18.02.1963
Neðri deild: 42. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í C-deild Alþingistíðinda. (2237)

110. mál, fullnusta norrænna refsidóma

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem að efni til var samþ. óbreytt í Ed., einungis gerð lítilsháttar orðabreyting á útlendum heitum, sem þar eru nefnd, er samhljóða að efni sams konar frv. á hinum Norðurlöndunum. Það hafði alllengi verið undirbúið af hálfu ríkisstj. hinna Norðurlandanna fjögurra að koma á slíkri löggjöf sín á milli. Málið var tekið fyrir á dómsmálaráðherrafundi í Osló í janúar í fyrra, og bar ég þá ósk fram um, að Ísland yrði einnig aðili þess samkomulags, sem raunverulega felst í frv.

Ég tel, að málið hafi ef til vill ekki ýkjamikla raunhæfa þýðingu fyrir Ísland, að við þurfum ekki að setja marga erlenda ríkisborgara í fangelsi hér skv. þessu frv., né sennilegt, að Íslendingar verði settir í fangelsi erlendis fyrir þessi lagaboð. En því meiri fræðilega þýðingu má segja að málið hafi. Þetta er í fyrsta skipti, sem sjálfstæð ríki viðurkenna dómsúrskurði eða dóma annarra ríkja með þeim hætti, að þeir eigi að verða milliliðalaust undirstaða frelsissviptingar þeirra eigin þegna í öðrum löndum. Frv. sýnir því mikið gagnkvæmt traust aðilanna á réttaröryggi hinna ríkjanna. Og það er mikilsvert fyrir okkur Íslendinga að njóta þeirrar viðurkenningar frá okkar frændþjóðum, sem í þessu felst, þó að málið væntanlega hafi ekki ýkjamikla raunhæfa þýðingu, eins og ég sagði, enda er bezt að játa það, að fangelsi okkar eru því miður ekki í svo góðu lagi, að við getum nú tekið marga aukamenn til vörzlu í þeim.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um málið. Ég legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. allshn. Ég legg áherzlu á, að málið verði afgreitt á þessu þingi, en ég hygg, að það verði betra að doka með fullnaðarafgreiðslu fram undir þinglok til þess að sjá, hvernig fer með afgreiðslu sams konar frv. í hinum Norðurlöndunum, því að ætlunin hafði verið, að það væri nokkurt samflot haft um meðferð málsins í öllum fimm löndunum. Það er óeðlilegt, að við verðum fyrstir með samþykkt málsins, en að sjálfsögðu er þó rétt að afgreiða það, áður en þingi lýkur. Þetta vildi ég biðja hv. n. um að athuga og fylgjast þá einnig með því, hvernig gengur með afgreiðslu í hinum Norðurlöndunum. Dómsmrn. og utanrrn. gætu orðið hjálpleg n. um að afla þeirra upplýsinga.