27.11.1962
Neðri deild: 22. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í C-deild Alþingistíðinda. (2304)

67. mál, Kvikmyndastofnun ríkisins

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. er í raun og veru um þjóðnýtingu á kvikmyndahúsum landsins stig af stigi og einnig um það, að val á öllum þeim kvikmyndum, sem teknar eru til flutnings hér á landi, skuli framkvæmt af Kvikmyndastofnun ríkisins, sem lúti yfirstjórn menntmrn. Það má náttúrlega orða það þannig, að efni þess sé tvíþætt: Í fyrsta lagi um, að allur innflutningur kvikmynda sé undir sérstakri stjórn, er lúti menntmrn. og ráði vali allra kvikmynda, sem inn eru fluttar, og í annan stað um þjóðnýtingu á kvikmyndahúsunum, þ.e.a.s. fyrst og fremst þeim, sem nú eru í einkarekstri, en ekki opinberum rekstri eða hálfopinberum rekstri.

Menn greinir nokkuð á um, hvaða rekstrarform ætti að velja kvikmyndahúsarekstrinum. Sumir, vafalaust nokkuð margir, eru þeirrar skoðunar, að kvikmyndahús eigi að vera í einkarekstri og markmiðið eigi að vera gróði einstaklingsins. En aðrir hafa hneigzt að því, að heppilegra væri, að kvikmyndahúsareksturinn væri í höndum bæjarfélaganna, því að með því móti væri hægt að verja kvikmyndahúsaágóðanum til ýmissa gagnlegra hluta, t.d. standa undir rekstri elliheimilis, bera uppi halla af sjúkrahúsrekstri eða til að standa undir útgjöldum við gatnagerð eða klóakgerð eða vatnsveitur eða hverjum öðrum útgjöldum bæjarfélagsins sem væri, og þannig sé það unnið við þetta rekstrarform, að gróði kvikmyndahúsanna lendi ekki í vasa eins manns, heldur komi samfélaginu, bæjarfélaginu til góða. Ég játa, að það að taka kvikmyndahúsin úr einkarekstri og í bæjarrekstur hefur í för með sér nokkurn ávinning og ætti einnig nokkuð að stuðla að því, að stjórnendur kvikmyndahúss í bæjarrekstri legðu jafnvel meiri áherzlu á það en hægt er að ætlast til af einstaklingum, sem reka það í gróðaskyni, eiginhagsmunaskyni, að menningarlegt gildi þeirra kvikmynda, sem bæjarrekið kvikmyndahús velur, sé af hærri gráðu, ef svo mætti segja, heldur en mynd, sem eingöngu er valin til að plægja inn peninga. En ég er þó þeirrar skoðunar, og nokkrir aðrir í þjóðfélaginu munu einnig vera þeirrar skoðunar, að langeðlilegast sé og siðsamlegast og þjóðfélaginu hollast, að kvikmyndahúsareksturinn sé hvorki í einkarekstri né heldur bæjarrekstri, heldur eigi hann að vera í rekstri þjóðfélagsins í heild.

Sá ókostur við einkarekstur kvikmyndahúsa er auk þess, sem ég hef nú drepið á, að líklegt er, að hann leggi ekki mikið upp úr menningarlegu gildi kvikmynda, heldur miklu fremur, hversu líkleg myndin, sem hann ætlar að velja til sýningar í sínu kvikmyndahúsi, sé til að gefa mikla peninga í kassann, vera gott kassastykki, einnig séu líkur til þess, að einstaklingurinn, sem rekur kvikmyndahús, leggi ekki mjög strangt mat á menningarlegt gildi þeirra kvikmynda. Hans tilgangur er annar, og það er eðlilegt, að hann láti myndaval sitt þjóna þeim tilgangi að fá peninga úr rekstrinum. Ég tel, að ef Kvikmyndastofnun ríkisins, eins og hér er gert ráð fyrir, tekur til starfa og kvikmyndaráð á að velja kvikmyndir fyrir öll kvikmyndahús landsins og þá alveg sérstaklega með tilliti til menningarlegs gildis þeirra, þá væri menningarlegri hlið þessa menningartækis og þessa rekstrar í þjóðfélaginu miklu betur borgið. Ég hygg, að það yrðu allt öðruvísi kvikmyndir, sem við fyrst og fremst fengjum til sýningar í landinu.

Í annan stað er það svo ljóður á fyrirkomulagi einkarekstrar í þessu tilliti, að það er ekkert óeðlilegt, að einstaklingar, sem reka kvikmyndahús í gróðaskyni, geri það fyrst og fremst í fjölmennustu kaupstöðum landsins, þar sem gróðavon er af slíkum rekstri, en fari ekki að stofna til kvikmyndarekstrar úti um smáþorpin og við sveitirnar, þar sem kvikmyndin sem menningartæki á þó vitanlega alveg eins brýnt erindi og í fjölmenni. Þannig hefur líka reynslan orðið. Kvikmyndahús hafa verið reist mörg í stórum kaupstöðum og yfirleitt alls staðar þar, sem gróðamöguleiki var við það bundinn að reka kvikmyndahús, en úti um sveitirnar hafa fáir gerzt til þess, enda varla von. Það þjónaði ekki neinum tilgangi að fara að reka kvikmyndahús úti um sveitirnar, því að það vissu allir, að það gaf ekki arð.

Ég tel, að sá meginkostur fylgdi ríkisrekstri í þessu tilliti, að sá aðilinn, sem fengi gróðann af kvikmyndahúsarekstri í kaupstöðunum, stæðist vel við og teldi það líka skyldu sína að verja nokkru af þessum gróða til að reka kvikmyndahús í fámenninu, þar sem yrði að gefa með þessum rekstri, og þannig væri betur hægt að tryggja með þessu rekstrarformi, að það menningarlega gildi, sá fræðslumöguleiki og sá menningarmöguleiki, sem gæti fylgt kvikmyndarekstri, bærist til landsfólksins alls, jafnt í sveitum, kauptúnum og bæjum, án tillits til þess, hvar fjölmennið væri mest og gróðamöguleikarnir mestir.

Ég hef nú dvalið nokkuð við þessa tvo meginþætti frv., sem sé að gera innflutning kvikmyndanna ríkisrekinn af stjórn, sem lúti beint menntmrn. og eigi að sjá um menningarlegt gildi þeirra kvikmynda, sem sýndar eru, og enn fremur, að kvikmyndahúsin, sem nú eru í landinu, verði smám saman gerð að ríkiseign og rekin af Kvikmyndastofnun ríkisins og henni skuli vera skylt að koma upp kvikmyndahúsarekstri sem víðast um landið. Með þessu tvennu tel ég, að þetta væri unnið, að menningarlegt gildi kvikmynda væri betur tryggt en nú er, þegar gróðasjónarmið hlýtur að ráða vali að verulegu leyti, hversu ágætir menn sem þar fjalla um annars, og í annan stað, að kvikmyndirnar flyttu sinn boðskap ekki bara til fólksins í fjölmennustu kaupstöðunum, heldur einnig til fólks í fámennustu kauptúnunum og úti um sveitir. Og þangað tel ég, að áhrif kvikmyndanna eigi að ná engu síður, og það eigi aðeins að tryggja það, að það séu menningarleg áhrif, en ekki áhrif ómenningar, sem með þeim berist.

Viðhorfið til kvikmyndanna virðist hjá ýmsum hafa verið það, að þetta sé eiginlega menningarleg plága, sem eigi að torvelda fólki að verða fyrir spillandi áhrifum af. Til þess bendir, að ákveðinn er allhár skattur af sýningum kvikmynda, og búið er nú að leggja ég held 200, ef ekki 300% álag á þann skatt, og menn segja: Það gerir ekkert til með svona skattlagningu, það dregur þá eitthvað úr kvikmyndahúsarápi fólksins, sérstaklega unga fólksins. — Þetta virðist vera mjög svipað hugsað og það, að það er ekki litið óhýru auga af mönnum, sem eru eindregnir andstæðingar vínnautnar,, að segja: Það færi betur, að Alþingi hækkaði enn skattana á áfengi og tóbaki, því að það kynni þá heldur að draga úr því, að fólk legði sér þessi eiturlyf til munns. — En ég held, að það sé algerlega ranglega litið á gildi kvikmyndarinnar og menningarlegan mátt hennar, ef rétt er á haldið, út frá þessu viðhorfi. Ég held, að menn verði að gera sér það ljóst, að kvikmyndin er menningartæki ekki síður en bókin, uppfinning kvikmyndanna er svipaður menningarlegur atburður og þegar prentlistin var fundin upp. Og það er góðra og gáfaðra manna að finna svo út aðferðir til þess, að áhrifin verði til menningarauka og blessunar og fræðslu, en ekki til ómenningar og niðurdreps og bölvunar. En ég játa, að það er vitanlega hægt að velja slíkt úrhrak kvikmynda, að þær tvímælalaust verði til þess að draga menningu þeirra, sem á horfa, niður á við, jafnvel niður í svaðið. Og það hefur viljað brenna við, því miður, vegna þess að ekki aðeins rekstur kvikmyndahúsa hefur verið gerður að tæki til blindrar gróðaöflunar, heldur hefur kvikmyndatæknin í höfuðkvikmyndaverum heimsins fyrst og fremst verið gerð að gróðamyllu fyrir auðkýfinga og auðvaldssamtök og þannig frá grunni þessu öllu saman verið stjórnað með tilliti til gróða, en ekki menningar.

Það er rétt, að nú eru risin kvikmyndahús í landinu. Það eru dýr mannvirki, og það yrði að falla í hlut Kvikmyndastofnunar ríkisins að taka þessar stofnanir eignarnámi smám saman. Og ég játa, að það mundi, þótt að væri farið eins og er lagt til í þessu frv., að við það mat kæmi einungis til greina eignarverðmæti mannvirkjanna sjálfra, en ekki aðstaða rekstrarins, þá er þarna um stórfellt eignarnám að ræða og Kvikmyndastofnun ríkisins mundi vafalaust ekki geta gert það í einu skrefi, heldur yrði það að gerast smám saman. Kæmi þá frá mínu sjónarmiði fyrst og fremst til greina að taka gróðavænlegustu kvikmyndahúsin í höfuðborg landsins eignarnámi til þess að hefjast svo í framhaldi af því handa um að koma upp kvikmyndahúsum úti um byggðir landsins af þeim gróða, sem kvikmyndastofnunin hefði þá fengið af þessum stærstu kvikmyndahúsum, sem tekin hefðu verið eignarnámi. En sú starfsemi gæti alveg tvímælalaust hafizt strax að leggja valið á öllum kvikmyndum, sem sýna ætti í íslenzkum kvikmyndahúsum, í hendur kvikmyndaráðs ríkisins, þannig að það væri ekki lengur, eftir að frv. hefði verið samþ., í höndum einstakra kvikmyndahúsaeigenda að velja kvikmyndirnar.

Hér er gert upp á milli þeirra kvikmyndahúsa, sem séu í einkaeign og hálfopinberri eign annars vegar, og a.m.k. slegið föstu, að kvikmyndahúsin, sem séu í opinberri eign, opinberum rekstri, eins og hin bæjarreknu kvikmyndahús, yrðu a.m.k. ekki lögð undir Kvikmyndastofnun ríkisins fyrst um sinn og e.t.v. aldrei og heldur ekki þau kvikmyndahús, sem eru í hálfopinberum rekstri, eins og ég mundi vilja segja að kvikmyndahús háskólans væri, þjónar þar almennu markmiði, stendur undir fjáröflun til að bera uppi starfsemi ýmissa menningarþátta eða háskólans. Virðist einmitt sú hugsun, sem ég aðhyllist, hafa hvarflað að ýmsum mönnum, sem að slíku hafa staðið að koma upp kvikmyndahúsum með þessum hætti, svo að hugsunin er þeim áreiðanlega ekki framandi.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál, — menn hafa frv. fyrir sér og ýtarlega grg., aðeins rifja upp, að nýmælin, sem helzt eru í þessu frv., eru á þessa leið: Í fyrsta lagi, að yfirstjórn menntamálanna eigi að fá yfirráð yfir öllum innflutningi kvikmynda, kvikmyndastofnun komið á fót og þessi yfirstjórn innflutnings á kvikmyndum eigi að bera ábyrgð á ákveðnu menningargildi kvikmyndanna. Í öðru lagi leiðir af þessu frv., ef það yrði samþ., að öllu því fjármagni, sem streymir gegnum kvikmyndahús landsins, verði varið til almennrar menningarstarfsemi í þjónustu allra landsmanna. Í þriðja lagi er stefnt að því með frv. að gera kvikmyndir, sem sýndar eru hér á landi, þjóðlegri, bæði með gerð íslenzkra texta við erlendar kvikmyndir og með upptöku og gerð alíslenzkra kvikmynda, og það er ekki sízt einn megintilgangur þessa máls. Þá er með frv. gert ráð fyrir, að samstarf hefjist milli kvikmyndarekstrarins og skólahaldsins í landinu. E.t.v. mundi þetta leiða til þess, að fræðslukvikmyndasafn ríkisins, sú stofnun hjá fræðslumálastjórninni, yrði einn þáttur í starfsemi Kvikmyndastofnunar ríkisins, en ekki áframhaldandi sem sérstök stofnun. Og í fimmta lagi: Á grundvelli þessarar lagasetningar yrði byggt upp samfellt kvikmyndahúsakerfi um allt land og þar með bætt úr samkomuhúsaþörf fámennari kauptúna og byggðarlaga, að svo miklu leyti sem það mál hefur ekki þegar verið leyst með félagsheimilunum, sem mjög víða mundu geta orðið kvikmyndahús viðkomandi héraðs. Og í sjötta lagi ætlast ég til, að kvikmyndahúsarekstrinum sé lögð sú skylda á herðar að styrkja og efla skyldar listgreinar, svo sem leiklist og hljómlist.

Ég vil, áður en ég lýk máli mínu, víkja aðeins örfáum orðum að þeim tilgangi, að kvikmyndastofnunin eigi að stefna að því að gera íslenzka texta, alveg sérstaklega talmálstexta, með erlendum kvikmyndum, a.m.k. öllum úrvalskvikmyndum, sem ættu að fara til sýningar fyrir gjörvallri þjóðinni úti um allt landið, og í annan stað að fara nokkrum orðum um gerð íslenzkra kvikmynda, sem yrði einn af meginþáttum í starfi kvikmyndastofnunarinnar.

Ég álít, að það hljóti að stefna til málskemmda, að unga fólkið, í hvert skipti sem það fer í kvikmyndahús, sér þar ekkert orð á íslenzku, ekkert orð á sínu móðurmáli í fylgd með kvikmyndinni, en unga fólkið gleypir í sig af áfergju hugans efni myndarinnar í fylgd með erlendum talmáls- og lesmálstexta. Ég tel, að þetta sé lítt viðunandi og úr þessu þurfi að bæta á þann veg, að ekki aðeins íslenzkir lesmálstextar, heldur einnig talmálstextar séu látnir fylgja öllum meiri háttar erlendum kvikmyndum. En til þess þarf fé. Og til þess er engin von, að atvinnurekandi, sem rekur kvikmyndahús í gróðaskyni, verji svo og svo miklu af sínum hugsanlega gróða til að þjóna menningunni á þennan hátt. Ég geri mér því litlar vonir um, að þetta nái fram að ganga, og lítið þýddi að fyrirskipa kvikmyndahúsaeigendum, sem eiga slíkar stofnanir, að þeir fái ekki að sýna, nema því aðeins að þeir láti gera íslenzkan talmáls- eða lesmálstexta með kvikmyndunum. Það mundu þeir segja að drægi mjög úr sínum gróða, og þeir mundu varla beygja sig undir það. En ríkinu væri þetta skylt, þegar það hefði tekið reksturinn að sér og hefði af honum gróðamöguleikana, að verja allverulegum hluta af sínum gróða til þess að gera kvikmyndina þannig íslenzkari og máttugra menningartæki í íslenzku þjóðfélagi. Fólk mundi áreiðanlega una því illa, ef prédikað væri á dönsku eða ensku í íslenzkum kirkjum, og hefði það áreiðanlega miklu minni málspjöll í för með sér, því að það er yfirleitt eldra fólk, sem sækir kirkjurnar, og ekki nándar nærri eins hrifnæmt og unga fólkið, sem sækir kvikmyndahúsin. Þar að auki mundi það líka teljast staðreynd, að fólkið, sem sækir kirkjurnar, er miklu færra en það, sem kvikmyndahúsin sækir, og er þarna um miklu víðtækari skemmdaráhrif að ræða frá hendi kvikmyndanna, vegna þess að íslenzkt mál fylgir þeim ekki í kvikmyndahúsunum. Þetta tel ég menningarlegan þátt í starfi kvikmyndastofnunarinnar.

En hitt mundi þá margur segja að væri enn gildari þáttur þessa frv., að af kvikmyndahúsagróðanum ætti að verja verulegu fé til þess að gera íslenzkar kvikmyndir. Það hafa verið gerðar nokkrar íslenzkar kvikmyndir, af íslenzkum skáldverkum. Saga Borgarættarinnar var kvikmynduð, en hún var að minnstu leyti kvikmynduð hér á landi. Hennar svið var valið úti í löndum að miklu leyti, og hún hefur ekki enn fengið íslenzkt tal til fylgdar við sig, enda var hún gerð fyrst og fremst til að sýna úti um heim, þó að hún hafi reynzt vinsæl kvikmynd hér, þegar hún var hér til sýnis. Er víst kopia af henni í eign eins af íslenzku kvikmyndahúsunum, sem tekur hana fram sem þögla kvikmynd við og við og lætur þá fylgja henni stundum nokkurt íslenzkt tal, þá sjaldan hún er sýnd, og hún fær alltaf góðar viðtökur hér. Stórverkið Fjalla-Eyvindur, leikrit Jóhanns Sigurjónssonar, var einnig kvikmyndað, og þeirri kvikmyndatöku var valið svið norður í Lapplandi. Þessar kvikmyndir hvorugar hafa fengið þann búnað, sem er ætlunin með þessu frv., að ekki aðeins íslenzkum, heldur einnig erlendum kvikmyndum sé látið fylgja íslenzkt tal og íslenzkt tesmál til skýringar.

Svo gerist sá atburður nú á liðnu hausti, að sett er saman kvikmynd um íslenzkt skáldverk, „79 af stöðinni“, og kvikmyndahúsagestir hafa nú séð þá kvikmynd tugþúsundum saman. Hún hefur fengið ágætar viðtökur. Og þá kom manni í hug, að að ýmsu leyti hefði þessi kvikmynd getað orðið fullkomnari og betri, ef til umráða hefði verið einhver hluti af því fjármagni, sem safnazt hefur saman við kvikmyndahúsagróðann á Íslandi á undanförnum árum og áratugum. En þarna var af vanefnum verið að gera íslenzka kvikmynd um íslenzkt skáldverk með mjög takmörkuðu fjármagni. Þess geldur myndin, og er hún þó á allan hátt góðra gjalda verð og sýnir, að hér liggur fyrir okkur mikið menningarlegt hlutverk. Og í fylgd með þessari mynd var íslenzk leiklist og íslenzk tónlist, og þess vegna hef ég það með í þessu frv., að með því að gera kvikmyndahúsareksturinn alíslenzkan og sýningu kvikmynda að meira menningartæki, þá teldi ég, að af kvikmyndahúsagróðanum, sem rynni inn til Kvikmyndastofnunar ríkisins, ætti að verja allmiklu fé til styrktar skyldum listgreinum, eins og leiklist og hljómlist, því að þetta yrði alltaf í samfylgd með íslenzkri kvikmyndagerð.

Það er og margra álit, og þeirrar skoðunar er ég einnig, að gullaldarbókmenntir Íslendinga, Íslendingasögurnar, séu kannske flestum skáldverkum, — því að skáldverk eru þær víst taldar, Íslendingasögurnar, af fræðimönnum, ef til vill er þar þó ívaf raunverulegra frásagna og skáldskapar, — séu kannske allra bókmennta bezt fallnar til kvikmyndagerðar. Íslendingasögurnar mundu bregða upp nokkurn veginn sannri menningarlegri mynd af víkingaöldinni. Og slíkar myndir ættu ekkert síður erindi til annarra þjóða en til okkar. Ég get vel búizt við því, að slíkar myndir færu sigurför um heiminn, sem einmitt sannsögulegt dokument um anda víkingaaldarinnar og svipmót hennar. Og með kvikmyndun Íslendingasagna og okkar fornbókmennta, gullaldarbókmennta, ásamt því, að nútímabókmenntir yrðu einnig valdar til kvikmyndagerðar, fengjum við áreiðanlega máttugt tæki í hendur til þess að vekja athygli á Íslandi og íslenzkri þjóð og íslenzkri menningu, ef vel tækist til.

Ég hef farið nokkrum orðum um megintilgang þessa frv., vakið athygli á þeim nýmælum, sem í því felast. Ég geri mér fulla grein fyrir því, að ekki eru allir á sömu skoðun og ég um þetta mál. Um ýmislegt má deila í sambandi við þetta. En ég held samt, að alopinber rekstur, ríkisrekstur kvikmyndahúsa og innflutningur kvikmynda undir yfirstjórn menntmrn. væri til bóta til að tryggja menningarlegt gildi þessa menningartækis og hægt væri að verja gróðanum af kvikmyndahúsarekstri í landinu til þess að gera kvikmyndina meir almenningseign en hún nú er, sýna kvikmyndir jafnt úti um fámennar sveitir og í fjölmennustu kaupstöðunum, og þetta eigi að gerast í fylgd með íslenzku tali og íslenzku lesmáli, þannig að sjálf kvikmyndin verði íslenzkari hér á landi. Ég tel sjálfsagt, að frv. sem þetta verði samþ. þrátt fyrir allan skoðanaágreining, sem um það kann að ríkja, og legg til, að því verði að umr. þessari lokinni vísað til hv. menntmn.