17.12.1962
Neðri deild: 29. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

46. mál, ríkisreikningurinn 1961

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það voru tvö atriði í ræðu hv. 1. þm. Austf. (EystJ), sem voru uppistaðan í ádeilum hans. Annað var það, að lagaheimild hafi skort til að taka, þau lán, sem tekin hafa verið til Keflavíkurvegarins, og hitt, að ríkisstj. hafi fyrirskipað að fela þessar greiðslur og taka þær ekki með í ríkisreikninginn.

Varðandi fyrra atriðið vil ég taka það fram, að samgmrn., sem hefur séð um þessa lántöku til vegagerðarinnar, lítur svo á og hefur tekið saman um það ýtarlega grg., að fullkomin lagaheimild hafi verið til þessarar lántöku. Mér finnst sjálfsagt, að sú grg. komi á framfæri fyrir Alþingi og almenning. Samgmrn. hefur því ekki talið, að það þyrfti nýja eða viðbótarheimild.

Út af hinu atriðinu, að ríkisstj. eða einstakir ráðh. hafi ákveðið að fela þessar greiðslur, þá er þetta auðvitað hugarburður einn, sjúklegur hugarburður hjá hv. þm. Það er vegamálastjóri einn, sem hefur ákveðið, hvernig með þetta skuli fara, og eins og kemur fram í grg. ráðuneytisstjóra fjmrn., segir hann: Þetta lán kom ekki fram í reikningum vegagerðarinnar árið 1961. Hefur verið litið á það sem bráðabirgðalán svipuð þeim, sem oft eru tekin til vegaframkvæmda, en ekki talin til gjalda, fyrr en þau eru annaðhvort gerð að föstum lánum eða fjárveiting veitt til endurgreiðslu á þeim.

Ég er þess fullviss, að enginn af ráðh. hefur nokkurn tíma gefið vegamálastjóra nokkur fyrirmæli um það að fela þessar greiðslur. Eins og ég tók fram, er það vegamálastjóri, sem gengur frá reikningum vegagerðarinnar til ríkisbókhaldsins, og þannig voru þessir reikningar, þegar þeir komu frá honum. Þetta er því allt saman eintómur hugarburður hjá hv. þm. En að því leyti sem hann ber fram harðorðar ádeilur út af þessu, telur, að hér sé um stórkostleg mistök að ræða, þá er það ádeila á forstjóra vegagerðarinnar, vegamálastjóra.

Það er ekki ástæða til að lengja þessar umr. meira af minni hálfu. Hefur komið skýrt fram, hvernig á þetta er litið af þeim embættismönnum, sem fjalla um málið. En ég vil endurtaka það, að því fer fjarri, að nokkur ráðh. hafi gefið nokkur fyrirmæli um að hafa þessar greiðslur ekki með í reikningi 1961. Auðvitað koma þær í ríkisreikninginn 1962. En ástæðurnar, sem færðar eru fram fyrir þessu, eru þær, sem þegar hafa verið teknar fram.