17.12.1962
Neðri deild: 29. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

46. mál, ríkisreikningurinn 1961

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það eru tvær af athugasemdum hv. 1. þm. Norðurl. v., sem ég skal gera hér að umtalsefni.

Önnur er sú, að upphæð, sem notuð hafi verið til Keflavíkurvegarins, sé ekki færð til gjalda á ríkisreikningi 1961. Hv. þm. hafði spurzt fyrir um þetta sama í fjhn., og var óskað eftir skýringu frá fjmrn., og var svar ráðuneytisstjórans á þessa leið:

„Þetta lán kom ekki fram á reikningum vegagerðarinnar fyrir árið 1961, og hefur sennilega verið litið á það sem bráðabirgðalán svipuð þeim, sem oft eru tekin til vegaframkvæmda, en ekki talin til gjalda, fyrr en annaðhvort þau eru gerð að föstum lánum eða fjárveiting veitt til endurgreiðslu á þeim. Vegagerðin mun í þessu efni telja sig hafa fylgt þeim venjum, sem hún hafi áður haft um þessi efni, og sé þar engin breyting á.“

Þá er í öðru lagi. Hv. þm. leggur til, að afgreiðslu þessa máls sé frestað þar til síðar á þessu þingi, vegna þess að hinni umboðslegu endurskoðun sé ekki að fullu lokið fyrir árið 1961. Það hefur jafnan verið svo um hina umboðslegu endurskoðun, að hún er í sumum efnum nokkrum árum á eftir, og vil ég taka það sérstaklega fram, að þó hefur miðað betur áfram um hina umboðslegu endurskoðun hjá ríkisendurskoðuninni nú en áður. Eins og ég tók fram í umr. um ríkisreikning í fyrra, er að því stefnt, að öll endurskoðun á vegum ríkisins fari fram jafnóðum. Það er þegar gert við nokkrar stofnanir. En það tekur tíma að breyta því skipulagi og þeim vinnubrögðum og krefst óhjákvæmilega nokkru meiri starfskrafta en ríkisendurskoðunin hefur yfir að ráða nú. En það eru ekki rök til þess að fresta samþykkt frv. um ríkisreikninginn fyrir 1961, þó að hinni umboðslegu endurskoðun sé ekki að fullu lokið hjá öllum stofnunum, vegna þess að þær athugasemdir, sem fram kynnu að koma hjá ríkisendurskoðuninni, breyta engu og geta engu breytt um ríkisreikninginn 1961, sem búið er að gera upp og liggur endanlega fyrir. Ef ríkisendurskoðunin finnur eitthvað athugavert og telur, að breyta þurfi greiðslum, kemur það að sjálfsögðu alltaf fram á ríkisreikningi árið eftir. Þess vegna er það misskilningur hjá hv. þm., að þetta sé ástæða til að fresta samþykkt reikningsins.

Ég tel ekki ástæðu til að fara út í athugasemdir hv. þm. frekar, að öðru leyti en því, að þegar hann telur, að rekstrarútgjöld ríkisins árið 1961 hafi reynzt nokkru hærri en árið 1960, þá hefði hann kannske mátt geta þess, að á miðju ári 1961 urðu hér verulegar kauphækkanir, sem m.a. hann og hans flokkur áttu drjúgan þátt í að koma fram, og þessar kauphækkanir, sem urðu almennar í landinu, leiddu svo óhjákvæmilega til gengisbreytingarinnar á árinu 1961, en hvort tveggja olli því, að útgjöld urðu í ýmsum efnum hærri en gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum og hærri en árið á undan.

Ég legg svo til, að frv. verði tekið til afgreiðslu nú, en get ekki fallizt á þau rök, sem hv. þm. færir fram fyrir frestun frv.