17.04.1963
Neðri deild: 72. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í C-deild Alþingistíðinda. (2250)

218. mál, ferðamál

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá Ed. og gekk í gegnum þá d. með aðeins örlítilli breytingu á 17. gr., sem er ekki efnisbreyting, heldur miklu frekar orðabreyting.

Frv. er samið af n., sem skipuð var 29. júní s.l. Í n. áttu sæti Brynjólfur Ingólfsson ráðuneytisstjóri, formaður, Sigurður Bjarnason ritstjóri og Þorleifur Þórðarson forstjóri Ferðaskrifstofu ríkisins.

Frv. þetta er í 4 köflum. I. kafli er um almennar ferðaskrifstofur, II. kafli um ferðamálaráð, en gert er ráð fyrir skv. frv. að stofna ferðamálaráð, sem starfi ólaunað, III. kafli um Ferðaskrifstofu ríkisins, IV. kafli um ferðamálasjóð, sem gert er ráð fyrir að stofna með þessu frv., og V. kafli ýmis ákvæði.

Það hefur lengi verið til umr., bæði hér á Alþingi og utan þings, hvernig skipa bæri ferðamálum okkar, hvað bæri að gera til þess að auka ferðamannastrauminn hingað, til þess að þjóðin gæti fengið vaxandi gjaldeyristekjur af ferðamönnum, eins og margar aðrar þjóðir hafa gert. Hér hefur starfað lengi Ferðaskrifstofa ríkisins og nú síðustu árin nokkrar aðrar ferðaskrifstofur, sem hafa þó ekki rétt til að taka á móti erlendum ferðamönnum að neinu ráði, og hefur það þótt standa nokkuð í vegi fyrir því, að erlendir ferðamenn sæktu til Íslands. Skv. þessu frv. er gert ráð fyrir, að Ferðaskrifstofa ríkisins starfi áfram, hún njóti nokkurra hlunninda, nokkurs styrks framvegis, en hún hafi jafnframt með höndum almenna leiðbeiningastarfsemi og nokkurt eftirlit með öðrum ferðaskrifstofum.

Þá er gert ráð fyrir að stofna 9 manna ferðamálaráð, sem starfi ólaunað, og skal formaður þess vera skipaður án tilnefningar, en eftirtaldir aðilar tilnefni einn mann hver: Eimskipafélag Íslands, Félag sérleyfishafa, Ferðafélag Íslands, Flugfélag Íslands h.f., Loftleiðir h.f., Ferðaskrifstofa ríkisins, Samband veitinga- og gistihúsaeigenda, Landssamband íslenzkra ferðaskrifstofa. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt í ferðamálaráð. Gert er ráð fyrir, að ferðamálaráð geti verið ráðgefandi og leiðbeinandi í ýmsum atriðum hvað ferðamál snertir.

Um Ferðaskrifstofu ríkisins er fátt að segja annað en hún starfar áfram á svipaðan hátt og verið hefur, nýtur nokkurs styrks, en er ætlað skv. 17. gr. þessa frv. að hafa almennt eftirlit með ferðamálastarfseminni.

Þá er hér nýmæli. Það er IV. kafli, um ferðamálasjóð. Hlutverk ferðamálasjóðs er að stuðla að byggingu veitinga- og gistihúsa í landinu og bæta þannig skilyrði til að veita bæði innlendu og erlendu fólki sem beztar móttökur og aðbúð. Þá er gert ráð fyrir, að greiða skuli árlega úr ríkissjóði framlag til ferðamálasjóðs, eigi lægri upphæð en 1 millj. kr. Þess skal geta, að gert er ráð fyrir, að ferðamálasjóður fái á þessu ári 3 millj. kr. skv. fjáröflunaráætlun ríkisstj., eins og hv. þingmenn hafa séð að tekið er fram í þjóðhagsáætluninni. Þá er fé sjóðsins til ráðstöfunar á þessu ári 4 millj. kr., og má segja, að það sé spor í rétta átt til þess að koma af stað ýmsu, sem til bóta má verða fyrir ferðamálastarfsemina í landinu.

Þetta eru aðalatriði frv.

Þess ber að geta, að forstöðumenn fjögurra stærstu ferðaskrifstofa, sem starfandi eru í landinu, hafa sent mótmælabréf gegn þessu frv. og telja, að það muni ekki ná þeim tilgangi, sem því sé ætlað, í því formi, sem það er. Í bréfinu taka þessir forstöðumenn ekki fram, hvað það er, sem þeir finna frv. helzt til foráttu, en ég vil að þessu gefna tilefni mælast til þess við hv. samgmn., að hún athugi, hvað það er, sem forstöðumenn ferðaskrifstofanna hafa sérstaklega við frv. að athuga, hvaða breyt. þeir vilja gera, og mér finnst sjálfsagt að hlusta á þessa aðila, ef þeir hafa rök fram að færa, og ég vil sérstaklega vekja athygli á þessu við n.

Annað hef ég ekki um þetta mál að segja. Ég hef talið, að þetta frv. væri að ýmsu leyti til bóta frá því, sem verið hefur. Og hvað ferðamálasjóð snertir, þá er það algert nýmæli og raunverulega fyrsta sporið, sem stigið er í áttina til þess að bæta úr veitinga- og gistihúsaskorti, sem er í landinu. Og það eru vitanlega léttvæg rök, sem stundum hafa komið fram, að það væri Ferðaskrifstofa ríkisins, hversu lítið hún hefði látið að sér kveða, sem hafi staðið í vegi fyrir auknum ferðamannastraumi til landsins. Ég hygg, að það sé ekki síður og miklu fremur það, að vantað hefur aðstöðu til að taka á móti ferðamönnum, en þetta frv. er stórt spor í áttina til þess, að það geti orðið. Eigi að síður finnst mér sjálfsagt að kanna til hlítar, hvað það er, sem forstöðumenn annarra ferðaskrifstofa hafa fram að bera til breytingar á þessu máli, því að óneitanlega hafa ýmsir af þessum mönnum talsverða reynslu í því að taka á móti ferðamönnum, og það mætti vera, að þeir hefðu brtt. við frv., sem gætu verið til bóta, og þá er sjálfsagt að taka tillit til þess.

Ég legg svo til, að frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til hv. samgmn.