11.02.1963
Neðri deild: 37. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í C-deild Alþingistíðinda. (2138)

119. mál, náttúrurannsóknir

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Flutningur þessa frv. stendur í sambandi við flutning frv. um endurskipulagningu rannsóknarmálanna, sem ég lagði fyrir hv. d. áðan. Þetta frv. er samið af atvinnumálanefnd ríkisins í samráði við starfsmenn Náttúrugripasafns Íslands. Menntmrn. sendi háskólanum frv. til umsagnar og hefur verið tekið tillit til ábendinga hans. Um málið almennt er þetta að segja:

Með lögum nr. 68 1940, um náttúrurannsóknir, var sett heildarlöggjöf hér á landi, bæði um undirstöðurannsóknir og hagnýtar rannsóknir. Þegar þessi lög voru sett, var engin stofnun til í landinu, sem annazt gæti undirstöðurannsóknir á náttúru Íslands og haft umsjón með þeim. Það var því eðlilegt, að rannsóknaráði væri falið að gegna því hlutverki, sem slík stofnun hefði átt að hafa með höndum, ef til hefði verið. Í ársbyrjun 1947 var náttúrugripasafnið hins vegar gert að ríkisstofnun, og jafnframt voru ráðnir að safninu fastir starfsmenn. Með þeirri ráðstöfun var komið á fót opinberri stofnun, sem að sjálfsögðu ber, eins og ríkisstofnun í öðrum löndum, að annast um og hafa forustu um almennar rannsóknir eða undirstöðurannsóknir á sviði dýrafræði, grasafræði, jarðfræði og landafræði. Í framhaldi af þessari ráðstöfun hefði átt að endurskoða lögin frá 1940 og breyta þeim til samræmis við breyttar aðstæður. Þetta var þó ekki gert og hefur ekki verið gert enn, þó að nú séu liðin 15 ár, frá því að náttúrugripasafn tók til starfa sem ríkisstofnun. 1951 voru sett lög um Náttúrugripasafn Íslands. Við undirbúning þeirrar lagasetningar kom í ljós, að erfitt mundi reynast að ákveða verkefni náttúrugripasafnsins með skynsamlegum hætti, þar eð sum af sjálfsögðum hlutverkum þess voru þá þegar með lögum falin öðrum aðila, þ.e.a.s. rannsóknaráði ríkisins. Kom þá til tals að endurskoða lögin um náttúrurannsóknir frá 1940 og koma þannig á gleggri verkaskiptingu milli rannsóknaráðs og náttúrugripasafns. Úr því varð þó ekki, og frv. til l. um Náttúrugripasafn Íslands var lagt fyrir Alþingi og síðan samþykkt, eftir að felld höfðu verið úr frv. ýmis ákvæði varðandi verkefni, er ekki þótti fært að falin væru bæði safninu og rannsóknaráði. En ekki varð hjá því komizt, að hlutverk beggja þessara aðila, eins og þau eru nú ákveðin í l., væru að nokkru leyti hin sömu. Úr þessum annmörkum er reynt að bæta með flutningi þessa frv.

Í frv. til l. um rannsóknir í þágu atvinnuveganna er gert ráð fyrir því að fella úr gildi l. frá 1940 og þar með einnig gildandi lagaákvæði um almennar náttúrurannsóknir, og er því nauðsynlegt að setja einnig ný lög um Náttúrugripasafn Íslands.

Helztu breytingar, sem þetta frv. gerir ráð fyrir á gildandi lögum um Náttúrugripasafn Íslands, eru þessar: Nafninu er breytt úr Náttúrugripasafn Íslands í Náttúrufræðistofnun Íslands. Nafn stofnunarinnar nú hefur valdið töluverðum misskilningi. Margir hafa álitið, að verkefni safnsins eða stofnunarinnar séu fyrst og fremst og jafnvel eingöngu að safna náttúrugripum til sýnis fyrir almenning. Því er lagt til, að nafninu verði breytt og áherzla lögð á meginverkefni stofnunarinnar, sem eru vísindalegar rannsóknir á náttúru landsins. Þá eru felld inn í þetta frv. ýmis ákvæði úr l. frá 1940 um náttúrurannsóknir og gert ráð fyrir því, að náttúrufræðistofnunin taki við verkefnum, sem áður voru í verkahring rannsóknaráðs ríkisins. Með þessu móti eru almenn ákvæði um náttúrurannsóknir innlendra og erlendra manna tengd Náttúrufræðistofnun Íslands og stofnuninni falið eftirlit með almennum rannsóknum erlendra náttúrufræðinga. Þess má geta, að Náttúrugripasafn Íslands hefur undanfarin ár að meira eða minna leyti annazt þessi verkefni samkv. ósk rannsóknaráðs ríkisins.

Í gildandi lögum um Náttúrugripasafn Íslands er það talið fremst meðal aðalhlutverka safnsins að safna náttúrugripum og varðveita þá. Í þessu frv. er þessu breytt og fyrst talið það mikilvæga verkefni stofnunarinnar að vera miðstöð almennra vísindalegra rannsókna á náttúru Íslands.

Að svo mættu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.