08.11.1962
Efri deild: 14. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í C-deild Alþingistíðinda. (2218)

75. mál, lausn á síldveiðideilunni sumarið 1962

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það er í sjálfu sér þýðingarlítið að fjölyrða um þetta mál, úr því sem komið er, a.m.k. í einstökum atriðum. Það, sem er aðalatriðið í því, eins og ég hef áður sagt, er að taka prinsip-afstöðu til málsins. Hins vegar er það náttúrlega ekki rétt, sem hæstv. sjútvmrh. hafði hér áðan eftir mér og hv. 5. þm. Norðurl. e., að við hefðum sagt, að það skipti eiginlega engu máli, hvort Alþingi samþykkti þetta frv. eða synjaði um samþykkt. Það, sem ég sagði, var, að úr því sem komið væri, hefði það í raun og veru enga þýðingu að fjalla um þetta mál í nefnd, heldur hitt, að þingið tæki greinilega afstöðu til málsins og léti í ljós, hvort það vildi leggja blessun sína yfir gerðir ríkisstj. í þessu máli eða ekki. En einmitt af þessum ástæðum, að það er þetta atriði eitt, sem skiptir máli, úr því sem komið er, sé ég ekki ástæðu til að elta svo mjög ólar við einstakar aths., sem hafa komið fram í ræðum hv. fyrirsvarsmanna þessa máls, enda var í sjálfu sér lítið, sem kom fram í þeim ræðum, sem gefur mér beint tilefni til andsvara.

Það er þó alger misskilningur hjá hæstv. ráðh. og þó öllu heldur útúrsnúningur, þegar hann vildi halda því fram, að í minni ræðu hefði falizt, að það ætti eiginlega alltaf að verða við öllum kauphækkunarkröfum af hálfu launþega, en bæta svo vinnuveitendum það bara upp úr opinberum sjóði, sem þeir þyrftu á að halda til þess að geta staðið undir því kaupi. Það er náttúrlega fjarri öllum sanni, að slíkt hafi falizt í minni ræðu. Í fyrsta lagi var nú og er aðeins um þessa sérstöku síldveiðideilu að tefla. Og í öðru lagi var þar ekki um neinar kauphækkunarkröfur af hálfu sjómanna að ræða, heldur má segja, að það hafi verið um það að ræða, að gerðar væru á hendur þeim kauplækkunarkröfur, og ég vil meina, að það sé tvennt ólíkt, hvernig á stendur að því leyti til. Það og það eitt sagði ég, að ég hefði talið það eftir atvikum réttlætanlegt að leysa þessa deilu með því að leggja nokkuð fram af opinberri hálfu til þess að koma í veg fyrir áframhaldandi stöðvun síldveiðiflotans fyrir Norður- og Austurlandi. Og ég benti á í því sambandi, að sanngjarnt hefði verið, að skilað hefði verið aftur nokkru af því, sem af útgerðinni var tekið sumarið 1961. Hæstv. ráðh. svaraði því til, að þeirri upphæð, sem þá var gerð upptæk, hefði þegar verið búið að ráðstafa. Það er að vísu rétt, að það var búið að ráðstafa henni, en ekki á þann hátt, að það væri ekki hægt að breyta þeim ráðstöfunum með nýrri lagasetningu. Það veit hæstv. ráðh., að það var ekki búið að eyða öllum þeim sjóði, þannig að það var hægt, ef vilji hefði verið til þess á s.l. sumri, að ráðstafa nokkru fé úr honum til þess að liðka fyrir lausn þessarar deilu. Ég skal ekkert segja um það, hve mikið fé hefði þurft til þess. Ég hugsa þó, að það hefði ekki verið nein ofboðsleg upphæð, a.m.k. ekki miðað við þá upphæð, sem upptæk var gerð.

Ég hef hins vegar aldrei haldið því fram, að það ætti að leysa launadeilur þannig almennt, heldur aðeins þetta, að ég taldi rétt að grípa til þessa úrræðis s.l. sumar, þegar svona sérstaklega stóð á, til þess að greiða fyrir bráðabirgðalausn þeirrar mikilvægu deilu. Og ég skal benda á atriði því til rökstuðnings, að ég taldi þetta sérstaklega réttlætanlegt. Það er rétt og verður ekki nógsamlega lögð áherzla á það, að síldveiðideilan s.l. sumar var ákaflega alvarlegs eðlis og að hún hafði í för með sér milljónatap á degi hverjum, og eins og hæstv. ráðh. sagði alveg réttilega ekki aðeins fyrir deiluaðilana sjálfa, heldur fyrir þjóðina í heild — og ég vil bæta við: beinlínis fyrir sjálfan ríkissjóðinn. Sjálfur ríkissjóðurinn mundi hafa stórlega hagnazt á hverjum degi, sem síldveiðideilan hefði staðið skemur. Þess vegna og einmitt þess vegna var það sérstaklega réttlætanlegt eftir atvikum að verja nokkru fé úr opinberum sjóði til að koma síldveiðiflotanum af stað, þegar um svo þýðingarmikinn framleiðsluatvinnuveg var að tefla eins og síldveiðarnar.

Það er ekki heldur svo, að þetta sé nokkuð nýtt í sjálfu sér, að fé sé varið af opinberri hálfu til að greiða þannig fyrir þvílíkri deilu eða hliðstæðri deilu þessari. Hæstv. ráðh. lagði á það áherzlu í sinni frumræðu, að í raun og veru hefði ekki verið hægt að leysa síldveiðideiluna með öðrum hætti en þeim, sem gripið var til. Hins vegar virtist mér hann vera horfinn frá því og vildi ekki neita því, að það hefði verið hægt að leysa deiluna eða greiða eitthvað fyrir lausn hennar, ef fé hefði verið veitt til þess. En hins vegar hafði hann það eitt á móti því, að það væri ekki réttlætanlegt að grípa til fjár í því skyni.

En ég skal svo bæta því við auk þess, sem ég þegar hef sagt um réttmæti þess að verja nokkru fé af opinberri hálfu til þess að greiða fyrir lausn þessarar alvarlegu deilu vegna einmitt þess tjóns, sem ríkissjóður hafði af því að láta hana standa, og vegna þess einmitt, að gerð hafði verið upptæk hjá þessum sömu aðilum mjög veruleg upphæð sumarið 1961, þá skal ég enn bæta við alveg sérstökum ástæðum, sem geri það sérstaklega réttlætanlegt að horfa til þarfa síldveiðimanna á Norður- og Austurlandi í þessu sambandi. En þá verður að skyggnast nokkuð lengra aftur í tímann og minnast þess, hvernig með þá menn var farið skv. lögunum um útflutningssjóð á sínum tíma, þegar útflutningsuppbætur voru greiddar á svo að segja allar fiskafurðir utan síldveiðiafurðir skv. l. frá 1956. Og skv. l. frá 1958 voru greiddar almennar uppbætur á útflutningsvörur 80%, á síld annar.s staðar en af Norður- og Austurlandi 70%, en á útflutta síld af Norður- og Austurlandi 55%. Það er þess vegna vissulega ekki ofmælt, að síldarframleiðendur á Norður- og Austurlandi eigi a.m.k. nokkra siðferðilega kröfu á hendur ríkissjóði, því að með þessum aðgerðum var þeim sýndur mikill ójöfnuður, og af þeirra hálfu er litið á þetta sem hreint ranglæti. Einmitt þetta var alveg sérstök ástæða til þess að greiða fyrir lausn þessarar síldveiðideilu s.l. sumar með því að verja nokkurri fjárhæð úr opinberum sjóði til að koma síldveiðiflotanum af stað.

Eins og ég sagði áðan, ætla ég annars ekki að fjölyrða um málið, af því að ég sé ekki ástæðu til að fara að svara einstökum atriðum í ræðum þeirra hæstv. ráðh. og 9. landsk. Þó voru einstaka atriði í þeim, sem vægast sagt voru dálítið einkennilegar röksemdir, eins og t.d. sú röksemd hjá hv. 9. landsk. þm., sem hæstv. ráðh. tók líka undir og gerði að sinni, að þess yrði að gæta, að ef kjör síldarsjómanna hefðu ekki verið skert, þá hefðu þeir fengið hærri skatta og hærri útsvör en ella. Þetta er svo laukrétt, að því verður náttúrlega ekki mótmælt. En mundi nú nokkur vilja lækka sitt kaup fyrir það eitt, að hann vissi, að hann mundi fá eitthvað lægri útsvör og eitthvað lægri skatta? Ég held, að það sé erfitt að finna slíka menn, og ég verð að segja það, að þessi röksemd er harla léttvæg.

Eins verð ég að segja, að það eru skrýtnar röksemdir og nánast orðaleikur hjá hæstv. ráðh., þegar hann er að halda því fram, að kaup eða kjör síldveiðisjómanna hafi í raun og veru ekki verið skert, það hafi aðeins verið skiptaprósentan, sem var breytt. Ég get ekki séð, að það sé rétt að reikna þetta út eins og hann gerir og segja sem svo, að úr því að það veiddist nú svona ljómandi vel s.l. sumar, þá fór það nú svo, að þeir höfðu hærra þrátt fyrir skerðinguna heldur en þeir höfðu áður haft. Það er náttúrlega sízt af öllu gerðardómnum að þakka eða hans niðurstöðu, að það veiddist svo vel s.l. sumar, og vel má vera, að þegar á heildina er litið, hafi meðalhlutur, upphæð, sem sjómenn fengu í hlut, verið hærri en áður. En ef skiptaprósentunni hefði ekki verið breytt, hefðu þeir vitaskuld fengið þeim mun hærri hlut s.l. sumar.

Það, sem má segja að merkast hafi komið fram í þessum umr., er í raun og veru yfirlýsing hæstv. ráðh., formanns Alþfl., um almenna stefnu Alþfl. í kjaramálum nú, þar sem hann lýsti því yfir, — eða ég gat a.m.k. ekki skilið hans mál á aðra lund en þá, — að það væri stefna Alþfl. nú að fylgja gerðardómsleið til lausnar í kjaradeilum. Að vísu sagði hæstv. ráðh., að fyrst yrði að reyna frjálsa samninga, og ég er honum alveg sammála um það. Og það, sem hann lagði út af í minni ræðu í því sambandi, var nokkuð misskilið, en ég nenni ekki að elta ólar við það. En hann sagði, hæstv. ráðh., að það væri beinlínis stefna Alþfl. nú, það hefði orðið stefnubreyting hjá Alþfl. í þessu efni. Og hann tók það alveg skýrt fram, að Alþýðublaðið, málgagn Alþfl., hefði ekki fundið að setningu gerðardómslaganna, það væri ekki á móti gerðardómsleið, heldur hefði þar aðeins verið fundið að þeirri niðurstöðu, sem gerðardómurinn komst að. Það er að sjálfsögðu ekki sama, með hverjum hætti gerðardómar eru settir, hvort þeir eru settir skv. óskum deiluaðila eða ekki. Þess vegna er t.d. kjaradómurinn, sem er í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, ekki sambærilegur við þennan gerðardóm, sem hér er um að ræða, vegna þess að kjaradómurinn byggist þar á samkomulagi deiluaðila, opinberra starfsmanna og ríkisvaldsins. Það hefur vitaskuld enginn á móti því, að þess úrræðis sé leitað til lausnar á deilu, þegar aðilar eru sammála um þá leið. En það eitt fólst ekki í yfirlýsingu hæstv. ráðh., að Alþfl. væri inni á gerðardómsleið, þegar svo stæði á, heldur væri hann inni á gerðardómsleið almennt, án tillits til þess, hvort deiluaðilar vildu fallast á þá leið eða ekki. Eftir þessa yfirlýsingu verður ekki villzt um það, sem raunar var vitað og hefur líka komið fram hér í umr., þar sem þeir tveir, sem gerzt hafa hér til þess sérstaklega að verja gerðir ríkisstj. í þessu máli, hæstv. ráðh. og 9. landsk., eru úr Alþfl., að það er einmitt Alþfl., sem alveg sérstaklega hefur beitt sér fyrir þessari lausn og ber á henni höfuðábyrgð.