11.02.1963
Neðri deild: 37. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í C-deild Alþingistíðinda. (2134)

118. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil aðeins þakka þeim málsvörum stjórnarandstöðuflokkanna, sem látið hafa í ljós skoðanir sínar um þetta frv., fyrir góðar undirtektir undir meginefni þess og þá meginstefnu, sem í frv. er mörkuð. Í því sambandi vil ég auk þess undirstrika, sem raunar er ljóst af efni málsins, að þetta frv. fjallar að sjálfsögðu fyrst og fremst um skipulagsmál rannsóknarstofnananna og rannsóknarmálanna.

Við erum allir sammála um, að brýna nauðsyn beri til þess að veita stóraukið fé til rannsóknarstarfseminnar, bæði frá hinu opinbera og frá íslenzkum atvinnuvegum. Í frv. eru nokkur nýmæli um það, að iðnaðurinn skuli greiða upp undir 2 millj. kr. á ári til eflingar rannsóknarstarfsemi í þágu iðnaðarins til viðbótar þeim 3 millj., sem sjávarútvegurinn greiðir nú árlega.

Um hitt atriðið, hversu mikið fé ríkið sjálft skuli láta hverju sinni til rannsóknarmálanna, sem við erum allir sammála um að auka þurfi mjög verulega, um það ber að sjálfsögðu að fjalla í sambandi við afgreiðslu fjárl. hverju sinni.

Hvað það snertir, sem hv. síðasti ræðumaður sagði um skipun stjórna rannsóknarstofnananna, skal ég láta þess getið hér, að það var eitt þeirra mála, sem lengst og ýtarlegast var rætt við aðila í atvmn., við rannsóknarmennina sjálfa, við embættismenn og innan ríkisstj. Og það skal fúslega játað, að það má teljast mikið álitamál, hvort rétt sé að hafa slíkar stjórnir yfir hinum einstöku rannsóknarstofnunum eða ekki. Ástæðan til þess, að ríkisstj. að vandlega athuguðu máli kaus þann kostinn að hafa stjórnirnar, var fyrst og fremst sú, að ríkisstj. taldi, að með öðrum hætti yrðu ekki sköpuð nægileg tengsl við atvinnuvegina, þ.e. skipun ráðgjafarnefndanna, sem margar hverjar eða flestar eru allstórar, skapaði ein út af fyrir sig ekki nægileg tengsl við atvinnuvegina og sé nauðsynlegt, að einhver, sem lítur á sig sem fulltrúa atvinnuveganna eða atvinnuvegir líta á sem fulltrúa sinn, sé í nánari tengslum við rannsóknarstofnanirnar en ráðgjafarnefndirnar veita. Þetta var höfuðröksemdin fyrir því að taka upp þá skipan, sem gert er ráð fyrir varðandi stjórn stofnananna. Auk þess þótti það og mundi geta orðið gagnlegt að tengja æðstu embættismenn ríkisins á þeim sviðum, sem um er að ræða, t.d. fiskimálastjóra og búnaðarmálastjóra, þessum rannsóknarstofnunum með þeim hætti, að þeir eigi samkvæmt embætti sinu sæti í hlutaðeigandi stjórnum. Okkur var fullkomlega ljós sá annmarki, sem hv. þm. benti á í þessu sambandi, að varhugavert getur verið, að við slíkar stofnanir og raunar allar sé hver silkihúfan ofan á annarri. Til þess að koma í veg fyrir, að slíkt gerðist, til þess að koma í veg fyrir, að stjórnirnar yrðu skriffinnskustofnanir, var einmitt gert ráð fyrir því, að forstjóri stofnunarinnar sjálfrar sé í stjórninni og sé formaður hennar.