17.12.1962
Neðri deild: 29. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í C-deild Alþingistíðinda. (2345)

76. mál, áætlunarráð ríkisins

Flm. (Einar Olgeirsson) [frh.] :

Forseti. Ég var þar kominn í ræðu minni, að ég var að svara hæstv. menntmrh. Ég sé hann nú ekki hér, en þætti vænt um, ef hann væri látinn vita, að ég væri að tala til hans. En áður en ég held nánar áfram með það, langar mig til að leiðrétta eitt.

Í minni síðustu ræðu, þegar við vorum að ræða um tímakaupið og um Dagsbrúnarkaupið, í sambandi við kaupgetu tímakaupsins sem mælis á lífskjör verkalýðsins, sem ég hélt mjög eindregið fram að væri sá rétti mælikvarði og ég held við enn þá, þá gleymdist mér að gera þá athugasemd, að auðvitað á það við fulla atvinnu. Það er náttúrlega gefið, að svo fremi sem ekki er full atvinna, ef atvinnuleysi er, þá verður náttúrlega kaupgeta tímakaupsins ekki lengur réttur mælikvarði á lífskjör verkalýðsins. Ég vil aðeins taka þetta fram, af því að mér mun hafa láðst að ítreka það, þó að það liggi náttúrlega í sjálfu sér, að það sé svo.

Enn fremur varð mér það á í sambandi við Dagsbrúnarkaupið, að ég reiknaði með, að það hefði verið um 10% sú hækkun, sem orðið hefði frá því 1959 þar til nú, en hún er 4%. Dagsbrúnarkaupið var 23,86 kr., þegar það var skorið niður með vísitölulögunum 1. febr. 1959, og er nú ekki nema tæpar 25 kr., svo að það eru ekki nema 4%. Og um leið er rétt að minna á það, að tvisvar á þessum tíma hefur ríkisvaldið, — og það er ríkisvald, sem Alþfl. hefur staðið að, — verið notað til þess að lækka þetta kaup, fyrst um ca. 10% með vísitölubreytingunni eða með því að banna hana með lögum, vísitöluna, og síðan með ákvörðun um gengislækkunina.

Þá langar mig aðeins til að ítreka betur í sambandi við það, sem hæstv. menntmrh. minntist á, þegar hann vitnaði í Einar Benediktsson, sérstaklega þegar það er í annað skipti, sem það kemur fyrir mig, að einn málsmetandi forustumaður í vinstri flokkunum svokölluðu hér á Íslandi beinir þessu sérstaklega til mín. Það var, eins og ég gat um áður, Jónas frá Hriflu, sem gerði þetta fyrir tæpum 30 árum: „Því brauzt ég frá sókn þeirra vinnandi vega á vonlausu klifin, um hrapandi fell.“ Í hvaða sambandi segir Einar Benediktsson þetta? Þetta er, eins og við vitum, kvæðið Gamalt lag, og ég held, að það sé rétt að hugleiða það dálítið nánar, þó að það heyri kannske meira undir bókmenntir en stjórnmál. Það kemur að honum einu sinni, augnablik, í dapurleika hans, eftir að hafa annars háð þá baráttu að reyna að benda íslenzku þjóðinni fram á við, eins og í sínum Íslandsljóðum og öllum öðrum sínum skáldskap, og hefja sig upp úr þeirri bölsýni og eymd, sem hún að mörgu leyti bjó við fyrir aldamótin og margir menn tóku þá á um að hefja hana upp. Og ég held, að þegar hann hlustar þarna á Svíana úti og heyrir múginn gleðjast, Hásvía múg, yfir þessum léttu lögum, hvort þetta hefur nú verið almenningur eða aðrir, — ég held, að hæstv. menntmrh. hefði átt að athuga svo framhaldið, næstsíðustu vísuna í kvæðinu, sem ég vildi leyfa mér að minna hann á. Þá er hann að tala um þessa list, sem snart svona hjarta hans, af því að hann hafði sungið þær vísur, þegar hann var stúdent. Með leyfi hæstv. forseta, ég er að vitna í þetta:

„Já, þetta var listin, sú heilaga, háa,

að hækkast ei yfir hið daglega lága,

að stilla ei hjartnanna hörpur að nýju,

að hljóma þeim næst, því það er þeim kærst;

að forðast ei leik hinnar léttu gígju,

að leita ei neins, af því það sé fjærst,

og bliki þér sjónir af bjartara degi,

að bera þær varlega á annarra vegi.“

Svo heldur hann áfram:

„Ég dvaldi þar aleinn með sál minni sjálfri

í söngvum múgans hjá skálinni hálfri,

og kenndir og þankar mér hverfðust í huga,

svo hvikult er sinnið við gamalt lag.

Mér varð sem þar suðaði fiðrildi og fluga

um flugþreytta haukinn, sem átti sinn dag.

Ó, sorganna líf, unz veröldin vaknar

þú vonar og minnist, þú þráir og saknar.“

Ég held það sé rétt hjá okkur að athuga, þegar verið er að vitna í þessi skáld eins og Einar í sambandi við þetta, hvað það er, sem við dáumst að hjá Einari Benediktssyni. Er það þetta daglega lága? Er það það, sem hann hefur gefið okkur? Eða er það hitt, að hann hóf sig upp yfir það og sá lengra og þorði að sjá fjær og boða það sem var fjærst, eins og þegar hann var að benda Íslendingum á að reyna að komast eins langt og Frakkinn væri til þess að afla þorsksins? Ég held, að þetta sé einmitt eitt augnablik í ævi þess mikilmennis, sem Einar Benediktsson er, þegar honum leiðist, hvað hans mikilleiki hefur fjarlægt hann fólkinu. Það er skiljanlegt og mannlegt, en það er ef til vill ekki nákvæmlega til að taka til fyrirmyndar, ef menn eiga að leiða eina þjóð til þess að brjótast í gegnum það, sem hún hefur kannske álitið vonlaust klungur. Mér fannst satt að segja, þegar Jónas frá Hriflu skellti þessu á mig um árið, einmitt þeim hauki,, sem hann var, vera farið að daprast flugið. Og, það versta, sem kom fyrir hann eftir okkar deilur 1933–36, það var að ganga í samfélagið við. Sjálfstfl. við undirbúning þjóðstjórnarinnar 1938 og hverfa svo seinna meir sem afleiðing af öllu. saman út úr íslenzkri pólitík. Satt að segja þegar ég fæ frá Alþfl. svona áminningar, þá detta mér í hug línurnar hjá Einari: „Mér varð sem þar suðaði fiðrildi og fluga um flugþreytta haukinn, sem átti sinn dag.“

Annars skulum við ekki vera að fara að ræða bókmenntir hér. En ég vil hins vegar segja það, fyrst hæstv. menntmrh. fór að vitna í þetta, að það, sem gerði, að ég skildist frá Alþfl., var, að mér fannst hann lúta að of lágu. Það gerðist strax í fyrsta samstarfi hans við Framsókn 1927–31, og mér hefur alltaf fundizt það síðan. Mig dreymdi satt að segja stærri drauma um alþýðuna og Ísland en mér fannst Alþfl. og hans foringja dreyma. Þegar þessu er skellt á mann, þá verður manni t.d. að spyrja. Einu sinni vorum við saman um ríkisstjórn, 1944–1946, þegar við hæstv. menntmrh. vorum stuðningsmenn nýsköpunarstjórnarinnar, og eitt af því, sem stundum hefur verið sett fram sem ásökun bæði á mig og Sósfl. þá, var, að við hefðum slitið þeirri stjórn. Það mætti spyrja um það vafalaust, hvort við hefðum brotizt frá sókn hinna vinnandi vega. Og ég vil spyrja hæstv. menntmrh.: Álítur hann, að við höfum gert rétt eða ekki? Ég man ekki betur en hann væri sammála okkur þá, þegar við slitum þeirri stjórn, að okkur hafi dreymt hærra, þegar við stofnuðum lýðveldið á Íslandi, heldur en láta Keflavíkursamninginn fylgja á eftir, og hæstv. menntmrh. var okkur sammála um það, skildi sig frá sínum flokki í því. Og ég held, að við höfum einmitt verið að brjóta okkur rétta braut áfram þar. Nú vil ég enn fremur minna hæstv. menntmrh. á: Höfðum við ekki á réttu að standa, Sósfl., 1944, þegar við börðumst fyrir nýsköpunarstjórninni? Var það að brjótast frá sókn hinna vinnandi vega? Var það ekki einmitt að sýna fram á, að það, sem mönnum fannst ákaflega fjarlægt þá, væri virkilega vinnandi vegur. Við urðum að reyna að telja Alþfl. trú um, að þetta væru vinnandi vegir. Við höfum alltaf þorað að hugsa nokkuð hátt í þessum efnum. Og það hefur ef til vill verið það bezta og dýrmætasta, sem við höfum getað gert fyrir okkar þjóð. Það hefur oft verið erfitt fyrir okkur að telja ýmsum trúlitlum mönnum trú um, að það væri hægt að fara þær leiðir, sem við sýndum fram á og þeim hefur fundizt vera vonlaust klungur. Man hæstv. menntmrh. t.d., hvað Alþýðublaðið sagði um það þegar við drógum upp myndina af þeirri nýsköpunarstjórn, sem hægt væri að mynda 1944? Ég held ég megi til með að minna hæstv. menntmrh. á það, þó að það sé dálítið löng tilvitnun, með leyfi hæstv. forseta, vegna þess að hún er í nákvæmlega sama dúr og það, sem hæstv. menntmrh. skellti á mig. Það var ritstjórnargrein í Alþýðublaðinu 14. sept. um ræðu, sem ég hafði haldið á Alþingi. Hún byrjaði svona, með leyfi hæstv. forseta:

„Það væri synd, ef blöðin létu útvarpsumr. um dýrtíðarmálin á Alþ. svo fram hjá sér fara, að þau minntust ekki lítið eitt á ræðu Einars Olgeirssonar, því að sannarlega á hún það skilið að geymast með þjóðinni til minningar um hvort tveggja í senn, hlægilegasta skýjaglópinn og tungumjúkasta hræsnarann, sem sæti hefur átt í sölum Alþ.“

Síðan var haldið áfram, og nú hleyp ég yfir ofur lítið:

„Og svo byrjaði hann að telja upp eins og eggjakonan að fornu, hvað hann ætlaði að kaupa fyrir hina miklu fjárupphæð, þegar hann væri búinn að fá hana í hendur. Það voru 20–30 nýir dísiltogarar af beztu gerð, 200–300 nýtízku vélbátar, hentug millilandaskip til flutninga á afurðum okkar, 4–5 stórvirkar síldarverksmiðjur, nýtízku hraðfrystihús og niðursuðuverksmiðjur, vélar til þess að umbylta landbúnaðinum, svo að hægt væri með þeim að slétta meira landflæmi á Íslandi á næstu 4–5 árum en sléttað hefur verið, síðan land byggðist, og svo stórvirk landbúnaðarverkfæri, að afköst hvers manns, sem með þeim vinnur, ættu að verða 5–10 sinnum meiri en nú, vélar og efni til rafvirkjunar, stórfelldari en Sogsvirkjunin og Laxárvirkjunin til samans, vélar og efni til þess að reisa áburðar- og sementsverksmiðjur, vélar til innanhúsþarfa, vélar og efni til íbúðarhúsabygginga til bæja og sveitar, til hafnarmannvirkja, til hagnýtra vegagerða og margt og margt fleira, „því að þannig mætti lengi telja,“ bætti ræðumaðurinn við. Það var engu líkara en við værum að hlusta á gamla frásögn ritningarinnar: Sjá, allt þetta vil ég gefa þér, ef þú fellur fram og tilbiður mig.“ (Gripið fram í.) Svona reiknaði ég það nákvæmlega út, og það getur hæstv. ráðh. fengið hérna, hvað var þegar útreiknað. Ég skal segja það, fyrst hann spyr að því, ég ætla aðeins að gá eitt augnablik.

Hér getum við fengið allan útreikninginn um 200 vélbátana, 20–30 togarana, þar sem við erum að reikna út, hvað má kaupa fyrir 500 millj. kr., Eimskipafélagsskipin, vélar og efni í verksmiðjurnar, niðursuðuverksmiðjurnar og allt saman. Ég fer ekki að lesa það allt, en það er hér allt, ef hann vill fá það, og það eru ekki nærri því 500 millj., þetta, sem er reiknað út, 296½ millj. Það voru miklir peningar þá nefnilega. (Gripið fram í: Eru rafvirkjanir með?) Rafvirkjanir eru þarna einhverjar. (Gripið fram í.) Já, það kostar ekki mikið að kaupa vélarnar í þær. Vinnan er hvergi reiknuð með í neinu af þessu, heldur efni og vélar, og það er hér allt. Við skulum sjá, rafvirkjun, það eru 70 millj. kr., 30 þús. hestöfl til viðbótar þessum 45, og ef við vildum bæta við, svo að það væri meira, þá þýðir það ca. 100 millj. Hitt var ekki komið nema upp í 300.

Ég sé, að hæstv. menntmrh. er ofur lítið smitaður enn þá af hugsunarhætti Alþýðublaðsins frá 1944. Hann hefur ekki lært meira en það, að honum ógnar þetta svona. En þetta var sem sé allt saman hægt að gera og meira til. Og það, sem voru erfiðleikar með, var að fá að halda í þessa peninga, sem til voru, vegna þess, hve ágengt verzlunarauðvaldið í Reykjavík var í að mega eyða þeim. Og það var það, sem við urðum að berjast út af. Alþýðublaðinu þótti þá vonlaust klif og hrapandi fell að fara að leggja í þetta. Þeim þóttu þetta skýjaborgir, 20–30 togarar. Þegar þeir fóru svo árið eftir að kaupa 32 togara, þá þótti mönnum ástæða til þess að vera stoltir, þegar þeir sigldu hér inn á Reykjavíkurhöfn.

En svona er þetta enn þá. Það, sem við höfðum álitið vinnandi veg fyrir okkar þjóð, það hefur sýnt sig að vera það. Þetta, sem Alþýðublaðið er þarna að gera gys að, er raunverulega öll sú nýsköpun, sem fram hefur farið á Íslandi síðan þetta hófst, og grundvöllurinn var lagður að því þá. Við þorðum að fara með þjóðina út í þetta, sem sumir héldu að væri einhver eyðimerkurganga eða hrapandi fell. Og þjóðin kom glæsilega út úr þessu. Hún kom sem sterkari, tæknilega menntaðri og tæknilega betur útbúin þjóð.

Hvað snertir áætlunarbúskapinn í sambandi við vinstri stjórnina, þá var hæstv. menntmrh. að álasa mér, að við hefðum tekið þátt í tveimur ríkisstjórnum og það hefði ekkert fengizt gert í þessu. Ég hef nú þegar minnzt á, hvað þó fékkst gert í nýsköpunarstjórninni og hve miklu það breytti. Hvað snertir áætlunarbúskapinn í vinstri stjórninni þá er það rétt, að það var gefizt upp við það. Það strandaði á mótspyrnu Framsóknar. Það var staðreynd. Það var ekki það, að Sósfl. eða Alþb. brygðust með það. Alþb. gerði þvert á móti ákaflega mikið til þess að auka þá atvinnutækin, tókst bókstaflega að útrýma t.d. atvinnuleysinu, sem þá hafði verið landlægt í þrem fjórðungum landsins, með því að útvega nægilega mikið af skipum til landsins, þó að það fengist ekki gert skv. neinni sérstakri áætlun. Það strandaði bókstaflega á Framsfl. fyrst og fremst.

Fyrst verið er að tala um þessi vonlausu klif, þá langar mig aðeins til að minna á, fyrst við fórum að tala um vinstri stjórnina, hvernig var með 12 mílna landhelgina. Hvernig var, þegar Alþb. byrjaði að slást fyrir því í vinstri stjórninni? Fannst ekki Alþfl. það þá vonlaust klif og hrapandi fell? Voru þeir ekki svo hræddir við það? Þeir voru búnir eina nótt hér niðri í Alþingi að semja við Sjálfstfl. um að steypa stjórninni til þess að losna við að leggja út í þessa 12 mílna landhelgi. Það voru vonlaus klif og hrapandi fell. Og hvað sýndi sig svo? Jú, Alþfl. hafði þá verið í Hræðslubandalagi við Framsókn, hafði orðið eitthvað hræddur um þm. sína, ef það yrðu kosningar um málið í einstaklingskjördæmunum, sem þá voru, og hann sveik Sjálfstfl. annaðhvort snemma um morguninn eða daginn eftir og hélt áfram trússi við vinstri stjórnina, svo lengi sem það nú var. Og þjóðin lagði út í að færa út landhelgina, og það sýndi sig vera vinnandi vegur. Ég held nefnilega, að það, sem hefur verið erfiðleikinn við Alþfl. á þessum síðustu 30 árum, sé, að hann hefur verið of lítilþægur, þegar hann hefur verið að semja, ekki kannske fyrir sína foringja, en fyrir alþýðuna. Það er fyrst, þegar að því kemur að fara að höggva með Sjálfstfl. í lífskjör alþýðunnar, þá gerist hann stórvirkur. Þá er vísitalan, sem alþýðan er búin að halda í 20 ár, felld burt með lögum einn góðan veðurdag hér á Alþingi. Okkur fannst það vinnandi vegur 1961 að hækka kaup verkamanna um 13%. Hæstv. menntmrh. var að spyrja mig um hvernig stæði á, að ég ynni ekki með Alþfl.? Ég er mjög reiðubúinn til að vinna með Alþfl., en að því að bæta kjör alþýðunnar. Okkur fannst það vinnandi vegur að hækka kaupið um 13%. Hvað fannst Alþfl.? Honum fannst það ekki. En honum fannst annað vinnandi vegur. Honum fannst það vinnandi vegur að stela þessum 13% af verkalýðnum með því að misbeita ríkisvaldinu. Er það ekki vonlaust klif og hrapandi fell, sem Alþfl. á eftir að hrapa í, ef hann heldur svona áfram? Við álítum slíkt framferði fyrir neðan allt velsæmi, fyrir utan að það er stjórnarskrárbrot. Og svo skorar hæstv. ráðh. á okkur að koma og berjast með Alþfl. fyrir bættum lífskjörum. Hvernig á ég að skilja þetta? Ég er reiðubúinn til að berjast með Alþfl. og einnig Alþb., og ég gæti bezt trúað, að Framsókn væri til í það líka núna að berjast með Alþfl. fyrir bættum lífskjörum, en ekki fyrir gengislækkun sem rænir alþýðuna lífskjörunum.

Ég held, að það hafi verið mjög gott fyrir hæstv. menntmrh. að koma með allar þessar skáldlegu hugleiðingar, sem hann kom með, og allt þetta uppgjör. Ég held, að það sé komið að þeim tímamótum fyrir Alþfl., að hann þurfi að fara að gera sér alveg ljóst, hvað hann ætlar sér í framtíðinni, hvort hann ætlar sér að halda áfram þessari sjálfsmorðsgöngu sinni eða hvort hann ætlar að stöðva hana. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh., Alþfl. hefur klofnað þrisvar sinnum á 32 árum. En af hverju? Út af því, að á hverjum tíma, þegar hann hefur klofnað, hefur hægri stefnan í honum verið svo ráðandi, að vinstri menn í flokknum gátu ekki sætt sig við það. Ég held, að ef Alþfl. heldur þessu áfram; þá komi hann til með að minnka og falla að lokum. Það er aðeins ein björgun, sem væri til fyrir hann, og það er, ef tækist að koma þjóðinni niður á álíka lágt stig og hann er sjálfur á. Það vona ég að eigi ekki fyrir þjóðinni að liggja, enda er ég hræddur um, að ef svo færi, þá mundu það verða allmargir, meira að segja þeir, sem eru í Alþfl., sem mundu hugsa eins og einn kunnur rithöfundur, sem var alllengi í Alþfl., en eftir að Alþfl. tók upp hið mikla samstarf sitt við Sjálfstfl., sagði hann, að hann vildi heldur vera á höfuðbólinu en hjáleigunni, og kaus að halda þangað.

Þá kom hæstv. ráðh. að því, að raunverulega væri Alþfl. alveg inni á svipuðum hugsunum og þeim, sem ég var með í mínu frv., og raunverulega væri þessi ríkisstj., sem nú sæti að völdum, einmitt að framkvæma þessar hugsjónir. Það vantaði raunverulega ekkert annað en þetta til að bæta ofan á allt saman, að hugsjónirnar, sem Alþfl. hefði verið að berjast fyrir allan tímann, væru að skapa ríkisstj., sem gæti svipt alþýðuna réttinum, sem hún hefði samkv. kaupsamningum til að fá vísitölu á móti dýrtíð, og geta lækkað hjá henni gengið, svo framarlega sem hún hækkaði kaupið sitt, það atriði, sem Stefán Jóh. Stefánsson fékk tekið út úr gengislækkunarfrv. 1950, eins og ríkisstj. lagði það fyrst fram.

Við skulum þá athuga spursmálið um áætlunarbúskapinn, um planökonómiuna. Það er hægt að gera tvennt með því að koma á sterkum tökum ríkisins og skipulagningu á þjóðarbúskapnum. Það er annars vegar hægt að nota slíkt kerfi til þess að styrkja tök einokunarauðvalds á þjóðarbúskap. Það er ekkert spursmál um það, að skipulagning út af fyrir sig er atriði, sem einkennir allt atvinnulíf á okkar öld meira en nokkurri annarri öld fyrr. Okkar öld er annars vegar öld sósíalismans og hins vegar öld einokunarkapítalismans, einokunarauðvaldsins, öld þeirra gífurlegu einokunarhringa, sem nú ráða lögum og lofum í löndum eins og Bandaríkjunum, Bretlandi og öðrum slíkum, Þýzkalandi og slíkum. Og það, sem er höfuðeinkenni slíkra hringa, eru hin gífurlegu samtök og hin volduga skipulagning og ágæta skipulagning, sem þessir hringar hafa. Atvinnulífið er skipulagt mjög svo skynsamlega einmitt með það fyrir augum að geta trampað ekki aðeins á þeim smáu og gleypt þá, heldur líka geta barizt gegn þeim, sem eru stórir. Og þetta er einkenni og þróun okkar aldar. Ef við viljum nú koma á sterkari tökum einokunarauðvaldsins á ríkisbúskapinn, þá er það náttúrlega hægt með ýmsu móti. Það er hægt með því, að það einokunarauðvald, sem hefur hin pólitísku völd, ráði líka ríkisreknu atvinnutækjunum. Við skulum segja t.d. hérna hjá okkur, þá kemur þetta greinilega fram í því, að þegar verkamenn eiga í verkfalli núna, þá lætur það auðvald, sem ræður ríkjum, ríkisreknu fyrirtækin standa með einkaatvinnurekendunum í verkföllunum. Það urðu hörð átök, eins og hæstv. ráðh. man, um síldarverksmiðjur ríkisins 1961, og það virtist sem ríkisstj. ætlaði jafnvel að reyna að stöðva ríkisverksmiðjurnar og hindra, að þær gengju að samningum, sem margir einkaatvinnurekendur, m.a. fyrir norðan, höfðu þá gengið að. M.ö.o.: það var verið að hagnýta fyrir einkaauðvaldið í landinu valdið yfir ríkisreknu fyrirtækjunum. Sú skipulagning, sá ríkisrekstur, sem bæði við og Alþfl. höfum barizt fyrir, verður í þessum tilfellum notað til þess að bæta aðstöðu auðvaldsins í landinu með því að gefa því auðvaldi þá líka vald yfir ríkisreknu fyrirtækjunum. Það var ekki verið að berjast fyrir slíku, þegar Alþfl. og verkalýðshreyfingin upphaflega var að berjast fyrir ríkisreknum fyrirtækjum. Það var verið að berjast fyrir því að fá fyrirtæki, sem sýndu sanngirni gagnvart verkalýðnum, hjálpuðu honum til þess að hækka kaupið.

Annað atriði, sem hægt er að gera til að nota tök einokunarauðvalds á ríkisvald og þar með á ríkisreknu fyrirtækin, eru t.d. bankarnir. Það hefur hvað eftir annað gerzt einmitt í þeim vinnudeilum, sem hér hafa verið háðar, að bankarnir hafa beinlínis verið notaðir í þágu auðvaldsins í landinu. Bankarnir hafa máske hjálpað til að birgja auðmennina að fé, á meðan verkamenn stóðu í verkfalli við atvinnurekendur, ganga t.d. ekki að þeim, þeir áttu að borga þetta, og jafnvel ýta undir þá. Það eru jafnvel þess dæmi, að ríkisbankarnir hafi verið notaðir til þess að láta atvinnurekendurna vera harðvítugri í kaupgjaldsmálum. Haldið þið, að það hafi verið slíkt, sem verkalýðshreyfingin var að berjast fyrir, þegar hún vildi, að bankarnir væru eign ríkisins? Hún hafði þá hugmynd, að ríkið ætti að vera fyrir þann smáa í þjóðfélaginu, ekki fyrir þann ríka og volduga, að ríkið ætti jafnvel að vera vörður réttinda þeirra smáu. En hvað gerir Alþfl., þegar svona er gert? Það er ekki aðeins, að hann ýti á bankana, að þeir ættu að hjálpa verkalýðnum í slíku, og hefur þó Alþfl. bankamálaráðh., ef ég veit rétt, svo að hann gæti sett alla bankastjórana af daginn eftir, ef þeir vildu ekki hlýða honum í þessu. Það vantar ekki, að ritari Alþfl. hafi nægilegt vald. Nei, ég er hræddur um, að það hafi verið þvert á móti. Þegar verkamenn höfðu sigrað, þrátt fyrir það þó að ríkisvaldið hafi verið notað, bæði síldarverksmiðjurnar og bankarnir, til aðstoðar við einkaauðvaldið í landinu, þá hafa Alþfl.-ráðh., svo að segja daginn eftir að verkamenn voru búnir að sigra, fyrirskipað bönkunum á bak við tjöldin að lækka nú gengið og með stjórnarskrárbroti gefið þeim vald til þess. Það eru ekki svona tök á ríkisvaldinu, sem verkalýðshreyfingin hefur yfirleitt verið að berjast fyrir.

Það er hægt að framkvæma skipulagningu þjóðarbúskapar ákaflega mismunandi. Fyrsta spurningin, sem alþýðan kemur til með að setja fram í því sambandi, er: Fyrir hvern er skipulagt? Við skulum segja t.d., ef það á að vera þáttur í skipulagningunni á þjóðarbúskapnum hjá Alþfl. í núv. ríkisstj. að láta lækka gengið um 13%, koma á þessum vinnuþrældómi, sem nú er, lækka kaupgetu tímakaupsins úr 100 niður í 83, þá er það skipulagning, sem er bara til góðs fyrir auðvaldið í landinu. Hins vegar sá áætlunarbúskapur, sem við berjumst fyrir, sem verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur barizt fyrir og Alþfl. barðist fyrir, meðan var og hét, það er áætlunarbúskapur til þess að styrkja tök verkalýðsins og vinnandi stéttanna á þjóðarbúskapnum, til þess að bæta þannig fljótar lífskjör verkalýðsins og til þess að efla miklu hraðar iðnaðinn en auðvaldsskipulagið getur gert, m.ö.o. að hraða öllum þeim ráðstöfunum, sem eiga að verða til þess að geta bætt kjör verkalýðsins. Það er þessi spurning, sem þess vegna verður alltaf að setja fram, þegar er verið að ræða um þessa hluti. Ég veit, að þessi ruglingur er ákaflega gamall í heilum hv. Alþfl.-manna. Ég man eftir fyrir 30 árum, svo að ég fari langt aftur í tímann, þá var hæstv. núv. forsrh. um skamman tíma dómsmrh. og sjútvmrh. á Íslandi, í desember 1932, meðan Magnús Guðmundsson var að sleppa við að fá sinn dóm. Og hvað gerðist þá? Jú, þá var kreppa. Þá voru útvegsmenn að fara á hausinn, og þá voru Kveldúlfur og Alliance að fara á hausinn, og ef þeir hefðu farið á hausinn, þá var Landsbankinn farinn á hausinn, — það var allt að fara á hausinn. Og hvað gerðist þá? Jú, Ólafur Thors, sem þá var ráðh., setti á einokun á saltfisksútflutningi, og það var frá hans sjónarmiði mjög skynsamleg ráðstöfun, því að það var ráðstöfun, sem gaf Kveldúlfi og Alliance ráðin yfir öllum saltfisksútflutningnum frá Íslandi. Það var m.ö.o. tekinn upp ríkisútflutningur á saltfiski og þessi ríkisútflutningur var fenginn í hendur ákveðnu fyrirtæki, sem þá var stofnað og kallað Sölusamband ísl. fiskframleiðenda. Og atkvæðisréttinum var hagað þannig í því miðað við þorsktonn, að þessir tveir aðilar væru þar í meiri hl. Hvað sagði Alþýðublaðið, þegar þetta gerðist? Það sagði, að þarna hefði þessi forustumaður Sjálfstfl. neyðzt til þess að gera sósíalistíska ráðstöfun með því að láta ríkið taka einokun á þessu, það væri verið að taka þarna upp ríkisrekstur, og fagnaði þessu mjög. Ég er hræddur um, að Alþfl. hafi átt eftir að reka sig á það þá á árunum á eftir og flestir þeirra séð, að það var ekki aldeilis sama, til hvers ríkisrekstur var tekinn upp, hvort hann var tekinn upp til þess að bjarga gjaldþrota auðvaldsfyrirtækjum eða hvort hann var tekinn upp til þess að reyna að bæta lífskjör verkalýðsins.

En hæstv. menntmrh. er í dag að gera nákvæmlega sömu vitleysuna, hefur auðsjáanlega ekkert lært á þessum 30 árum af vitleysum Alþfl. Og þá er ekki von, að vel fari. Hann er í dag að segja, að fyrst þeir séu að hugsa um einhverja áætlun, þá hljóti það að vera í anda þeirrar hugsjónar, sem Alþfl. hafi einu sinni verið að berjast fyrir. Mér sýnist það vera þveröfugt. Allt það, sem búið er að framkvæma í sambandi við þessa hluti enn þá, virðist miða að því að lækka lífskjör alþýðunnar og efla tök einokunarauðvaldsins á okkar þjóðarbúskap. Hitt er aftur á móti allt annað mál, og það getum við vafalaust verið sammála um, að skipulagning sé nauðsyn, skipulagning þjóðarbúskaparins sé alveg sjálfsögð nú á tímum. En má ég þá minna hæstv. ráðh. á, hvað það er, sem mikill hluti af hans samstarfsflokki er fyrst og fremst að boða núna? Morgunblaðið er fyrst og fremst að prédika í sífellu, að það sé verzlunarfrelsið, sem sé nauðsynlegt, það sé stjórnleysið raunverulega í verzluninni og atvinnulífinu, sem sé aðalatriðið. Það hefur verið boðskapur Sjálfstfl. þessi 3 ár, að það eigi einmitt að ganga sporin til baka til gamla Manchester-fyrirkomulagsins, til gömlu frjálsu verzlunarinnar. Það er sá boðskapur, sem var boðaður sem einhver fagnaðarboðskapur hér í kosningunum 1959. Þetta eru draumar braskara. Ég skil það ósköp vel, að verzlunarauðvaldið á Íslandi láti sig dreyma eitthvað slíkt. En slíkt á sér náttúrlega enga stoð í veruleikanum. Þróað iðnaðarauðvald í hverju landi heimtar meiri skipulagningu. Það er þess eðli, og því byggjast allar framfarir á því. Og undan því verður að láta, ef þjóðfélagið á ekki að ganga bókstaflega aftur á bak. En spurningin, sem þarna liggur fyrir, er sú: Fyrir hvern á þessi skipulagning að vera? Handa hverjum? Fyrir auðmannastéttina eða fyrir alþýðuna? Það vantar ekki raunverulega, að stóru hringarnir reki áætlunarbúskap innan sinna vébanda. Og það kemur ekki heldur til með að vanta, ef við eigum eftir að ganga inn í Efnahagsbandalag Evrópu, að það verði ekki áætlunarbúskapur á sína vísu. En það verður bara áætlunarbúskapur þeirra stóru hringa.

Þá verður ákvörðunin um skipulagningu þjóðarbúskaparins raunverulega flutt út, hún verður flutt út til voldugustu auðhringanna, hún verður flutt til Brussel. Og þeir auðhringar heimta alltaf stærra og stærra svið fyrir sig, þeir eru alltaf að verða voldugri og voldugri samsteypur og Ísland yrði eins og einn lítill hreppur í þeirri stóru skipulagningu. Og þá kæmi maður fyrst að þessu spursmáli alvarlega: Hvers konar skipulagning er það, sem við erum að berjast fyrir? Er það skipulagning fyrir gróðamyndun auðhringanna, eins og raunverulega er inntakið núna í skipulagningunni hjá ríkisstj. og hennar afskiptum af atvinnulífinu, eða er það skipulagning fyrir bætt lífskjör fólksins, hækkuð laun alþýðunnar?

Ég vil minna hæstv. ráðh. á, hvers konar yfirlýsing það var, sem hæstv. ríkisstj. gaf, þegar hún tók við völdum. Hún gaf þá yfirlýsingu, að hún mundi láta kaupdeilur atvinnurekenda og verkamanna afskiptalausar. Og það fyrsta, sem hún gerir, þegar fyrstu kaupdeilurnar gerast, það er að skipta sér af þeim og það með því að beita ríkisvaldinu svona harðvítuglega, grípa sem sé inn í til þess að skipuleggja á þennan máta.

Alþfl. má muna sinn fífil fegri í þessum efnum. Hann dreymdi 1934 stóra drauma um áætlunarbúskap, eins og ég var búinn að rifja upp. Hann lét búa til góða nefnd, en allar hugsjónir þeirrar nefndar voru drepnar.

Alþfl. var dreginn inn í nýsköpunarstjórnina 1944, og ég vil nú spyrja hæstv. menntmrh.: Hvar stóð hann í þeirri baráttu 1944, þegar stjórnin var mynduð? Var hann ekki frekar andvígur því, að sú stjórn væri mynduð? Hann var þá einn aðalmaðurinn í vinstri armi Alþfl., og það var vinstri armurinn, sem barðist hvað hatrammast þá á móti því, að sú stjórn væri mynduð. Hæstv. menntmrh. sagði, að nýbyggingarráð hefði aldrei gert neinar áætlanir. Það var ekki rétt. Nýbyggingarráð gerði áætlanir, og þær áætlanir voru birtar og eru meira að segja birtar í þskj., þ.e. í minnihlutaáliti mínu frá fjhn. á þinginu 1946, en árið 1947, þegar við fengum fjárhagsráðsfrv. til meðferðar. Þar er birt öll áætlunin um togarana og bátana, og nýbyggingarráð bjó líka til áætlun um millilandaskipaflotann og framkvæmdi þá áætlun 100%. Hitt er rétt, að nýbyggingarráði entist ekki aldur til að vinna allt, sem við höfum gjarnan viljað vinna í þessu, en stórvirki voru það engu að síður, sem því tókst að framkvæma, og það líka á sviði iðnaðarins, vélsmiðjurnar eins og Héðinn og aðrar slíkar, svo að ég ekki tali um síldarverksmiðjurnar, þær eiga rót sína að rekja til þess tíma. En hvernig gekk að fá þá áætlun í gegn? Það var barizt frá því í október 1944 um að reyna að knýja það fram, að Landsbankinn veitti þau lán, sem þurfti í íslenzku fé til þess að kaupa þá togara inn í landið, sem við vorum búnir að útvega útlent fé í. Ríkið var búið að kaupa sína 30 togara, en Landsbankinn stóð á móti því, að einstakir atvinnurekendur eða bæir á Íslandi gætu fengið að kaupa þá togara, m.ö.o. við áttum togarana, ríkið, og hefðum átt að geta gert þá alla út sem slíka og aldrei þurft að biðja Landsbankann um neitt. En hvað lengi stóð sú barátta við Landsbankann þá? Þangað til um vorið 1946 stóð baráttan um þetta. Þá loks er látið undan, þegar kosningarnar voru að nálgast, löggjöfin um 100 millj. og það. Þannig var það, og 5. okt. það haust springur síðan nýsköpunarstjórnin.

Svona stóð baráttan um að fá fram áætlanirnar, gera þær og framkvæma þær, vegna þess að stór hluti af sjálfu ríkisvaldinu var fjandsamlegur því, sem verið var að vinna þá fyrir þjóðina, Þess vegna dró ég mína lærdóma af reynslunni af áætlunargerð og framkvæmd á henni, þegar til vinstri stjórnarinnar kom og þegar það var beinlínis sett inn í stjórnarsáttmálann, að það skyldi gera áætlanir, og að kaupa 15 togara átti að vera einn þátturinn í því. Þess vegna gerði ég það að kröfu einmitt vorið 1957, að seðlabankinn yrði settur undir stjórn slíks áætlunarráðs, þegar hann yrði myndaður, að áætlunarráð og seðlabankaráð væri eitt, til þess að í ríkisvaldinu sjálfu væri ekki mótsetning á milli þeirra nefnda ríkisstj., sem ættu að vinna að þessari áætlunargerð, og bankavalds ríkisins, þannig að ríkið væri sjálfu sér sundurþykkt.

Ég þarf ekki að rekja, ég hef gert það hér áður, að því tækifæri var sleppt. Það var frekja Framsóknar og skammsýni. (Dómsmrh.: Hverjir heimta það nú?) Það var Framsókn, ég er búinn að segja það áður, og hæstv. dómsmrh. má fá að vita það einu sinni enn. (Dómsmrh.: Var ekki þm. með frv., þegar það kom fram?) Ég er mjög hollur flokksmaður, þannig að ég gerði mínar aths. við, hvað ég álíti að þar hefði átt að vera, en stóð með mínum flokki í því, sem þar var ákveðið, varaði aðeins við, hvers konar glappaskot væri verið að gera, og ég býst við, að flestir hafi áttað sig á því eftir á, hvers konar glappaskot það var, líka Framsóknarforingjarnir. Ég skal ekki fara út í að rekja þá hluti nú, þótt það væri nauðsynlegt fyrir Framsfl. gjarnan að læra nokkuð af því. Hans ótti var allt of mikill þá við að leggja út í áætlunarbúskap, og ég vil vona, næst þegar að því kemur, að sá flokkur tekur þátt í stjórn, sem alþýðustéttirnar standa að, þá átti hann sig á því, að það dugi ekki neitt hálfkák í þeim efnum.

Alþfl. hafði 1934–1937 gert kröfuna um áætlunarbúskap fyrst og fremst að sinni og heimtað, að nú yrði svo að segja gengið á milli bols og höfuðs á einkaauðvaldinu í landinu. Og núna 30 árum seinna stendur Alþfl. með þessu sama einkaauðvaldi í landinu og er nú að skipuleggja með því annars vegar mestu launalækkanir, sem fram hafa farið gagnvart almenningi á Íslandi, og hins vegar mestu gróðasöfnun, sem fram hefur farið hjá auðvaldinu á Íslandi. Finnst nú hæstv. menntmrh. girnilegt fyrir okkur, þegar hann er að segja við okkur, að við eigum ekki að brjótast í sókn hinna vinnandi vega, og býður okkur nú upp á samstarf, — finnst honum þetta girnilegur tilgangur í slíku samstarfi? 1934 ætlaði Alþfl. að binda enda á yfirráð einkaauðvaldsins á Íslandi. 1962 ætlar hann að skipuleggja með einkaauðvaldinu arðránið á verkalýðnum og veita auðvaldinu með skattalækkunum, gengislækkunum og öllu mögulegu slíku stórgróða.

Ég þykist vita, að hæstv. menntmrh. svari þessu með því, að það hefðu fleiri unnið með Sjálfstfl. en hann, bæði Framsókn og Sósfl. hafi gert það. Það er alveg rétt. En það er ekki alveg sama, upp á hvað er unnið með Sjálfstfl. Hver hefur t.d. unnið að því að hækka kaupgjald verkalýðsins? Það var það, sem var gert, þegar Sjálfstfl., Sósfl. og Alþfl. mynduðu stjórn haustið 1944, og fóru lífskjörin síbatnandi og þar að auki framkvæmd sú mikla tryggingalöggjöf, sem þá var sett. Hvernig stendur á því hins vegar, að Sjálfstfl. skuli eiga það til, að róttækir flokkar hafi um skeið getað unnið þannig með honum? Og hvernig stendur á því, að Sjálfstfl. skuli hafa getað verið það róttækur, að hann ynni með þeim mönnum, sem hæstv. menntmrh. nú jafnvel var að vara svona við sem þeim voðalegu kommúnistum? Og hvernig stendur á því, að Sjálfstfl. skuli hafa gengið eins mikið inn á ríkisrekstur og hann hefur gengið inn á á vissu skeiði? Það er tiltölulega einföld skýring á því. Sjálfstfl. sem aðalflokkur borgarastéttarinnar á Íslandi hefur allan tímann, — og þeir flokkar, sem á undan honum fóru, urðu að vinna á sama máta, — orðið að vinna að hagsmunum þessarar borgarastéttar. Borgarastéttin í upphafi aldarinnar var of fátæk til þess að geta sjálf lagt í fyrirtæki svo að nokkru næmi. Það var of lítið fjármagn til í einkaeign á Íslandi, of lítið fjármagn yfirleitt, þannig að það var ríkið fyrst og fremst, sem menn urðu að beita í þessu sambandi. Það auðmagn, sem til var, var raunverulega fyrst og fremst danskt, eins og kom fram bezt í sambandi við áhrif Íslandsbanka. Og íslenzka borgarastéttin hefur einmitt vegna sinnar fátæktar þá og vegna sinnar smæðar hrakizt frá því að vera háð dönsku auðmannastéttinni yfir í það að vera háð þeirri ensku sumpart hér um bil frá 1916. Og þegar hún verður fyrir sinni fyrstu alvarlegu kreppu, þá liggur við, að hún fari svo að segja öll á hausinn. Það er sem sagt aðstaðan, sem hún stendur í 1937–1938, og það er þá, sem Alþfl. gerir kröfuna um, að hún sé gerð upp, með því að setja fram kröfuna og slita vinstri stjórninni, sem þá var, á kröfunni um uppgjör á Kveldúlfi.

Ég held, að það sé þess vegna alveg greinilegt, að það ber að taka íslenzku borgarastéttina og hennar flokk eins og þau eru á hverjum tíma. Borgarastéttin og Sjálfstfl. voru 1938 svo illa komin, að þau raunverulega gera samkomulag við Framsókn út af skuldum beggja aðilanna, Sambandsins og Kveldúlfs, í Landsbankanum um það að setjast sameiginlega að þjóðstjórninni og bjarga Landsbankanum og öllu saman, — um það er þjóðstjórnin mynduð, - og ganga svo á hag almennings. Og sannleikurinn var, að þessi íslenzka borgarastétt var svo illa farin eftir alla þessa kreppu sína, að hún hafði enga trú á, stór hluti hennar, að neitt væri hægt að gera 1944, eins og ég hef sagt frá hér áður. Þegar við töluðum í fyrsta skipti í nýbyggingarráði við togaraeigendurna, aðalhluta íslenzku auðmannastéttarinnar, þá vildu þeir ekki minnast á það að kaupa togara, hvað þá að kaupa nýtízkutogara, þeir vildu bara bíla. Borgarastéttin var orðin trúlaus á það, að hún gæti verið svo sjálfstæð, að hún gæti yfirleitt lagt í að vinna landið upp sem sjálfstætt land. Verkalýðshreyfingin varð að telja henni trú um það. Verkalýðsstéttin varð að fá borgarastéttina tii þess að skilja, að það væri hægt að reisa borgaraþjóðfélag á Íslandi á tiltölulega háu stigi tæknilega, og við urðum að reyna að fá hana til þess meira að segja með því að lofa henni alls konar fríðindum, eins og afskriftunum, sem þá voru settar og enn eru í gildi, eins 20 ára lánunum og 2½% vöxtunum, sem þá voru. M.ö.o.: verkalýðshreyfingin varð að telja borgarastéttinni trú um, að það væri hægt að halda uppi efnahagslega sjálfstæðu Íslandi, og sýna henni fram á, hvernig hægt væri að nota það fé, sem þjóðin átti, til þess að leggja grundvöll að borgaralegu þjóðfélagi á Íslandi. Nú er þessi borgarastétt hins vegar orðin svo rík og svo frek, að nú heldur hún, að hún geti þetta allt saman sjálf, eins og einn maður sagði hér einu sinni. En sannleikurinn er bara sá, að hún getur ekki hlutina sjálf. Við sjáum alveg, hvert hún er að fara núna. Hún er að fleygja sér í fangið á Efnahagsbandalaginu án þess að hafa hugmynd um, hvað það þýðir fyrir hana. Þeir, sem verða fyrst marðir hér undir fótum Efnahagsbandalagsins, eru ekki verkalýðurinn, því að verkalýður verður að vera til hér, þó að Ísland sé sett inn í Efnahagsbandalagið, en það verður íslenzka borgarastéttin. Það verður lítið eftir af þeim smáu atvinnurekendum, sem hér eru á Íslandi, þegar auðhringarnir úti í Evrópu fara að koma með sína skipulagningu hér og eru raunar farnir að undirbúa það nú þegar.

Nei, ég held, að með þeirri pólitík, sem Alþfl. er að reka núna, með því að leggja gróðalögmál auðvaldsþjóðfélagsins til grundvallar fyrir öllu, sem gert er, og með því að nota þar að auki ríkisvaldið til þess að skipuleggja þá hagnýtingu gróðalögmálsins, þá er verið að skapa þjóðfélag, sem verður þjóðfélag þrældómsins, þjóðfélag spillingarinnar og þjóðfélag misréttarins. Það er það, sem við horfum fram á núna. Og ég vil minna hæstv. ráðh. á, að það er ekki í fyrsta skipti og hann er ekki fyrsti Alþfl.-ráðh., sem gerir sér von um einhvern hálfsósíalistískan áætlunarbúskap í sambandi við stjórn með Sjálfstfl. Þetta nákvæmlega sama gerðist 1947, þegar stjórn Stefáns Jóh. Stefánssonar tók við. Sá forsrh., sem þá var, formaður Alþfl., sem þá var, hélt líka, að með fjárhagsráðsl. væri hægt að fara að framkvæma áætlunarbúskap á Íslandi samkv. hugsun Alþfl. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að gera svo vel og gera hlé á ræðu sinni.) Já, ég skal gera það.