vera að eltast við nýja skatta, eins og t.d. að leggja nýtt aðflutningsgjald á timbur og söluskatt á sement í þessu sambandi, eða hvort rétt er eða ekki að innheimta af iðnaðarfyrirtækjum gjald á útborgað kaup, en það er gert ráð fyrir þessu í frv., til að auka nokkuð fjárráð til rannsóknanna. Ég skal ekki fara út í að ræða þetta atriði við þessa umr. Þetta verður að sjálfsögðu athugað í n. En hitt vil ég segja, að jafnvel þó að gert sé þarna ráð fyrir annars vegar, þ.e. til byggingarannsóknanna, að fá með þessu móti 860–900 þús. kr. af nýju fé, og til iðnaðarrannsóknanna almennt 928 þús. kr. með því að reyta á þessa lund saman, — að þótt gert sé ráð fyrir að fá þarna með nýjum álögum dálítið fé inn í þessa starfsemi, þá er ég alveg hiklaust þeirrar skoðunar, að það þurfi að veita mun meira fé í þessar rannsóknir í heild en gert hefur verið á fjárlögum nú og gert er ráð fyrir í þessu frv. Það er að vísu víðast hvar vísað til þess, sem gert muni verða á fjárlögum. Og vil ég í þessu sambandi leyfa mér að minna á, að af hálfu framsóknarmanna hefur nú nokkur þing verið gerð tilraun til þess að fá fjárveitingar til ýmissa rannsókna á fjárlögum hækkaðar stórlega, en árangurslaust. Við munum halda þeim tilraunum áfram, hvað sem þessu frv. liður. Það er atriði út af fyrir sig, hvort flytja eigi brtt. við þetta frv. um að lögbjóða hærri framlög í þessu skyni en verið hafa eða hvort á að gera þessi mál upp eingöngu í sambandi við fjárlögin. En ég vildi ekki láta þetta tækifæri hjá líða án þess að lýsa yfir þeirri skoðun minni, að ég tel alveg lífsnauðsyn að veita meira fjármagni, svo að verulegu nemur, inn í rannsóknirnar en verið hefur gert. Þó að ég sé ekki reiðubúinn að nefna tölur í þessu sambandi, er alveg víst, að það þarf að stórauka framlögin í þessu skyni. Og ég get ekki látið hjá líða að lýsa vonbrigðum mínum yfir því, að fyrst hæstv. ríkisstj. gekk í að gera nýjan lagabálk og láta endurskoða frá grunni alla rannsóknarstarfsemina, þá skuli ekki vera í leiðinni gerðar skörulegar ráðstafanir en í þessu frv. felast til að veita eða ákveða meira fé en verið hefur til hennar.

Eins og komið hefur fram af því, sem hæstv. ráðh. sagði og ég vænti að ekki sé misskilningur, þá er þar fyrst og fremst um að ræða þessi nýju gjöld, sem ég gat um áðan. Og þó að það sé sjálfsagt skynsamleg stefna, að fyrirtæki, einstaklingar og ýmsir greiði eitthvað fyrir þá þjónustu, sem fæst á vegum rannsóknarstarfsemi ríkisins, þá álít ég, að ríkið sjálft verði að stórauka sín framlög.