31.01.1963
Neðri deild: 33. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í C-deild Alþingistíðinda. (2348)

76. mál, áætlunarráð ríkisins

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það er nú orðið æðilangt síðan seinast var rætt hér í d. um þetta mál, en þá fóru hér fram allýtarlegar umr. um ýmis atriði, sem sum voru nokkuð athyglisverð. Þó að þetta langur tími sé nú liðinn, síðan um þetta var rætt hér, þá finnst mér samt ástæða til þess að minnast hér á nokkur atriði. Ég vil þá fyrst víkja nokkrum orðum að því frv., sem hér liggur fyrir og vafalaust er að mörgu leyti hið athyglisverðasta. Um það er þó kannske ekki sérstök ástæða til að ræða að þessu sinni, vegna þess að það hefur verið boðað af hæstv. ríkisstj., að hún muni leggja fyrir þingið till., sem hún hefði í undirbúningi um sérstaka framkvæmdaáætlun, og verður að vænta þess, að það verði gert á þessu þingi, áður en mjög langur tími liður, og gefst þá tækifæri til þess að ræða nánar um þessi mál. En það vildi ég segja í tilefni af því, sem hæstv. viðskmrh. sagði um þetta mál við þær umr., sem um þetta frv. hafa orðið á fyrri hluta þingsins, að ég held, að það sé algerlega ofmælt, að hæstv. núv. ríkisstj. hafi tekið þetta mál föstum tökum, a.m.k. hafa menn enn þá ekki fengið að sjá það, hver þessi föstu tök hæstv. ríkisstj. væru í sambandi við áætlunarmál og framkvæmdaáætlun fyrir þjóðarbúskapinn. Það hefur að vísu verið sagt, að ríkisstj. hefði ýmsa sérfræðinga, bæði innlenda og útlenda, til þess að undirbúa tillögur um þetta efni, en þessar till. eru enn ekki farnar að sjá dagsins ljós, enda virðist bæði þetta og annað, sem fram hefur komið í sambandi við þessi mál, benda til þess, að hér sé ekki verið að vinna neitt alvarlegt starf, að hér sé ekki raunverulega verið að undirbúa það, sem talið er raunhæf framkvæmdaáætlun, heldur fyrst og fremst áætlun, sem á að leggja fram fyrir næstu kosningar, álíka og bláu bókina, sem Sjálfstfl. hefur lagt fram fyrir bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík. En það mun að sjálfsögðu skýrast, þegar ríkisstj. gerir nánari grein fyrir vinnubrögðum sínum í þessum efnum, hvort þetta sé nokkuð fjarri lagi, sem ég hef nú sagt, en það, sem hefur gerzt fram ~að þessu, bendir allt í þessa átt. En sem sagt, það er óþarft að vera að ræða frekar um þetta atriði nú að sinni, vegna þess að þetta skýrist að sjálfsögðu betur, þegar hæstv. ríkisstj. leggur þær till. fram um þessi mál, sem hún hefur verið að boða að undanförnu. En það, sem hefur gerzt hingað til, er vissulega allt með þeim hætti, að það er ekki hægt að fara um það þeim orðum, að ríkisstj. hafi tekið þessi mál föstum tökum, eins og hæstv. viðskmrh. vildi vera láta.

Hæstv. viðskmrh. rakti hér í þeim ræðum, sem hann hefur haldið, allýtarlega sögu Alþfl. og þó sérstaklega þann þátt, sem að hans dómi virtist mega kalla harmsögu Alþfl. Þessi harmsaga Alþfl. var í því fólgin, að hvað eftir annað hefðu hinir mikilhæfustu foringjar flokksins yfirgefið hann og gengið til samstarfs við kommúnista. Þeir, sem gerðu þetta fyrst, voru Héðinn Valdimarsson, og Sigfús Sigurhjartarson og svo síðar Hannibal Valdimarsson. Og þetta átti að vera skýringin á því, hve illa Alþfl. hefði vegnað og hann hefði ekki sömu áhrif og aðstöðu hér og sambærilegir flokkar á Norðurlöndum og víðar í Evrópu.

Það er vafalaust alveg rétt hjá hæstv. viðskmrh., að það á sinn þátt í því, hve illa Alþfl. hefur vegnað, að þessir menn yfirgáfu hann og af því leiddi verulegan klofning í flokknum í bæði skiptin. En það er hins vegar fjarri lagi, að öll harmsaga Alþfl. sé sögð með því, að þessir foringjar hafi villzt frá flokknum og snúizt til fylgis við aðra flokka. Sú harmsaga er miklu meiri og lengri. Það er t.d. alls ekki hægt að kenna Héðni Valdimarssyni eða Sigfúsi Sigurhjartarsyni eða Hannibal Valdimarssyni um það, að Alþfl. tapaði hér í Reykjavík 2000 atkvæðum í seinustu bæjarstjórnarkosningum, miðað við næstu þingkosningar á undan, og það er ekki heldur hægt að kenna þessum mönnum um þær ófarir, sem Alþfl. beið í seinustu bæjarstjórnarkosningum á Akranesi, í Keflavík og víðar um land. Þær ófarir eiga sér allt annan aðdraganda en þann, að Héðinn Valdimarsson, Sigfús Sigurhjartarson og Hannibal Valdimarsson hafi villzt frá flokknum á sínum tíma. Þessar ófarir Alþfl. eru fólgnar í því, að ekki aðeins vissir foringjar flokksins, heldur allir foringjar flokksins og flokkurinn sjálfur hefur villzt af þeirri braut, sem hann markaði sér í upphafi, og gengið einhliða til samstarfs við Sjálfstfl. og undir hans jarðarmen. Það er langstærsti harmaþátturinn í allri hinni löngu harmsögu Alþfl. Í stað þess, eð Alþfl. á sínum tíma setti sér það markmið að vinna fyrir alþýðustéttir landsins, sérstaklega vinnustéttirnar í bæjunum, vinna að bættum kjörum þeirra, styttum vinnutíma o.s.frv., þá hefur hann nú á undanförnum árum, síðan hann og foringjar hans villtust yfir til Sjálfstfl., haft forustu um hverja gengisfellinguna á fætur annarri, um kauplækkanir, um kjaraskerðingar og um hina óþörfustu og ranglátustu gerðardóma. Það er þetta, sem er tvímælalaust langsamlega mesti harmþátturinn í sögu Alþfl. Og það kom alveg skýrt fram í þeim umr., sem hér fóru fram, hve langt Alþfl. er nú kominn frá sinni upprunalegu stefnu, það kom mjög greinilega og ég vil segja átakanlega fram í ræðu hæstv. viðskmrh. sjálfs.

Eitt af þeim merkilegu umbótamálum, sem Alþfl. átti þátt í á sínum tíma að koma fram, var viðurkenningin á 8 stunda vinnudegi, en foringjar flokksins eins og Jón Baldvinsson, Héðinn Valdimarsson, Sigurjón Á. Ólafsson og aðrir slíkir eiga mjög merkan þátt í því, að þessi viðurkenning fékkst, og fyrir það mun starf þeirra og starfs Alþfl. á þeim tíma jafnan vera minnzt með þakklæti af vinnustéttum landsins. En hvað var það, sem kom svo fram í þessum umr. hér af hálfu hæstv. viðskmrh.2 Það var það, að hæstv. viðskmrh. vill ekki lengur viðurkenna 8 stunda vinnudaginn til viðmiðunar um það, hver launakjör og afkoma vinnustéttanna eigi að vera. Í ræðu hv. frsm. þessa frv. og í þeirri grg., sem fylgir frv., er það lagt til grundvallar, þegar verið er að ræða um launakjör vinnustéttanna, að það sé fyrst og fremst miðað við það, að 8 stunda vinnudagur gefi viðunandi lífskjör, og þetta er ekki annað en það, sem full viðurkenning var búin að fást á, ekki sízt fyrir baráttu Alþfl. En hæstv. viðskmrh neitar að miða við þennan grundvöll, hann vill alls ekki, þegar hann ræðir um launakjör vinnustéttanna, miða við það, að 8 stunda vinnudagur gefi viðunandi lífsafkomu. Hann vill miða við allt annað. Hann vill miða við þann grundvöll, að vinnustéttirnar vinni ekki aðeins 8 stunda vinnudag, ekki einu sinni 9 stunda vinnudag, ekki einu sinni 10 stundavinnudag, því að til þess að ná þeim launum, sem hann telur þær nú hafa skv. því, sem Efnahagsstofnunin hefur reiknað út, þurfa t.d. Dagsbrúnarmenn og aðrir launþegar, sem eru í sama launaflokki, að vinna 11 stundir á dag til jafnaðar, og það er það, sem hæstv. viðskmrh. virtist telja mjög vel viðeigandi og væri sjálfsagt að miða við, þegar verið væri að tala um launakjör vinnustéttanna, alls ekki við 8 stunda vinnudaginn. Og hvers vegna er það, sem hæstv. viðskmrh. vill nú ekki lengur miða við 8 stunda vinnudag og hann gefi vinnustéttunum sæmilega lífsafkomu? Það er í fyrsta lagi vegna þess, að þetta virðist ekki lengur vera baráttumál Alþfl., eins og áður var, og svo í öðru lagi hitt, að það liggur alveg greinilega fyrir, skjallega fyrir, að ef miðað er við 8 stunda vinnudag, þá hafa launakjör vinnustéttanna stórlega versnað í tíð núv. ríkisstj. Það liggja fyrir alveg greinilegir útreikningar hagfræðinga um það, að ef miðað er við 8 stunda vinnudag, þá eru launakjör t.d. Dagsbrúnarmanna nú um 10% lakari en þau voru í október 1958. Þess vegna er það líka, sem hæstv. viðskmrh. vill alls ekki miða lengur við 8 stunda vinnudaginn, heldur við miklu lengri vinnutíma, þegar verið er að meta og reikna út launakjör vinnustéttanna. Það er vegna þess, að hæstv. ríkisstj. hefur haldið þannig á efnahagsmálunum, að þrátt fyrir stórkostlega auknar þjóðartekjur á undanförnum árum, þá er þannig orðið ástatt, að 8 stunda vinnudagur gefur vinnustéttunum miklu minni tekjur en áður var eða var t.d. 1958 og 1959. Svo grátlega hefur þessi efnahagsmálastefna, viðreisnarstefnan, leikið launastéttirnar.

En þrátt fyrir þótt miðað sé nú við þau vinnulaun eða árstekjur, sem hæstv. viðskmrh. vildi halda fram að vinnustéttirnar hefðu núna með því að vinna 11–12 stunda vinnudag, þá nægir það alls ekki til þess að skapa sambærileg lífskjör og 1958, a.m.k. fyrir stóran hluta þeirra, því að mér sýnist það á þeim útreikningum, sem hann var með, að þá hafi t.d. kaupið, heildarkaup eða árskaup, meðalkaupið, sem hann var með, ekki hækkað nema um ein 31% síðan 1959, með því að menn vinni miklu meiri eftirvinnu en áður tíðkaðist, en framfærsluvísitalan hefur á þessum tíma hækkað um 41% hjá þeim, sem ekki njóta fjölskyldubóta, en það er meginþorri launþeganna, allir þeir, sem eru einhleypir, og svo þau hjón, sem ekki hafa börn á aldrinum innan við 16 ára aldur á framfæri sínu. Hjá þessu fólki hefur afkoman versnað, þrátt fyrir stórkostlega aukinn vinnutíma.

En það, að menn hafa þó haft þessi kjör, sem nú er búið við og hefur verið búið við á undanförnum árum, og þau eru þó ekki lakari en það, sem raun ber vitni, það er ekki hæstv. ríkisstj. að þakka eða hennar flokkum eða efnahagsmálastefnunni, heldur hefur þetta orðið þrátt fyrir hana.Í fyrsta lagi hefur þetta orðið vegna þess, að hér hefur verið alveg óvanalega gott árferði, sem ekki er að neinu leyti ríkisstj. eða hennar stefnu að þakka. Fiskveiðar hafa orðið óvenjulega miklar, sérstaklega síldveiðin. Þetta er að þakka útfærslu fiskveiðilandhelginnar 1958, nýrri tækni við síldveiðarnar o.s.frv. Þetta hefur gert það að verkum, að atvinna hefur orðið miklu meiri en ella, miklu meiri en ríkisstj. ætlaðist til, og menn þess vegna átt kost á meiri eftirvinnu en annars hefði orðið.

En það, sem veldur því svo í öðru lagi, að kjörin hafa þó ekki verið lakari en raun ber vitni um, er það, að fyrir atbeina samvinnufélaganna hafa verkalýðssamtökin getað náð fram nokkrum kauphækkunum á þessum tíma. En hvernig hefur þeim samningum verið tekið af hæstv. ríkisstj. og hennar flokkum, þessum kaupgjaldssamningum, sem þó hafa tryggt það, að kjör almennings hafa ekki orðið lakari en raun ber vitni um? Þessir samningar hafa verið kallaðir svikasamningar af hæstv. ríkisstj. og málgögnum stjórnarflokkanna og fundið allt til foráttu og sagt, að þeir væru að setja landið á hausinn, því að það hefur raunverulega verið þeirra afstaða, að þrátt fyrir hið mikla góðæri og hinar stórauknu þjóðartekjur, þá hafa launastéttirnar ekki átt að fá neina hlutdeild í þessu, og þegar samvinnufélögin og verkalýðssamtökin hafa brotið þessa stefnu stjórnarinnar af sér, þessi bönd stjórnarinnar, slitið þau af sér, þá hefur bara verið hrópað í stjórnarblöðunum, að hér væri verið að fremja einhver stórfelldustu svik gagnvart þjóðfélaginu, þetta væru svikasamningar og að þeir menn ættu skilið hina þyngstu og verstu dóma, sem leyfðu sér að gera slíkt, en það er þó einmitt þetta, sem á sinn meginþátt í því ásamt góðærinu, að kjör almennings í landinu hafa þó ekki orðið lakari en raun ber vitni um á undanförnum árum, en án þessara samninga hefðu þau tvímælalaust orðið stórkostlega verri en þau þó eru í dag.

En það, sem varð þess sérstaklega valdandi, að ég kvaddi mér hljóðs í þessum umr., og mér fannst alveg sérstök ástæða til að vekja athygli á, það var þetta, sem kom fram hjá hæstv. viðskmrh., að það virðist svo sem bæði hann og hans flokkur sé nú algerlega búinn að gefa upp 8 stunda vinnudaginn, séu snúnir frá þeirri baráttu, sem Alþfl. á sínum tíma háði, sem hann þá vildi fá viðurkenndan, og vilji nú miða við allt annan og lengri vinnudag, því að hæstv. viðskmrh. taldi, eins og ég áðan sagði, að það væri hin mesta ósvinna að miða við það, að vinnustéttirnar hefðu sæmilega afkomu miðað við 8 stunda vinnudaginn, heldur ætti að miða við miklu lengri vinnutíma, allt að 11–12 stunda vinnutíma hjá Dagsbrúnarverkamönnum og öðrum svipuðum launastéttum. Alþfl. er m.ö.o. alveg búinn að gefa upp á bátinn baráttuna fyrir 8 stunda vinnudegi og sættir sig nú við það glaður og ánægður — eða a.m.k. var ekki annað séð á orðum hæstv. viðskmrh., að aftur verði nú tekið upp ástand hinna gömlu, góðu daga, sem forsrh. sagði líka að væri tilgangur og vilji sinn að snúa til, þegar vinnustéttirnar urðu að vinna 10–12 stundir á dag og stundum lengur. Í þessum efnum er alveg óhætt að slá því föstu, að draumar hæstv. forsrh. um hina gömlu, góðu daga, um daga vinnuþrælkunarinnar hafa rætzt. Það ástand er nú komið á aftur í þessum efnum eins og var, þegar þeir Héðinn Valdimarsson og Jón Baldvinsson hófu sína baráttu gegn hinum langa vinnudegi.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um það, sem kom fram hjá hæstv. viðskmrh., en vil að lokum víkja nokkrum orðum að því, sem kom fram hjá hv. flm. frv., hv. 3. þm. Reykv.

Hv. 3. þm. Reykv. talaði allmikið um það í framsöguræðu sinni, að það hefði reynzt betra, a.m.k. í ýmsum tilfellum, að vinna með Sjálfstfl. en Framsfl., og nefndi sérstaklega nýsköpunarsöguna til dæmis um það. Ég get vel trúað, að frá sjónarmiði hv. 3. þm. Reykv. sé þetta rétt, og vissulega sýnir sagan það á undanförnum árum, að Sósfl. eða kommúnistaflokknum og Sjálfstfl. hefur gengið mjög vel að vinna saman. Þessir flokkar unnu t.d. ákaflega vel saman á árunum 1937–1939, þegar þeir voru að brjóta niður Alþfl. eða áhrif Alþfl. í verkalýðshreyfingunni og Sjálfstfl. stofnaði sín málfundafélög í verkalýðshreyfingunni, sem höfðu það verkefni fyrst og fremst að hjálpa kommúnistum þar til valda. Málfundafélag sjálfstæðismanna í Dagsbrún hjálpaði kommúnistum til valda þar og málfundafélög Sjálfstfl. bæði í Dagsbrún og öðrum félögum hjálpuðu svo kommúnistum til þess að ná undirtökum í Alþýðusambandinu á sínum tíma. Og það er vissulega rétt hjá hv. 3. þm. Reykv., að a.m.k. þetta dæmi er sönnun um það, að þessum flokkum, Sósfl. og Sjálfstfl., hefur oft gengið vel að vinna saman.

Það má líka rifja upp það, sem gerðist á árinu 1942, þegar Sósfl. bauð Sjálfstfl. hinar svokölluðu „steiktu gæsir“, ef hann vildi rjúfa samstarf við Framsfl. og falla frá þeirri viðnámsbaráttu, sem þá var haldið uppi gegn vaxandi dýrtíð og verðbólgu í landinu. Sjálfstfl. tók með þökkum hinum „steiktu gæsum“ eða hlutfallskosningunum í tvímenningskjördæmum, rauf samvinnu við Framsfl. þrátt fyrir sína eiða um hið gagnstæða, tók upp samstarf við kommúnista með þeim skilyrðum, að þeir fengju öllu að ráða í dýrtíðar- og verðlagsmálunum, og það hafði þær afleiðingar, að dýrtíðin tvöfaldaðist á 8 mánuðum. En samvinnan varð samt ljómandi góð á milli þessara flokka, og í framhaldi af þessari samvinnu 1942 á milli Sósfl. og Sjálfstfl. var tekin upp samvinna á milli þessara flokka, fullkomin stjórnarsamvinna á árinu 1944 og sett á laggirnar hin svokallaða nýsköpunarstjórn. Og það hefur nýlega komið fram í aðalblaði Sjálfstfl., Morgunblaðinu, að það hafi ekki verið nein smávegis boð, sem Sjálfstfl. hefur þá boðið kommúnistafl., ef hann vildi ganga í stjórn með sér. Ég ætla ekkert að fara að rifja það upp, hvaða boð það voru, því að það er mönnum áreiðanlega kunnugt hér, en það sýnir, að Sjálfstfl. hefur ekki skorið við nögl sér, þegar hann hefur verið að reyna að fá sósíalistana í stjórn með sér. Og það er áreiðanlega rétt hjá hv. 3. þm. Reykv., að Framsfl. hefur aldrei boðið kommúnistum önnur eins kostaboð og Sjálfstfl. bauð þá og er ekki líklegur til að gera það.

Þessi samvinna milli Sósfl. og Sjálfstfl. í nýsköpunarstjórninni var lengi vel hin bezta, eins og líka kom fram í ræðu hv. 3. þm. Reykv. Hann lauk lofsorði hér í ræðu sinni á ýmislegt, sem þá hefði verið gert. Að vísu rofnaði hún nokkuð skyndilega, en þó þannig, að Sjálfstfl. var engan veginn vonlaus um, að hægt væri að endurnýja samstarfið, því að þrátt fyrir það, þótt þeir hefðu orðið fyrir heldur óþægilegum ástaratlotum, hæstv. núv. forsrh. og dómsmrh., hjá sósíalistum, þegar þeir komu einu sinni af fundi í Varðarhúsinu, þá reyndu þeir samt í 3 mánuði þar á eftir að fá kommúnista til samstarfs við sig og hafa vafalaust verið ósparir á alls konar boð, ef þeir vildu þýðast það. En þá stóðu málin þannig, m.a. vegna þess að austanvindurinn blés þá þannig eða línan frá Moskvu var þannig, að þessari ástarviðleitni Sjálfstfl. var ekki tekið í það skipti. En tengslin milli þessara flokka héldu samt áfram að haldast, og það kom bezt fram á árinu 1958, þegar vinstri stjórnin sat að völdum, og því hefur hv. 3. þm. Reykv. lýst mjög greinilega hér í þinginu. Hann skýrði frá því, — ég hygg, að það hafi verið fyrir 1 eða 2 árum í umr. hér á þinginu, — að hann hefði haft allnáið samstarf við hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh. sumarið 1958 um það að knýja fram verulegar kauphækkanir, sem þeir hefðu talið að væru alveg sjálfsagðar þá, þó að þeir teldu það að vísu ekki á eftir, þegar þeir voru komnir í stjórnaraðstöðu. Hann lýsti því mjög greinilega, hv. 3. þm Reykv., að þá hefði hann staðið við hlið þeirra Ólafs og Bjarna um það að knýja fram verulegar kauphækkanir. En þessar kauphækkanir voru ekki hugsaðar þannig hjá hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh., að þær ættu að vera kjarabót handa verkalýðnum, og ég er ekki viss um það, að hv. 3. þm. Reykv. hafi hugsað þannig heldur. Þessar kauphækkanir voru fyrst og fremst hugsaðar til þess að skapa glundroða í efnahagsmálum landsins, sem gæti orðið vinstri stjórninni að falli, enda kom það líka á daginn, að þegar að því kom, að þurfti að leysa þann vanda, sem þær höfðu skapað, þá stóð hv. 3. þm. Reykv. og hans fylgismenn við hlið Sjálfstfl., m.a. á þingi A.S.Í., til að koma í veg fyrir það, að þau úrræði fengjust fram, sem nauðsynleg voru til stöðvunar á vaxandi verðbólgu og dýrtíð, og þar með endaði þetta fóstbræðralag þeirra sumarið 1958, hv. 3. þm. Reykv. og hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh., þannig, að vinstri stjórnin féll. Það er alveg tvímælalaust, að það er samvinna þessara aðila, sem á meginþátt sinn í því, þessi samvinna sósíalistanna, sem voru undir forustu hv. 3. þm. Reykv., og forustumanna Sjálfstfl., sem varð þess valdandi, að vinstri stjórnin féll sumarið 1958. Og þar með var ekki lokið heldur þeirri samvinnu, sem verið hefur á milli Sósfl. og Sjálfstfl., því að upp úr þessu spratt samkomulagið um kjördæmabyltinguna, þegar þessir flokkar sameinuðust um að gera róttækustu breytingu á kjördæmaskipuninni, sem hér hefur nokkru sinni verið gerð, og þá var ástin svo innileg á milli þessara flokka, að allir liðsmenn Sósfl. kusu hæstv. núv. dómsmrh. forseta í Sþ. og allir sjálfstæðismenn ásamt Alþfl. í Nd. greiddu hv. 3. þm. Reykv. atkv. sem forseta deildarinnar. Þá var nú ekki verið að tala um það, að hv. 3. þm. Reykv. væri einhver óalandi Moskvumaður, sem hættulegt væri að koma nálægt, eins og stundum má lesa í málgögnum Sjálfstfl. Nei, þá var hann talinn hæfur til þess og alveg sjálfsagður að skipa annað virðulegasta embætti Alþingis. Meiri var ekki andúð Sjálfstfl. á honum og hans flokki þá, þó að stundum sé nú annað að heyra, þegar litið er yfir þær greinar, sem um þessi mál birtast í Morgunblaðinu, og hæstv. dómsmrh. er stundum að tala hér í þinginu. Og þrátt fyrir það, þó að kjördæmabyltingin kæmist fram og sá þáttur samstarfs rofnaði, sem verið hefur milli þessara tveggja flokka, þá hafa ýmsir atburðir gerzt síðan, sem sýna, að þeir þræðir, sem þarna liggja milli, eru óslitnir enn.

Það er hægt að minnast á í þessu sambandi, þegar hæstv. núv. dómsmrh. ásamt hæstv. núv. fjmrh. gengu hér fram fyrir skjöldu til þess að tryggja hv. 3. þm. Reykv. sæti í Norðurlandaráði. Og kannske hefur þetta sézt allra bezt, þegar svo leit út hér um skeið, að hann mundi ekki halda sínu sæti í Sogsstjórninni. Það munu vafalaust allir minnast þeirrar aðstoðar, sem Sjálfstfl. veitti hv. 3. þm. Reykv. þá til að halda sæti sínu í Sogsstjórninni. Það þarf ekki að rifja það upp. En að vísu eru það einhver skringilegustu loddarabrögð, sem nokkru sinni hafa verið leikin á landi hér, þegar hv. 3. þm. Reykv. var í fyrsta lagi kosinn í Sogsstjórnina og svo var reynt að láta líta út sem þetta hefði verið eitthvert óhapp, sem allir vissu að var ekki neitt óhapp, heldur var gert af fullum ásetningi og komið fyrir með þessum hætti.

Og það hefur sézt hér í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna fyrir stuttu, að þessar taugar milli forustumanna Sjálfstfl. og Sósfl. eru enn þá óslitnar og haldast vel, þegar á reynir. Þess vegna undrar það mig ekki neitt, þótt hv. 3. þm. Reykv. sé að lýsa því yfir, að yfirleitt hafi gengið miklu betur að hafa góða samvinnu við Sjálfstfl. heldur en Framsfl., vegna þess að eins og ég hef nú rakið, þá er það vissulega rétt, að reynsla hans hefur verið á þá leið, að það hafa alltaf verið nokkuð sterkar taugar á milli þessara aðila og þeir hafa oft unnið saman, bæði ljóst og leynt, og það er ekkert enn þá hér, sem mælir á móti því, að þessar taugar haldist og samstarf milli þessara aðila geti hafizt hvenær sem er, þegar þeir telja, að sér muni það henta, þrátt fyrir það að í Morgunbl. sé reynt að afneita kommúnistum og í Þjóðviljanum sé Sjálfstfl. afneitað.

Ég held ég geti ekki látið hjá líða, fyrst ég kvaddi mér á annað borð hljóðs um þetta mál, að minnast nokkrum orðum á það, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði um nýsköpunarstjórnina. Hann fór um hana miklum viðurkenningar- og aðdáunarorðum. Ég held, að þessi orð eigi nú alls ekki við, síður en svo, því að það er sennilega spurning um það, hvort viðreisnarstjórnin eða nýsköpunarstjórnin er aumari. Það er sennilega erfitt að gera upp á milli um það, þó að starfshættir þeirra séu að vísu með nokkuð ólíkum hætti, vegna þess að aðstæðurnar eru ekki þær sömu, sem þessar stjórnir búa við. En ferill nýsköpunarstjórnarinnar var sá, að hún tók við einhverjum þeim mesta auði, sem nokkur íslenzk stjórn hefur tekið við, hinum mikla gróða, sem hafði safnazt á stríðsárunum, og henni tókst að halda þannig á þessari auðlegð á 2 árum, að hún var farin út í veður og vind svo að segja öll, án þess að nokkuð verulegt hefði verið gert í staðinn, þegar undan eru skilin kaup á nokkrum togurum. Og þegar samstarfi þessara flokka lauk eftir 2 ár, var ástandið orðið þannig, að það varð að byrja á því að taka upp hinar svonefndu uppbætur, uppbótagreiðslur, til þess að halda atvinnuvegunum gangandi, og gjaldeyrisástandið var orðið þannig, að það varð ekki aðeins að taka upp ströng innflutningshöft — miklu strangari innflutningshöft en áður — heldur varð að taka upp skömmtun á lífsnauðsynjum. Þannig endaði þetta ævintýri nýsköpunarstjórnarinnar, að hún tók við erlendum gjaldeyrissjóðum, sem nema kannske upp undir 2 þús. millj. kr. miðað við núv. gengi, var búin að eyða öllu þessu, þegar hún lét af völdum eftir 2 ár, og það svo gersamlega, að það varð að taka upp skömmtun á lífsnauðsynjum vegna þeirra erfiðleika í yfirfærslumálum, sem stjórnarstefnan var búin að skapa.

Og hvernig var sú hlið, sem sneri að verkalýðnum í landinu hjá þessari hæstv. ríkisstj.? Hún var m.a. sú, að auðmennirnir t.d. hér í bænum byggðu einhver þau mestu skrauthýsi, sem hér hafa verið byggð, en það var ekki verið að byggja verkamannabústaði, ekki samvinnubústaði eða annað þess háttar, heldur voru verkamennirnir og þeirra fjölskyldur látin flytja inn í braggana, sem hinn erlendi her yfirgaf í bænum, og það er ekki einu sinni búið að útrýma þeim enn. Hermannabraggarnir yfirgefnir — það voru verkamannabústaðirnir, sem þessi hæstv. ríkisstj. reisti, og eru hinn táknrænasti minnisvarði um hennar starf.

Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja feril nýsköpunarstjórnarinnar frekar, en ég held, að hv. 3. þm. Reykv. ætti ekki að beita hér þeim sögufölsunum að vera að lofa hennar starf, því að það er allt á þann veg, að slíkt hrós fellur um sjálft sig.