03.12.1962
Neðri deild: 24. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í C-deild Alþingistíðinda. (2337)

76. mál, áætlunarráð ríkisins

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv. um áætlunarráð ríkisins, sem ég hef flutt á nokkrum undanförnum þingum, en dálítið breytt frá því, sem áður hefur verið. Hins vegar hef ég áður gert mjög ýtarlega grein fyrir þessum frv. og læt líka fylgja þeim allmikil fskj. nú, þ. á m. fskj., sem sýna, hvernig kaupmáttur tímakaupsins hefur minnkað nú á síðustu tímum og jafnframt yfirlit yfir, hvernig gengið hefur um aukningu iðnaðarins og þjóðarframleiðslunnar í hinum ýmsu löndum auðvaldsskipulagsins annars vegar og sósíalismans hins vegar.

Það, sem ég vildi gera sérstaklega að umræðu efni í sambandi við þetta frv. nú, er hvaða gildi það hefur haft í íslenzkri sögu á undanförnum 25 árum, að þær vinstri eða róttækar stjórnir, sem verið hafa við völd á Íslandi, hafa ekki borið gæfu til þess að koma á áætlunarbúskap í eitthvað svipuðum stíl og hér er lagt til, til þess að þeir flokkar, sem telja sig standa vinstra megin í þjóðfélaginu, geri sér fullkomlega ljóst, hvaða gildi svona fyrirkomulag hefur fyrir þeirra framkvæmdir.

Ég vil þá fyrst minnast nokkuð á fyrstu verulegu vinstri stjórnina, sem hér var mynduð á Íslandi, stjórnina 1934. Það var stjórn, sem Framsfl. og Alþfl. mynduðu þá, fyrsta stjórnin, sem Alþfl. tók þátt í. Alþfl. vann í þeim kosningum, sem fram fóru 1934, stærsta stjórnmálasigur, sem hann hefur nokkurn tíma unnið. Og ég býst við, að sagnaritarar síðari tíma muni líta svo á, að það, að Alþfl. eftir þann kosningasigur hefur aldrei borið sitt barr, muni fyrst og fremst stafa af því, hvernig hann brást því höfuðloforði, sem hann gaf þá. Í þeirri 4 ára áætlun, sem Alþfl. gaf út 1934, byrjar starfsskrá hans með þessum orðum, sem eru aðalatriðið í öllu hans kosningaprógrammi og hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta, þ.e. starfsskrá Alþfl.:

„Fjögurra ára áætlun fyrir næsta kjörtímabil er í fyrsta lagi, að hrundið verði þegar í stað í framkvæmd með löggjöf og framtaki hins opinbera auknum atvinnurekstri og framleiðslu eftir nákvæmri áætlun, er gerð sé til ákveðins tíma og hafi það markmið að útrýma með öllu atvinnuleysinu og afleiðingum kreppunnar og færa nýtt fjör í alla atvinnuvegi þjóðarinnar með aukinni kaupgetu og neyzlu hinna vinnandi stétta og auknum markaði innanlands. Stofnuð sé ráðgefandi nefnd sérfróðra manna þingi og stjórn til aðstoðar, er geri nákvæmar áætlanir um allar opinberar framkvæmdir á tímabilinu og stjórni vísindalegum rannsóknum til undirbúnings þeim og geri jafnframt tillögur um, hvernig komið verði fastri stjórn og skipulagi á allan þjóðarbúskapinn, jafnt opinberar framkvæmdir og fyrirtæki sem atvinnurekstur einstaklinga, svo að þau verði sem hagkvæmast rekin og aukin með hagsmuni almennings fyrir augum (planökonomi).“

Þetta var höfuðatriðið í stefnu Alþfl. 1934, og út á þessi loforð vann Alþfl. þá mjög mikinn sigur, varð álíka sterkur og Framsfl. hvað atkvæðatölu snertir á Íslandi. Í ávarpi, sem 12. þing Alþýðusambandsins og Alþfl., — það var þá eitt, — 1934, gaf út til alþýðu manna á Íslandi, var nauðsynin á þessu mjög undirstrikuð. Þar segir í 3. kafla ályktunarinnar, með leyfi hæstv. forseta, — þá var svo komið, að fasisminn hafði brotizt til valda í Þýzkalandi og víðar, og þessi 3. kafli gerði grein fyrir, hvernig á því stæði, þ.e. hann spyr :

„Hver er orsök þess, að alþýða hálfrar Evrópu hefur orðið ofbeldis- og einræðisstefnu auðvaldsins að bráð, jafnvel í þeim löndum, þar sem lýðræðis- og jafnaðarmannaflokkar höfðu sameiginlega farið með völdin, því að jafnaðarmenn hafa hvergi haft einir þingmeirihluta?“

Og svarið er hér:

„Hún er sú, að þeim lýðræðis- og jafnaðarmannastjórnum láðist, meðan þær sátu að völdum, að neyta valds síns, sem hinar vinnandi stéttir höfðu með atkv. sínu fengið þeim í hendur, til þess að koma á fullkomnu lýðræði, einnig í atvinnulífi þjóðanna, létu undir höfuð leggjast að taka að sér stjórn atvinnumálanna, framkvæma skipulagningu þeirra með hagsmuni alþýðunnar fyrir augum og brjóta þannig á bak aftur einræði auðvaldsins yfir framleiðslutækjunum.“

Þetta var orsökin, sem forusta Alþfl. einróma fann þá til þess, að fasisminn hafði brotið á bak aftur í Evrópu lýðræðissinnaðar og sósíaldemókratískar ríkisstjórnir. Og svo er svarið og kjörorðið, sem Alþfl. gefur út í þessu ávarpi til þess fólks, sem hafði þá kosið hann á Íslandi, í 6. kafla þessa ávarps, á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„En forráðamenn einkarekstrarins á atvinnuvegum þjóðarinnar hafa fyrirgert réttinum til þess að veita atvinnulífinu forsjá og forstöðu. Þá á ekki að spyrja ráða né til þeirra að leita um bjargráð.“ Það var átt við Sjálfstfl. þá. „Tímabil hins ótakmarkaða einkarekstrar og einkaauðvalds á Íslandi á að vera á enda.“ Ég ætla að biðja menn að gá að, að það er það, sem Alþfl. segir, sem ég er að lesa upp, en ekki neinn annar. „Fyrir tilstyrk hinna vinnandi stétta alþýðunnar til sjávar og sveita hafa völdin verið tekin af herrum auðvaldsskipulagsins íslenzka, og hún vill, að völdunum sé beitt gegn þeim. Henni er orðið það ljóst, að hún á fyrir höndum úrslitabaráttu fyrir atvinnu sinni, frelsi og lífi og vill berjast til þrautar undir forustu Alþfl. Hún skilur, að ef hún bíður ósigur í þessari baráttu, vofir yfir henni ekki aðeins atvinnuleysi og örbirgð, heldur einnig ófrelsi og kúgun um ófyrirsjáanlegan tíma. Hún veit, að ef sleppt er því tækifæri, sem nú er fyrir hendi, meðan stjórn lýðræðisflokkanna fer með völdin í landinu, til þess að koma nú þegar nýju skipulagi á allt atvinnulíf þjóðarinnar samkv. fyrir fram ákveðinni áætlun, er miði að því að tryggja hverjum, sem vinna vill, atvinnu, og leggja þannig grundvöll að nýju þjóðskipulagi í anda jafnaðar- og samvinnustefnunnar með fullkomnu lýðræði í stjórnmálum og atvinnumálum, þá bíða hennar sömu örlög og alþýðunnar í þeim löndum, sem nú eru ofurseld ofbeldis- og einræðisstjórnum auðvaldsins. Fyrir því skorar 12. þing A.S.Í.“ — og það er þá Alþfl. líka — „á flokka þá, sem fara með völdin í landinu, að neyta valdanna til þess að forða alþýðu þessa lands frá þeim örlögum og heitir til þess fulltingi þeirra mörgu þúsunda vinnandi manna og kvenna, sem A.S.Í. skipa, og öllu því harðfylgi, sem alþýðusamtökin eiga yfir að ráða.“

Þetta var yfirlýsing Alþfl. og stefna hans 1934 um, hvað gera skyldi í íslenzku þjóðfélagi um að koma á áætlunarbúskap og gerbreyta þannig þjóðfélaginu, en svipta einkaauðvaldið völdunum í þessu þjóðfélagi. Það eina, sem gert var í þessa átt þá, var, að það var sett nefnd, sem vann vel og skilaði einnig rauðri bók, sem kölluð hefur verið síðan Rauðka og hefur að geyma einhverjar beztu upplýsingar um íslenzkt atvinnulíf, sem komið hafa út síðustu 25 ár, en er orðin allgömul nú, sem vænta má. Hins vegar komst þetta aldrei lengra en á þessa rauðu bók, rauð varð stjórnin sjálf ekki. Loforðin brugðust, og eins og í svo mörgu öðru, sem enn þá er á huldu um, hvað ráðið hefur í íslenzkum stjórnmálum síðustu áratuga, þá hefur aldrei fengizt upplýst, hvort það var Framsfl., sem þarna sló í borðið og vildi ekki hafa neitt með framkvæmdina á þessu að gera, eða hvort það var hægri armurinn í Alþfl., sem bilaði, þegar á reyndi. Afleiðingin af því, að þessir hlutir voru ekki framkvæmdir, þ.e. áætlunarbúskapur, sem Alþfl. vann sinn mikla sigur á 1934, að honum var ekki hrundið af stað, varð sú, að næst á eftir sameinaðist Framsfl. Sjálfstfl. í einhverri verstu afturhaldsstjórn, sem setið hefur að völdum á Íslandi, þangað til núv. stjórn tók við, þjóðstjórninni svokölluðu. Já, menn eru til allrar hamingju búnir að gleyma henni núna, hvernig hún var. En ef maður tæki nú að rifja það upp, þá sæi meira að segja einn sá hæstv. ráðh., sem í henni sat, hve þokkaleg hún var, t.d. ef maður færi nú að rekja allar afturfarirnar í tryggingalöggjöfinni, á meðan hún sat. Og hún endaði sinn feril með því að gera tilraun til þess að stöðva endanlega, eftir að atvinnuleysið hvarf, allar kauphækkanir og samþykkti þau gerðardómslög hér á Alþingi, sem síðan urðu til þess, að hún sjálf féll.

En lærdómarnir hins vegar, sem vinstri flokkar þurfa að draga út frá því, að svona fór í kosningunum 1937 og að gamla þjóðstjórnin tók við, er, að þegar þeir bregðast því, sem þeir hafa lofað fyrir kosningarnar, og láta undir höfuð leggjast að gera þær ráðstafanir, sem gera þarf einmitt í sambandi við áætlunarbúskap, þá kemur nefndin yfir slíka aðila á eftir.

Næst þegar stjórn var mynduð, sem lofaði líka að koma á áætlunarbúskap, þ.e. fyrir utan nýsköpunarstjórnina, ég ætla ekki að ræða hana hér, — það var vinstri stjórnin 1956, — þá var aftur lofað að koma hér á heildaráætlun um framkvæmdir, samkv. því, sem skráð er í stjórnarsáttmálanum, sem þá var gerður. Og ég hef rakið það nokkuð ýtarlega í þessari grg. og vitnað í það, sem þá var ákveðið. Það er 3. kaflinn í fskj., krafan um áætlunarbúskap á tímum vinstri Stjórnarinnar. Og Alþýðusambandið tók líka einróma undir þær kröfur þá. Það var þá lagt til af þeirra hálfu, sem með bankamálin höfðu að gera og umbreytinguna, sem gerð var á þeim, að einmitt sú stjórn, sem sett yrði við Seðlabankann, yrði þá um leið áætlunarráð. Og Alþb. og Alþfl. stóðu saman um þessar kröfur og urðu sammála um þetta, þeir menn, sem áttu sæti fyrir þá í bankanefndinni, og hefði þess vegna mátt ætla, að Framsfl. hefði ekki átt að geta fengið að ráða því að hindra framgöngu þess máls. Það, sem hins vegar gerðist, jafnvel þótt þessir tveir verkalýðsflokkar báðir væru sammála um þetta, var, að Framsfl. kom í veg fyrir, að þetta yrði framkvæmt, hindraði þar með á sviði efnahagsmálanna langskynsamlegustu aðgerðina, sem þá var hægt að gera. Og það er alveg óhætt að segja það nú, hvaða aðilar það voru, sem þá komu í veg fyrir þetta. Það voru fyrst og fremst tveir menn, sem þá fengu að ráða skipun bankamála og efnahagsmála, það var annars vegar Vilhjálmur Þór og hins vegar Jónas Haralz, þannig að hin illu öfl vissu það einmitt fyrir, hve íhaldssamur Framsfl. var á þessu sviði, að þeir tveir menn, sem síðan hafa hjálpað mjög dyggilega til þess að ryðja brautina fyrir núv. afturhaldsstjórn, komu í veg fyrir, að skynsamleg stefna yrði tekin upp til áætlunarbúskapar einmitt af hálfu þeirra flokka, sem verkalýðshreyfinguna studdu í þeirri vinstri stjórn. Og það á að kenna vinstri flokkunum í landinu, að það er brýnasta nauðsyn fyrir þá, ef þeir ætla að stjórna þjóðfélaginu og bera ábyrgð á því, ekki sízt eins þýðingarmikil og öll efnahagsmál þjóðfélagsins eru orðin nú, að þeir læri af þessum tveim glapræðum sem gerð hafa verið af stjórn Frams.- og Alþfl. 1934–37 og aftur af vinstri stjórninni á þessu sviði.

Ég hef tekið eftir því, og það er raunar ekki nýtt, en það hefur sjaldan verið lögð eins mikil áherzla á það af hálfu Framsfl. og nú, að það yrði tekið upp það, sem Framsfl. kallar jafnvægi í byggð landsins. Og það var flutt hér nýlega frv., sem einn hv. þm. í þessari d. hélt mjög fagra ræðu um, til þess að fara að mynda sjóð um það að koma á jafnvægi í byggð landsins. Ég vil, ef Framsfl. fengist til að hugsa eitthvað um það upp á að eiga að læra eitthvað af sínum afglöpum á undanförnum áratugum, ræða þetta mál dálítið við hann. Þessar hugmyndir um að ætla að koma á jafnvægi í byggð landsins með því einu að mynda einhverja litla sjóði til þess að veita úr þessum sjóðum til einhverra lítilla fyrirtækja, það er vonlaust verk. Það er eins og að henda snjókúlum í helvíti. Svo framarlega sem menn ætla að vinna að því að stjórna efnahagsþróuninni, þjóðarbúskaparþróuninni á Íslandi, þá verða menn að þora að taka að sér stjórnina á þjóðarbúskapnum í heild og hugsa hana sem heild.

Það, sem gerir, að Framsfl. sýnir alveg sérstakan áhuga á því að reyna að hafa afskipti af þróuninni núna, er það, að í ráði er að virkja á næstu 5 árum annaðhvort Þjórsá eða Jökulsá. Og það er vitanlegt, að það kemur til með að ráða ákaflega miklu um þróunina á Íslandi hvað byggðina snertir, í hvort verður heldur lagt. Hins vegar hníga nú þegar öll þau venjulegu reikningslegu rök, sem fram eru flutt, eins og heyrist af skýrslu hæstv. landbrh. — raforkumálaráðh., að því, að að öllum líkindum verði þessi virkjun ráðin á Suðurlandi í sambandi við Þjórsá, jafnvel þó að raforka kynni að vera álíka ódýr úr Dettifossi. En af hverju, halda menn, hvað er það, sem ræður því, að það að öllum líkindum verði ofan á? Það, sem ræður því, er það, að svo framarlega sem menn ætluðu sér að byggja raforkuver á Norðurlandi og ætluðu t.d. að semja við útlenda alúminíumhringa eða einhverja slíka um það, þá segja þessir hringar fyrst af öllu: Hvar fæ ég fólkið til þess að vinna við verksmiðjuna? Hvar eru húsin, sem þetta fólk á að búa í? Það er sem sé ekki hægt að byggja upp stóriðjuver án þess að tryggja, að það sé þéttbýli þar, bæði af þeim orsökum, að verið er að byggja stóriðjuverið, og af ýmsum orsökum öðrum. Það þýðir m.ö.o., að það þarf að skipuleggja þessa byggð og hennar þróun í heild til þess að ráða því, hvað á þessu sviði er gert. Það bætast við á ári 3–4 þús. manns á Íslandi. Ef skipulagt er réttilega á Íslandi, þá er minnstur vandinn að láta á 10 ára tímabili rísa upp t.d. í Suður-Þingeyjarsýslu eða Eyjafjarðarsýslu byggð 20–30 þús. manna og þar með stjórna byggðinni á Íslandi. En það þýðir að taka að sér heildarstjórn á efnahagsþróuninni. Það, sem hins vegar kemur til með að gerast nú, er, að þetta verði að öllum líkindum byggt hér sunnanlands með þeim höfuðröksemdum, að þéttbýlið sé hér fyrir hendi, m.ö.o., þar sem þéttbýlið er, þar skuli þéttbýlið vaxa. Frá almennu sjónarmiði eru það ekki sérstaklega skynsamleg eða þýðingarmikil rök, en frá sjónarmiði peningalögmálsins alveg óhjákvæmilega sigrandi rök.

Svo framarlega sem þjóðfélagið á að þróast eins og lögmál peninganna heimtar, færist öll byggð hingað suður. Og það er alveg vonlaust hjá Framsfl. að vera með fagrar hugmyndir, móralskar tilvitnanir um það, að við eigum að byggja þetta land, og allt mögulegt annað slíkt, við eigum ekki að láta fara í eyði stóra hluta af því. Allar slíkar móralskar tilvitnanir hrynja af þjóðfélagi, sem stjórnað er af peningalögmálinu, eins og vatn, sem skvett er á gæs. Það verður ekki tekið tillit til þeirra.

Annaðhvort komum við til með að horfa upp á það á næstunni, að þetta miskunnarlausa peningalögmál umturnar öllu íslenzku þjóðfélagi eða meiri hluti manna á Íslandi tekur völdin af þessari þróun, af því að láta lögmál peninganna ráða og tekur það í sínar eigin hendur og ræður sjálft þróuninni. Það er bara um þetta tvennt að ræða. Það er bara um það að ræða að taka upp áætlunarbúskap, þannig að mennirnir sjálfir stjórni þessari þróun, eða láta peningana stjórna, eins og þeir eru að gera núna, Og það er þetta, sem Framsfl. þarf að gera sér ljóst.

Ég veit, að Framsfl. hefur tilfinningu gagnvart hinum dreifðu byggðum okkar lands. Ég veit, að hann vill, að sveitirnar úti um okkar land séu byggðar áfram, að þorpin þar haldi áfram að vaxa. En það verður erfitt að láta lítil þorp vaxa á Íslandi. Það er hægt að mynda stóra bæi, það er hægt að mynda bæi upp á 8 þús., upp á 10 þús., upp á 15 þús., en það verður að stjórna því, stjórna því af hálfu þeirra, sem fara með völdin í þjóðfélaginu.

Ég lagði slík drög á tímum nýsköpunarstjórnarinnar, þau eru til enn þá, um heila bæi, sem átti að byggja upp, og það eru plön, sem eru nauðsynlegri og brýnni fyrir okkar þjóðfélag en nokkurn tíma áður, því að það er vitskerðing að láta þá þróun halda áfram, sem nú er að ryðja sér til rúms fyrir tilverknað þeirra kapítalísku lögmála á Íslandi. Það þýðir að eyðileggja hina íslenzku þjóð. Það þýðir, að þegar hún er samansöfnuð hér, yfir 200 þús. manns, í landnámi Ingólfs, þá er það ekki sama þjóðin lengur og hún hefur verið. En það þýðir, að það verður að taka völdin af sjálfri auðvaldsþróun inni. Ég er ekki þar með að segja, að það þurfi að taka völdin af öllum atvinnurekendum. En það þarf á Íslandi að stjórna þróuninni, eins og t.d. var að nokkru leyti gert í sambandi við nýsköpunarstjórnina. Það var komið upp nýsköpunartogurum um allt land, þó að það væri enginn fjárhagslegur grundvöllur til hjá bæjunum til að kaupa þá, af því að menn vildu reyna að láta byggðina vaxa út um allt land. En það er búið að sjá til þess núna með þeirri kapítalísku þróun, sem verið hefur á Íslandi undanfarið, að þeir togarar, að Akureyri undantekinni, eru allir farnir burt aftur.

M.ö.o.: ef vinstri stjórnir, stjórnir, sem styðjast við verkamenn og bændur og aðrar vinnandi stéttir þessa lands, ætla að reyna að ráða þjóðfélagslegri þróun, þá verður að læra af reynslu þessara áratuga og láta ekki lengur hjá liða að taka upp að meira eða minna leyti áætlunarbúskap í þjóðfélaginu. Það eru vonlausir allir fagrir draumar um að byggja upp fagra hluta okkar lands, svo framarlega sem þetta er ekki gert. Við erum ekki einir um þessa þróun, Íslendingar. Þetta hefur verið þróunin í hverju einasta kapítalísku þjóðfélagi. Þróunin t.d. í Tékkóslóvakíu í gamla daga var sú, að allur iðnaður safnaðist saman í Bæheimi og Mæri, en Slóvakía var það, sem við mundum kalla dreifbýli, var landbúnaðarland, þar sem samt var fullt af einhverjum beztu fossum, sem til eru í Mið-Evrópu. Eftir að sósíalískur búskapur hefur verið tekinn upp, hefur þessu verið gerbreytt, þar sem kominn er upp fullkominn iðnaður í Slóvakíu.

Í kapítalískum löndum hefur þetta sama verið. Hvað var það, sem Roosevelt gerði á sinum tíma í sambandi við Tennessee Valley og nágrenni, það gífurlega raforkuver, sem þar var byggt, og allan iðnaðinn í sambandi við það, sem harðasta baráttan stóð um einmitt á árunum 1933–34, sem gerði það, að Roosevelt og hans menn voru úthrópaðir sem kommúnistar og ameríska auðvaldið hataðist við hann allt að því? Það, sem hann var að gera, var að taka að einhverju leyti stjórn á þjóðarbúskapnum, taka í hendur ríkisins til að mynda svæði, sem áður var það, sem Englendingar mundu kalla depressed area, það, sem áður var hálfgert efnahagslegt auðnarsvæði, og umskapa það. Og þetta er ekki hægt með öðru móti en þessu. Það er að sínu leyti alveg sama ráðið, sem Norðmenn gerðu við Norður-Noreg, þegar þeir tóku við honum eyddum af nazistum. Annars staðar hafa menn gert þetta, eftir að kapítalisminn hefur eytt ákveðin landssvæði. Vissulega eru það sósíalísk áhrif, sem koma þarna til greina. En menn þurfa ekki að halda, að það sé hægt að koma nokkru viti í nútíma auðvaldsþjóðfélag án þess að láta gæta þar sósíalískra áhrifa. Það má æpa upp eins og vill og reyna að forheimska menn með þeim áróðri, sem rekinn er, en auðvaldsskipulagið í dag væri ekki til, ef það hefði ekki orðið fyrir meiri eða minni áhrifum af sósíalískum kenningum, ef það hefðu ekki verið knúðir inn í það svo og svo stórir þættir, sem eiga rót sína að rekja til sósíalískra kenninga. Náttúrlega hafa þeir menn, sem hafa verið nógu framsýnir af hálfu auðmannastéttarinnar, alltaf verið úthrópaðir sem kommúnistar um leið. Hæstv. forsrh. fékk einhvern tíma að heyra það.

Ég vil bara segja þetta til þess, að menn geri sér það ljóst, að menn verða að þora að hugsa um efnahagslíf og þjóðarbúskap án tillits til, hvaða fordóma einhver og einhver blöð, sem eru að spekúlera í forheimskun á fólkinu, kunna að reyna að ala á í sambandi við það.

Þess vegna vildi ég nú leyfa mér að leggja til, að þetta frv. fengi einhverja betri athugun nú, ekki sízt þar eð þetta er síðasta þing fyrir kosningar, heldur en það hefur fengið að undanförnu, og þó alveg sérstaklega, þótt ég geri mér ekki miklar vonir um, að það muni ná fram að ganga, að þeir flokkar, sem við alþýðuna styðjast á Íslandi, reyndu eitthvað ofur lítið að læra af sögu sinni á síðustu áratugum til þess að vera betur í stakkinn búnir og láta ekki í þriðja skiptið undir höfuð leggjast að beita áætlunarbúskap sem grundvelli fyrir ökonómiskum framförum, sem þeir leggja í. Það væri satt að segja til skammar, ef það yrði þannig með vinstri flokka á Íslandi, að þeirra saga yrði slík, að þeir skildu þetta aldrei, og eina stjórnin, sem hefði skilið það, hefði verið sú stjórn, sem verkalýðurinn og auðvaldið mynduðu hér saman. Það er hart, að Íslandssagan skuli vera slík á þessum 60 árum, að það skuli hafa verið meiri skilningur hjá ýmsum mönnum úr sjálfu auðvaldsskipulaginu á Íslandi en hjá Framsfl. til að skilja, hvað nauðsynlegt er til að koma nútíma auðvaldsskipulagi eitthvað áfram á veg.

Svo leyfi ég mér að leggja til, að lokinni þessari umr., herra forseti, að þetta mál fari til fjhn.