06.12.1962
Neðri deild: 26. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í C-deild Alþingistíðinda. (2320)

70. mál, stuðningur við atvinnuvegina

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Þegar mál þetta var hér síðast til umr., flutti hæstv. viðskmrh. hér býsna athyglisverða ræðu. Það leyndi sér ekki, að hæstv. ráðh. var mjög hneykslaður á flutningi þessa frv., og hann sá ástæðu til þess að halda hér alveg sérstaka siðaprédikun yfir okkur flm. frv. Hæstv. ráðh. lét þau orð falla, að hann teldi, að þetta frv. væri eitt fráleitasta plagg, sem lagt hefði verið fyrir Alþingi, síðan Alþingi var endurreist. Það var sem sagt ekkert smáræði, sem um frv. þurfti að segja. Síðan sagði hæstv. ráðh., að hann teldi, að með flutningi frv. væri Alþingi sýnd mikil óvirðing og hér væri verið að hampa framan í Alþingi röngum tölum, sem næmu hundruðum millj. kr. Og svo fengum við flm. tilheyrandi áminningu um að haga okkur betur eftirleiðis, og leyndi sér ekki, að hæstv. ráðh. fór ekki illa að gerast sá siðaprédikari hér, sem hann gerðist.

En hvert var svo tilefni þess, að hæstv. ráðh. sá ástæðu til að viðhafa öll þessi stóru orð? Jú, tilefnið er það, að við hv. 6. þm. Sunnl. flytjum hér frv., sem að meginmáli inniheldur það að gera nokkrar sérstakar ráðstafanir til að létta af útflutningsatvinnuvegunum ýmsum útgjöldum, og við teljum, að þessi útgjöld gætu numið um 400 millj. kr. á ári hverju, miðað við útgjöldin, eins og þau hafa verið. Og svo segjum við í grg. frv., að við teldum, að ef farið yrði samkv. till. þessa frv., mætti hækka kaup þess verkafólks, sem vinnur að útflutningsframleiðslunni, beint um ca. 20% og einnig mætti hækka fiskverð um 25–30%. Þetta var tilefnið til þess, að hæstv. ráðh. lét öll þessi orð falla hér og flutti þessa mjög svo einkennilegu ræðu.

Nú vil ég geta þess, að það var alveg greinilegt, að þessi ræða hæstv. viðskmrh. var engin tilviljunarræða, haldin hér lítið undirbúin, því að hann kom greinilega með skrifaða ræðu og margar og miklar tölur, sem áttu að styðja mál hans.

Nú langar mig til að víkja hér nokkuð að þessari ræðu nánar og þá alveg sérstaklega fullyrðingum hæstv. ráðh. og mun þá rökstyðja enn nánar það, sem fram kemur í frv. okkar og grg. þess, og bera svo nokkuð saman við þær aðrar staðreyndir, sem hæstv. ráðh. segir liggja fyrir í þessu máli, og mættu menn þá kannske nokkuð sjá á eftir, hve mikið er að marka þær tölur, sem hæstv. viðskmrh. flutti hér fram í sambandi við þetta mál, og reyndar ýmsar aðrar tölur, sem hann hefur flutt úr þessum ræðustól.

Fyrsta atriðið, sem hæstv, ráðh. vék að í þessari ræðu sinni, var varðandi till. okkar um lækkun vaxta. Í frv. er gert ráð fyrir því að lækka vexti mjög verulega frá því, sem verið hefur, og við teljum, að slík vaxtalækkun og tilheyrandi ráðstafanir með vaxtalækkuninni, sem greinilega eru taldar upp í frv., gætu numið í kringum 100 millj. kr. á ári. En hvað sagði hæstv. ráðh. um þennan lið? Jú, hann segir, að þessi vaxtalækkun, sem gert er ráð fyrir samkv. frv., gæti í mesta lagi numið 51.6 millj. kr. á ári, og það sundurliðast þannig, sagði hæstv. ráðh., að afurðalán sjávarútvegsins hjá Seðlabankanum eru 610 millj. kr. og vaxtalækkun á þeim lánum samkv. frv. mundi geta numið 29.6 millj. Í viðskiptabönkunum hefur sjávarútvegurinn lán, sem nema um 700 millj. kr., sagði hæstv. ráðh., og vaxtalækkun samkv. frv. af þessari upphæð gæti numið 12 millj. Auk þess má svo áætla, sagði ráðh., að sjávarútvegurinn hafi lán úr ýmsum stofnlánasjóðum, aðallega fiskveiðasjóði og stofnlánadeild sjávarútvegsins í Landsbankanum, sem nema um 970 millj. kr., og gæti þá vaxtalækkunin á þeim numið um 10 millj. kr., sagði hæstv. ráðh., eða samanlagt vaxtalækkun upp á 51.6 millj kr. Það er auðvitað rétt, að þessum tölum hjá hæstv. ráðh. ber ekki alls kostar vel saman við áætlun okkar flm. frv., sem teljum, að vaxtalækkun, ef frv. yrði samþ., gæti numið í kringum 100 millj. kr. Í hverju liggur þá þessi skakki á milli áætlunar okkar og áætlunar hæstv. ráðh.? Ég skal nú víkja að því nokkru nánar.

Í fyrsta lagi segir hæstv. ráðh., að afurðalán sjávarútvegsins hjá Seðlabankanum nemi 610 millj. kr. Hvernig er þessi tala til komin hjá hæstv. ráðh.? Jú, hann leitar uppi lægstu töluna, sem til hefur fallið nú fyrir stuttu, og tilnefnir hana án þess að gæta nokkuð að því, hvernig þessum lánum hefur verið fyrir komið og er í rauninni fyrir komið. Það er svo sem ekkert nýtt í útreikningum hjá þessum hæstv. ráðh., að hann flaskar á jafneinföldum atriðum og þessum. Ef hæstv. ráðh. vill fletta upp í skýrslum Seðlabankans og skýrslum, sem birtar eru í Fjármálatíðindum bankans yfir afurðalán, og ef hann vill taka t.d. þessar skýrslur yfir allt árið 1960 og allt árið 1961, þá eru lánaupphæðirnar tilgreindar fyrir hvern einstakan mánuð fyrir sig. Hvað kemur svo út úr þessum tölum? Meðaltalsafurðalánin á árinu 1960, yfir alla 12 mánuðina, voru 844.3 millj., en árið 1961 743.9 millj., meðaltalsupphæðin var rétt innan við 800 millj. kr., eða 794.1 millj. Hæstv. ráðh. munaði auðvitað ekki mikið um að rökstyðja mál sitt á þennan hátt, sem hann gerði, að fullyrða, að afurðalánin væru aðeins 610 millj., þó að meðaltal tveggja s.l. ára sýni þetta, sem ég hef nú greint. En skekkjan hjá hæstv. ráðh. er ekki aðeins fólgin í þessu. Í frv. er greinilega fram tekið, að lagt er til, að afurðalánin verði í öllum tilfellum færð upp í það, sem þau hafa áður verið, eða upp í 67% af útflutningsverði vöru. Hins vegar liggur fyrir, að afurðalánin hafa ekki verið nú um alllangt skeið nema 50–52%. Það var því verið að leggja til að taka upp gömlu regluna, sem gilti fyrir árið 1960, og veita afurðalán, sem nema 2/3 hlutum af útflutningsverðinu. Ef maður tekur því meðaltalstölurnar fyrir árin 1960 og 1961 og hækkar svo lánin til samræmis við það, sem lagt er til í frv. og áður var, mundi meðaltalsupphæðin af afurðalánum vera komin upp í 1063 millj. kr. eða mjög í samræmi við það, sem áður hafði verið, en þó höfðu þau oft verið talsvert miklu hærri en þetta áður, eins og skýrslur sýna. En hæstv. ráðh., sem fór hér í búning siðaprédikarans og umvöndunarmannsins með það að fara varlega með tölur, munaði ekki mikið um þetta, enda átti hann eftir að slá þetta met síðar í ræðu sinni, eins og ég mun víkja að síðar.

Sé nú þessi tala lögð til grundvallar, sem ég nefndi, 1063 millj. kr. í afurðalán, sem er aðeins meðaltalið af því, sem reynslan hafði sýnt árið 1960 og 1961, og þeirri hækkun, sem lögð er til í frv., yrði ekki vaxtalækkunin 29.6 millj. kr., eins og hæstv. ráðh. sagði, heldur yrði vaxtalækkunin 47.8 millj. kr. á þessum lið. En í frv. er svo annað einnig lagt til. Það er beinlínis tekið fram í frv., að gert er ráð fyrir því, að breytt verði einnig til þeirrar reglu, sem áður gilti um framlengingarvexti af afurðalánum, frá því, sem nú er. Nú eru framlengingarvextir reiknaðir eftir 3 mánuði af afurðalánum, en áður var þetta eftir 6 mánuði, og í frv. er mjög greinilega tekið fram, að það er einnig lagt til að færa þá í það horf. Það kemur því einnig allverulegur sparnaður til greina fyrir þá, sem greiða eiga vextina. En hæstv. viðskmrh. sá ekki ástæðu til að minnast á lið eins og þennan, enda hæfði það ekki hans röksemdafærslu.

En víkjum þá með nokkrum orðum að öðrum liðum varðandi vaxtalækkunartill. frv og það, sem hæstv. ráðh. sagði.

Hæstv. ráðh. sagði, að önnur lán sjávarútvegsins í viðskiptabönkum, rekstrarlán, mundu vera um 700 millj. kr. Og svo vildi hann reikna 2–2½% vaxtalækkun af þessari upphæð sem 12 millj., og var auðvitað augljóst, að þar var um skekkju að ræða. En það er ekki aðeins það, heldur veit hæstv. ráðh. ábyggilega, ef hann vill líta eftir því, að hér er hann að fara með alranga upphæð, þar sem hann nefnir 700 millj. kr. Upphæðin er raunar miklu meiri, enda á mörgum tímum ársins miklu hærri en þetta. Hin almennu rekstrarlán til útgerðarinnar sveiflast auðvitað allmikið yfir árið. Á vissum tímum ársins verða rekstrarlánin miklu hærri en þau eru á öðrum tímum. En auðvitað hentar það hæstv. ráðh. bezt að taka lægstu töluna. En svo skýtur hæstv. ráðh. undan í þessum efnum stórum liðum. Sú breyting hefur orðið á nú fyrir ekki löngu, að vegna rekstrarfjárörðugleika hjá sjávarútveginum hefur verið horfið að því ráði fyrir milligöngu viðskiptabankanna að breyta allmiklu af rekstrarlánum hjá bönkunum aðeins að forminu til í erlend lán, þannig, að sjávarútvegsmenn eru látnir standa undir þessum erlendu lánum. Þannig hafa verið tekin í Bandaríkjunum nú út á fiskafurðir lán, sem áður voru talin hrein rekstrarlán hjá bankanum. Nú eru þessi lán færð beint sem erlend lán á eigendur fisksins, og nema þessi lán, sem svona hafa verið tekin, 170 millj. kr. Auðvitað hafa útvegsmenn þurft að borga vexti af þessum lánum og þurfa að gera það enn. En það er alveg rétt, að hin skráða lánsupphæð þeirra í bönkunum hefur lækkað um þessa upphæð, á sama tíma sem upphæðin var færð á aðra reikninga, eða sem sagt sem skuld við erlenda aðila. Og svo auðvitað munar hæstv. ráðh. í þessum efnum ekkert um að ætla, þegar rætt er um vaxtaútgjöld útgerðarinnar, að hlaupa yfir öll þau lán, sem útgerðin hefur frá fleiri aðilum en bönkum. Eða veit hæstv. viðskmrh. ekki nein dæmi um það, að útgerðarfyrirtæki af öllum tegundum verði að taka lán hjá fleiri aðilum en bönkum og borga háa vexti af slíku og auðvitað fara eftir hinum almenna vaxtafæti, sem gildir í landinu? Það væri ekki hátt áætlað, að lán í slíkum tilfellum næmu a.m.k. 200 millj. kr. Í staðinn fyrir 700 millj., sem hæstv. ráðh. reiknar með í þessum tilfellum, vil ég reikna með ekki minna en 1070–1100 millj. í slíkum lánum sem þessum, enda eru lánin í bönkunum miklu hærri en 700 millj. oft og tíðum. Og sú vaxtalækkun, sem frv. gerir ráð fyrir, mundi því verða af þessari upphæð ekki undir 21.4 millj.

Þá kemur hæstv. ráðh. að lánum þeim, sem sjávarútvegurinn sem heild hefur frá ýmsum stofnlánasjóðum, og tilgreinir lán þau, sem sjávarútvegurinn hefur nú frá fiskveiðasjóði og stofnlánadeild sjávarútvegsins, og líklega hefur hann tekið með lánin úr fiskimálasjóði, en ekki öðrum, því að þegar lánin hjá þessum þremur aðilum eru saman talin, þá er komið upp í upphæðina, sem hæstv. ráðh. talar um. Auðvitað munar hæstv. ráðh. ekkert um að sleppa öllum öðrum lánum, sem sjávarútvegurinn hefur og þarf að borga innlendan vaxtafót af. Hæstv. ráðh. mun vera einn af bankaráðsmönnunum í Framkvæmdabankanum, svo að ég aðeins nefni hann. Samkv. opinberum skýrslum var talið, að heildarútlán Framkvæmdabankans hefðu verið í árslok 1960 1380 millj. kr. eða tæpar 1400 millj. Það er því enginn vafi á því, að heildarútlán þess banka eru yfir 1500 millj. kr. Og hann ætti að vita það sem einn af bankaráðsmönnum, að sjávarútvegsfyrirtæki ýmis hafa allstór lán frá þessum banka. En hæstv. ráðh. munar auðvitað ekkert um í þessum röksemdafærslum sínum að sleppa þessu öllu og telja hvergi með í vaxtaútgjöldum sjávarútvegsins. Ég segi hins vegar, að um lægri upphæð er ekki að ræða, bæði hjá þessum og ýmsum öðrum aðilum, sem veita lán og hafa veitt lán, vátryggingarfélögum og ýmsum almennum, opinberum sjóðum, sem veita og hafa veitt stórlán til sjávarútvegsfyrirtækja í landinu og fara vitanlega í flestöllum tilfellum eftir þeim almenna vaxtafæti, sem gildir í landinu, — það er vitanlega hrein fjarstæða að tala um, að þarna geti verið um minni upphæð að ræða en 500 millj. kr., og mundi þá halla stórkostlega á sjávarútveginn í hlutfalli við aðra. Sé nú gert ráð fyrir því, þá er komin vaxtalækkun, sem nemur þessum 100 millj. kr., sem við höfðum gert ráð fyrir í grg. okkar.

En í frv. er svo gert ráð fyrir ýmsum öðrum atriðum, sem einnig verka mjög verulega á vaxtagreiðslur sjávarútvegsins. Það er gert ráð fyrir því í frv., að Seðlabankinn verði skyldaður til þess að greiða útflytjendum útfluttar afurðir ekki seinna en einum mánuði eftir, að varan er flutt úr landi. En nú hefur þessu verið þannig háttað, að útflytjendur hafa þurft að bíða eftir þessum greiðslum, oft í marga mánuði. Þetta fyrirkomulag mundi auðvitað spara útflytjendum vaxtagreiðslur, svo að verulegu næmi. Og það er einnig gert ráð fyrir því í frv., að sá háttur verði tekinn upp, að Seðlabankinn verði skyldaður til að greiða framleiðendum að fullu útflutningsverð á sannanlega seldri vöru, sem liggur framleidd í landinu, þó að hún þurfi að bíða nokkurn tíma eftir afskipun. Hæstv. ráðh. munar auðvitað heldur ekkert um að stiga yfir atriði eins og þetta í frv., þegar hann gerir sína mjög svo heiðvirðu útreikninga — eða hitt þó heldur. Auðvitað vita menn það, að fyrir utan þessa liði, sem ég hef hér gert að umtalsefni, hvíla margvísleg önnur lán á hinum ýmsu greinum sjávarútvegsins í landinu. Þannig eru t.d. lán frá sparisjóðakerfinu í landinu allveruleg til ýmissa þátta sjávarútvegsins, og eins og ég sagði, eru einnig lán vátryggingarfélaga og verzlunarfyrirtækja og margra annarra, sem nema allverulegum fjárhæðum. Það er rétt, að það liggja ekki fyrir opinberar skýrslur um það, hversu há þessi lán eru, og því er vitanlega ekki auðvelt verk að reikna það nákvæmlega út. En ég ætla, að það, sem ég hef sagt um þennan lið, sýni, að þær tölur, sem hæstv. viðskmrh. birti hér varðandi þennan lið, eru alrangar og fá ekki staðizt með nokkru móti og hann hefur mjög farið rangt með þær till., sem felast í frv. Það væri því full ástæða til þess að áminna hann um það að gæta sóma síns gagnvart alþm. og Alþingi sem heild í sambandi við málflutning sinn, fremur en hann hefði ástæðu til þess að beina þeim orðum sérstaklega til okkar flm. þessa frv.

Ég skal svo koma að fleiri liðum, sem hæstv. ráðh. vék hér að varðandi þetta frv.

Í frv. er lagt til, að útflutningsgjöld á sjávarafurðum verði lækkuð úr 7,4%, sem þau eru nú, þegar þau eru talin öll saman, niður í það, sem þau voru fyrir setningu brbl. í ágústbyrjun 1961, eða niður í 2,9%. Er ráðgert í frv., að þessi lækkun gæti numið í kringum 160 millj. kr., en þá er miðað við heildarútflutningsverðmæti, sem nema í kringum 3500 millj. kr. Hæstv. ráðh. hafði ekki ýkja mikið um þessa tölu að segja út af fyrir sig, nema honum fannst, að útflutningurinn væri áætlaður nokkuð mikill og heldur hærri en sérfræðingar ríkisstj. teldu. Ég held þá, að sérfræðingar ríkisstj. megi endurskoða þá tölu sína eins og ýmsar fleiri, ef þeir eru ekki búnir að átta sig á því enn þá, að framleiðslan muni nema þessu, því að við eigum skýrslur um það, sem þegar eru tilbúnar. En það skal ég fyllilega játa, að sú skekkja þeirra, þó að þeir efist kannske nokkuð um þessa tölu, er engan veginn eins mikil og ýmsar aðrar skekkjur, sem þeir hafa látið frá sér fara og ég á eftir að minnast á hér síðar. En það er sem sé ekkert aðalatriði í þessu máli, hvort þessi útflutningur væri aðeins of hátt áætlaður hjá okkur eða of lágt. Upphæðin er mjög nærri þessu, sem við gerum ráð fyrir í grg. frv., þrátt fyrir það.

Um þennan lið hafði hæstv. viðskmrh. það aðallega að segja, að hann fór mörgum vandlætingarorðum um það, að við værum að gera ráð fyrir því í þessu frv., að hægt væri að lækka útgjöld sjávarútvegsins sem þessari fjárhæð næmi, þó að við vissum, að meginhluti þessarar upphæðar gengi nú þegar til sjávarútvegsins í einu eða öðru formi, og hér væri því um blekkingar af okkar hálfu að ræða. Það virðist vera, að hæstv. ráðh. hafi ekki hlustað á framsöguræðu mína fyrir frv. Þar tók ég alveg skýrt og greinilega fram, að mér væri ljóst, að meðan þau ákvæði giltu, sem nú væru í gildi varðandi hluta af þessari hækkun á útflutningsgjaldinu, að hluti af því rynni til greiðslu á vátryggingargjöldum fiskiskipaflotans, þá væri hér ekki um beinan sparnað að ræða frá því ástandi, sem nú væri. Þetta tók ég mjög greinilega fram og margendurtók í ræðu minni. En hæstv. ráðh., sem var þarna í vandlætarans búningi, þurfti ekki að taka mikið tillit til þess, sem sagt hafði verið í þessum efnum. Og til hins þurfti hann ekki heldur að taka tillit, að það er beinlínis tekið fram í frv., að það er verið að leggja til, að ákvæði þessi taki gildi frá og með næstu áramótum að telja, en þau ákvæði, sem gilda um þetta nú, eru í gildi aðeins til næstu áramóta. Um það, hvað þá tekur við, veit enginn. Það liggur ekkert fyrir um það. Við erum hinsvegar að gera ráð fyrir því, að þá skuli taka hér við nýtt kerfi, um leið og þessi útflutningsgjöld verði lækkuð, skuli fyrri helming ársins sá háttur vera á hafður, að ríkið beinlínis sjái um vátryggingar fiskiskipaflotans, og það á þeim grundvelli, að iðgjöldin verði lækkuð um helming frá því, sem þau hafa verið, og þá miðað við þær upplýsingar, sem hér hafa komið fram á Alþingi, m.a. frá hæstv. sjútvmrh., og í ýmsum skýrslum frá sérfræðingum ríkisstj., að ástæða sé til að ætla, að vátryggingariðgjöld fiskiskipa hér séu um helmingi hærri en þau eru t.d. í Noregi. Það er að vísu gert ráð fyrir því í núgildandi lögum, að hluti af þessu gjaldi eigi áfram að renna til nýs vátryggingakerfis. En það er ekki hægt að sjá, að sá litli hluti af gjaldinu, sem á að ganga í þetta framtíðarvátryggingakerfi, eigi að vera til annars en þess að byggja þar upp vátryggingakerfi. Hér er því vitanlega um það að ræða, að það væri hægt að spara þau útgjöld, sem við leggjum til, frá þeirri löggjöf, sem nú er í gildi um þetta, en við getum vitanlega ekki miðað við neitt annað. Eftir næstu áramót á að innheimta þessi 7,4% útflutningsgjöld, en frá þeim tíma á ekki að greiða vátryggingagjöld fiskiskipaflotans af þessu gjaldi. Það er það eitt, sem stendur í lögum.

Í grg. þeirri, sem fylgir frv. frá okkar hálfu, er gert ráð fyrir því, að vátryggingariðgjöld fiskiskipaflotans muni nema í kringum 140 millj. kr. á árinu. Hæstv. viðskmrh. sagði, að hér hlyti að vera um allt of háa upphæð að ræða. Að vísu fór hann ekki mörgum orðum um það, en benti á, að sá hluti vátrygginga, sem færi í gegnum hið opinbera vátryggingakerfi, væri ekki nema rúmlega 100 millj., og þó að nokkuð væri þar fyrir utan, þá hlyti upphæðin að vera of há. Ég skal segja hæstv. ráðh., hvernig þessi áætlunartala okkar er til komin. Í ársbyrjun 1961 var gerð grein fyrir því á fundi, þar sem ég mætti meðal útvegsmanna, að vátryggingariðgjöld fiskiskipaflotans væru áætluð 123 millj. kr. fyrir árið 1961. Síðan vissi ég, og ég vænti, að hæstv. viðskmrh. hafi orðið var við það líka, að það var framkvæmd hér gengislækkun á miðju ári 1961, sem nam í kringum 13,2% til hækkunar á erlendum gjaldeyri. En það þýddi, að verðlag flotans í landinu hækkaði mjög mikið og vátryggingar að sama skapi, eins og alltaf hefur verið í slíkum tilfellum. Ég vissi enn fremur, að það var að bætast við í flotann mjög mikið af dýrum skipum á árinu 1961, seinni hlutann, og á árinu 1962. Frv. okkar gerir ráð fyrir því, sem verða mun á árinu 1963, og það var miðað við þetta, sem við töldum, að telja mætti öruggt, að ekki væri farið með of háa upphæð, þegar talað var um 140 millj. sem heildariðgjöld af vátryggingu fiskiskipaflotans. En hafi hæstv. ráðh. raunverulega meint það, sem hann sagði, þegar hann talaði um iðgjöld þess hluta fiskiskipaflotans, sem rynnu í gegnum hið opinbera tryggingakerfi, eins og hann sagði það, þá er mér nær að halda, að þessi upphæð, 140 millj., sem við höfum áætlað, sé langt til of lág. Svo mikið veit ég um það, hvað er af vátryggingum fiskiskipaflotans fyrir utan hið opinbera vátryggingakerfi. En sá hlutinn fer sífellt vaxandi, eins og skiljanlegt er, með stækkun flotans, sem leiðir af sér, að meginhlutinn af nýju skipunum, sem koma, fer í vátryggingar fyrir utan hið opinbera vátryggingakerfi.

Það liggur líka fyrir, og það hefur verið upplýst í þskj. hér á Alþingi, að vátryggingariðgjöld fiskiskipaflotans, eins og þau voru greidd af ríkinu fyrir árið 1960, voru rétt í kringum 90 millj., það sem greitt var. En talsverður hluti af iðgjöldunum fellur á útvegsmenn sjálfa. Og þá sjá auðvitað allir, hvílík reginfjarstæða er að tala um, að sú upphæð geti verið rétt, sem hæstv. viðskmrh. er hér að bögglast með, en það er auðvitað löngu úrelt tala, sem passar ekki á neinn hátt við það, sem nú er.

Í þessu frv. eru svo ýmis önnur ákvæði, sem miða að því að draga úr ýmsum útgjöldum, en af því að hæstv. viðskmrh. fór ekki mörgum orðum um þau. þá þarf ég ekki heldur að þessu sinni að eyða löngum tíma í að ræða um þau atriði. Það var aðeins eitt, sem hann fann ástæðu til að koma við umvöndun sinni og allri vandlætingu. Það var viðvíkjandi ákvæði, sem er að finna í 9. gr. frv., en hæstv. viðskmrh. sagði, að þar væri ábyggilega um að ræða einsdæmi í lagasetningu meðal siðaðra þjóða. En hann notaði einmitt þessi orð nokkrum sinnum um menn meðal siðaðra þjóða, hvernig þeir ættu að hegða sér. Þetta ákvæði, sem finnst ekki í lögum siðaðra þjóða, fjallar um, að það sé óheimilt að greiða erlendum umboðssölum hærri umboðslaun ef útfluttum afurðum frá Íslandi en 2%. Og slík ákvæði eins og þetta eru með öllu óþekkt hjá siðuðum þjóðum. Sér er nú hvað! Ég ætla nú að benda hæstv. ráðh. á það, að hliðstæð ákvæði eru ýmis til í íslenzkum lögum og hafa verið framkvæmd hér árum saman. Okkur er ekki heimilt hér að borga erlendum aðilum hversu háa vexti sem þeir kunna af okkur að heimta, og okkur er ekki heimilt að borga þeim ýmislegt bara eftir því, hvað þeir kunna að setja upp. Við getum sjálfir sett reglur um það, hvað íslenzkum borgurum er heimilt að færa út úr landinu mikinn gjaldeyri undir þessu eða hinu ákvæðinu. Við vitum vel, að þetta atriði hefur verið stórlega misnotað, og það hefur hvað eftir annað verið gripið inn í af hálfu opinberra aðila til að koma í veg fyrir, að það væri dreginn gjaldeyrir út úr landinu undir slíkum heitum eins og því, að erlendir aðilar tækju allt of há umboðslaun. Og það er það, sem þetta ákvæði miðar að, að stemma stigu við þessu, vegna þess að ýmsir aðilar hafa gengið á þetta lagið og tekið hér miklu hærri umboðslaun en góðu hófi gegnir, hvernig svo sem á því stendur, og því er full ástæða til þess að setja um þetta reglur, og við eigum að geta framkvæmt okkar afurðasölu án þess, að slík okurstarfsemi sé liðin af okkur.

Hæstv. ráðh. sagði um þetta ákvæði, að hér væri verið að setja löggjöf, sem miði að því að verða verðlagseftirlit á erlenda borgara, hvorki meira né minna en það. Þegar við bönnum Íslendingum að greiða allt of há umboðslaun eða aðra okurvexti, í hvaða formi sem er, jafngildir það því, að við ætlum að setja upp verðtagseftirlit úti í löndum. Hvers konar málflutningur er þetta í rauninni? Er sæmandi að bjóða alþm. upp á slíkt sem þetta?

En svo kom megininntakið í mátflutningi hæstv. ráðh., og þar varð hann auðvitað miklu stórtækastur. Það var, þegar hann fór að reikna út þá gífurlegu skekkju, sem ætti að vera í frv. varðandi möguleikann á því að láta t.d. 400 millj. kr. sparnað í útgjöldum útflutningsframleiðslunnar hrökkva til að greiða 20% hækkun á kaupi verkafólks og 25–30% hækkun á fiskverði. Þá fyrst steig vandtætingin hjá hæstv. ráðh., þegar hann kom að þessum lið, og þar hafði hann líka vandað sig mest, las hér upp langar talnaskýrslur, þar sem hann þóttist sanna sitt mál alveg á óyggjandi hátt. Hann sagði að vísu, að það væru ekki til öruggar hagskýrslur, sem gætu sannað, hvað vinnulaun væru mikil í útflutningsframleiðslunni eða hvernig þessi kostnaður milli hráefnis og vinnulauna nákvæmlega skiptist. En hann sagðist ætla, að hann byggði þó á svo traustum grunni þar, að menn mundu ekki leyfa sér að vefengja hans tölur, því að svo mikið hefðu þær tölur verið lagðar til grundvallar í ýmsum útreikningum áður. Ég má til með að renna aðeins yfir þessar tölur, til þess að menn sjái betur, hvernig er haldið á tölum af hæstv. viðskmrh. og sérfræðingum ríkisstj., því að hann vitnaði mjög í þá. Hann sagðist leggja til grundvallar framleiðslu ársins 1961 og útflutninginn í því ári.

Freðfisksframleiðslan var að útflutningsverðmæti, sagði ráðh., 816 millj. kr., vinnulaunin í þessum lið væru 204 millj. og hráefnið, sem þyrfti til freðfisksframleiðslunnar, 408 millj. Svo tók hann saman í einn lið saltfisk og skreið og sagði, að útflutningsverðmæti þessarar vöru væru 682 millj., vinnulaunin 136 millj. og hráefnið, sem færi í þessa framleiðslu, 409 millj. Svo tók hann saltsíld og sagði, að útflutningsframleiðslan næmi 341 millj., vinnulaun 68 millj. og hráefni 205 millj. Og fiskimjölsframleiðslan: útflutningsverðmætið 131 millj., vinnulaun 16 millj. og hráefnisverð 55 millj. Síldarmjöl og lýsi: útflutningsverðmæti 347 millj., vinnulaun 10 millj. og hráefni 278 millj. Og svo tók hann annað útflutningsverðmæti: 444 millj., vinnulaun 111 millj. og hráefni 222 millj. Allt var þetta svo lagt saman, til þess að töflurnar bæru það með sér, að búið væri að endurskoða þetta: útflutningsverðmætið 2761 millj., vinnulaunin 545 millj. og hráefnisverð 1577 millj. Þennan grundvöll lagði hæstv. ráðh. fyrir málflutningi sínum, og út frá því átti svo að sanna, að það, sem við segðum í grg. fyrir okkar frv., væri alrangt, væru staðlausir stafir.

Nú langar mig til að víkja að þessum liðum svolítið hverjum um sig, áður en ég kem sérstaklega að okkar útreikningum, sem ég skal svo víkja að á eftir. Auðvitað skal ég taka það fram strax, að þessar tölur eru alrangar. Og þær eru svo hlægilega vitlausar í ýmsum tilfellum, að það er alveg furðulegt, að maður með hagfræðimenntun og sérstakur sérfræðingur ríkisstj. í talnaspeki skuli leyfa sér að fara með þessar tölur hér á Alþingi.

Ég kem þá fyrst að freðfisksframleiðslunni. Hæstv. ráðh. segir, að hráefnisverð freðfisksframleiðslunnar muni hafa verið 408 millj. kr. árið 1961. Samkv. skýrslu Fiskifélags Íslands hefur allur sá fiskur, sem lagður var inn til frystingar á árinu 1961, numið 144,7 þús. tonna. Hæstv. ráðh. vill því halda því fram samkv. þessu, að meðaltalsverð fyrir hráefni, sem fór til frystingar, hafi verið 2,82 kr. á kg eða nokkru hærra en hámarksverðið var þá. En mikill hluti af framleiðslunni er langt undir þessu verði. Hér er auðvitað um augljósa skekkju að ræða. En þó verður þessi skekkja hans enn þá ljósari á ýmsum af hinum liðunum. Hann telur, að í saltfisksframleiðslu og skreiðarframleiðslu hafi hráefnisverðið verið 409 millj., — taki menn eftir, — á móti 408 millj., sem fóru til frystingar. En hvað fór mikið af afla í herzlu og í saltfisksverkun á móti því, sem fór í frystingu? Það fóru 47500 tonn af fiski til herzlu og 68800 tonn í saltfisksverkun samkv. skýrslu Fiskifélagsins, eða samanlagt fóru 116 þús. tonn í það á móti 144 til frystingar. Mun minna magn af fiski, sem fór í skreiðarverkun og saltfisksverkun, telur ráðh. hafa verið dýrara sem hráefni í framleiðsluna en það, sem fór til frystingar. (Menntmrh.: Þetta er útflutningurinn, sem við erum að tala um, en ekki framleiðslan.) Nei, útflutningsverðið var gefið upp 682 millj. af hæstv. ráðh. Hann las það hér upp af skýrslu, og ég hef endurlesið hana, enda er það nokkuð nærri réttu lagi, hver útflutningurinn var þar. En hráefnisverðið í þessu var talið 409 millj., og það fer heldur ekkert á milli mála, því að þegar maður leggur saman þær tölur, sem hann las upp, allar saman sem hráefnisverð, þá passar það upp á eina krónu. Hæstv. ráðh. smýgur ekki út um neitt slíkt gat í þessum efnum. Hann er hér alveg geirnegldur niður. En nú vita allir, sem nærri þessari framleiðslu koma, að hráefnisverðið á þeirri vöru, sem fer til skreiðarverkunar og saltfisksverkunar, er allmiklu lægra, það er einmitt sá fiskurinn, sem fellur í lægri gæðaflokkana og lægri verðflokkana, enda er það reiknað alls staðar af þeim, sem til þekkja í þessum efnum, mun lægra. En hæstv. ráðh. munar auðvitað ekki um það að telja meðaltalsverðið á hverju fiskkg, sem fór í skreiðarverkun og saltfisksverkun, hafa verið 3,52 kr. Auðvitað er hér um alranga fullyrðingu að ræða, sem stenzt ekki á neinn hátt og er ekki sæmandi af hæstv. ráðh. að bjóða hv. alþm., svo að notuð séu hans orð í þessum umr.

En þetta er ekki það eina. Það eru til miklu stórkostlegri vitleysur en þetta í því, sem hæstv. ráðh. sagði í þessum efnum. Hæstv. ráðh. sagði, að saltsíldarframleiðslan næmi að útflutningsverðmæti 341 millj. kr. og hráefni í saltsíldarframleiðsluna næmi 205 millj. Hafa menn tekið eftir því, hvað hann verðleggur þá hvert síldarkg á, sem gengur í þessa framleiðslu? 3 kr. kg, miðað við það, sem Fiskifélagið gefur upp að til söltunar hafi farið. Auðvitað er hér um algera fjarstæðu að ræða. Hér munar rétt um það bil helmingi. Ef hæstv. ráðh. hefði hirt um það eða þekkt nokkuð til að líta á þessar tölur, hráefnisverð síldarinnar 205 millj., vinnulaun síldarinnar 68 millj., hefði t.d. gert sér það ómak að telja saman miðað við útflutninginn, hvað t.d. bara tunnurnar sjálfar utan um síldina hefðu kostað, þá á hann ekki nóg eftir af útflutningsverðinu til þess að borga tunnurnar, þó að hann borgaði ekkert af hinu. Vinnulaunin, hráefnisverðið og verðið á tunnunum, eins og síldarútvegsnefnd reiknaði það, það hefði þýtt mun hærri upphæð en allt útflutningsverðið. Dálaglegur atvinnuvegur það að stunda síldarsöltun! En þá var vitanlega eftir að borga útflutningsgjöldin, 7,4% og reyndar 2% til viðbótar til síldarútvegsnefndar, en af síldinni jafngildir þetta sem sagt 9,4%. Þá var auðvitað eftir að borga alla vexti og fjöldamargan annan kostnað, sem tilheyrir þessari framleiðslu. En þetta er sem sagt einn af sérfræðingum ríkisstj. í talnafræði, sem leggur þessa skýrslugerð fram og það á þann hátt, að hann er sérstaklega að vanda um fyrir þm. að fara heiðarlega með tölur.

Svo kom hæstv. ráðh. með lið eins og fiskimjöl, að útflutningurinn á fiskimjöli hefði verið 131 millj. og 16 millj. hefðu þar farið í vinnulaun og 50 millj. í hráefnisverð. Satt að segja hef ég ekki nennt að skoða þessar tölur, því að þær koma þessu máli ekkert við, hvað hægt er að hækka hin almennu vinnulaun, og hráefnisverðið eða fiskverðið kemur ekkert inn í þessa tölu, ekki neitt. En til frekari fróðleiks er gaman að virða fyrir sér næstu fullyrðingu hjá hæstv. ráðh. Hann segir, að síldarmjölsframleiðslan og lýsisframleiðslan úr síldinni hafi numið að útflutningsverðmæti 347 millj. og vinnulaun hafi verið 10 millj. og hráefnisverð 278 millj. Þegar ég sá þessar tölur, taldi ég alveg víst, að hér væri um rangritun að ræða hjá þeim, sem rita þingræður, að ráðh. hefði ekki sagt 10 millj. í vinnulaun, hann hlyti að hafa nefnt hér aðra tölu, og reyndar fannst mér miklu líklegra, að hann hefði búið til töluna 100, þó að hún væri bandvitlaus og allt of há, en það var þó á réttara kant. Nei, samlagningin sagði alveg til sín. Þegar maður tók saman alla liðina, bar saman vinnulaunakostnaðinn, 545 millj. samanlagt út úr öllu saman, 10 millj. voru þar í vinnulaun fyrir síldariðnaðinn. Mér kom til hugar fyrst af öllu að líta aðeins í alveg nýja bók, sem okkur hafði verið afhent þm., en það var skýrsla síldarverksmiðja ríkisins. En eins og við vitum, eru síldarverksmiðjur ríkisins nokkuð stór aðili í sambandi við síldarvinnsluna. Og reikningurinn, sem okkur hafði verið afhentur, var einmitt reikningurinn fyrir árið 1961, sem sýndi, hvað síldarverksmiðjur ríkisins höfðu unnið mikið og hver vinnulaunin höfðu verið hjá síldarverksmiðjum ríkisins. Síldarverksmiðjur ríkisins unnu auðvitað ekki þetta ár nema eitthvað í kringum 500–600 þús. mála. Það er hægt að fletta upp í því og sjá alveg nákvæmlega, hvað það var. Síldarverksmiðjur ríkisins unnu 543 þús. mál af síld af samtalsafla, sem fór í bræðslu sumarið 1961, 1160 þús. málum. Þær unnu tæpan helming af því, en svo var eftir auðvitað öll vetrarsíld, því að sú síld, sem fór til bræðslu, nam á árinu í kringum 1700 þús. mála, 1 millj. og 700 þús. mála. En síldarverksmiðjur ríkisins unnu bara 543 þús. mál eða nokkru undir þriðja hluta. En hver voru vinnulaunin þar, þó að þær ynnu aðeins tæpan 1/3 af heildarframleiðslunni? Vinnulaunin voru 14,5 millj. kr. Af því að vinna tæplega 1/3 voru vinnulaunin 14,5 millj. kr. Svo kemur hæstv. ráðh. og talar um 1 millj. og 700 þús. mál og segir, að öll vinnulaunin hafi verið 10 millj. Og það er eins og ég segi, það er engin hending, að hann sagði þetta, því að hann hafði lagt þetta greinilega saman, þannig að hann var búinn að krossvalda töluna og gat ekki hlaupið frá henni, að hann hefði mismælt sig eða neitt þess háttar. Hér var verið að birta skýrslu upp úr skrifaðri ræðu. Nei, ég læt mér ekki koma til hugar að notfæra mér skekkju eins og þessa hjá hæstv. ráðh. Ég hef hér vinnulaunin eins og reiknað hefur verið með þeim yfirleitt í sambandi við síldarvinnslu. Þessi tala sannar aðeins það, að tölur þær, sem hæstv. viðskmrh, er að þylja hér yfir hv. þm., hampa hér framan í þm., eins og hann orðaði það, það er ekkert að marka þær. Þær eru eintóm lokleysa frá upphafi til enda, svo að segja. Og hinar tölurnar, sem varða hráefnisverðið, eru ekki betri, eins og ég hef þegar sýnt fram á.

Nú skal ég víkja hér nokkrum orðum að því, hvernig þessu er í raun og veru varið og á hverju okkar áætlanir eru byggðar, sem skrifað höfum grg. þá, sem fylgir frv. Og ég legg þá til grundvallar aflann 1961, eða s.l. ár, samkvæmt skýrslum Fiskifélags Íslands. Ég reikna með því, að allur aflinn, sem fór til frystingar, 1447000 tonn, hafi verið keyptur inn á meðaltalsverðinu 2,40 kr. á kg. Ég skal að vísu taka það fram, að ég er næstum því viss um, að þessi tala er fyrir árið 1961 of há, meðaltalsverðið hefur varla lagt sig svona hátt, enda hygg ég, að flestir muni halda því fram, sem hér eiga hlut að máli. En það er enginn vafi á því, að hér er ekki reiknað með of lágri tölu. Samkv. því mundi hráefnisverðið á öllum þeim fiski, sem lagður var til frystingar á þessu ári, hafa numið í kringum 347 millj. kr., en ekki 408 millj. kr., eins og hæstv. ráðh. vildi reikna. Þá tek ég allan þann fisk, sem lagður var upp á árinu í skreiðarverkun, 47500 tonn, og reikna með því, að meðaltalsverðið á öllum þeim tegundum, sem hengdar eru upp, hafi verið 2,20 kr. kg, eða sem sagt nokkuð undir því meðaltalsverði, sem er á því, sem fer til frystingar. Og ég er líka alveg sannfærður um, að það eru engin frambærileg rök fyrir því að halda því fram, að hér sé vanreiknað. Þetta mundi því þýða, að sá afli, sem fer til skreiðarverkunar á þessu ári, hefur verið að verðmæti í kringum 104 millj. kr. Til saltfisksverkunar á þessu ári fóru 68800 tonn af fiski, og þar reikna ég með meðaltalsverðinu 2,30 kr. á kg, nokkuð undir verðinu í frystingu, en nokkuð yfir verðinu í skreiðarverkun. En þetta jafngildir 159 millj. kr., hráefnisverðið. Samanlagt hráefnisverð í þessari verkun, sem byggir upp fiskverðið, er 610 millj. kr. Þá tel ég allan síldaraflann. Til frystingar á síld fóru 25200 tonn, og ég reikna með meðaltalsverðinu 1,50 kr. á kg á þeirri síld, sem fryst var. Það er að vísu ekki alveg uppi í hámarkinu, eins og síld var keypt hér hæst á því ári til frystingar, en líka allmiklu hærra en mikill hluti af síldinni var keyptur á. En þetta mundi jafngilda 37 millj. kr. Til söltunar fóru af síld á árinu 68 þús. tonn, þ.e. af nýrri síld upp úr sjó. En útflutningurinn af síld var hins vegar ekki nema nokkuð yfir 400 þús. tunnur, en eins og kunnugt er, gengur vitanlega allmikið úr síldinni og kemur fram annars staðar í vinnslunni. Þar reikna ég með, að meðaltalsverð á hráefni á útflutta tunnu hafi verið í kringum 260 kr., eða að hráefni í síld til söltunar hafi verið 104 millj. Þá eru eftir 225600 tonn af síld, sem fóru á árinu í bræðslu, og þar reikna ég með, að hráefnisverðið sé um 203 millj. kr. Hráefnisverðið á allri síldinni mundi því samkv. þessu nema 344 millj. kr. og á öllum þorskaflanum, sem fer til verkunar, 610 millj. kr. Að vísu sleppi ég hér örfáum tonnum, sem fóru til niðursuðu og innanlandsneyzlu og þess háttar, og svo auðvitað sleppir maður því af aflanum, sem flutt er út ísvarið af togurum, sem leggja fiskinn aldrei á land, og sá fiskur fellur ekki á neinn hátt undir útreikning á fiskverði hér innanlands. Þegar er verið að ræða um að hækka fiskverðið um 25%, þá auðvitað dettur engum manni í hug, að við getum gert ráðstafanir til þess að hækka markaðsverðið úti í löndum um 25%. Verðið á þeim fiski fer upp og niður eftir markaðsaðstæðum, og það aflamagn á vitanlega ekki að taka inn í þennan útreikning. Slíkt er fjarstæða. Því sleppi ég þeim tölum úr skýrslu Fiskifélagsins, sem þannig eru, en hitt allt er tekið.

Samkv. þessu mundi hráefnisverð þessa fiskafla vera í kringum 954 millj. kr. Og það kemur líka mjög heim og saman við það hlutfall, sem allir kunnugir menn þekkja á hráefnisverði og útflutningsverði, þegar maður litur á þetta hráefnisverð og svo aftur útflutningsverðið, því að það er langalgengast, að þannig sé ástatt, að útflutningsverðið sé um það bil þrisvar sinnum hærra en sjálft hráefnisverðið, þó heldur undir því að ná því að verða fyllilega þrefalt.

Það er svo aftur miklu meiri vandi að reikna út, hvað vinnulaunin muni verða mikil við hverja þessa framleiðslugrein fyrir sig, — miklu meira áætlunaratriði. Ég hef áætlað hin almennu vinnulaun verkafólks, en það er það, sem gert er ráð fyrir í frv., en ekki öll vinnulaun allra þeirra, sem hér koma við, eins og mér skildist á hæstv. ráðh. að hann væri að reikna með. Um það er ekki rætt í frv. Það er aðeins rætt um það að hækka kaup hinna lægst launuðu, verkafólksins, um 20%. Jafnvel þó að einhverjir aðrir, alls konar iðnaðarmenn, yfirmenn, vélstjórar, forstjórar og aðrir slíkir, sem vinna auðvitað að framleiðslunni, fengju einhverja kauphækkun, þá er ekki þar með sagt, að þeir ættu að fá 20%, sumir kannske enga. Um það fjallar frv. ekki á neinn hátt.

En þetta framleiðslumagn af frystum fiski, sem hér er rætt um, er rétt í kringum 50 þús. tonn af flökum, það sem kemur úr 144700 tonnum af hráefni, enda var framleiðslan mjög nærri því. 50 þús. tonn af flökum jafngilda 2 millj. kössum af frosnum fiski, en ég breyti þessu nú í kassaframleiðslu, af því að það er algengasta einingin, sem frystihúsamenn miða við, þegar þeir eru að gera sér grein fyrir vinnulaunakostnaðinum, og það, sem þeir miða við í sínum skýrslum.

Nú er það svo, að í skýrslum frystihúsanna er miðað við það, að vinnulaunakostnaður á kassa er auðvitað breytilegur eftir því, um hvers konar framleiðslu er að ræða. Hann getur leikið í skýrslum þeirra frá 35 kr. á kassa og allt upp í 80 kr. á kassa á allra dýrustu pakkningum, og þykir þó heldur illa á haldið, þar sem það er. En ég hef reiknað hér með, að vinnulaunakostnaðurinn væri 60 kr. á kassa. Þá mundi koma út úr þessu vinnulaunakostnaður upp á 120 millj. kr., en ekki vinnulaunakostnaður upp á 204 millj. kr., eins og hæstv. ráðh. talaði um, sem er vitanlega alger fjarstæða. Sá yrði nú ekki lengi að setja um öll frystihús í landi, ef hann kæmi þessum vinnubrögðum sínum við, ætta ég rétt að segja, ef vinnulaunakostnaðurinn ætti að verða þetta hjá óbreyttum liðsmönnum í frystihúsi. En hann mundi kannske vinna þetta upp á því að láta menn vinna næstum fyrir ekki neitt að síldarframleiðslunni, að verksmiðjuvinnunni, eins og hann hafði reiknað út.

Ég hafði gert grein fyrir því, að ég hafði áætlað að kaup hins almenna verkafólks við freðfisksframleiðsluna mundi vera í kringum 120 millj. kr. En til samræmis við þetta og í réttu hlutfalli við þetta og þá reynslu, sem fyrir liggur, hafði ég á sama hátt áætlað, að vinnulaunakostnaðurinn við skreiðarframleiðsluna á þessu ári væri í kringum 40 millj. kr. og saltfisksframleiðsluna í kringum 50 millj. kr., eða vinnslukostnaður hins almenna verkafólks í þessum greinum í kringum 215 millj. kr., vinnulaunakostnaðurinn við frystingu á síld í kringum 8 millj. kr. og við söltun á síld í kringum 40 millj. kr. og á verksmiðjuvinnslu, síldarverksmiðjuvinnslu, í kringum 42 millj. kr., en ekki 10 millj., eins og hæstv. ráðh. var að tala um, eða vinnulaunakostnaður samtals við þennan síldarafla hjá hinum almenna verkalýð í kringum 90 millj. kr. Ég skal að vísu játa, að það er ekki nein fullkomin nákvæmni í þessu, því að hún liggur ekki fyrir. En hér getur ekki munað ýkja miklu, það er alveg ljóst. Ég vil því reikna með því, að vinnulaunakostnaður við þessa framleiðslu hjá hinum almenna verkalýð sé í kringum 305 millj. kr. En 20% hækkun á þessi vinnulaun mundi nema 60 millj. kr. eða þar um bil, og 25% hækkun á fiskverðinu, þ.e.a.s. hinu almenna fiskverði og síldarverði, mundi nema á sama hátt 240 millj. kr., eða samanlagt mundu þessir liðir nema í kringum 300 millj. kr. Sé svo gert ráð fyrir því, að um nokkru meiri útflutningsframleiðslu væri að ræða á árinu 1963 samkv. því, sem við höfum ráðgert í grg. fyrir okkar frv., eða sem nemi í kringum 15% aukningu, þá gæti hér verið um að ræða ca. 45–50 millj. kr. Það bendir því allt til þess hjá þeim, sem vilja athuga þessar tölur með gaumgæfni, að okkar áætlun standist alveg fyllilega, á sama tíma sem það er alveg augljóst, að þær áætlanir, sem hæstv. ráðh. hefur birt hér, fá ekki á nokkurn hátt staðizt og eru eintóm endileysa.

Ég veit, að hæstv. forseti er orðinn órólegur, enda kannske ekki ástæða til að lengja þetta svo mikið, úr því sem orðið er. En ég vildi aðeins segja það, að ekki var hæstv. viðskmrh. vandur að meðferð á almennum röksemdum, fyrir utan það, hvernig hann lagði tölurnar fyrir. Sem dæmi um það skal ég nefna, að þegar hæstv. ráðh. hafði sagt, að hráefnisverð framleiðslunnar árið 1960 mundi vera 1577 millj. og vinnulaunin 545 millj., eða vinnulaun og hráefni 2122 millj., en hins vegar útflutningsverðið allt 2761 millj., þá sagði hæstv. ráðh., að nú gerðum við ráð fyrir nokkru meiri framleiðslu en hefði orðið og því væri rétt að hækka vinnulaunin hlutfallslega og hráefnisverðið hlutfallslega við þetta. Vill nú ekki hæstv. ráðh. íhuga, hvað hann er að segja með þessu? Vegna þess að það verður aukning á heildarframleiðslunni, aðallega á síldveiðunum og hann heldur að kosti ekkert að vinna síldina, þá á að taka hlutfallslega hækkun á öllum vinnulaunaliðum. Nei, málið er þannig, að það er alveg rétt, að það kostar miklu minna í almenn vinnulaun að vinna t.d. síld í verksmiðju heldur en flaka fisk og pakka honum inn í dýrar umbúðir og framleiða þannig frosinn fisk. Vinnulaunahlutfallið í þeirri framleiðslu er miklu meira. Þegar framleiðsluaukning verður ekki á þessu sviði, heldur á hinu sviðinu, sem snýr að þeim liðnum, þar sem vinnulaunin eru tiltölulega lág, þá sér hann, að hlutfallsaukning í þessu tilfelli er vitanlega alger blekking. Og hráefnisverðið nær auðvitað heldur engri átt, vegna þess að hann veit, að hráefnisverðið hafði ekki hækkað á milli áranna 1961 og 1962 í réttu hlutfalli við framleiðsluaukninguna. Á árinu 1961 var framkvæmd gengislækkun, sem vitanlega þýddi það, að útflutningsverð breyttist, án þess að innanlandsverð á hráefninu þyrfti að breytast eða breyttist. Hlutfallareikningur í þessum efnum er því alveg stórkostlega blekkjandi. En ráðh. hefur ekki hugsað út í það, að þegar hann er búinn að sanna, að öll þessi almennu vinnulaun séu 545 millj. og hráefnið 1577 millj., eða hráefnið og vinnulaun 2122 millj. og allt útflutningsverðið, eins og ég sagði, 2761 millj., þá eru aðeins eftir 639 millj. fyrir utan hráefnisverð og vinnulaun til að borga allan annan rekstrarkostnað hjá sjávarútveginum, til þess m.a. að borga útflutningsgjöld, er nema á 3. hundrað millj. kr., og til þess að borga alla vexti og allan annan rekstrarkostnað í sambandi við framleiðsluna. Hvers konar útgerð heldur hann að þetta sé? Það er dálaglegur taprekstur á þessu öllu saman. Auðvitað er hann búinn að spana svo upp tölurnar um hráefnisverð og vinnulaun, að útkoman úr dæminu hlýtur að verða eintóm endileysa.

Og svo aðeins að lokum þetta: Þetta er aðeins í beinu framhaldi og nákvæmlega réttu hlutfalli við það afrek, sem þessi hæstv. ráðh. með sérfræðinga ríkisstj. upp á hlið sína gerði á hv. Alþingi í nóvembermánuði 1961, þegar hann hafði sannað það með nákvæmum útreikningum í prósentum og útfærðum tölum, að það hefði þurft að lækka gengi krónunnar í ágústbyrjun 1961, vegna þess að heildaraflinn á árinu 1961 mundi verða 3% minni en aflinn var á árinu 1959. Þá í nóvembermánuði þylur hæstv. ráðh. þessa fjarstæðu yfir þm., að aflinn 1961 muni verða 3% minni en hann var árið 1959, þó að í nóvembermánuði væri aflinn orðinn mun meiri en hann var allt árið 1959. Og auðvitað varð hann 20% meiri. Hæstv. ráðh. sagði þá líka, að það hefði þurft að grípa til gengislækkunarinnar vegna þess, að það væri sannað mál, að andvirði framleiðslunnar 1961 mundi verða 170 millj. kr. minna en andvirði framleiðslunnar var árið 1959, þó að hann vissi, að þetta væri algerlega rangt. Og svo til þess að kóróna allt þetta létu skapanornirnar hæstv. ráðh. skrifa undir bankaskýrslu sem bankamálaráðh., þar sem í stóð þetta, hæstv. ráðh. skrifaði undir allt saman:

„Heildarfiskaflinn á árinu 1961 var samkv. bráðabirgðatölum 634 þús. tonn á móti 514 þús. tonnum 1960, og er þetta mesti ársafli, sem orðið hefur. Verðmæti aflans jókst hins vegar ekki að sama skapi, þar sem aflaaukningin stafaði svo að segja eingöngu af aukningu síldarafla. áætlað er, að heildarframleiðsluverðmæti sjávarafurða á árinu 1961 hafi numið nærri 3 þús. millj. kr., á móti 2628 millj. kr. 1960 og 2838 millj. kr. 1959, og eru þá allar tölurnar umreiknaðar til sama verðs og þess gengis, sem nú er í gildi:

Þarna var hæstv. ráðh. látinn undirskrifa það með eigin hendi, að það hefði verið allt endemisvitleysa, sem hann var að halda fram á Alþingi um staðreyndirnar í þessu máli. En svona eru þær tölur, sem hann hefur hvað eftir annað sent frá sér og sérfræðingar ríkisstj. um ýmis hagmál Íslands, að þær standa ekki snúning frammi fyrir staðreyndum reynslunnar.