06.11.1962
Efri deild: 13. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í C-deild Alþingistíðinda. (2213)

75. mál, lausn á síldveiðideilunni sumarið 1962

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ríkisstj. mun hafa lýst því yfir á sínum tíma, að hún ætlaði engin afskipti að hafa af kjarasamningum og vinnudeilum, hún ætlaði að leiða þau mál hjá sér, láta vinnuveitendur og launþega eina um að leysa þau. Þessi yfirlýsing var að mínum dómi bæði vanhugsuð og óraunsæ: Það hefur reynslan sýnt svo rækilega, að ekki verður um villzt. Ríkisstj. hefur ekki komizt hjá því að hafa afskipti af mörgum vinnudeilum. En yfirleitt er það svo, að hún hefur ekki, — sjálfsagt með hliðsjón af eða vegna þeirrar yfirlýsingar, sem ég nefndi, — gripið inn í vinnudeilur eða kjaradeilur fyrr en á síðasta stigi og þegar það hefur verið orðið of seint og allt hefur verið komið í óefni. Hæstv. ríkisstj. hefur því miður lítið gert að því að greiða fyrir sáttum á frumstigi vinnudeilna. Hún hefur sannarlega ekki lagt sig fram á því stigi að laða deiluaðila til sátta. En það hygg ég, að einmitt eigi að vera hlutverk ríkisvaldsins í kjaradeilum, hjá því sé ekki hægt að komast, að ríkisstj. hafi slík afskipti af þessum málum, ef þau eiga að leysast farsællega, þó að sjálfsagt sé hins vegar, að þau séu fyrst og fremst í höndum samningsaðilanna sjálfra. En ríkisstj. hefur, eins og ég sagði, ekki lagt sig í framkróka með það að greiða fyrir sáttum í vinnudeilum á frumstigi kjaradeilna.

Hitt mun aftur á móti sönnu nær, að ríkisstj. hafi oft framan af kjaradeilu haft af henni óbein afskipti, sem síður en svo auðvelduðu lausn hennar, t.d. með því að stappa stáli í vinnuveitendur með að þverskallast í lengstu lög við öllum kjarabótum eða þá með því að synja þeim um einhverja þá fyrirgreiðslu eða lagfæringu á sinum málum, sem þeir töldu sér nauðsynlega og forsendu fyrir því að fallast á kjarabætur launþegunum til handa. Ég hygg, að það megi nefna býsna mörg dæmi þessu til sönnunar. En þegar svo allt hefur verið komið í óleysanlegan hnút, verkföll skollin á, stífni komin í aðila í deilunni, þá og þá fyrst hefur ríkisstj. gripið inn í deiluna og þá, eins og dæmi sýna, langoftast með því að lögbjóða gerðardóm. Hitt er þó náttúrlega sýnu verra, þegar víðtækar kjaradeilur hafa verið leystar eftir langa hríð með kjarasamningum, en ríkisstj. hefur síðan með ráðstöfunum sínum kippt grundvellinum undan þeim kjarasamningum, svo sem átti sér stað sumarið 1961, þegar ríkisstj. framkvæmdi gengislækkunina, eftir að samningar höfðu tekizt eftir þau víðtæku verkföll, sem þá höfðu átt sér stað. En það verk að fella gengið 1961 var að mínum dómi eitt ástæðulausasta og óþarfasta og óskynsamlegasta verk hæstv. ríkisstj., sem hún svo sjálf með ýmsum hætti hefur sopið og sýpur seyðið af, því að einmitt þá var grundvellinum kippt undan þessum samningum, sem gerðir höfðu verið, og þar með undan vinnufriði, enda hefur það sýnt sig, að hver kjaradeilan eftir aðra hefur komið til sögunnar eftir þetta. Og eru nú þessi mál komin á það stig, sem ég skal ekki fjölyrða hér um, en sýnilegt er, að allt stefnir til meiri verðbólgu en hér hefur átt sér stað áður.

Í síldveiðideilunni s.l. sumar fylgdi hæstv. ríkisstj. sínum fyrri starfsháttum. Ríkisstj. hefði í tæka tíð átt að beita áhrifum sínum til lausnar þeirri deilu. Það gerði hún ekki. En í stað þess greip hún til síns gamla úrræðis, gerðardómsleiðarinnar. Það skal fúslega játað, að eins og þá var málum komið var úr vöndu að ráða, og til einhverra úrræða varð að grípa til að koma síldveiðiflotanum af stað. Ég er hæstv. ráðh. sammála um, að það horfði til mikilla vandræða, ef þessi deila hefði staðið öllu lengur en hún stóð, vegna þess að síldveiðiflotinn var tilbúinn að hefja veiðar, landverkafólkið beið eftir síldinni, milljónir töpuðust á degi hverjum, og mátti segja, að vá væri fyrir dyrum í t.d. síldarplássum norðan- og austanlands, ef síldarvertíðin gæti ekki farið að hefjast og gengið með nokkurn veginn eðlilegum hætti. En hins vegar er ég ráðh. ekki sammála um það, sem ég mun koma að hér á eftir, að það hafi ekki verið hægt að grípa til neins annars úrræðis en þessa til að leysa þessa deilu og tryggja það, að síldveiðiflotinn færi á veiðar. Ég get ekki fallizt á þá skoðun og þann skilning, sem mér virtist hæstv. ráðh. í raun og veru byggja nauðsyn þessara brbl. á, að þetta mál hefði í raun og veru verið algerlega óleysanlegt með öðrum hætti en þeim, sem horfið var að.

En það er eins og þegar hefur komið fram í þessum umr., að gerðardómsleiðin var alveg sérstaklega óheppileg í þessu tilfelli, vegna þess m.a., sem hér hefur komið fram, að á mörgum stöðum í landinu giltu áfram gömlu samningarnir á milli útgerðarmanna og sjómanna og sjómenn á mörgum skipum áttu því við að búa áfram sömu kjör og að undanförnu. Þegar þannig stóð á, var sérstaklega óheppilegt að lögbjóða gerðardóm og valda því þar með, að sjómenn byggju við mismunandi kjör eftir því, á hvaða skipum þeir væru, eða því, frá hvaða stað skip þau væru gerð út, sem þeir voru á, sumir bjuggu sem sagt við gömlu samningana, en aðrir við þau kjör, sem gerðardómurinn tiltók.

Gerðardómsleiðin var valin. En vitaskuld hefði mátt grípa til annarra úrræða, t.d. eins og bent var hér á af hv. síðasta ræðumanni að lögbjóða, að skrá skyldi upp á gömlu kjörin, en síðan litið á þarfir útgerðarmanna og úr þeim reynt að leysa með öðrum hætti, ef á því hefði þótt nauðsyn.

Um sjálfan úrskurð gerðardómsins mun ég hér ekki fjölyrða. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að úrskurður gerðardómsins skerti allverulega þau skiptakjör, sem síldveiðisjómenn höfðu við búið, og lækkaði þar með laun þeirra eða kaup mjög verulega. Ég skal ekki heldur fjölyrða hér um þær ástæður, sem útgerðarmenn hafa fært fram því til rökstuðnings, að skiptakjörin þyrftu að breytast, en þær kröfur þeirra virðast aðallega hafa byggzt á því, að þeir hafa að undanförnu tekið í notkun á skipum sínum dýr og ný og fullkomnari tæki en áður. Það sýnist náttúrlega frá leikmannssjónarmiði, að það muni ekki gera hlut útgerðarinnar lakari að taka þannig í þjónustu sína nýja tækni. En þó vil ég fyrir mitt leyti taka fram, að ég treysti mér ekki til að leggja þar neinn dóm á og vil út af fyrir sig ekki draga það í efa, að útgerðarmenn hafi þar haft eitthvað til síns máls og að þeir hafi getað sýnt fram á það með rökum, að þeir þyrftu að fá eitthvað meira í sinn hlut en áður.

En þá er bara spurningin, hvort sjómenn voru aflögufærir, hvort það var fært að taka þann hlut, sem útgerðarmenn kunni að vanta, af sjómönnum eða hvort það var sanngjarnt. Ég skal ekki leggja neinn dóm á niðurstöður gerðardómsins í sjálfu sér, til þess brestur mig allar forsendur, en hitt fer ekki á milli mála, að það virðist, að gerðardómurinn hafi tekið meira tillit til krafna og málsástæðna útgerðarmanna en sjómanna. Mér dettur ekki í hug að efast um, að gerðardómsmennirnir hafi unnið sitt verk samvizkusamlega eftir þeim gögnum, sem fyrir lágu.

En hvað sem um allt þetta er, þá liggur sú staðreynd ljós fyrir, að með ákvörðun þessa úrskurðar var stór sneið skorin af tekjum síldveiðisjómanna, og það er mjög vel skiljanlegt, að þeir séu harla óánægðir með það og þeir séu gramir og sárir yfir því. Ég býst við því, að það geti hver og einn stungið hendinni í eigin barm með það, að hann mundi ekki taka því með neinum þökkum, að það væri tekin af honum ákveðin prósenta af hans launum eða tekjum með valdboði, kannske 10% eða jafnvel meira eða minna. Ég skal ekki fara hér með neinar tölur, hef þær ekki svo tiltækar í þessu sambandi, en hitt er vist, að þarna er um mjög verulegar fjárupphæðir að ræða fyrir hvern einstakan sjómann. Og ég hygg t.d., að hv. alþm. mundu geta sett sig í spor sjómanna um það, að þeir mundu sjálfir ekkert kunna því vel, ef eitthvert æðra valdboð ætlaði að taka af þeim jafndrjúgan hlut, eins og gert var með þessum gerðardómi hvað sjómenn áhrærir.

Ég verð að segja það, að hvað sem efnisástæðum líður, sem á bak við þetta hafa verið, þá tel ég það, eins og þetta var framkvæmt og kom fram gagnvart sjómönnum, mjög ósanngjarnt, og ég tel, að það sé ákaflega skiljanlegt, að þeir hafi skoðað það sem hnefahögg í sitt andlit. Það er að vísu reynt að réttlæta þetta með ýmsum hætti. Það er bent á það, að síldveiðisjómenn þurfi sannarlega ekki yfir miklu að kvarta, þeir hafi borið góðan feng úr býtum á s.l. sumri og hafi haft góðar tekjur þrátt fyrir þá skerðingu, sem þeir urðu fyrir í sambandi við þennan dóm. Og það er rétt, sem betur fer, að margir síldveiðisjómenn hafa þrátt fyrir þessa skerðingu haft sæmilega góðar tekjur. En það má þó ekki leggja of mikið upp úr því í sambandi við þetta mál. Í fyrsta lagi er útkoman á síldveiðunum alltaf misjöfn, og það má því ekki í umræðum um þessi mál miða þar við toppana og líta á há, sem hæst hafa og mest hafa úr býtum borið. En þegar á meðaltalið er litið, þá mun það vera svo, að tekjurnar séu ekkert óhóflegar, sem sjómenn hafa borið úr býtum. Og vissulega eru þeir vel að þeim tekjum komnir. Og það verður líka, þegar rætt er um þessi mál og reynt er að benda á það, að sjómenn hafi haft háan hlut, að taka það með í reikninginn, að síldarvertíðin s.l. sumar var alveg óvenjulega hagstæð, ekki bara að því leyti til, að aflamagn væri ákaflega mikið, heldur var t.d. tíðarfar svo hagstætt, að landlegur voru nær óþekktar. Ef útkoman hefði verið á aðra lund og óhagstætt veðurfar, þá hygg ég, að hlutur sjómannanna hefði orðið allur annar og lakari og þeim hefði þá reynzt miklu erfiðara að bera þessa kjaraskerðingu en þó hefur orðið, vegna þess að allt gekk þó sæmilega vel.

En mergurinn málsins er náttúrlega sú spurning, hvort það hafi verið til nokkur önnur leið en gerðardómsleiðin. Var nokkur önnur leið til í þessu máli, ef bæta þurfti eitthvað hlut útgerðarmannanna, heldur en að færa þá hlutarbót þeim til handa frá sjómönnum og þeirra hlut? Ég hef bent á það áður, að ríkisstj. hefði sennilega, ef hún hefði haft afskipti af málinu fyrr og reynt að liðka þar eitthvað til, getað leyst það farsællega.

Af hálfu framsóknarmanna hefur verið bent á þá leið að bæta hlut útgerðarmanna með því að skila þeim aftur nokkru af því fé, sem af þeim hafði verið tekið, en eins og öllum er í fersku minni, var sumarið 1961 í sambandi við þá gengislækkun, sem þá átti sér stað, gerð upptæk í ríkissjóð verðhækkun þeirra útflutningsvara, sem til voru í landinu óafgreiddar, þegar gengislækkunin var gerð 1961. Með þessum hætti safnaðist ríkissjóði allmikill sjóður, sem síðan hefur verið að vísu ráðstafað til ákveðinna hluta. Það hefði vissulega mátt verja einhverju úr þessum sjóði til að bæta hlut útgerðarmanna. Ég hef að vísu alltaf litið svo á, að það hafi verið hæpin stjórnlagaleg heimild til þessarar upptöku. En úr því að hún átti sér stað á annað borð, hygg ég, að flestir geti orðið sammála um, að þeim sjóði, sem þannig var upptækur ger, hefði ekki verið varið betur eða á sanngjarnari hátt en að láta hann renna til þeirra útgerðarmanna aftur, sem stunduðu síldveiðar fyrir Norður- og Austurlandi næsta sumar þar á eftir, sem sagt 1962. Og það má vissulega benda á meira fé, sem ríkisstj. hefur af útgerðinni tekið og hún hefði átt auðvelt með að miðla til hennar aftur. En í tíð hæstv. núv. ríkisstj. hefur átt sér stað stórfelld hækkun á útflutningsgjöldum sjávarafurða. Og það hefði vissulega ekki verið nema sanngjarnt, að einhverjum hluta af þessum útflutningsgjöldum hefði verið varið aftur til styrktar útgerðinni á þennan hátt, ef þörf hefði verið á, enda er allmiklu af þessum útflutningsgjöldum varið á annan hátt til styrktar útgerðinni. Ég hygg, að mátt hefði verja þannig nokkru af þessu fé til þess að bæta hlut útgerðarmanna og greiða þannig fyrir sáttum í þessari deilu, án þess að þar hefði þurft að koma til skerðingar á hlut sjómanna. Þá hefði mátt komast hjá því alveg að skerða kjör sjómanna. Það má að vísu segja, að með þeim hætti hefði ekki verið um neina frambúðarlausn þess máls að ræða. En það er ekki heldur með þessum gerðardómslögum, sem hér liggja fyrir, og með þeim gerðardómi, sem felldur hefur verið samkv. þeim, um neina frambúðarlausn þessara mála að tefla.

Ef þessi leið hefði verið valin, sem framsóknarmenn hafa bent á, hefði mátt komast hjá þessari óvinsælu gerðardómsleið. En það er staðreynd, sem ég skal annars ekki fara að fjölyrða neitt frekar um hér, að gerðardómar eru ákaflega illa séðir og tortryggðir af hálfu launþega, þannig að það verður að teljast algert neyðarúrræði að grípa til gerðardóms í kaup- og kjaramálum, nema svo standi á, að deiluaðilar hafi komið sér saman um að leggja málið í gerð eða komið sér saman um að sætta sig við úrskurð gerðardóms, eins og t.d. á sér stað með opinbera starfsmenn, sem fallizt hafa á að láta kjaradóm hafa síðasta orðið um sín mál. En ég held, að það sé ekki ofmælt, sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að síldveiðideiluna, sem nú stendur yfir, eða það, hversu torveldlega hafi gengið að leysa þá síldveiðideilu, sem nú stendur yfir, megi að einhverju leyti og ég vil segja að verulegu leyti rekja til gerðardómsins s.l. sumar og þeirrar miklu gremju og óánægju, sem gætt hefur hjá sjómönnum út af honum og því máli öllu.

Því úrræði, sem af hálfu framsóknarmanna hefur verið bent á, hefur verið fundið það til foráttu, að með því sé verið að innleiða nýtt uppbótakerfi, Sú mótbára er vitaskuld alveg haldlaus og út í hött, þegar þess er gætt, að einmitt nú ver hæstv. ríkisstj. mörg hundruð millj. kr. í uppbætur í einni eða annarri mynd, t.d. í útflutningsuppbætur og niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum og til greiðslu vátryggingariðgjalda skipa o.fl., o.fl., þannig að það er algert öfugmæli, þegar verið er að segja það og reyna að halda því fram, að uppbótakerfið hafi verið afnumið nú. Ég er ekki talsmaður uppbótakerfis, en ég álít, að það sé ekki hægt að tala um neitt uppbótakerfi, þó að gripið hefði verið til þess ráðs s.l. sumar til þess að leysa viðkvæma og hættulega deilu, að skila útgerðarmönnum nokkru aftur af því fé, sem af þeim hafði áður verið tekið í raun og veru.

Ég skal svo ekki fjölyrða miklu meira um þetta mál, en þó ætla ég aðeins að víkja að því, að um þessi mál, gerðardóminn og gerðardómslögin, hefur talsvert mikið verið skrifað í dagblöðin hér, svo sem vonlegt er, þ. á m. í málgagn hæstv. sjútvmrh., Alþýðublaðið. Þau skrif Alþýðublaðsins eru á þá lund, að naumast verður af þeim önnur ályktun dregin en Alþfl. hafi verið og sé andstæður gerðardómnum. Þessi skrif blaðsins hafa leitt til þess, að margir, sem þetta hafa lesið, hafa spurt menn að því: Hvernig var þetta, setti Emil ekki lögin? — Jú, maður hefur orðið að svara því, að hæstv. sjútvmrh. hafi verið sá, sem setti þessi gerðardómslög. En það er líka stundum eins og látið liggja að því í Alþýðublaðinu, í skrifum þess um þessi mál, að hæstv. sjútvmrh. hafi nánast sett þessi lög eins og embættismaður, en ekki sem Alþýðuflokksmaður, og jafnvel að manni skilst, að þm. flokksins séu alls ekki samþykkir þessari leið, sem valin er. Þessi skrif Alþýðublaðsins og raunar samþykktir, sem komið hafa frá samtökum, sem Alþýðuflokksmenn standa fyrir eða eiga drjúg ítök í, gefa tilefni til þess að spyrja beinlínis að því, hvort þingmeirihl. hafi fyrir fram verið tryggður með útgáfu þessara brbl. Var það borið áður undir t.d. þingmenn Alþfl., hvort gripið skyldi til þessa ráðs eða ekki? Það væri ákaflega æskilegt, að það væru gefin skýr svör við því, hvort svo hefur verið eða ekki. Og sannleikurinn er sá, þegar skyggnzt er til baka og litið til fortíðar Alþfl., þá getur manni virzt það næsta ótrúlegt, að Alþfl.-þingmenn hafi verið sammála þessari leið, sem valin var, því að lengi vel var gerðardómur mikið bannorð á þeirra vörum. Og það var eins og hv. síðasti ræðumaður greindi frá, að m.a. olli það einum tvisvar sinnum stjórnarslitum, þar sem ráðh. Alþfl. fór úr ríkisstj., af því að gripið var til gerðardómslaga. En tímarnir breytast og mennirnir með. Það eru komnir nýir menn, og þeir geta haft til þessa önnur viðhorf. En þá er æskilegt að fá það upplýst, svo að menn geti borið það saman við fyrri afstöðu flokksins.

Eins og þegar hefur verið tekið fram, er gildistími þessara laga í sjálfu sér úti. Tilefni það, sem olli því, að þessi brbl. voru sett á sínum tíma, er liðið hjá. Brbl. hafa því gegnt sínu hlutverki, og það, sem gert hefur verið skv. þeim, verður ekki aftur tekið. Þessi brbl. eru því hér fram lögð skv. stjórnarskrárboði. En með því að bjóða framlagningu brbl. fyrir næsta Alþingi, þó að svo standi á sem hér, er stjórnarskráin í raun og veru að bjóða það, að kannað skuli, hvort þingið vilji veita stjórninni syndakvittun fyrir útgáfu brbl. Þegar framlagning á sér stað, þegar svo stendur á sem hér, þá er í raun og veru ekki verið að spyrja um annað en þetta. Þetta mál hefur þess vegna í sjálfu sér ekkert að gera í neinni nefnd. Nefnd getur ekkert gert við það. Þetta er búið mál og gert, og það eina, sem þingið hefur í raun og veru um þetta að segja, er, hvort það vill veita stjórninni syndakvittun fyrir útgáfu þessara brbl. Þá syndakvittun vilja framsóknarmenn ekki gefa.