26.03.1963
Efri deild: 62. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í C-deild Alþingistíðinda. (2240)

218. mál, ferðamál

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. því, sem hér er til umr., var útbýtt hér í hv. d. í gær og er nokkuð síðbúið. En þar sem ætla má, að hér sé ekki um mál að ræða, sem skoðanir manna séu skiptar um, mætti samt ætla, að það gæti náð fram að ganga á þessu þingi, og tel ég, að það skipti nokkru máli, hvort það tekst nú eða hvort það þarf að dragast.

Frv. þetta miðar að því að greiða fyrir, að Ísland geti orðið ferðamannaland í ríkari mæli en verið hefur.

I. kafli frv. er um almennar ferðaskrifstofur, II. kafli um ferðamálaráð, og er gert ráð fyrir, að skipað sé 8 manna ferðamálaráð, sem geri till. til ráðh. um ýmislegt það, er varðar ferðamál. Gert er ráð fyrir, að ferðamálaráð verði ólaunað. III. kafli er um Ferðaskrifstofu ríkisins, IV. kafli um ferðamálasjóð og V. kafli um ýmis ákvæði.

Helzta atriðið í þessu frv. er það, að einkaréttur Ferðaskrifstofu ríkisins er afnuminn með þessu frv. og gert ráð fyrir því, að aðrar ferðaskrifstofur geti starfað á sama vettvangi og Ferðaskrifstofa ríkisins hefur gert. Er gert ráð fyrir því, að með því að rýmka um þetta geti orðið meiri fyrirgreiðsla af hendi ferðaskrifstofanna í landinu en verið hefur, en eins og kunnugt er, hafa verið hér starfandi nokkrar ferðaskrifstofur. Starfsemi þeirra hefur miðazt við það að koma fólki úr landi, Íslendingum, til þess að ferðast erlendis, en ekki að laða erlenda ferðamenn hingað. Strangar kröfur verða gerðar til þeirra, sem setja upp ferðaskrifstofur. Þeir verða að setja tryggingarfé, og þeir verða að uppfylla viss skilyrði um hæfni til þess að fá þau réttindi að veita ferðaskrifstofu forstöðu. Þá er það og nýmæli, að gert er ráð fyrir föstu framlagi til landkynningar, sem verði notað eftir till. ferðamálaráðs, eftir því sem rn. telur heppilegt. Þessi landkynning getur farið fram eftir ýmsum hætti, með því að gefa út pésa til kynningar fyrir ferðamenn og með öðrum hætti, eftir því sem hentugt þykir. Þá er gert ráð fyrir, að unnið verði að því að hagnýta skóla til dvalar fyrir gesti og taka upp hótelrekstur þar að sumrinu til með samþykki ráðh. Enginn vafi er á því, að með góðu samkomulagi við forstöðumenn skólanna mætti hafa mikil not af þeim fyrir ferðamenn yfir sumarið, en eins og kunnugt er, þá er hér gistihúsaskortur, ef um það væri að ræða, að ferðamannastraumur beindist til landsins í auknum mæli frá því, sem verið hefur. Og þá er gert ráð fyrir náinni samvinnu milli ferðaskrifstofanna og ferðamálaráðs og gert ráð fyrir, að ferðamálaráð beiti sér fyrir því að stofna ferðamálafélög og vinna á annan hátt að aukinni kynningarstarfsemi og áhuga erlendra manna á því að heimsækja Ísland. En þetta er vitanlega ekki þýðingarlítið atriði, að Ísland geti orðið ferðamannaland fram yfir það, sem verið hefur. Við vitum, að ferðamenn skilja eftir mikinn gjaldeyri í landinu og sú starfsemi, sem miðar að því að veita ferðamönnum greiða, borgar sig ekki síður en margt annað, sem við önnumst í ýmsum atvinnugreinum. Ferðaskrifstofa ríkisins mun starfa með svipuðum hætti og aðrar ferðaskrifstofur. Hún er laus við það að setja tryggingarfé, enda er hún ekki prívataðili, starfar á vegum ríkisins, og þess vegna er ekki um það að ræða. Gert er ráð fyrir því að stofna ferðamálasjóð, en hlutverk hans er að stuðla að byggingu gisti- og veitingahúsa og greiða fyrir því, að gistihúsakostur verði aukinn. Gert er ráð fyrir, að árlegt framlag í ferðamálasjóð verði 1 millj. kr., en ferðamálasjóður hefur einnig heimild til lántöku til að greiða fyrir byggingu gisti- og veitingahúsa.

Ég veit ekki, hvort ástæða er til að fjölyrða meira um frv. Það er nákvæm og skýr grg., sem fylgir, sem segir alveg um það, hvernig ætlazt er til, að þessi lög nái tilgangi sínum. Ég held, að það sé enginn vafi á því, að frv., eins og það er úr garði gert, miðar í rétta átt. Það er samið af n., sem var skipuð á s.l. ári, og í n. áttu sæti Brynjólfur Ingólfsson ráðuneytisstjóri, sem var formaður, Sigurður Bjarnason alþm. og Þorleifur Þórðarson forstjóri Ferðaskrifstofu ríkisins. N. leitaði upplýsinga hjá öllum þeim aðilum, sem hugsanlegt var, að gætu gefið ráðleggingar í þessu efni, og samkomulag varð innan n. um öll aðalatriðin.

Það er eins og kunnugt er, að Ferðaskrifstofa ríkisins hefur haft einkaaðstöðu hér, og væri því ekkert óeðlilegt, þótt forstjóri Ferðaskrifstofunnar hefði haft tilhneigingu til þess að hafa þennan einkarétt áfram. En það má segja honum til lofs, að hann hefur fallizt á, að þessi einkaréttur Ferðaskrifstofu ríkisins verði ekki lengur fyrir hendi, og það er vitanlega miklu síður ástæða til þess nú en kannske var í byrjun, því að nú hefur margt breytzt, og það má ætla, að starfsemin aukist mjög frá því, sem verið hefur. Við vitum, að ferðamannastraumurinn hefur aukizt til landsins þrátt fyrir slæm skilyrði til að taka á móti erlendum ferðamönnum, og því verður ekki neitað, að það hlýtur að verða meiri landkynning og meira gert til að laða ferðamenn til landsins og kynna landið, ef það eru fleiri aðilar, sem vilja við þetta fást, heldur en einn. Og án þess að vanþakka nokkuð starfsemi Ferðaskrifstofu ríkisins, þá held ég, að menn geti verið sammála um það, að starfið sé nú orðið svo umfangsmikið, að það sé eðlilegt og beinlínis æskilegt, að þarna komi fleiri aðilar til en Ferðaskrifstofa ríkisins ein.

Ég held, að það sé ekki ástæða til að fara fleiri orðum um þetta mál, þar sem frv. liggur frammi ásamt glöggri grg. En ég vænti þess, að þar sem ég reikna ekki með, að þetta verði deilumál, þá megi það verða að lögum á þessu þingi, þótt það hafi komið í seinna lagi fram.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. samgmn.