11.12.1962
Neðri deild: 28. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í C-deild Alþingistíðinda. (2343)

76. mál, áætlunarráð ríkisins

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. hefur gert mér þá ánægju að taka nú loks til umr. um þetta mál, sem búið er að liggja fyrir Alþingi í rúman áratug og sannarlega hefði kannske verið tækifæri til að byrja að ræða dálítið fyrr og byrja að læra af dálítið fyrr. Hann hefur tengt við þetta jafnframt allmikla og mjög eftirtektarverða tilraun til skilgreiningar á ýmsum efnahags- og stjórnmálum á undanförnum áratugum, og er ég ekki síður til í að taka þátt í umr. um það heldur en um frv. sjálft. Ég mun nú byrja á þeim kafla, sem hann alveg sérstaklega sneri sér að, um ýmislegt í þeirri pólitísku sögu Íslands í sambandi við verkalýðshreyfinguna og launþega og kjör og þróun kjara launþega á síðustu áratugum, og síðan fara smám saman nánar inn á sjálft frv. og ýmislegt bæði teoretískt og praktískt í sambandi við það.

Hæstv. viðskmrh. beindi alveg sérstaklega allhvössum ádeilum að Sósfl. og Alþb. og raunar gamla Kommúnistaflokknum líka viðvíkjandi þeirri þróun, sem hefði orðið á Íslandi. Hann var ekki alveg viss í, hvort hann ætti að slá því föstu, að kjör launþega hefðu farið versnandi á Íslandi, en mér sýndist hann vera sammála sjálfum sér um eitt, og það er, að að svo miklu leyti sem kjör launþega hafi farið versnandi, þá hafi það verið þessum flokkum að kenna, og að svo miklu leyti sem þau hefðu farið batnandi, þá hafi það verið Alþfl. að þakka. Hvernig sem við viljum taka það, þá skulum við athuga þessa hluti, bæði hvort þeir hafa farið versnandi eða batnandi og hvað við skiljum við það hvor um sig, og svo hvaða áhrif þessir tveir flokkar, annars vegar Alþfl. og hins vegar Sósfl. og síðar Alþb., hafa haft á þessar kjarabreytingar, hverjar svo sem þær hafa orðið.

Viðvíkjandi þeim áhrifum, sem Sósfl. og Alþb. hafa haft á kjör íslenzkra launþega, þá hafa þau verið tvenns konar. Þau hafa í fyrsta lagi verið á þá leið, að þessir flokkar hafa verið allsterkir í verkalýðshreyfingunni um alllangan tíma og getað um nokkurt árabil þess vegna haft forustu í því að bæta kjör verkalýðs með því móti, sem mest tíðkast í auðvaldsskipulagi, að fá launin hækkuð. Og það er hlutur, sem venjulega er látinn gilda í venjulegu auðvaldsskipulagi, að þegar verkamenn geta borið hærri hlut gagnvart atvinnurekendum og fengið sín laun hækkuð, þá er látið við svo búið sitja. Það er ekki nema ein einasta stjórn á Íslandi, sem hefur gerzt svo ósvífin, að þegar verkamenn hafa hækkað kaup sitt með frjálsum samningum við atvinnurekendur, þá hefur hún leyft sér að beita ríkisvaldinu til þess að lækka síðan gengið á eftir, og það er núv. ríkisstj., — sama ríkisstj. sem hafði lýst yfir, að hún mundi ekki láta ríkisvaldið skipta sér nokkurn skapaðan hlut af samningum verkamanna og atvinnurekenda, heldur láta þá vera frjálsa. Kaup og kjör væri allt hærra nú, ef ríkisstj. hefði ekki beitt ríkisvaldinu á sínum tíma til þess, í ágúst 1961, með stjórnarskrárbroti að lækka smám saman kaup, sem verkamenn höfðu tryggt sér, 13% hækkun, þannig að hún hyrfi á 3 mánuðum. Sósfl. og Alþb. hafa verið í ríkisstj. nokkrum sinnum á síðustu 15–17 árum, en þegar við höfum verið í ríkisstj., getur hæstv. viðskmrh., ef hann hefur fyrir sér fskj. um kaupmátt tímakaupsins, litið á, hvernig það tímakaup hefur verið. Það hefur verið mestur kaupmáttur tímakaups, þegar þessir flokkar hafa verið í ríkisstj., 1945–46 100, og hefur aldrei orðið hærri síðan, og 1956–58 97, 95, 96 og var lægri allt tímabilið þar áður.

Ég skal svo koma síðar að lífskjörunum eftir þeirri töflu, sem hann var með um þau, og skilningnum á þeim síðar.

Hvenær sem áhrifa Sósfl. og Alþb. á ríkisstj. hefur notið við allan þennan tíma, þessi 20 ár, hafa kjör verkamanna verið hvað bezt og kaupmáttur tímakaupsins mestur. Og það hefur ekki verið nóg með það. Á milli þess tíma, sem við höfum verið í ríkisstj., þessir flokkar, eða getað haft áhrif á það, höfum við reynt að beita okkar áhrifum til að hækka kaupgjaldið, — að vísu oft átt við ósvífnar ríkisstj. að etja, ríkisstj., sem beittu jafnvel gengislækkunum, en þó aldrei við eins ósvífna ríkisstj. í slíku og núna.

Svo er annað. Allan þennan tíma, sem við höfum verið í ríkisstj. og í bæði skiptin með Alþfl., höfum við ekki haft meiri hluta á Alþingi á bak við okkur, ekki við og Alþfl. samanlagt einu sinni, þó að við hins vegar kannske höfum haft meiri hluta í ríkisstj. Það hefur þess vegna ekki verið vegna þess, að Sósfl. og Alþb. hafi ekki reynt á þeim tímum, sem þeir hafa verið í ríkisstj., að fá ýmsu áorkað um áætlunarbúskap, heldur hefur þá brostið valdið til þess. Og meira að segja hefur ekki stuðningur Alþfl. alltaf verið of góður, a.m.k. ef flokkarnir, sem með voru, þ.e. Sjálfstfl. eða Framsfl., byrstu sig eitthvað verulega.

Svo kom hæstv. viðskmrh. inn á, hvernig hefði verið með áhrif Kommúnistaflokksins, Sósfl. og Alþb. á íslenzk stjórnmál á þessum 30 árum. Saga þessara 30 ára sýnir það, að framsókn íslenzkrar verkalýðshreyfingar hefur aldrei verið eins mikil og eins sterk og barátta hennar hefur aldrei verið eins hörð og á tímabilinu 1930–1940. Þá býr íslenzkur verkalýður við mestu eymdina af þessu 30 ára tímabili, vegna þess að heimskreppan er þá ríkjandi hér, og Kommúnistaflokkurinn sérstaklega verður að beita sér fyrir því að reyna að knýja fram atvinnubótavinnu. Um það urðu mörg hörðustu átökin, og hann verður meira að segja að beita sér fyrir því og atvinnuleysingjanefndin hér í Rvík að hindra nauðungarflutning styrkþega með valdi. 1933 seinast hindruðu þeir með valdi, að heimilum og fjölskyldum væri sundrað og menn fluttir, eins og kallað var þá, hreppaflutningi. Og sú harða barátta öll endaði með því, að þegar Alþfl. og Framsfl. tóku við völdum 1934, þá var loksins sá smánarblettur afnuminn. Fólk er farið að gleyma því nú, hvernig íslenzkur verkalýður bjó 1930–40. Þeir, sem komu þá í íbúðirnar hér í Rvík, komu upp á loft, þar sem voru 6 herbergi, 3 til hvorrar handar, prímus á ganginum frammi fyrir hverjum dyrum, ein fjölskylda í hverju herbergi, og elduðu allir á prímus á ganginum. Menn vita ekki lengur, hvernig þeir lifðu þá, og menn hafa ekki hugmynd um það, þeir sem vaxa upp nú og sízt af öllu æskan, hvað það var að svelta, hvað það var að eiga ekki nema ein föt, hvað það var að geta ekki farið á fundi nema í sínum verkamannagalla. Það er búið að umhverfa öllum lífskjörum á Íslandi fyrir baráttu þessara flokka. Eymdin, sem þeir menn, sem vaxið hafa upp síðan, hafa ekki hugmynd um og þeirra börn þaðan af síður, er okkur enn í fersku minni. Við höfum gert byltingu hér á Íslandi. Við höfum gert lífskjarabyltingu.

Það sverfur ekki lengur að, það sér ekki lengur á börnum verkamanna hérna, af því að þau skorti mat, til allrar hamingju, og það er okkar verk. Og það er bezt að byrja með því að muna það, þegar talað er um þetta. Og svo má kannske næst athuga, hvernig á því stendur, að ekki skuli nú vera til atvinnuleysi á Íslandi. Ég má kannske minna hæstv. viðskmrh. á það, hverjir gerðu mest gys að okkur 1944, t.d. þegar ég hélt svokölluðu nýsköpunarræðuna hér á Alþ., og var talað um það sem hreina vitleysu, sem skýjaborgir, að láta sér detta í hug, að Íslendingar færu að flytja inn togara, færu að flytja inn báta. Auðvitað mundi allur fiskmarkaður hrynja. Auðvitað mundu launin falla. Auðvitað mundi allt fara til andskotans. Og Alþýðublaðið, hæstv. viðskmrh. getur flett því upp 14. sept. 1944 og lesið greinarnar þar, — og Alþfl. skildu hvorki upp né niður í því, sem var að gerast þá, og í þeim möguleikum, sem þá voru fram undan. Það voru menn úr auðmannastéttinni á Íslandi, sem skildu það betur. Skilningsleysi Alþfl. var það sama og hefur verið lengst af allan tímann. Alþfl. ætlaði sér ekki að fara í þá ríkisstjórn, sem þá var mynduð. Hæstv. viðskmrh. hefur líklega verið sjálfur einn þeirra, sem börðust á móti því. Ég veit ekki betur en allir svokallaðir vinstrimenn í Alþfl. væru á móti því þá, og hvernig hægri mönnunum, m.a. núverandi hæstv. forseta Íslands, tókst að fá þá inn, það ætla ég ekki að fara að rekja hér núna, það verður kannske gert í sögunni seinna. En einu atkvæði munaði það, þannig að það var ekki sérstaklega mikill skilningurinn á því hjá Alþfl. að ætla að reyna að skapa grundvöll að þeirri tæknibyltingu, sem framkvæmd var þá á Íslandi og byggt hefur verið á síðan. Það er gott að tala sem prófessor um tæknibyltingu núna, en það að gera hana á móti vilja Alþfl., en drasla honum þó með í ríkisstjórn, það er annað.

Hver hefur verið afstaða Alþfl. allan þennan tíma? Við skulum bara rekja hana þá sjaldan við höfum getað draslað honum í ríkisstjórn með okkur, og ætlaði það að verða nógu dýrkeypt að fá hann í vinstri stjórnina líka. Við skulum athuga, hvernig hafi gengið fyrir honum, fyrst hann segir, að það sé allt saman okkur að kenna, sem vorum í Kommúnistaflokknum, í Sósfl. og Alþb., að illa hafi gengið á Íslandi.

Alþfl. fór í ríkisstjórn 1934 með Framsókn, — og ég get byrjað 1927, þegar hann studdi stjórnina sjálfur, sjálfur var ég í Alþfl. þá og þekki nokkurn veginn, hvernig það fór allt saman, 1934–37 tekur hann fyrst opinberlega þátt í ríkisstj. Hvernig tókst honum að ráða við flokkinn, sem hann var með? Ég stóð hér 20. marz 1938 með Haraldi Guðmundssyni í þeirri baráttu, sem við áttum við Framsfl. þá, þegar sjómennirnir voru hér frammi og gluggarnir brotnuðu, þegar sjómannafélagið hafði sinn stóra fund í Listamannaskálanum nóttina sem Jón Baldvinsson dó, ég stóð hér fram á nótt. Við börðumst hér á móti því, sem Framsókn var að gera þá, þegar Haraldur Guðmundsson var dreginn út úr ríkisstj., eins og hann orðaði það. Hvað var það, sem gerðist? Það var, að Alþfl. gafst upp fyrir Framsfl.

Hvað gerist svo 1938–42, þegar Alþfl. er settur inn í þjóðstjórnina, næstverstu ríkisstj., sem setið hefur að völdum á Íslandi? Hvað gerist þá? Hvernig endar það? Hann hrökklast út úr henni, með því að meira að segja sjálfur Stefán Jóhann segir, að það sé ekki sitjandi öllu lengur í þeirri stjórn, eftir að gerðardómslög Sjálfstfl. og Framsfl. voru sett fram. Hvernig gekk Alþfl. að ráða við þetta? Hann varð að gefast upp. Það hefur verið reglan hjá honum.

Hvernig var svo 1947–49, þegar hann myndar fyrstu stjórn sína á Íslandi, stjórn Stefáns Jóhanns? Jú, það endar með því, að hún lætur lífskjörunum stórhnigna á Íslandi, þangað til Alþfl. að lokum gefst upp við að vera áfram í ríkisstj., af því að það átti að skella á hann gengislækkun.

Svo hefur Alþfl. auðsjáanlega lært það af því að vera þrisvar sinnum í ríkisstj. með borgaraflokkunum án okkar, að hann hefur álitið, að það væri bara eitt ráð til að vera áfram í ríkisstj. og það væri að gleypa allt, sem fyrir hann væri lagt.

1938 fer Alþfl. úr ríkisstj. á gerðardómslögum, af því að hann neitar að beygja sig fyrir þeim. 1942 fer hann aftur úr ríkisstj. á gerðardómslögum, af því að hann neitar að beygja sig fyrir þeim. 1949 hættir hann þátttöku í ríkisstj., vegna þess að það á að framkvæma gengislækkun. En hvað gerir hann núna? Nú gefur hann bara út ein gerðardómslög, tvenn gerðardómslög, gerir eina gengislækkun, gerir tvær gengislækkanir. Öllu því, sem hann hafði barizt fyrir á undanförnum áratugum, bregzt hann nú. Allt, sem hann hafði barizt á móti og farið út úr ríkisstj. vegna á undanförnum 3 áratugum, gerir hann nú. Ég skil ósköp vel, að nú sitji hann fast, fyrst hann loksins er búinn að taka þessa ákvörðun, að vera ekki að sinna því, sem Stefán Jóhann eða Haraldur Guðmundsson fara út úr ríkisstj. fyrir, nú sé bara að gleypa það allt saman. Ég sé, að þeir, sem stjórna Alþfl. nú, hafa lært mjög mikið, a.m.k. hvernig eigi að sitja í ríkisstj.

Þá talaði hæstv. viðskmrh. um verkalýðshreyfinguna á þessum tíma og hvernig það hefði verið, — verkalýðshreyfingin á þessum tíma. Má ég spyrja: hvernig hefur Alþfl. staðið í verkalýðshreyfingunni þennan tíma? Á einu tímabili stóðum við saman, Sósfl. og Alþfl., á þessu tímabili. Það var 1944–47. Við stóðum saman um stjórn Alþýðusambandsins, höfðum báðir þar framkvæmdastjóra og unnum þar saman. Hvernig hefur það svo verið frá því 1947? Hvernig hefur það verið frá því, að ameríska auðvaldsins fór fyrst verulega að gæta í íslenzkum stjórnmálum og áhrifanna af Marshallaðstoðinni? Síðan hefur Alþfl. aldrei fengið sig til þess að taka fyrst og fremst afstöðu sem heild út frá sjónarmiðum íslenzkrar alþýðu, heldur alltaf út frá sjónarmiðum íslenzka auðvaldsins. Stundum hefur hann helzt kosið að starfa með Sjálfstfl., stundum bæði með Sjálfstfl. og Framsfl. Einu sinni gerði hann tilraun til að starfa með Framsfl. einum. Það var Hræðslubandalagið svokallaða. Og ég held, að hann hafi orðið svo hvekktur á því, að það liti helzt út fyrir það, að hann ætli aldrei að þora að starfa með Framsfl. oftar. Þó skal ég engu spá. En allan þennan tíma frá 1947 hefur það verið pólitík Alþfl. að vinna aldrei með okkur í verkalýðshreyfingunni. Þegar það hefur verið gert, eru það einstakir menn úr Alþfl., verkalýðsforingjar t.d. hér í Reykjavík eða annars staðar, sem hafa staðið með í verkföllum eða slíku á móti vilja foringjanna. En flokkurinn sem slíkur virðist hafa ásett sér það, að hann skuli alltaf vinna með borgaraflokkunum. Það eru næg tækifæri til samstarfs í verkalýðshreyfingunni. Það eru kosningar á hverjum einasta vetri í verkalýðsfélögunum. Og hvernig hefur þá staðið allan þennan tíma í þessum kosningum? Það hefur staðið þannig, að Alþfl. t.d. hér í Reykjavík hefur alveg sérstaklega límt sig upp að Sjálfstfl., þannig að kosningum í verkalýðsfélögunum hefur oft og tíðum verið stjórnað frá skrifstofum Sjálfstfl., og ég held Alþfl. hafi jafnvel stundum gengið illa að fá kjörskrárnar sínar til baka eftir að hafa lánað Sjálfstfl. þær til þess að stjórna þeirra sameiginlegu baráttu gegn okkur í verkalýðsfélögunum.

Hæstv. viðskmrh. vildi segja, að við sósíalistar hefðum verið með einhverjar hugmyndir um byltingu og verið á móti umbótum og öðru þess háttar. Hefur nokkur flokkur barizt skarpar fyrir umbótum á Íslandi á þessum 20 árum en við? Er það nokkur flokkur annar jafnvel, sem hefur tekið meiri þátt í að leggja grundvöllinn að núv. auðvaldsskipulagi á Íslandi en við og að því að reyna að koma því á nokkuð tæknilega hátt stig, en ekki niður á það eymdarkreppustig, sem var fyrir stríð? Ég held, að það þurfi langt að leita til þess að finna raunhæfari baráttu hjá marxistískum flokki en okkar flokki í þessum efnum. Og hún hefur verið öllu raunhæfari en barátta Alþfl., því að hann hefur meira að segja verið hræddur við það, sem þurfti að gera til þess að skapa framfarir í því borgaralega framleiðslulífi, eins og nýsköpunina 1944.

Hafa samtökin verið lömuð vegna þess, að við og okkar samherjar höfum haft þar forustu lengi vel? Ég held ekki. Ég held, að verkalýðssamtökin á Íslandi hafi barizt eins harðri baráttu og nokkurt verkalýðssamband á Norðurlöndum. A.m.k. höfum við fengið að heyra það nokkuð oft hjá okkar ágætu andstæðingum, að alltaf sé verið að efna til verkfallanna, og annað slíkt. En hitt er svo aftur annað mál, að ríkisvaldinu á Íslandi hefur verið svívirðilegar beitt allan þennan tíma á móti verkalýðshreyfingunni en á nokkru Norðurlandi öðru. Við höfum átt erfiðari aðstöðu. Ég hef svolítil kynni af sósíaldemókrötum Norðurlanda. Ég hef oft haft tækifæri til að tala við þá, ekki sízt í sambandi við Norðurlandaráð nú upp á síðkastið. Ég hef spurt þá að því, hvort það væri til hjá þeim nokkurs staðar, að sósíaldemókratar í Skandinavíu stæðu með — við skulum segja íhaldsflokki í verkalýðsfélögunum. Ég hef spurt þá að því, hvort það væri til í nokkru verkalýðsfélagi í Skandinavíu, að bílar atvinnurekendanna væru notaðir til þess að safna verkafólkinu saman til að aka því á kjörstað, þegar átti að kjósa í stjórn verkalýðsfélaganna. Og þeir hafa hrist höfuðið yfir því, hvers konar flokkur Alþfl. á Íslandi væri. Þeir eiga ómögulegt með að skilja það, af því að það er ekki til í dæminu, að neinn verkalýðsflokkur á Norðurlöndum hafi hagað sér eins og Alþfl. hefur gert hérna, hafi límt sig upp að flokki atvinnurekendanna í verkalýðshreyfingunni áratugum saman, staðið með honum í hverri einustu baráttu. Og eðlileg afleiðing af þessu er, að þeir Alþýðuflokksforingjar, sem hafa haft völdin og stjórnað svona pólitík, eru að sparka frá sér öllum þeim mönnum, sem hugsa eitthvað svipað og aðrir sósíaldemókratar í Skandinavíu. Ég veit ekki, hvort hæstv. viðskmrh. fylgist nokkurn skapaðan hlut með því, sem gerist í verkalýðshreyfingunni, og þegar kosningar eru í verkalýðsfélögunum og annað slíkt. Hann er kannske svo hátt uppi í öllum hugleiðingum um efnahagsmálin og annað slíkt, að hann viti ekki af því. En ef hann vissi eitthvað af því, sem gerðist þarna, og ef hann vildi eitthvað læra af því, sem sósíaldemókratar gena í Skandinavíu, þá ætti hann að fara að læra það að láta Alþfl. hætta að standa með Sjálfstfl. í verkalýðshreyfingunni og fara að vinna með okkur. Það er auðvaldið, sem hlýtur að vera höfuðóvinurinn frá sjónarmiði hverrar verkalýðshreyfingar. Það er ekki nema þegar menn eru farnir að láta áróður auðvaldsins villa sig og farnir að sjá Rússagrýlur og heimskommúnismann alls staðar, að þeir eru farnir að einbeita sér í baráttunni á móti sósíalismanum og móti þeirri róttæku verkalýðshreyfingu. Þess vegna er ég hræddur um, að forustumenn sósíaldemókrata á Norðurlöndum eigi enn þá langt í land með að skilja þennan flokk, sem þeir hafa annars haft samband við. Þeir kynntust því náttúrlega í gamla daga, eins og einn aðalforustumaður þeirra orðaði það, þegar skandalinn varð á Arnarhóli, hvers konar flokkur þetta var og hve mikið fylgi hann átti hjá verkalýðnum. En þeir mundu samt sjá það enn þá betur, ef þeir sæju hans atferli í verkalýðshreyfingunni.

Í þessu liggur lausnin á því, sem hæstv. viðskmrh. er að brjóta heilann svo mikið um, hvernig stendur á því, hve erfiðlega hefur gengið fyrir Alþfl. Alþfl. hefur alltaf gengið vel, þegar hann hefur unnið með okkur í verkalýðshreyfingunni, — alltaf. Hann hefur vaxið, þegar hann hefur staðið með okkur, af því að við höfum dregið hann með okkur. Hann hefur ekki verið alveg eins stimamjúkur og beygt sig niður í duftið fyrir þeim, sem hann vann með, ef við vorum hinum megin við hann til að styðja við hann í ríkisstj.

Svo kom hæstv. viðskmrh. inn á það, að 1956 í vinstri stjórninni hefði vantað allan vilja til að vinna að hagkvæmum úrlausnum. Ég skal koma að því betur seinna, þeim till., sem við lögðum fram, sem okkur tókst um tíma meira að segja að fá Alþfl. inn á, — till. að hagkvæmum úrlausnum bæði í sambandi við áætlunarráð og seðlabanka. Og ég mun þá líka yfirheyra hæstv. viðskmrh., hvernig hann hafi staðið að í vinstri stjórninni, þegar baráttan var um það, hvers konar skipulag hafi átt að vera á bankamálum. En við skulum svo athuga viðvíkjandi verkalýðshreyfingunni. Þar vildi hæstv. viðskmrh. segja, að það hefði verið tómt lýðskrum hjá sósíalistum, sama ábyrgðarleysið alltaf, bara eggja til verkfalla og annað slíkt. Má ég máske rifja upp eitt augnablik fyrir hæstv. viðskmrh. sumarið 1958. Hverjir voru það, sem sýndu gagnvart þeirri ríkisstj., sem verkalýðshreyfingin vildi styðja, mesta ábyrgðartilfinningu, þegar um það var að ræða að knýja fram kauphækkanir vegna efnahagsráðstafananna? Hvaða félag var það, sem var seinþreyttast, að því er Framsfl. mundi segja, til vandræða? Það var Dagsbrún, félagið Dagsbrún, sem er talið alltaf að við stjórnum, sterkasta félagið í Reykjavík. Það var hún, sem var seinþreyttust til þess, sem Framsfl. mundi kalla til vandræða. En hverjir voru það, sem eggjuðu? Hverjir voru það, sem ögruðu? Hverjir voru það, sem sögðu: Hvað er þetta, ætlar Dagsbrún ekki að fara af stað? Var það ekki Alþýðublaðið? Ætli það sé ekki bezt fyrir hæstv. viðskmrh. að fletta upp í Alþýðublaðinu frá sumrinu 1958 og athuga ögranirnar til kommúnistanna, eins og þeir sögðu: Ætla þeir aldrei að fara að koma sér af stað? Nei, þið skuluð ekki vera að reyna allt í einu að fara að bregða okkur um skort á ábyrgðartilfinningu. Hana hefur aldrei vantað í okkar stjórnmálaafstöðu á Íslandi. Hann var að tala um, að við vildum bara hafa rétt áróðursmannanna, eins og hann orðaði það. Þetta er þvaður. Það hafa ekki aðrir flokkar verið raunsærri í þessum efnum. Við vissum ósköp vel, að það var hægt að hækka kaupið, og ef farið hefði verið að okkar till. 1957, hefðum við líka sýnt, að það hefði verið gert. En í staðinn er allt látið lenda í felmtri, stokkið burt án þess að gera svo mikið sem ræða við þá flokka, sem var starfað með.

En þá á hæstv. viðskmrh. ekki að vera að dengja því hér á okkur, að okkur hafi skort ábyrgðartilfinninguna. Hann talar um, að það hafi verið hógvær ósk Hermanns Jónassonar, þáv. hæstv. forsrh., í des. 1958. Má ég spyrja, fyrst hann talaði um þessa hógværu ósk núna: Hvaða afstöðu tók Alþfl. gagnvart henni? Hvaða afstöðu tóku Alþýðuflokksmenn á Alþýðusambandsþingi gagnvart henni? Sögðu þeir: Þetta er bara hógvær ósk? Vill hann kannske leita til Eggerts G. Þorsteinssonar í Ed., spyrja, hvort það væri bara hógvær ósk hjá Hermanni Jónassyni, ekkert annað? Og fannst hæstv. viðskmrh. það sjálfum? Ég veit ekki betur en það hafi raunverulega verið í fyrsta sinn, sem fulltrúar Alþfl. og Alþb. í ríkisstj. töluðu saman einir sér. Það var þá, að þeir fóru inn til utanrrh. í stjórnarráðinu að spjalla saman. Heldur hæstv. viðskmrh., að hann geti leyst þetta með því að segja, að við höfum bara verið þarna með áróðurinn og annað slíkt og ekki viljað verða við hógværum óskum?

Var hægt að fara fram á minna af Framsfl. þá en hann tæki upp viðræður við þingflokkana, sem hann starfaði með, um það, hvaða lausn skyldi finna á þessu? Ég býst satt að segja við, þó að hæstv. viðskmrh. segi í dag, að þetta hafi verið hógvær ósk, að Framsfl. mundi segja í dag, ef hann vildi vera alveg hreinskilinn: Við gerðum okkar mesta glappaskot, þegar við stukkum svona út úr ríkisstj. í staðinn fyrir að snúa okkur fyrst til þingflokkanna, sem við unnum með, og sjá, hvað hægt væri að gera. — Af hverju stökk Framsfl. úr ríkisstj.? Skyldi það ekki hafa verið vegna þess, að hann hafði reiknað með því sem sjálfsögðu, að hann mundi geta myndað stjórn með Sjálfstfl. á eftir, eða a.m.k. að hann hefði það í hinni hendinni, svo að hann gæti reynt að beygja dálítið Alþfl. og Alþb. og Alþýðusambandið? Ég vona, að ég sé ekki að ljóstra upp neinum leyndarmálum, þó að ég komi með slíkar getgátur. Það hefur komið fyrir áður, að Framsfl. hefur sprengt slíka ríkisstj., t.d. ríkisstj. með Alþfl. 1937–38, og farið síðan í stjórn með Sjálfstfl. á eftir og lofað Alþfl. að vera með, þó að meiri hluti Alþýðuflokksstjórnarinnar væri á móti því.

Nei, það var engin hógvær ósk, sem borin var fram þá. Það var mjög ósvífin krafa. Hún var borin fram á mjög óviðeigandi hátt, að stilla Alþýðusambandsþingi frammi fyrir úrslitakosti og slíta síðan stjórnarsamstarfi. Það, sem hefði verið hógvært, var að ræða við sína samstarfsflokka um það, hvað nú skyldi gert. Það var ekki gert. En áður var aftur á móti búið í tvö ár að hafna öllum þeim róttækustu tillögum, sem við höfðum komið með til lausnar á íslenzka þjóðarbúskapnum og við jafnvel stundum höfðum fengið Alþfl. inn á. Við skulum þess vegna ekki vera að saka neinn um ábyrgðarleysi í þeim efnum. Ef nokkurs staðar var ábyrgðarleysi viðvíkjandi því að sprengja vinstri stjórnina, þá var það hjá Framsfl.

Svo kom hæstv.-viðskmrh. inn á það, að voldug hefði íslenzk verkalýðshreyfing getað verið ef hún hefði aldrei verið klofin. Ég þekki líklega sögu íslenzkrar verkalýðshreyfingar eitthvað betur en hæstv. viðskmrh. Það eru orðin yfir 40 ár, síðan ég gekk fyrst í Alþfl., og ég var í honum í 9 ár og hef alltaf síðan verið í þeim róttækustu flokkum, sem á hverjum tíma hafa verið í íslenzku verkalýðshreyfingunni. En þeir hafa þó aldrei verið róttækari en svo, að eitt hafa þeir viljað, og það er að reyna fá að halda íslenzkri verkalýðshreyfingu sem heild. Meira að segja þegar við stofnum Kommúnistaflokkinn, sækjum við um það að fá að vera í Alþýðusambandinu. M.ö.o.: þá sækjum við um það og óskum eftir því að fá að vera í Alþýðusambandinu, sem þá var Alþfl., á svipaðan hátt og t.d. voru þá í Labour Party í Englandi Independent Labour Party, Cooperative Party og aðrir flokkar, þ.e. Samvinnuflokkurinn, Óháði verkamannaflokkurinn, fyrir utan Verkamannaflokkinn sjálfan.

Við gáfum Alþfl. tækifæri til þess, að verkalýðshreyfingin héldist sem ein heild. Hvað gerði Alþýðuflokksforustan þá í staðinn? Hún gerði það glappaskot að innleiða einræðið í Alþfl. og Alþýðusambandinu, setja þau lög, að það mætti ekki kjósa neina aðra menn á Alþýðusambandsþing en þá, sem væru skipulagðir í Alþfl., og var það eitt mesta ógæfuspor, sem stigið hefur verið í íslenzkri verkalýðshreyfingu. En það sýndi eitt, sem hefur því miður einkennt marga af misvitrum foringjum Alþfl., og það er þetta að grípa alltaf til valdsins, jafnvel til einræðisins, en ekki til þess að semja og reyna að skapa samstarf á breiðum grundvelli með mönnum, sem voru á annarri skoðun en þeir.

Alþýðusambandið íslenzka gat haldizt sem eitt samband íslenzkrar verkalýðshreyfingar, pólitískrar og faglegrar, ef Alþýðuflokksforingjarnir hefðu haft vit á því 1930.

1936–37 gat aftur orðið gott samstarf á milli þessara flokka, ef menn hefðu þá haldið rétt á spilunum. Þá var Alþfl. sterkur og voldugur. Hann hefur aldrei verið eins sterkur og voldugur og hans áróður hefur aldrei verið eins góður og á þessum tíma. En hann gerði eitt stórt víxlspor á þingi sínu í nóv. 1936. Hann samþ. þá tvennt í einu: annars vegar aldrei samvinnu við kommúnista, hins vegar það, sem kallað var 3 mánaða víxillinn til Framsfl., setja Framsfl. skilyrði. Ef hún gengi ekki að þeim, þá væri ríkisstj. búin. M.ö.o.: hann hjó af sér hugsanlega bandamenn sína bæði til hægri og vinstri.

Í næstu kosningum tapaði hann. Þá drógu Alþýðuflokksforingjarnir nokkrir þá ályktun af því, að það væri bezt að reyna að sameinast Kommúnistaflokknum. Og það var gert. Það er það, sem hæstv. viðskmrh. harmar mest. En hvað er það, sem hefur valdið því, að bæði 1938 og 1954–56 fara út úr Alþfl. stórir hópar af beztu mönnunum, sem Alþfl. hefur átt, og einmitt beztu baráttumönnunum, duglegustu baráttuforingjum, og það sérstaklega mönnunum, sem höfðu bezt samband við íslenzkan verkalýð? Það var einfaldlega af því, að þessir menn gáfust upp á þeirri pólitík, sem hægri foringjar Alþfl. á öllum þessum tímum ráku, undirgefninni undir þá flokka, sem þeir unnu með, og neituninni á því að starfa með hvort sem var Kommúnistaflokknum eða Sósíalistaflokknum að hagsmunamálum verkalýðsins, þessu ofstæki, sem um tíma leiddi til þessa einræðis Alþfl. í Alþýðusambandinu, að geta aldrei unnið með mönnum, sem voru á annarri skoðun, án þess að ætla að leggja þá annaðhvort undir sig eða lúta þeim, geta ekki unnið með þeim sem jafnréttháir menn.

Ég held, að dómur sögunnar komi til með að verða sá yfir Alþfl., þegar hann verður borinn saman við sósíaldemókrataflokka Norðurlanda, að þar sem sósíaldemókrataflokkar Norðurlanda hafa löngum átt mjög vitra foringja, sem vaxið hafa upp úr verkalýðshreyfingunni og gert það að aðalatriði að halda góðu sambandi við hana, þá hefur Alþfl. íslenzki verið svo ógæfusamur, að þeir menn, sem hvað minnst samband hafa haft við verkalýðshreyfinguna, hafa orðið þar ofan á og hafa sparkað frá sér, bæði 1930, 1938 og 1956, þeim mönnum, sem stóðu í nánustum lifandi tengslum við verkalýðshreyfinguna. Það eru hinir skammsýnu hægri foringjar Alþfl., sem hafa valdið hans ógæfu. Við, sem frá 1930 höfum verið í meiri eða minni andstöðu við hann, höfum gefið honum hvert tækifærið á fætur öðru til þess að vinna með okkur og gefum honum það enn. En blindnin, ofstækið er svo mikið, að það er eins og það sé alveg ómögulegt að opna augu þeirra. Ég skal ekki segja, hvort þessi blindni og ofstæki stafi að einhverju leyti af því, að forustumenn Alþfl. hafi persónulega smitazt of mikið af því borgaralega umhverfi á Íslandi. Ég vil bara minna á það, að Erlander, forsrh. Svíþjóðar og formaður Sósialdemókrataflokksins sænska, býr, að því er ég bezt veit, í leiguíbúð, þar sem rottugangur er svo mikill, að hann er tvisvar sinnum búinn að kæra til húsnæðismálastjórnarinnar í Stokkhólmi. Ég er ekki að taka það sem neina fyrirmynd endilega að búa þar, sem rottugangur er, en það er gott dæmi til að bera saman um, hvers konar afstöðu þessir menn hafa. Per Albin Hansson, ég veit ekki betur en hann hafi allan tímann ekið í sporvagni í Stokkhólmi til funda í þinginu og ríkisstj.

Það getur vel verið, að foringjar Alþfl. hafi smitazt tiltölulega meira af borgaralegum lifnaðarháttum og þess vegna átt erfiðara með að skilja verkalýðinn og hafa samband við hann, og er ég þó ekki að segja þetta um þá alla.

Svo kom hæstv. viðskmrh. að því að reyna að skilgreina sögulega það, sem hann kallar styrkleika kommúnismans á Íslandi. Og ég hafði eiginlega gaman af því. Hann fór að spyrja, hvort þetta mundi ekki liggja í kjördæmaskipulaginu. Guð hjálpi mér, ef hæstv. menntmrh. ætti að skrifa sögu Íslands. Það yrði þokkaleg söguleg skilgreining. Var það kannske af því, að kjördæmaskipulagið væri svona áhrifaríkt, að hæstv. viðskmrh. hafði aðalforustuna í því að mynda Hræðslubandalagið 1956 og ætlaði að gera þar með Alþfl. að alveg þrælbundnum aftaníoss Framsóknar?

Ég hef oft verið spurður þeirrar spurningar af bæði erlendum skoðanabræðrum mínum og þeim, sem hafa ekki verið á sömu skoðun og ég, hvernig á þessu standi. Og ég get vel sagt hér þá skýringu, sem ég hef venjulega gefið á þessu. Ég hef gefið þá skýringu á því, að það, hve róttækari íslenzk verkalýðshreyfing væri en verkalýðshreyfing Skandinavíu, ætti rót sína að rekja til þess, að Ísland hefði verið kúguð nýlenda. Það eru þær þjóðfélagslegu kringumstæður á Íslandi, að við höfum verið arðrændir af útlendu auðvaldi lengst af, okkur hefur verið haldið niðri, og okkar borgaralega þjóðfélag varð þess vegna mjög frumstætt. Þetta hefur allt saman fært Ísland nær því, sem er að gerast um — við skulum segja þjóðirnar, sem nú eru að verða frjálsar í Afríku, Asíu, S- Ameríku og annars staðar. Það hefur t.d. orðið verkefni okkar og alveg sérstaklega okkar, sem venjulega erum kallaðir kommúnistar, að reyna að vinna að því að hjálpa til að byggja upp það borgaralega þjóðfélag á Íslandi, beita sér fyrir kaupi á framleiðslutækjum og öðru slíku, sem t.d. sósíaldemókratarnir úti í Skandinavíu og víðar oft og tíðum sinna mjög lítið um, vegna þess að auðvaldið sér venjulega fyrir slíku. Okkar auðvald hér heima hefur, eins og ég skal seinna meir koma að, haft sérstaka aðstöðu hvað það snertir, vegna þess að hér hefur verið frumstætt borgaralegt þjóðfélag með tiltölulega fátækri borgarastétt þangað til á síðustu tímum.

Ég held, að höfuðskilgreiningin á þessu liggi einmitt í þessu ástandi, að það, sem gerzt hefur í sögu Íslands á þessum tíma, er að svo mörgu leyti ólíkt því, sem saga Skandinavíu hefur verið. Við skulum ekki fara allt of langt út í þá sögu.

Svo varð mér á að brosa, þegar hæstv. viðskmrh. beindi til mín þessari ágætu setningu úr Einari Ben.: „Því braust ég frá sókn þeirra vinnandi vega?“ Hann veit kannske ekki, að þessari sömu spurningu var beint til mín fyrir 30 árum af öðrum stjórnmálamanni á Íslandi, Jónasi Jónssyni frá Hriflu. Og í ritdeilum, sem við áttum og komu frá hans hálfu í Samvinnunni og af minni hálfu í Rétti í 3 ár, á árunum frá 1933–1936, tók ég hann mjög skarplega í gegn í sambandi við hans skilgreiningu og sýndi honum fram á, hve fjarri það væri því, að við hefðum brotizt frá sókn þeirra vinnandi vega. Við höfum einmitt verið að vinna það, sem vinnandi var, allan þennan tíma. Og það er fyrst og fremst okkar framtaki að þakka og hve djarfir við höfum verið í þessu, að lífskjörum íslenzkrar alþýðu hefur verið bylt úr eymd forstríðsáranna, sem Alþfl. tvisvar sinnum stjórnaði, og til bjargálna þeirra, sem skópust eftir lífskjarabyltinguna 1942, þegar við brutum gerðardómslög Sjálfstfl. og Framsóknar á bak aftur og þegar við síðan í samstarfi við meiri hl. Sjálfstfl. og með því að drösla Alþfl. með lögðum tæknilega grundvöllinn að því nútíma Íslandi. Það er þess vegna, þó að ég hafi svarað Jónasi frá Hriflu með ýmsum öðrum röksemdum þá, 1933–1936, þegar hann beindi þessari spurningu til mín, þá mundi ég nú hafa alla sögu Íslands síðustu 30 ár til þess að sanna, að það vorum ekki við, sem flýðum. Það hafa hins vegar verið aðrir, sem hafa gefizt upp á því að láta íslenzka alþýðu fá að njóta alls þess mikla, sem gert hefur verið og skapað hefur verið á þessu tímabili.

Svo segir hæstv. viðskmrh.: Íslenzk alþýða hefur bætt kjör sín þrátt fyrir sundrungina. Mundi nú ekki vera nær að orða þetta þannig, að íslenzk alþýða hafi bætt kjör sín þrátt fyrir áhrifaleysi Alþfl. Allan þennan tíma, hvort heldur var í verkalýðsbaráttunni eða í ríkisstj., nýsköpunarstjórninni og vinstri stjórninni, var það Alþfl., sem varð að drasla með, og það vorum við, sem urðum að hafa forustuna. Sósfl. knúði fram með sinni forustu í verkalýðssamtökunum þessar miklu lífskjarabætur 1942 og síðan áfram og með stjórnmálaáhrifunum eftir 1944, og hæstv. viðskmrh. þarf ekki nema líta á töfluna um kaupmátt tímakaupsins til þess að sjá, hvernig það hafi verið. Hins vegar, ef við vildum taka það, sem var fyrir stríð, þá býst ég við, að það sé ekki fjarri lagi, að það mundi vera upp undir það tvöföldun, a.m.k. 50% hækkun, sem framkvæmd hefur verið á raunverulegu kaupgjaldi tímakaups frá því 1939 til 1942.

Svo kom hæstv. viðskmrh. að vissum þáttum í mínu frv., kom þar m.a. inn á, að það að setja sér 10% aukningu á þjóðarframleiðslunni mundi vera allt of hátt, og sagði í því sambandi, að Ísland væri háþróað iðnaðarland og það væri hrein fjarstæða að reyna að stefna að því að ætla að skapa 10% aukningu á þjóðarframleiðslunni. Þetta er alger misskilningur hjá hæstv. ráðh. Ísland er ekki háþráað iðnaðarland. Ísland er enn sem komið er, því miður, að allt of miklu leyti hráefnaframleiðandi. Og það er hægt með skynsamlegri hagnýtingu okkar gífurlegu náttúruauðlinda að gera iðnbyltingu hér á Íslandi nú. Við höfum að vísu safnað miklu af tækjum til þess að afla fisks. En að undanteknum hraðfrystihúsunum höfum við ekki komið upp svo að segja neinu, sem þýði þarna fullvinnslu, og meira að segja þau geta ekki talizt fullvinnsla nema að nokkru leyti. Við skulum taka sem dæmi, og það er það, sem er einmitt átt við í 7. gr. í mínu frv., — við skulum taka sem dæmi núna: í staðinn fyrir að henda síldinni, eins góðri og hún var, ég tala nú ekki um í sumar, í síldarbræðslurnar, færum við að leggja hana niður í dósir, kæmum upp eins miklum niðursuðu- og niðurlagningariðnaði og t.d. Svíar hafa. Svíarnir verða að sækja hráefnið til okkar. Hæstv. viðskmrh. man það, og a.m.k. man ég töluna frá 1961, þegar síldin gaf 500–600 millj. kr., en aðeins ef lagðar hefðu verið niður 100 þús. tunnur í gaffalbita og annað slíkt og markaður verið útvegaður úti í heimi, þá hefði það líka gefið sínar 500–600 millj. Það er hægt með fínasta hráefni veraldarinnar, sem íslenzka síldin er, með fullkominni hagnýtingu á öllum þeim mörkuðum, sem við höfum eða getum haft aðgang að, að gera algera byltingu, sem tvö- eða þrefaldar allt verðmæti síldarframleiðslunnar.

Sama gildir líka viðvíkjandi fiskinum. Við getum gert þar stóra hluti enn þá. Við þurfum ekki endilega að hafa þær verksmiðjur í Bandaríkjunum eða gera mislukkaðar tilraunir í London til að fullvinna þorskinn okkar og selja hann beint út til almennings. Við getum líka látið leggja hann niður hér heima og flutt hann út. Hæstv. viðskmrh. kvartaði undan duttlungum náttúrunnar. Vissulega eru þær oft miklar hérna. En ríkidómur náttúrunnar er hér meiri en í flestöllum öðrum löndum. Og hvað illa sem hefur gengið stundum hjá okkur með síld, þá höfum við þó alltaf veitt hér 100–200 þús. tunnur, og meira að segja slíkt gat með fullkominni úrvinnslu gefið okkur sama síldarverðmæti og það fína ár 1961 gaf okkur.

Við getum gert tæknibyltingu í sjávarútveginum núna, og sú tæknibylting getur, eins og ég reikna með, á þessum næstu 5 árum vel gefið okkur 10% aukningu á þjóðarframleiðslunni á ári, vegna þess að okkar þjóðarframleiðsla er að svo langsamlega mestu leyti einmitt fiskur, sem við erum nokkurn veginn öruggir með að fá, fiskur og síld. En landbúnaðurinn sem slíkur hefur þarna hverfandi lítið að segja.

Hæstv. viðskmrh. hefur kannske talað um það, að Ísland væri háþróað iðnaðarland, vegna þess, hvað hlutfallslega margir vinna við iðnaðinn hérna. En við verðum að gá að því, að ég er hræddur um, að Ísland sé vitlausast skipulagt af öllum iðnaðarlöndum í Evrópu hvað þann iðnað snertir, sem við höfum. Haldið þið, að það sé fyrirmyndarskipulagning endilega að hafa t.d. 10 súkkulaðiverksmiðjur? Haldið þið, að það sé slíkt, sem skapar grundvöllinn að framleiðni og öðru slíku? Við erum hér að flækjast með svo og svo mikið af smáverksmiðjum, þar sem ekki er hægt að koma neinum vinnubrögðum af viti að. Þið talið við okkur, t.d. fulltrúar hæstv. ríkisstj., um hagræðingu vinnubragða, og við höfum meira að segja sent út menn sameiginlega til þess að kynna sér þetta. Hvað sjá þeir menn, sem koma út? Þeir sjá gífurlega stórar og miklar verksmiðjur, þar sem er hægt að nota hverja mínútu, hvert handtak. Og hvað höfum við svo hér heima? Við höfum kannske smásjoppur, þar sem 1, 2, 3, 4, 5, 6 og upp í 10 menn vinna. Þannig er helmingurinn af iðnaðinum. Ætlið þið að fara að koma að einhverju af viti í þessu? Það þýðir ekki að vera að prédika þetta, eins og gert er í Morgunblaðinu, og tala sífellt um þetta, vegna þess að þið verðið að gera ykkur ljóst, þeir sem ráða þessu þjóðfélagi, að það, sem verður að gerast, áður en hægt er að koma þessu viti á, það er, að þessi fyrirtæki fari á hausinn. Það er það, sem hefur gerzt úti í Hollandi eða hvert sem er farið til að skoða hagræðinguna, að stórkapítalistar hafa útrýmt þeim smáu. En þið kinokið ykkur við að eyðileggja millistéttina, sem stórkapítalistarnir gera, vegna þess að þetta er ykkar aðalfylgi. Við skulum vera alveg hreinskilin í þessu. Og það er enginn, sem kærir sig um að gera það. Þess vegna viljið þið kannske fara að ganga í Efnahagsbandalagið til að láta útlendu hringana gera það fyrir ykkur og segja: Þetta er eðlileg þróun. — Það er ekki til neins að tala um við okkur, sem höfum einhverja hugmynd um ökonómí, og ætla að fara að prédika yfir okkur, að það eigi að framkvæma vinnuhagræðingu í smáiðnaði á Íslandi, eins og í nútíma kapítalísku þjóðfélagi. Við getum tekið nokkur hraðfrystihús, við getum tekið síldarverksmiðjurnar, og ég er samt hræddur um, að ef Findus International væri komið hérna, þá mundi ekki verða nýtt eitt einasta af þeim fáu hraðfrystihúsum, hvorki eitt né tvö af þeim, sem finnast, og mundu verða byggð önnur og stærri á öðrum stöðum, sú bylting stórauðvaldsins sköpuð, sem Efnahagsbandalagið er að ryðja braut fyrir.

Ef við tækjum annað dæmi. Hvernig eru framleiðslutækin hagnýtt í þessum iðnaði hér á Íslandi? Ég kom einu sinni inn í eina verksmiðju, súkkulaðiverksmiðju, sem var verið að sýna okkur, og sá karamelluvél. Hún starfaði í nokkra klukkutíma á ári, því að hún gat framleitt allar karamellur, sem Ísland þurfti, á örfáum vikum. Og ég get miklu frekar trúað því þau tíu ár síðan, að við hefðum flutt inn fleiri slíkar karamelluframleiðsluvélar, og það hefur verið svo óskipulagt allt saman þetta, að það er ekki til neins að vera að tala um háþróað iðnaðarland í sambandi við það. Ef það hefði verið eitthvert vit í þessu og einhver áætlun fyrir fram um það, þá var hægt að hafa hér háþróað iðnaðarland. En það hefur aldrei fengizt. Þetta hefur verið einkabrask hjá einstökum aðilum og það er kippt í spottann, svo framarlega sem mönnum finnst þeir ekki geta matað krókinn nógu vel, vegna þess að þetta eru máttarstólpar t.d. Sjálfstfl. Nei, það þarf að verða mjög mikil breyting, líka á þeim iðnaði, sem fyrir er á Íslandi, áður en við getum farið að tala um framleiðnina. Hún útheimtir stórframleiðslu á öllu þessu, og með þeirri stórframleiðslu er ekki rúm fyrir 9/10 af þeirri atvinnurekendastétt, sem nú er til á Íslandi í iðnaðinum.

Þá kom hæstv. viðskmrh. inn á kaupmátt tímakaups Dagsbrúnarmanna og lífskjörin í sambandi við það. Og ég vil nú gjarnan, að við reynum að komast hjá orðaleikjum í sambandi við þetta, hvort lífskjör hafi batnað og lífskjör versnað og annað slíkt. Hvað skiljum við, þegar við tölum um lífskjör? Hæstv. viðskmrh. vildi efast um, að minn mælikvarði um kaupgetu tímakaupsins væri réttur. Ég vil halda því fram, að hann sé sá eini rétti um hin raunverulegu lífskjör. Ef maðurinn, sem vinnur fyrir fjölskyldu, þarf til þess að vinna sómasamlega fyrir sinni fjölskyldu að fara að vinna 12 tíma á dag, þarf að vinna allar helgar, þarf að vinna allt orlofið, þarf helzt að senda konuna sína út líka og reyna að koma börnunum einhvers staðar fyrir og fær út með því, þótt það væru 100 þús. kr. tekjur á ári, þá eru það bölvuð lífskjör, þá er það þrælavinna, þá er það vinnuþrældómur, sem er leiddur yfir hann, og verri lífskjör. Það er þetta, sem menn verða að gera svo vel að skilja. Góð lífskjör, það er að vinna sæmilegan vinnudag og hafa fyrir þann vinnudag góða afkomu. Þess vegna er rétt að miða við það, hvað einn maður getur fengið til þess að sjá fyrir sinni fjölskyldu með 8 tíma vinnudegi. 8 tíma vinnudagurinn var viðurkenndur 1942 sem slíkur grundvöllur, og þá var búið að viðurkenna hann alls staðar í Evrópu. Og hæstv. viðskmrh. getur farið til allra sósíaldemókrataforingja á Norðurlöndum og spurt þá, hvort verkamönnum á Norðurlöndum þyki það sæmilegt og hvort þeim þættu það sæmileg lífskjör að vinna 10–12 tíma á dag, að vinna orlofið sitt og vinna um helgarnar, og hvort þeim þætti það viðunandi, að það væri boðið upp á það, meira að segja með auglýsingum í útvarpinu: „langur vinnutími“. Þess vegna verðum við frá upphafi að koma okkur niður á það, að hvort lífskjör fara batnandi eða versnandi, það fer eftir því, hvort maðurinn getur unnið betur fyrir sér og sinni fjölskyldu með 8 tíma vinnudegi og jafnvel styttri vinnudegi. Við skulum ekki vera að tala alltaf tveim tungum um þetta mál. Við skulum reyna að koma okkur niður á, hvað góð lífskjör eru og hvað slæm lífskjör eru. Það eru slæm lífskjör að vera þræll og vinna árið út og árið inn 10–12 tíma á dag og geta enga menningu sér veitt og geta aldrei litið í bók. Það eru slæm lífskjör, hvort sem menn hafa 100 þús. eða 200 þús. kr. upp úr því. Og það ætti sérstaklega hæstv. menntmrh. að viðurkenna, ef hann hefur hlustað á verkamenn standa hér upp á fundum í sínum félögum og segja: Það er verið að gera okkur að skepnum. Við dettum út af kl. 8–9 á kvöldin, þegar við erum búnir að borða matinn, þegar við höfum ætlað okkur að fara að lesa blöðin eða líta í bók, við erum svona þreyttir. — Þarna er eiginlega um þrældóm eins og í nýlendum að ræða. En fyrir okkar baráttu hefur ykkur ekki tekizt að koma kaupinu niður í það, sem í nýlendunum er. Og þó erum við farnir að nálgast það. Það er talað um það sem svívirðingu, að í San Salvador og sumum Mið-Ameríkuríkjunum skuli kaup verkamanna vera 1/6 af því, sem það er í Bandaríkjunum. Þeir eru á leiðinni með það niður í það sama hér. Krónan er ekki orðið miklu meiri en eyririnn var fyrir 1914. Og hvað var tímakaupið 1914? 25 aurar. Og í dag er það 25 krónur. Þið hafið með ykkar gengislækkunum og ykkar kúgunarráðstöfunum komið því niður í þetta og eruð svo að reyna að veifa því framan í alþýðuna af því, að ykkur hefur ekki tekizt að skapa atvinnuleysi enn þá, — þótt allar ykkar ráðstafanir miði að því, hefur síldin komið í veg fyrir það og tæknibyltingin í henni, — eruð að segja við fólkið: Lífskjör ykkar eru góð, þau fara batnandi, vegna þess að það, sem þið fáið út með því að þræla svona daginn út og daginn inn, það er nóg til þess, að þið þurfið ekki að svelta.

Við skulum þess vegna alveg hreint koma okkur niður á það og slá því föstu, að sú tafla, sem ég hef hér lagt fram og prentað ár eftir ár, er sannasta og réttasta myndin af því, hvernig lægst launuðu verkamennirnir hafa haft það. Það er rétt, nokkuð af Dagsbrúnarmönnunum hefur nokkuð bætt sín kjör frá því, sem þarna er. Nokkrir taxtar hafa þarna hækkað upp yfir það, getur munað 3% á þeim næsta og annað slíkt, og nokkrir fagverkamenn hafa hærra kaup. En ef við vildum nú fara eftir því, sem einu sinni var við okkur sagt: Það, sem þið gerið mínum minnsta bróður, — þá skulum við miða við þá, sem minnst hafa af að lifa. Þess vegna mótmæli ég því, að eftirvinna Dagsbrúnarmanna og annarra verkamanna á Íslandi sé tekin sem þáttur í lífskjörunum. Það er hægt að taka það sem þátt í þrældómnum, sem verið er að leiða yfir menn, en ekki í bættum lífskjörum. Það er hægt að taka það sem dæmi um neyðarúrræði, sem menn gripa til, þegar verið er með gengislækkunum og öðrum kúgunarráðstöfunum að svipta þá því, sem þeir hafa. En öðruvísi er ekki hægt að taka það.

Þá talaði hæstv. viðskmrh. um lækkun skattanna og hækkun fjölskyldubótanna og annað slíkt. Vissulega, kjarabætur, sem alþýða manna t.d. á Norðurlöndum knýr fram á vegum ríkisins, eru venjulega ekki reiknaðar í þeirri daglegu vísitölu, sem kaupgjaldið snertir. Annars vegar reynir verkalýðurinn að knýja fram frá auðmannastéttinni eitthvað af hennar gróða í hækkuðu tímakaupi til sín. Hins vegar reynir hann að knýja fram með áhrifum sínum á ríkið ýmsar ráðstafanir, sem geta orðið honum til bóta, eins og hækkun fjölskyldubóta og lækkun skatta. En því aðeins verður lækkun skatta og hækkun fjölskyldubóta verkamönnum sjálfum til góða, að það séu þá ekki hækkaðir á þeim tollarnir í staðinn og farið að taka með neftollum það, sem áður var tekið með tekjuhækkandi sköttum.

Svo talar hæstv. viðskmrh. um kaup Dagsbrúnarmanna, og skildist mér, — ég hafði ekki skrifað allt orðrétt, — að það hefði frekar farið batnandi hjá honum 1959–1962, á tíma þessarar ríkisstj. Var ekki kaup Dagsbrúnarmanna, áður en það var skorið niður, þegar vísitölunni var rænt, yfir 23 kr. á tímann? Er það ekki núna 25? Það er ekki 10% hækkun, held ég, frá því, sem þá var. Og hvernig er meira að segja með sjálfa vísitölu ríkisstj., hvernig hefur hún breytzt á þessum tíma? Vísitala vöru og þjónustu, miðað við 100 í marz 1959, er 141. Ef húsnæðið er tekið með, þá er hún 135. Og hvernig er húsnæðisliðurinn reiknaður hjá hæstv. ríkisstj.? 10 þús. kr. á ári í leigu fyrir 4 manna fjölskyldu. Hvað vill hæstv. ríkisstj. útvega mörgum verkamönnum í Reykjavík leiguhúsnæði í dag fyrir 10 þús. kr. á ári? Ég býst við, að henni yrðu boðnar 20, henni yrðu jafnvel boðnar 30, en ég efast um, að hún gæti útvegað það. Og heildarútkoman meira að segja hjá henni, þegar opinberu skattarnir og allt saman er reiknað með, er 125, 25% hækkun meira að segja hjá henni með öllum hennar útreikningum og með húsaleigunni svona. Það kemur út hjá ríkisstj., þegar hún reiknar með, að menn eigi þó að komast af með 10 þús. kr. húsnæði, að fjögurra manna fjölskylda þurfi 79 þús. kr. til þess að lifa af, og þar með eru bæði vörur, þjónusta og húsnæði. Og hvað er það, sem einn Dagsbrúnarmaður getur haft upp með 8 tíma vinnudegi? Ætli það sé ekki 55 þús., eitthvað svoleiðis. Það er orðið langt fyrir neðan alla vísitölu framfærslukostnaðar, eins og sjálf ríkisstj. lætur reikna hana, langt fyrir neðan það, sem þarf bara fyrir vörur og þjónustu, sem er 68 þús., þó að menn hafi þá ekkert fyrir húsnæði eða neinu öðru. Þetta er þróunin í þessu.

Svo kemur hæstv. viðskmrh. með langa lista og töflur, sem hann er búinn að láta reikna út um, að frá 1952 hafi meðaltekjur þriggja stétta hækkað úr 36 þús. kr. upp í 98 þús. 1962, og lætur svo umreikna þetta með því að deila með neyzluvöruvísitölunni í þessar heildartekjur. Nú skulum við í fyrsta lagi athuga, þegar hann tekur þessar þrjár stéttir, — fyrir utan verkamenn eru það bæði sjómenn og iðnaðarmenn, — þá eru teknar allar þær tiltölulega miklu tekjur, sem margir, t.d. faglærðir byggingarmenn, hafa haft á sínum tíma, þá eru teknar á seinustu árunum allar þær uppgripatekjur, sem orðið hafa í sambandi við síldina, þannig að hlutur launþegans verður þarna mjög lítill. En nú skulum við athuga þessar tölur hæstv. viðskmrh. Hann byrjar með því að láta reikna þetta frá 1950 og setur 1950 sama sem 100. Má ég spyrja hæstv. viðskmrh.: Af hverju lét hann ekki byrja árið 1945 eða 1942? Vill hann ekki gera mér þann greiða að reyna að láta reikna þetta út og koma í næstu ræðu með lýsinguna á því, hvernig þróunin hafi verið frá 1942 og fram til þessa dags. Það, sem ég hef byggt á í mínum skilgreiningum hér, er einmitt 1945 og hvernig það hins vegar var árið 1950. Árið 1950 var kaupmáttur tímakaupsins 92% miðað við 100, sem hann er 1945, en það er það, sem hann leggur til grundvallar. Svo sýnir hann fram á, hvernig þetta hafi versnað, og 1958 er þetta komið upp í 129 úr 100 1950. 1959 verður þetta 139 og svo kemur stöðnunin. Í 4 ár er þetta það sama svo að segja, 139 upp í 142, og það þrátt fyrir það, þó að tvö síðustu árin, 1961 og 1962, séu langsamlega beztu síldveiðiár, sem íslenzkt þjóðlíf þekkir.

Það eina, sem sannast með þessu, er, hvað íslenzkur verkalýður vinnur miklu meira og leggur á sig miklu meiri þrældóm en nokkur verkalýður í nokkru nágrannalandi, og að auðmannastéttinni á Íslandi hefur ekki tekizt nema á einu litlu tímabili á þessu ári og 1950 og 1951 að koma verulegu atvinnuleysi á, þannig að það drægi þarna úr. Nú vildi ég biðja hæstv. viðskmrh. að láta reikna út, hvernig þetta var fyrir 1950, helzt aftur til 1942.

Þá kemur hæstv. viðskmrh. að hlut launþega í þjóðartekjunum. Má ég nú spyrja: Hvernig stendur nú á því, þegar hæstv. viðskmrh. loksins setur þessa blessaða Efnahagsstofnun til þess að reikna eitthvað út, að hann, þessi mikli foringi Alþfl. á Íslandi, þessi maður, sem segist bera verkalýðshreyfinguna fyrir brjósti, lætur ekki reikna út, hver er hlutur auðmannastéttarinnar á Íslandi í þjóðareign Íslendinga og í þjóðartekjum Íslendinga og hver hann hefur verið allan þennan tíma? Af hverju lætur hann ekki Efnahagsstofnunina reikna þetta út? Af hverju á þetta allt að vera á huldu? Af hverju megum við aldrei fá þetta lagt fyrir okkur, sem við þó getum fengið að vita undireins, ef við flettum upp í skattskýrslum í Bandaríkjunum, hvernig auðmennirnir hafa það þar? Af hverju er hann að dylja okkur þessa? Af hverju setur hann ekki Jónas Haralz og alla þessa miklu vísindamenn í að reikna út, hver er hlutur auðmannastéttarinnar á Íslandi í þjóðartekjunum og hvernig hann hefur breytzt — og taka þar með líka þjóðareignirnar, taka þar með líka, hvernig hlutur auðmannanna hefur breytzt við tvennar undanfarnar gengislækkanir, þegar búið var að hækka dollarinn úr 6.50 í 16.50 og svo upp í þessar 43, sem hann er í núna, hvernig hefur breytzt eignahluturinn í sambandi við skuldirnar í bönkunum og eignahlutdeildina í fyrirtækjunum, sem hafa vaxið að verðgildi og raungildi að sama skapi og gengið hefur verið lækkað? Vill hann ekki reikna út, hvað auðmannastéttinni íslenzku hefur verið gefið með þessum ráðstöfunum? Nei, í staðinn eru aðeins reiknuð hlutföll launþega í þjóðartekjunum. Það á alltaf að vera að veifa því, að launþegarnir hafi víst aldeilis nóg. Og nú skulum við athuga þann hlut. Vill hann ekki gera mér þann greiða næst, þegar hann kemur í stólinn, að setja það fram til 1942? Og hvað kemur þá út? Jú, hlutur launþega í þjóðartekjunum á Íslandi frá atvinnuleysisárinu 1950, þegar hann var 100, kemst 1959 og 1960 loksins upp í 110. Við vitum, hvað það var. Það voru kauphækkanirnar, sem verkalýðurinn knúði fram 1958, í tíð vinstri stjórnarinnar, sem lyftu kaupinu þá upp, og það, að gengislækkunin var ekki framkvæmd fyrr en síðar á árinu 1960. En hvað gerist svo? Svo lækkar hlutdeild launþeganna í þjóðartekjunum árin 1961 og 1962. Hún fer úr 110 niður í 106. Og þessi tvö ár eru beztu síldarárin, sem Ísland hefur fengið. Þá lækkar hlutfallslegur hlutur launþeganna á Íslandi í þjóðartekjunum úr því, sem var tveim árum áður, og það þegar gengur hvað allra bezt einmitt með síldina.

Ég held, að þegar við fengjum að sjá þetta reiknað aftur til 1945, að það muni koma út, að hlutur launþega í þjóðartekjunum sé minni en hann var 1945 og 1946. Hins vegar liggur náttúrlega í augum uppi, að þessi hlutur hefði átt að vaxa. En hæstv. viðskmrh. neyðist til að viðurkenna, að þjóðartekjurnar hafa vaxið og þjóðareignin hefur vaxið stórkostlega. Og má ég nú biðja hann um að koma með og lesa upp næst, hver er hlutur auðmannastéttarinnar á Íslandi og hefur verið í öll þessi ár í þjóðareigninni annars vegar og í þjóðartekjunum hins vegar? Ég held, að það ætti ekki að verða skotaskuld að reikna það. Það er búið að gerbylta öllu skattafyrirkomulaginu á Íslandi til þess að tryggja m.a., að auðmannastéttin telji rétt fram. Það þarf víst ekki að óttast um heiðarleikann hjá henni úr þessu, úr því að búið er að vera svona góður við hana.

Hvað sýnir sem sé þetta, sem hæstv. viðskmrh. er þarna að reyna að koma með? Það sýnir, að hlutur launþeganna í þjóðartekjunum hefur hlutfallslega versnað, miðað við hvað þjóðartekjurnar hafa vaxið. Og þá skulum við strax setja fram spurninguna um það: Er þetta vegna þess, að verkalýðshreyfingin hafi ekki barizt nægilega vel fyrir hækkuðu kaupgjaldi? Vill hæstv. viðskmrh. halda því fram, að þeir, sem hafa haft forustu fyrir verkalýðshreyfingunni, hafi farið of sjaldan í verkföll, að þeir hafi verið of linir gagnvart atvinnurekendum, að þeir hafi hlíft þeim of mikið við kauphækkunum? Vill hann halda því fram? Nei, ég hef stundum heyrt hitt hljóðið úr horni ríkisstj., að það hafi einhverjir vondir menn stjórnað verkalýðshreyfingunni, sem sé bókstaflega alltaf að fara út í verkföll. Hins vegar hefur frá mínu sjónarmiði verið farið ákaflega hóflega í það. En hvað er það, sem hefur gerzt? Það hefur gerzt, sem er einsdæmi í allri þeirri kapítalísku Evrópu, að þegar verkamenn eru að hækka sitt kaup, þá hefur ríkisvaldinu og bankavaldinu verið beitt þannig, að það hefur verið lækkað gengið til þess að svipta verkamenn árangrinum af kauphækkuninni. Vill hæstv. viðskmrh. nefna mér eitt einasta dæmi um svona aðfarir? Vill hann máske vitna í Ludwig Erhard, efnahagsmálaráðherra Vestur-Þýzkalands? Það er nefnilega öfugt hjá honum, að auðvitað kæmi ekki til mála að gera neitt slíkt. Dettur hæstv. viðskmrh, í hug, að fjmrh. Bretlands mundi detta í hug að hóta því og þaðan af síður framkvæma það að lækka gengi sterlingspundsins, svo framarlega sem kaupgjald hækkar? Er nokkur efnahagsmálaráðherra á Norðurlöndum, sem mundi dirfast að koma fram með þess háttar hótanir, þaðan af siður gera það? Nei, Ísland er einsdæmi í allri Evrópu hvað þetta snertir. Svona misnotkun ríkisvaldsins hefur hvergi tíðkazt. Og það er náttúrlega um leið einsdæmi, að slíkt sé gert af flokki, sem kennir sig við alþýðu manna, þ.e. Alþfl., að hann skuli taka þátt í að láta þá auðmannastétt, sem er búin að bíða lægri hlut í frjálsum átökum við verkalýðinn, búin að tapa í átökum, svo ójafn sem leikurinn er fyrir verkamenn að hefja sína verkfallsbaráttu og verða stundum næstum því að svelta, — atvinnurekendastéttin er búin að tapa og búin að fallast á að hækka kaupið, þá kemur ríkisstj. og sviptir meira að segja Alþingi með stjórnarskrárbroti valdinu til þess að ráða genginu og lækkar gengið. Heldur nú hæstv. viðskmrh., þegar Alþfl. tekur þátt í að gera hluti, sem engin auðmannastétt í Evrópu leyfir sér að gera gagnvart verkalýð, að það sé vænlegt til þess að tryggja slíkum flokk fylgi? (Forseti: Ég spyr hv. þm., hvort hann óski eftir því að fresta ræðunni eða . . .) Já, ég óska eftir því. Ég hef nú lokið þeim kafla, sem snertir þær ádeilur, sem komu fram, og ég mun nú taka áætlunarbúskapinn í því, sem fer á eftir. Ég skal verða við því, að fresta ræðu minni.