26.03.1963
Efri deild: 62. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í C-deild Alþingistíðinda. (2147)

119. mál, náttúrurannsóknir

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd. og hlaut þar einróma meðmæli hv. menntmn. og einróma samþykki í deildinni. Ég skal í örfáum orðum gera grein fyrir aðalefni frv.

Árið 1940 voru sett lög um náttúrurannsóknir, og var það heildarlöggjöf um náttúrurannsóknir hér á landi, bæði svonefndar almennar rannsóknir, undirstöðurannsóknir og hagnýtar rannsóknir. Þegar þessi lög voru sett, var engin stofnun til í landinu, sem gæti annazt og haft umsjón með almennu rannsóknunum. Þess vegna var sá kostur tekinn að fela rannsóknaráði að gegna því hlutverki, sem slík stofnun, ef hún hefði verið til, hefði að réttu lagi átt að hafa með höndum.

Í ársbyrjun 1947 var náttúrugripasafnið gert að ríkisstofnun og ráðnir að safninu fastir starfsmenn. Þá var komið á fót opinberri stofnun, sem að sjálfsögðu á að hafa forustu um almennar rannsóknir á sviði dýrafræði, grasafræði, jarðfræði og landafræði. Það hefði verið eðlileg ráðstöfun í framhaldi af því að gera náttúrugripasafnið að ríkisstofnun að fela því það hlutverk að hafa almenna umsjón með náttúrurannsóknum í landinu og breyta þá lögunum frá 1940 í samræmi við hinar breyttu aðstæður. Þetta var hins vegar ekki gert. Annað tækifæri til að koma lögum um þetta efni í viðunandi horf var 1951, þegar lög voru sett um Náttúrugripasafn Íslands. En þá var líka um það rætt, að endurskoða lögin um náttúrurannsóknir frá 1940 og hafa lögin um Náttúrugripasafn Íslands þannig, að safninu yrðu falin þau verkefni ýmis, sem rannsóknaráði höfðu verið falin með lögum frá 1940. Úr þessu varð þó ekki, og voru lögin um náttúrugripasafn afgreidd þannig, að þau fjölluðu einvörðungu um verkefni safnsins, auk þess sem þau kváðu á um það, að náttúrugripasafnið skyldi vera ríkisstofnun.

Í sambandi við almenna endurskoðun, sem undanfarin ár hefur farið fram á skipulagi rannsókna í þágu atvinnuveganna og atvinnumálanefnd ríkisins hefur haft með höndum, þótti einnig rétt að endurskoða lögin um Náttúrugripasafn Íslands, einmitt út frá því sjónarmiði, sem hér er um rætt. Það þótti eðlilegra að fela það verkefni, sem ég gat um áðan að 1940 hefði verið falið rannsóknaráðinu, þ.e. að fylgjast með almennum náttúrurannsóknum hér á landi og leiðbeina þeim útlendingum, sem til þess fengju leyfi að stunda slíkar náttúrurannsóknir, í starfi þeirra, — þá þótti rétt að endurskoða lögin um náttúrugripasafn og fela því þessa starfsemi í staðinn fyrir að hafa hana hjá rannsóknaráði ríkisins. Þetta var einróma niðurstaða atvinnumálanefndar ríkisins, sem síðar samdi það frv., sem hér liggur nú fyrir hinu háa Alþingi. Um þetta frv. hefur einnig verið fjallað í Háskóla Íslands og það fengið meðmæli hans. Sömuleiðis var það rætt á ráðstefnu um rannsóknarmál, sem menntmrn. efndi til í Háskóla Íslands á s.l. hausti, og komu þar engar almennar athugasemdir fram við efni þessa frv.

Þær meginbreytingar, sem í frv. er gert ráð fyrir að efni til, eru þær, að inn í þetta frv. eru felld ýmis ákvæði úr lögunum frá 1940 um náttúrurannsóknir, er kveða svo á, að viss verkefni skuli vera í verkahring rannsóknaráðs ríkisins, en skv. þessu frv. skulu þau flytjast yfir í Náttúrugripasafn Íslands, sem hér er nefnt Náttúrufræðistofnun Íslands. M.ö.o.: aðalbreytingin í þessu frv. er sú, að verði það samþykkt, eru almenn ákvæði um náttúrurannsóknir innlendra og erlendra manna tengdar náttúrufræðistofnuninni og henni falið eftirlit með rannsóknum erlendra náttúrufræðinga, en ekki rannsóknaráði ríkisins. Þá er nafninu og breytt úr náttúrugripasafni í náttúrufræðistofnun. Það hafa allir hlutaðeigandi verið sammála um, að það sé eðlilegra nafn á þeirri stofnun að nota heitið stofnun, en ekki safn. Að öðru leyti felast í frv. aðeins formbreytingar, sem ég hygg þó að megi fullyrða um að allar séu til bóta.

Ég mundi vilja leyfa mér að vænta þess, að hv. menntmn., sem ég vona að fái málið til meðferðar, og hv. Ed. taki þessu máli jafnvel og hv. Nd. gerði og það hljóti einróma samþykki þessarar hv. deildar.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.