12.02.1963
Neðri deild: 40. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í C-deild Alþingistíðinda. (2361)

76. mál, áætlunarráð ríkisins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst víkja örfáum orðum að ræðu síðasta hv. ræðumanns og þá aðeins örfáum atriðum. Hann talaði um það og hefur lengi talað um það í ræðum sínum að undanförnu, hverjir hefðu átt pólitískt samstarf og hverjir muni taka upp pólitískt samstarf nú að kosningum loknum. Um þetta veit auðvitað enginn. Við vitum, að allir flokkar hafa átt samstarf við alla flokka á Íslandi oftar en einu sinni á undanförnum árum, og það getur enginn öðrum láð, það getur enginn hermt glæp upp á hinn, og ég hygg, að sá flokkurinn, sem verður kannske einna tregast um svör, þegar nálgast kosningar í vor, þegar borin verður fram spurningin: ætlar þú að vinna með kommúnistum eftir kosningar? — það verði þá kannske Framsfl., sem verði einna tregast um svör, því að honum mun ekki haldast uppi að hafa uppi rauðan fána í kosningabardaganum um róttæk mál, án þess að hann verði spurður um það, hvort hann ætli svo að sigla með það vinstra fylgi, sem hann fær út á þennan áróður, í föðurskaut íhaldsins. Og þá hygg ég, þegar þessi spurning verður borin upp, að þá verði reynt að svara eins diplómatískt og gert var á frambjóðendafundi norður á Akureyri nú fyrir skömmu af 1. þm. Norðurl. e., þegar hann var spurður að þessu af framsóknarmanni, og þá hafði hann sagt: Við erum nú búnir að læra svo mikið af lífinu, við erum orðnir svo lífsreyndir og við erum orðnir það miklir diplómatar, að það er erfitt að svara þessari spurningu fyrir kosningar, og það geta breytzt aðstæður, forsendur geta verið aðrar eftir kosningar en núna, og þess vegna er bezt að hafa um þetta sem fæst orð. — Og ég hygg, að svörin verði nú eitthvað afslepp í þessu, einkanlega þegar kosningarnar nálgast.

Ekki skal ég verja löngum tíma af minni ræðu til þess að víkja að eftirmælum nýsköpunarstjórnarinnar. En hv. 7. þm. Reykv. fór nokkrum orðum um það og sagði ýmislegt réttilega um það, að sú stjórn hafi ekki framkvæmt umbætur á öllum sviðum þjóðlífsins, sem fáum ríkisstjórnum mun og hent. Þessi stjórn hafði mikil fjárráð, það er rétt, stríðsgróðann. En þó er ekki með öllu drengilega og ærlega frá sagt um nýsköpunarstjórnina, þegar tekin er undan endurbygging togaraflotans. Það má þó finna minna grand í mat sínum og er ekki alveg heiðarlegt að draga strik yfir það, þegar byggður er upp togaraflotinn í landinu. (Gripið fram í: Þm. nefndi það.) Þm. nefndi það, það mun hafa verið í mjög stuttri setningu, ef hún hefur farið fram hjá mér með öllu. Það var a.m.k. ekki undirstrikað í eftirmælum nýsköpunarstjórnarinnar. Ég held, að það hafi alveg gleymzt, Ég hlustaði alivel á ræðu hv. þm., en ég heyrði ekki, að hann hefði uppi mikil eftirmæli um uppbyggingu togaraflotans á nýsköpunarárunum. (Gripið fram í.) Gleymdi alveg síldarverksmiðjunum, segir nú flokksbróðirinn, svo að ýmsu var þó geymt algerlega, farið laust yfir svona hluti eins og uppbyggingu togaraflotans og alveg gleymt síldarverksmiðjum ríkisins.

Að því er snerti ræðu hv. þm. viðvíkjandi kaupgjaldsmálum, þá vil ég aðeins segja það, að hann talaði um, að það mætti ekki ofbjóða í kröfum þoli atvinnuveganna. Það er vissulega hárrétt. En það er alltaf deiluefni þetta: hvað þola atvinnuvegirnir? Þar ber ekki vitnisburðunum saman. Og þess vegna verða menn ekki alveg sammála um það, hvaða kröfur megi gera til atvinnuveganna. Það er hið eilífa ágreiningsefni. Hv. þm. viðurkenndi, að verkalýðshreyfingin hefði verið mjög sanngjörn í kröfum að undanförnu í kaupgjaldsmálum, og ég held líka, að það verði ekki af verkalýðshreyfingunni skafið, að hún hefur verið sanngjörn og hún hefur verið þolinmóð gegn þeim áföllum, sem hún hefur orðið fyrir og launþegarnir yfirleitt í landinu vegna rangsleitni núv. stjórnarvalda í garð allra launþega. Það skal fyllilega viðurkennt af mér, að samvinnuhreyfingin hefur þar ekki talið sér fært að vera jafnósanngjörn og Vinnuveitendasamband Íslands í viðureigninni við verkalýðshreyfinguna og gengið þannig inn á að leysa málin með því að koma á nokkurn hátt til móts við verkalýðshreyfinguna í kaupgjaldsmálum. Og það, að við höfum þó tvívegis leiðrétt nokkuð þá launaskerðingu, sem orðin var, það eigum við samstarfi við samvinnuhreyfinguna að þakka. Þetta skal ég fyllilega viðurkenna. En þegar hv. þm. sagði svo, að hann vonaði, að sú sanngirni héldist, sem hefði verið sýnd til þessa í launamálum, þá verð ég að segja: Verkalýðshreyfingin hefur ekki fengið sanngjarnan hlut af þjóðartekjunum nú þrátt fyrir það samkomulag, sem samvinnuhreyfingin hefur tvívegis eða þrívegis gert við verkalýðshreyfinguna. Verkalýðshreyfingin býr enn við skertan hlut, og þessi sanngirni, eins og hún er nú afmæld, má ekki haldast, segi ég. Það verður að rétta hlut hinna lægst launuðu í landinu, og breytir þar engu um sú 5% lagfæring, sem seinast hefur verið gerð nú fyrir nokkrum dögum, með miklum semingi þó.

Ég skal þá víkja að málinu og minna á, að hér er til umr. frv. til l. um áætlunarráð ríkisins, þó að umr. hafi löngum og löngum ekki borið þess vottinn, að það mál væri hér til umr., heldur almenn stjórnmál frá síðustu 20–30 árum og verkalýðsmál sama tímabils. Í þessu frv. er lagt til, að Alþingi skuli kjósa að loknum hverjum alþingiskosningum 5 manna nefnd, sem nefnist áætlunarráð ríkisins, og ríkisstj. eigi að skipa formann úr hópi nm. Þetta áætlunarráð ríkisins á svo að semja heildaráætlanir um þjóðarbúskapinn, og þessar áætlanir skulu gerðar í samráði við ríkisstj. á hverjum tíma. Heildaráætlanirnar um þróun atvinnulífsins og um fjárfestinguna eiga að vera til langs tíma, og í frv. er gert ráð fyrir, að tímabilið sé 5–10 ár. Þetta er vitanlega til þess að skapa festu í þjóðarbúskapnum og hafa yfirlit um framkvæmdir miðað við þá fjárhagsgetu, sem þjóðin hefur á hverjum tíma. Og þetta er byggt á þeirri sömu skynsamlegu hugsun og þeirri, að hver einstaklingur reynir með ýmsum hætti að gera áætlun um, hvað hann megi leyfa sér miðað við sínar tekjur. Enn fremur er í þessu frv. gert ráð fyrir því, að áætlunarráð geri einnig áætlanir fyrir eitt og eitt ár í senn um allan þjóðarbúskapinn, ekki aðeins um fjárfestingu og framkvæmdir og fjárhaginn, heldur um allan þjóðarbúskapinn eins árs áætlanir. Um þetta meginefni frv. hefur ekki verið svo mjög rætt, og hafa þó umr. um málið staðið frá því fyrir jól, og enn þá er málið til 1. umr. Umr. um málið hafa því verið einar hinar lengstu, sem orðið hafa á Alþingi Íslendinga um nokkurt mál. Nú höfum við heyrt það, að núv. hæstv. ríkisstj. hafi ætlað sér að koma fram, áður en þessu kjörtímabili lyki, með framkvæmdaáætlun, mikla framkvæmdaáætlun, sem hún sjálf og hennar sérfræðingar treysta sér ekki til þess að gera, heldur fékk erlenda sérfræðinga til að aðstoða sig við að setja saman. Ég hygg, að nokkrir þeirra séu nú farnir úr landi, e.t.v. eru einhverjir þeirra hér á allgóðu kaupi enn, en áætlunin hefur ekki enn þá séð dagsins ljós. Og nú er mér spurn: Hvenær fáum við að sjá hina miklu framkvæmda- og framfaraáætlun núv. hæstv. ríkisstj., hvenær fáum við að sjá beinagrindina af væntanlegum áætlunarbúskap núv. ríkisstjórnarflokka, ef þeir fengju áfram aðstöðu til að stjórna landi og lýð eftir kosningar? Þetta hlýtur að vera mörgum mjög forvitnilegt, því að menn höfðu yfirleitt ekki vænzt þess, að flokkur einstaklingsframtaksins, Sjálfstfl., gerði það að einni sinni dásamlegustu skrautfjöður fyrir kosningar, að hann ætlaði að undirbúa áætlunarbúskap, skipulagðan þjóðarbúskap. Einstaklingsframtakið og skipulagður þjóðarbúskapur samkv. áætlun hefur hingað til að hyggju flestra manna ekki getað farið saman. En fróðlegt væri að sjá þetta djásn, og það mega ekki líða margar vikur, ef kosningar verða í vor, sem væntanlega verður. að menn fái að sjá grundvöllinn að áætlunarbúskap Sjálfstfl. Þegar það er nú haft í huga, að framkvæmdaáætlun Sjálfstfl. hlýtur að vera nálega tilbúin, þá hefði ekki verið óeðlilegt, að inn í umr., þessar löngu og ýtarlegu umr. um þetta mál, hefði það blandazt: hvernig leggur hv: 3. þm. Reykv. til, að undirbyggður sé áætlunarbúskapur, og hvaða kosti og galla hafa hans till. viðvíkjandi skipulögðum þjóáarbúskap, — og hvaða kosti og galla er hægt að lesa út úr grundvelli núv. stjórnarflokka, þegar þeir eru nú að undirbyggja í fyrsta sinn áætlunarbúskap? —og á þessu væri gerður samanburður, og þá kæmust stjórnarflokkarnir væntanlega að þeirri niðurstöðu, að þeirra áætlunarbúskapur væri miklu hagfelldari og fullkomnari. Nei, umr. hafa ekki snúizt um þetta.

Ég minnist þess ekki, að neinn úr stjórnarliðinu hafi rætt um málið efnislega, nema helzt hv. 1. þm. Vestf. Hann vék að efni málsins nokkuð og sagði í fljótheitum, að málið ætti að vera allt öðruvísi, en hvernig öðruvísi, það fór hann lítið út í. Honum líkaði alls ekki þetta frv., það kom ljóst fram í hans ræðu, og um áætlunarbúskap eða skipulagðan þjóðarbúskap átti hans skoðun að vera allt öðruvísi. Hann dró svo enga dul á það, að hann væri andvigur nokkru og þetta væri svo róttækt frv., að það væri ágætt á því stigi, sem skipulagið væri austur í hinum vonda heimi, austan járntjalds. Og þá var ekki að sökum að spyrja, að þetta hlaut að vera vont mál líka. Hann hafði nokkrar minningar úr pólitískri sögu líka til þess að rifja upp, eins og aðrir ræðumenn, og hann minntist á tvennt. Hann minntist á þá daga, þegar nýbyggingarráð var starfandi, og það voru vondir dagar, það var vont ráð, það var slæmt ráð. En það var þó undir húsbóndahendi góðs sjálfstæðismanns. Mig minnir, að Jóhann Þ. Jósefsson væri formaður ráðsins og einhvers ráðandi í því og með honum einhverjir sjálfstæðismenn, og ríkisstj. var undir handleiðslu þáv. formanns Sjálfstfl., Ólafs Thors. Og hvernig má það nú vera, að slíkur flokkur tók þátt í að láta slíkt ráð starfa undir forustu eins af sínum framámönnum, hins merka þm., síðar fjmrh., Jóhanns Þ. Jósefssonar? Ég hygg, að það verði að játast, ef saga þessa ráðs væri óhlutdrægt rifjuð upp, að þetta ráð hafi ýmislegt af góðum málum undirbúið, sem annars hefðu verið undirbúin af minni fyrirhyggju en ella.

Þá minntist hv. þm. einnig á fjárhagsráð, hið sálaða fjárhagsráð, og um það fór hann enn hraklegri orðum, því að þar hafði verið tilraun til að skipuleggja svolítið vissa þætti þjóðarbúsins. Um það sagði hann orðrétt: „Aldrei hefur nokkur stofnun nokkru sinni getið sér eins illt orð.“ Það var ljóta stofnunin, þetta fjárhagsráð, og hlýtur að hafa verið undir algerri stjórn kommúnista. Það er óhugsandi annað. Svona stofnun í þjóðfélaginu getur varla fengið svona illt eftirmæli jafnmerks þm. og hv. 1. þm. Vestf., nema þetta hafi verið hraklegt kommúnistabæli. En hver var formaðurinn? Það var sjálfur Magnús Jónsson, fyrrum dósent, prófessor í guðfræði, einn af aðaiforustumönnum Sjálfstfl. um margra, margra ára skeið. Og samt fær fjárhagsráð, sem laut forustu Magnúsar Jónssonar, þetta eftirmæli af einum af hv. þm. Sjálfstfl.: „Aldrei hefur nokkur stofnun nokkru sinni getið sér eins illt orð.“

En halda menn, að þetta séu hlutlaus eftirmæli? Það er fjarri, að ég láti mér detta það í hug. Ég álít þarna eftirmælin um fjárhagsráð fram sett í miklu fjarstæðuformi. Og ég efast stórlega um það, að forusta Sjálfstfl. vilji taka því með góðu, að menn úr röðum flokksins, eins og Jóhann heitinn Jósefsson og Magnús heitinn Jónsson, guðfræðiprófessor, fyrrum ráðh., fái slík ummæli í þingsögunni ómótmælt eins og þessi, sem ég hef nú orðrétt haft eftir hv, þm. í sambandi við stofnanirnar nýbyggingarráð og fjárhagsráð. Það tel ég alveg fullvíst, að bæði þessi ráð, þótt þau væru veikur vísir til skipulegs þjóðarbúskapar og fyrstu fálmandi tilraunir, þá hafi þau, þegar blöðum sögunnar er flett og eitthvað af þeim réttilega lesið, undirbúið mörg gagnmerk þjóðmál, framfaramál, sem ella hefðu fengið lakari undirbúning, ef ekki hefði verið fjallað um þau á undirbúningsstigi í þessum ráðum og nefndum.

Ég held, að einmitt reynslan af nýbyggingarráði og fjárhagsráði hljóti að vera það, sem hefur leitt núv. stjórnarflokka til þeirrar hugsunar, að það væri vit í því að búa út vandlega uppbyggða framfaraáætlun og taka með nokkrum hætti upp skipulagðan þjóðarbúskap. Það eru ekki bara kommúnistaríki í veröldinni, sem nú viðurkenna, að það sé nauðsyn, óumflýjanleg nauðsyn, sjálfsögð nauðsyn í núverandi þjóðfélagi að láta ekki skeika að sköpuðu um fjármál og framkvæmdastjórn í þjóðfélögunum, heldur undirbyggja þetta, ekki aðeins til eins árs, heldur til 5 ára eða 10 ára, með vandlega undirbyggðum áætlunum. Það eru mörg borgaraleg þjóðfélög, sem fyrir löngu eru búin að viðurkenna þetta, og þó að það væri svo fyrir 15–20 árum, að áætlunarbúskapur væri kenndur við sósialisma og kommúnisma, þá dettur enginn heilvita stjórnmálamanni það í hug lengur, það er fjarstæða. Áætlunarbúskapur getur alveg eins átt sér stað í borgaralegu þjóðfélagi og er af mörgum viðurkenndur sem nauðsyn. Það er því fásinna hin mesta að snúast gegn þessu frv. eingöngu út af því, að það sé á sósíalistískum eða kommúnistískum nótum, þegar lagt er til, að 5 manna nefnd, áætlunarráð, starfi að þessu tvennu, að semja áætlun um þjóðarbúskapinn til eins árs og einnig framfara- og fjárfestingaráætlanir til 5 eða 10 ára um það, sem þjóðfélagið telur sig hafa efni á að framkvæma og gera. Það eru bara sjálfsagðir búskaparhættir, ef allt á ekki að vera með losarabrag og ringulreið í þjóðfélaginu.

Það var hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, sem hélt hér langa ræðu á fyrsta stigi þessara umr., og síðar, þegar umr. var haldið áfram eftir jól, þá talaði hann einnig um þetta mál og þó að minnstu leyti um málið sjálft, heldur sem þátttakandi í almennri upprifjun um stjórnmál, stjórnmálaþróun og verkalýðsmálaþróun á 20–30 ára tímabili. Hann rakti þróunarsögu verkalýðshreyfingarinnar á þann hátt, hæstv. ráðh., að hér hefði þróun verkalýðshreyfingarinnar verið hægfara, lítil, hér væri veik verkalýðshreyfing, sem nyti lítillar virðingar, og allur var hans dómur á þennan veg. Hann var álíka lítið sanngjarn og af álíka lítilli þekkingu byggður hjá hv. prófessor og ráðh. eins og hjá hv. 1. þm. Vestf., þegar hann var að fordæma sem allra hvassast nýbyggingarráð og fjárhagsráð undir forustu hinna mætu flokksbræðra sinna.

Ég kveinka mér ekkert undan dómi neinna af prófessorum háskólans, fordæmingum þeirra um verkalýðshreyfinguna, þó að þeir allir kæmu fram í röð og fordæmdu hana, því að á henni hafa þeir harla litla þekkingu, hafa aldrei í henni starfað og vita á henni litil deili. Dómar þeirra eru því engin vísindi, engin vísindaleg niðurstaða, þótt vísindamenn séu. En vissulega hafa þeir atburðir gerzt í stjórnmálum undanfarandi áratuga, sem sannanlega hafa veikt verkalýðshreyfinguna. Því verður ekki neitað. Hann staðnæmdist við tvennt. Hann staðnæmdist við það, þegar ýmsir af foringjum Alþfl., eins og Héðinn Valdimarsson, Sigfús heitinn Sigurhjartarson o.fl., viku frá Alþfl. og gengu til myndunar Sameiningarflokks alþýðu, Sósfl., og kallaði þessa menn skammsýna og misvitra. Og hann vék aftur að þeim atburði, þegar nokkrir af forustumönnum Alþfl. viku frá honum síðar, og þeir fengu auðvitað sömu eftirmælin: skammsýnir, misvitrir. En hinir, sem þá sneru sér til annarrar áttar, sneru sér í fóstbræðralag við íhaldið, gengu þar undir jarðarmen og létu sér blæða saman undir torfunni, þeir voru auðvitað ekki skammsýnir og þeir voru auðvitað ekki misvitrir. Það var engin skammsýni, sem þeir höfðu framið, þegar þeir breyttu stefnu Alþfl. sem baráttutæki verkalýðsins gegn einkahagsmunum auðvaldsins á Íslandi og til þess að verða griðkona í þjónustu þessa flokks efnamannanna í landinu. Það heitir framsýni, það heitir hagsýni. Það er kannske hagsýni þeirra manna, sem að þessu eiga hlut. Ég gæti bezt trúað því, að sú stefna hefði verið tekin út frá hagsýnissjónarmiðum. Ég tel það eitt það hörmulegasta, sem gerzt hafi í íslenzkum stjórnmálum, að Alþfl. Íslands, sem stofnaður var til þess að berjast móti Íhaldsflokknum og síðar Sjálfstfl. og auðsöfnunaröflunum í þjóðfélaginu, íhaldspólitíkinni, hvað sem hún kallar sig á hverjum tíma, — þegar hann gerðist stuðningsaðili við hina örgustu íhaldsstefnu í íslenzkum stjórnmálum, sem nokkurn tíma hefur verið rekin, í raun og veru afturhaldsstefnu. Það var vissulega ekkert nema eðlilegt og mátti við því búast, það var ekki fjarri stefnumiðum Sjálfstfl., þegar hann tók að sér það hlutverk að vera bakhjarl við Alþfl. 1959, að krefjast þess, að kaupið yrði lækkað þegar í stað um 5%. Það mátti vel búast við því af íhaldsflokki, jafnvel þótt hann hefði stutt að því nokkrum mánuðum áður, að kaupið væri hækkað upp í þetta. Sem pólitískri brellu gat hann tekið þátt í því, en það mátti við því búast af honum, að hann krefðist lækkunar, og það gerði hann. En það var ekki alveg jafneðlilegt að vænta þess, að stjórn, sem Alþfl. átti alla ráðh. í, beygði sig undir þetta. Það var ekki Alþfl.- stefna. Það máttu allir búast við því, að Sjálfstfl. sætti hverju færi, sem byðist, til þess að framkvæma gengislækkun, fyrst og fremst í þeim tilgangi að mola niður kaupmátt launastéttanna og til þess að færa ágóðann af þessari stjórnarráðstöfun í hendur atvinnurekendum og kaupsýslumönnum, sem eru burðarásinn og bakhjarlinn í Sjálfstfl. Þetta var auðvitað alveg sjálfsögð íhaldsstefna. En furðulegt er, að það skyldi vera Alþfl. Íslands, sem styddi að þessari stefnu, ekki einu sinni, heldur tvisvar, og mundi vafalaust gera það í þriðja skipti að afloknum kosningum í vor, ef hann ætti þess kost að vera þá í sama hlutverki og þessir flokkar gætu framkvæmt þriðju gengislækkunina. Það vita allir nú, að gengislækkanirnar eru fyrst og fremst framkvæmdar til þess að mola niður kaupmátt launanna á þennan hátt með hækkuðu verðlagi nauðsynjanna og til þess að færa þegjandi og hljóðalaust með þessum hætti yfir til kaupsýslumanna og stórútgerðarmanna þær fúlgur, sem af launþegunum eru sniðnar með gengislækkuninni. Algerlega er eðlilegt, að íhaldsflokkur geri þetta, en einsdæmi í veröldinni, hygg ég, að verkalýðsflokkur ljái sig til slíkrar þjónustu hvað eftir annað.

Ég var nýlega að tala við aldraðan stjórnmálamann, sem nú er hættur og setztur í helgan stein, og hann sagði við mig: „Nú held ég, að þinn gamli flokkur hafi sett heimsmet.“ Þú átt við með þátttöku Alþfl. í stjórn með Sjálfstfl.? „Nei, ég á ekki við það,“ sagði hann. „Það hefur þó gerzt í veraldarsögunni, a.m.k. á stríðstímum, að Sósfl., t.d. Verkamannaflokkurinn brezki, hafi tekið þátt í stjórn með íhaldsflokki, en þó aðeins á stríðstímum minnist ég þess.“ Hann mundi ekki eftir neinu dæmi þess, að verkalýðsflokkur hefði gert það á friðartímum, en það hefur nú Alþfl. blessaður gert. „Nei, en ég á við það, að verkalýðsflokkur skuli ljá sig til að styðja svona afturhaldsstefnu eins og hér er framkvæmd nú með lækkun kaupgjalds og riftun allra samninga um kaup og kjör, með löggjöf um gengislækkun eftir gengislækkun, með því að færa skattabyrðina af hátekjumönnum og stóreignamönnum yfir á neyzluna og koma þannig þyngstu höggi á fátækasta fólkið, stærstu fjölskyldurnar.“ Já, þetta er áreiðanlega heimsmet. Ég hafði engar aths. við það að gera. Ég varð að fallast á, að minn gamli flokkur hefði víst áreiðanlega með þessum stuðningi sínum við þessa pólitík afrekað því að ná heimsmeti.

Sannleikurinn er sá, að ef með nokkrum hætti er hægt að rökstyðja það, að íslenzk verkalýðshreyfing sé veikari í dag en hún ætti að vera með eðlilegum hætti, þá er það vegna þessa atburðar, að Alþfl. vék frá sínu upphaflega hlutverki að berjast verkalýðsbaráttu og styðja verkalýðspólitík, lét af því, hætti því og tók að styðja íhaldspólitík og vera þátttakandi í ríkisstj. með íhaldsflokknum, sem kallar sig Sjálfstfl. Vitanlega hefur þetta ekki getað gerzt án þess, að verkalýðshreyfingin á Íslandi veiktist nokkuð. En af þessu hefur svo auðvitað leitt það, að flokkurinn hefur smátt og smátt þvegið af sér verkalýðsfylgið og styðst nú ekki lengur við það, styðst nú við launabitlingahjörð aðallega í röðum millistéttarmanna. Öðruvísi gat heldur þróunin ekki orðið.

Þetta er mín niðurstaða um þá hörmulegu atburði, sem hafa gerzt í íslenzkri verkalýðspólitík, og mín niðurstaða er allt önnur en hv. prófessors, hæstv. viðskmrh. Ég áiít, að það sé ekki nein hörmung fyrir íslenzkan verkalýð að vita það, að ég taldi mér ekki fært að snúast á sveif með íhaldinu, þegar ég þó átti þess kost, og ég hygg, að þeir séu fáir í íslenzkri verkalýðsstétt, sem harma það, að ég fór aðra leið. Prófessor og ráðh. í íhaldssamvinnu má gjarnan harma það, en það staðfestir bara það, að ég tel mig hafa farið réttari leið með því að halla mér ekki að íhaldinu, sem vitanlega á í sérhverju stórmáli andstæðra hagsmuna að gæta við verkalýð landsins og hefur aldrei dregið neina fjöður yfir það, að Sjálfstfl. er fyrst og fremst flokkur stórkaupsýslumanna, stórútgerðarmanna, stórefnamanna og hátekjumanna þjóðfélagsins, en ekki hinna mörgu smáu.

Hæstv. viðskmrh. var að fagna því, að það væri ekki atvinnuleysi í landinu. Ja, hvernig mundi ástandið á Íslandi hafa verið við þá samdráttarpólitík, sem rekin hefur verið, þegar skipastóllinn er ekki endurnýjaður, þannig að hann gengur úr sér, þegar ekki er byggð nema önnur hver íbúð í Reykjavík og kaupstöðum landsins af þeim, sem þarf að byggja, til þess að fullnægt sé húsnæði fyrir viðbót þjóðarinnar og það, sem þarf að endurnýja af gömlum húsum, það er annað hvert hús byggt o.s.frv., það má tákna samdráttinn með þessu tvennu, — ef ekki hefði gerzt sú bylting í atvinnulífi þjóðarinnar, að síldarútvegurinn, sem var tveggja mánaða atvinnuvegur, varð atvinnuvegur yfir allt árið? Ný tækni, vísindalegar niðurstöður gerðu það að verkum, að við gátum veitt síld allt árið um kring. Tekjurnar af síldarútvegi margfölduðust, og auk þess kom síldargóðæri, síld tók að veiðast eftir langa hríð. Ef hér hefði engin síldveiði verið nema tvo mánuði af árinu s.l. tvö ár, engin Faxasíld, hvorki í fyrra né núna, hvernig hefði atvinnulífið í Reykjavík þá verið, að öllu öðru óbreyttu í stjórnarstefnunni? Halda menn, sað það hefði verið blómlegt atvinnulíf? Halda menn, að meðaltekjur verkamannsins og sjómannsins hefðu þá verið miklar? Ég held ekki, sízt af öllu miðað við það verðlag, sem þrátt fyrir það hefði þjakað landslýðinn. Nei, það má alveg sjá því föstu, að ef það einstaka góðæri hefði ekki borið að höndum og ekki verið sú vísindalega tækni, sem skilað hefur okkur síldveiðunum í það form að vera ársatvinnuvegur nú, þá hefði verið hér eymdarástand hjá vinnustéttum landsins.

Aðra skrautfjöður fann hæstv. ráðh., og hún var það, að Alþfl. hefði í sinni stjórnaraðstöðu þrívegis breytt félagsmálalöggjöfinni, tryggingalöggjöfinni. Það er rétt. En hvernig hefði tryggingalöggjöfin litið út, og hvaða tryggingu hefði hún veitt gamalmennunum og þeim, sem verða sjúkir eða verða fyrir slysum, ef Alþfl. hefði látið líka þetta undir höfuð leggjast? Þá hefði tryggingalöggjöfin eftir tvennar gengislækkanir verið orðin lítils virði. Mér finnst nú, að það sé verkalýðsflokki varla þakkandi, þó að hann hafi ekki einnig gengið af þessu hugsjónamáli sínu dauðu.

Þær hækkanir á greiðslum til hinna tryggðu, sem nú eru ákveðnar samkv. tryggingalöggjöfinni, eru góðra gjalda verðar. En eru þær meira virði eða vega þær þyngra til framfæris fólki, sem þeirra nýtur, nú en t.d. 1958? Það má vera, að rannsókn leiddi í ljós, að svo væri. En þar held ég, að öllu sé samt til skila haldið. Ég held, að öllu sé til skila haldið um það, að endurbæturnar, sem Alþingi hefur gert á tryggingalöggjöfinni á undanförnum árum, hafi haldið fyllilega í við dýrtíðaraukninguna, sem þetta fólk eins og allir aðrir býr við. Ef það skyldi reynast svo, að bæturnar, sem nú eru greiddar samkv. almannatryggingalögum, hafi meiri kaupmátt en þær áður höfðu, þá viðurkenni ég það sem rétt, að Alþfl. hafi þarna starfað á sínum gamla grundvelli og skilað þessu máli óskemmdu úr heiðnabergi íhaldsins.

Hæstv. viðskmrh. taldi sig sanna tvennt, að kaupmáttur tímakaupsins væri hærri nú, 10% hærri en 1958, og að meðaltekjur verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna væru hvorki meira né minna en 98 þús. kr. á ári. Og þetta átti að vera byggt á rannsókn, sjálfsagt vísindalegri rannsókn. Hæstv. ráðh. taldi það alrangt að miða við kaupmátt tímakaupsins og taldi, að það ætti ekki að miða við lægsta taxta Dagsbrúnar, heldur ætti að miða við meðalárstekjur verkamannsins. Það má vel vera, að það sé ekki hárnákvæmt að miða við lægsta kauptaxta Dagsbrúnar 1958 og nú, af því að örlitlar tilfærslur hefðu átt sér stað úr lægstu töxtunum og upp í aðra launaflokka. En þetta gerbreytir engan veginn grundvellinum. Ég viðurkenni, að þar hefur tilfærsla átt sér stað, og þetta er ekki hárnákvæmt. En 1958 var lægsti taxti Dagsbrúnar almenna verkamannakaupið í landinu. Enn þá er lægsti taxti Dagsbrúnar almenna verkamannakaupið í landinu, gildir um miklu meira en Dagsbrúnarmenn, gildir um alla verkamenn í kringum allt landið. Sums staðar fellur 1% inn í kaupið, gerir það örlítið hærra, en þá fá þeir verkamenn heldur ekki neitt fyrir sina tryggingasjóði í staðinn. En að öðru leyti er lægsti taxti Dagsbrúnar og var það kaupið, sem ófaglærði verkamaðurinn átti við að búa 1958 og á við að búa nú. Þess vegna held ég, að ekki finnist annar mælikvarði, sem þræðir nákvæmar það rétta, heldur en einmitt þessi mælikvarði, og þá er þó því réttlætisatriði fullnægt, að það er miðað við verkeiningu, eina klst. í báðum tilfellunum. En með því að miða við árstekjur manna 1958 og árstekjurnar nú, þá er verið að miða við gerólíkan vinnutíma, þá er verið að miða við meðaltal af tímabili, þar sem voru atvinnuleysiseyður í hjá verkamönnum. Ég efast um, að meðaltalið hafi náð meira en 8–9 tímum þá. En svo mikið er víst, að meðaltalið, sem nú er um að ræða, er ekki undir 11 tímum. Og ef maður ætti að taka mark á meðaltalstölu hæstv. viðskmrh., 98 þús. kr. árstekjum, hvað táknar það þá, ef reiknað er út á vinnulaunataxta verkamanna? Það táknar hvorki meira né minna en 12 stunda vinnu á dag hvern einasta virkan dag ársins, — með öðru móti kemst maður ekki að 98 þús. kr. tekjum hjá verkamanni, — og það rúmlega, því að 12 stunda vinna, 8 stunda vinna á dagkaupi, 2 stundir með eftirvinnuálagi og tvær næturvinnustundir, þ.e.a.s. 12 tímar, gera ekki nema 94800 kr., áður en 5% álagið kom núna á, svo að hún er á 13 klst., þessi meðaltalstala, 98 þús. kr., sem hæstv. viðskmrh. endar sinn rökstuðning með. Og þar af sér maður, að þar er farið rangt með tölur, þó að þessu sé gefið rannsóknarnafn. Þá vita allir það, að kaupgjaldið hefur á klst. hækkað um 4% frá 1958, áður en 5% komu nú til, en verðlagsvísitala vöru og þjónustu hefur hækkað yfir 40%. Hver getur leitt líkur að því, að kaupmáttur tímakaupsins hafi aukizt, þegar hægt er að nefna svona tölur, sem eru gefnar út af hinu opinbera? Það er og öndvert allri reynslu allra þeirra, sem þurfa að kaupa inn lífsnauðsynjar til heimilishalds, að launatekjur manna séu nú drýgri, hafi meiri kaupmátt en þær höfðu fyrir 2–3 árum. Það gladdi mig líka að heyra, að þegar hæstv. viðskmrh. talaði í annað sinn, þá lauk hann ræðu sinni á því að segja: Það er því miður ekki hægt að færa fram óyggjandi tölurök í þessu máli. — Það hefði hann bara átt að viðurkenna í upphafi máls sins. En samt fengum við í hendur tímaritið Nordisk kontakt, og þar voru tölurök hæstv. viðskmrh. orðin óyggjandi tölurök og færð fram á vettvangi norrænna stjórnmála í þessu tímariti, þó að hæstv. ráðh., eftir að við höfðum fengið heftið aftur í hendur, viðurkenndi hér frammi fyrir þingheimi, að því miður væri ekki hægt að færa fram óyggjandi tölurök í þessu máli. Þar var slegið fram sem staðreynd, að kaupmáttur launanna hjá verkamönnum Íslandi hefði aukizt um 10% síðan 1958 og meðaltekjur verkamanna, iðnaðarmanna og sjómanna væru nú 98 þús. kr. á ári.

Ég veit a.m.k. það, að ef verið er með þessum tölum að gefa í skyn, að verkamaðurinn á Íslandi hafi 98 þús. kr. árstekjur, þá er verið að segja ósatt í tölum. Það er þá verið að gera það í skjóli þess, að sjómenn hafi hærra kaup og iðnaðarmenn, verulega hærra. Verkamennirnir eru, eins og atlir vita, ef þeir vinna alla virka daga, allt árið um kring, þá eru þeir með 60 þús. kr. tekjur. Það vantar á 9. þús. kr. til að hafa tekjur móti þeim útgjöldum, sem meðalfjölskyldum eru ætlaðar samkv. vísitöluútreikningi hagstofunnar. En til þess að ná því þarf hann að vinna eftirvinnutímana báða og einn næturvinnutíma allt árið um kring. Mér finnst, að það ættu allir að viðurkenna, að kaupið þarf að verða hjá verkamanninum a.m.k. það, að hann hafi tekjur, ef hann vinnur alla daga ársins, alla virka daga ársins 8 stundir, fyrir viðurkenndum vísitöluútgjöldum þjóðfélagsins. En með kaupinu eins og það er nú, er fjarri því, að svo sé.

Ég held því, að það sé óhætt að fullyrða, að það er röng niðurstaða hjá hæstv. viðskmrh., þegar hann fullyrðir, að kjör launþega hafi farið batnandi á stjórnartíma núv. hæstv. ríkisstj. Og ég held, að það sé einnig röng niðurstaða hjá honum að fullyrða, að svo sé, þegar hann segir, að hluti launþeganna í þjóðartekjunum hafi haldizt óbreyttur. Hann hefur vissulega rýrnað, um það er ekkert að villast. Alþýðan hefur ekki bætt kjör sín. Alþýðan hefur orðið fyrir launaskerðingu, rýrnandi kjörum við þá stjórnarstefnu, sem framkvæmd hefur verið á seinustu árum. Og til þess liggur bein orsök, og hún er þjónusta Alþfl. við þá afturhaldsstefnu, sem rekin hefur verið á þessu umrædda tímabili. Ef Alþfl. hefði ekki léð sig til þeirrar þjónustu, hefði áreiðanlega verið unnt að halda lífskjörunum óskertum og þjóðartekjurnar, eins og þær hafa vaxið vegna góðærisins, hefðu leyft það. Það er þessi leiðrétting, sem þarf að framkvæmast. En það er þessi leiðrétting, sem hæstv. viðskmrh, segir að ekki þurfi að framkvæma, því að hann segir, að verkamennirnir hafi fengið sinn hlut, þeir hafi fengið bættan kaupmátt, þeir hafi fengið gífurlega háar árstekjur, þeir hafi haldið sínum hlut í hinum auknu þjóðartekjum. Hann ætlast því ekki til, ef hann mætti ráða, að neinar lagfæringar fengjust á þessu fyrir launastéttirnar, það er opinbert.

Eitt af því, sem bæði hæstv. viðskmrh. og síðar í umr. hv. 12. þm. Reykv. viku að, var það, sem nefnt hefur verið nú seinustu vikurnar á íslenzku launaskrið. Og þeir voru með sínar sérstöku skýringar á því. Þetta fyrirbæri var alþekkt í Danmörku fyrir nokkrum árum og var kallað lönsglidning, og þetta fyrirbæri var aðallega kunnugt í Danmörku, þegar verkalýðshreyfingin þar hafði hvað eftir annað gert kaupgjaldssamninga til tveggja ára við verkalýðshreyfinguna dönsku. Þá kom það í ljós, að ein afleiðing af hinum margrómuðu tveggja ára samningum, sem hér hefur oft verið klifað á að þyrfti að gera, varð sú, að ýmsar aðstæður breyttust á tveggja ára samningstímabilinu og verkamenn, jafnvel á stórum vinnustöðvum eins og t.d. hjá Burmeister & Wain og Carlsbergsverksmiðjunum og fleiri verksmiðjum, vildu ekki una þeirri skerðingu launa, sem hafði orðið á samningstímabilinu, og framkvæmdu skyndistöðvanir, að vísu ólögleg verkföll, og knúðu þannig fram kauphækkanir, jafnvel oftar en einu sinni hjá sama fyrirtæki á umsamda tveggja ára tímabilinu. Þegar tímabilinu lauk, var því kaupið orðið hærra en það var skráð í byrjun tímabilsins. Þetta hafði ekki gerzt við lögformlega samninga af hendi verkalýðshreyfingarinnar, heldur við svona upphlaup byggð á samtökum á hinum einstöku vinnustöðvum, og hafði breytt kaupinu þrátt fyrir að nýir kauphækkunarsamningar hefðu ekki verið gerðir. Þetta kölluðu þeir í Danmörku launaskrið.

Þetta hefur ekki gerzt hér. Það hafa ekki verið gerðir samningar til langs tíma af þeirri góðu og gildu ástæðu, að svo ótryggt hefur verið um verðlagsástandið, að enginn ábyrgur forustumaður í verkalýðsfélagi hefur talið sig þess umkominn að geta gert samning til langs tíma við svo breytilegt og síhækkandi verðlag. Móti því hefðu orðið að koma fullar tryggingar frá hendi stjórnarvalda um það, að á því tímabili, sem samið væri fyrir, yrðu ekki verðhækkanir. Hér hefur verið samið til skamms tíma. Hér hefur ekki almennt verið knúið fram hækkað kaup af verkamönnum á samningstímabilinu, þannig að það hafi verið orðið öðruvísi í lok samningstímabilsins en það var skráð, þegar samningur var gerður. Ég tel því, að hér hafi launaskrið ekki átt sér stað.

Það er allt annars eðlis, sem hér hefur gerzt. Hér hefur það gerzt mjög almennt, að atvinnurekendurnir hafa jafnvel í heilum stéttum borgað hærra kaup en umsamið hefur verið til að tryggja sér vinnuafl, og þetta er orðið nú býsna algengt. Þegar íhaldsblöðin eru að ásaka verkalýðshreyfinguna fyrir að hafa samið um of hátt kaup, þvingað kaupið of hátt upp, þá vitum við þó, að staðreyndin er sú, að kaupið er í mörgum tilfellum 10–15-20% lægra umsamið heldur en það er í raunveruleikanum og jafnvel hjá heilum stéttum. Það er búið að vera nú í fleiri en eitt ár og fleiri en tvö þannig hjá prentarastéttinni, að kaupið, sem greitt er prenturum, er í mörgum tilfellum 20–25% hærra en umsamið kaup. Þannig er það líka í mörgum iðngreinunum, og þegar nýir samningar eru gerðir, þá er samið gjarnan um það, að greiðsla skuli vera hin sama. Þróunin, eftirspurnin eftir vinnuafli hefur verið slík, að samningarnir hafa verið um lægra kaup en greitt hefur verið af atvinnurekendunum, nema hjá hinum ófaglærðu verkamönnum og verkakonum, þar hefur kaupið verið sannarlega eins og það hefur verið umsamið.

Svo hefur hæstv. ríkisstj. gert það að stefnuatriði sínu að falsa allt kaupgjald eins og hún hefur getað. Það hefur sannarlega átt að heita svo, að það væri óbreytt kaupgjald hjá verkfræðingum. En hvernig fór það úr hendi? Raunverulegt kaup hjá verkfræðingum er það tímakaup, sem þeir settu upp sjálfir, og þannig eru verkin keypt af þeim og í akkorði, sem byggist á þeim töxtum, sem þeir settu upp. En það á að heita, að það hafi ekki breytzt kaup verkfræðinganna. Það á að heita svo, að kaup kennara sé óbreytt. Það er það ekki. Hæstv. viðskmrh. er búinn að gangast inn á það, að það skuli borga kennurum sérstaklega fyrir að leiðrétta stíla, sérstaklega fyrir að leysa úr heimadæmum, sérstaklega fyrir að gera þetta og hitt í starfi kennarans, og þannig er raunverulega búið að breyta launum kennarans, þó að það sé ekki viðurkennt. Þetta er ekki launaskrið, þetta er fölsun á kaupgjaldi í landinu. Stjórnarvöldin hafa forustuna fyrir þessu, en blygðast sín svo ekki fyrir að halda miskunnarlaust niðri kaupgjaldi ófaglærðra verkamanna og verkakvenna. Þar er garðurinn lægstur, og á hann skal ráðizt. Þar er nú manndómur þessarar hæstv. ríkisstj., en annars hefur hún orðið að leysa niður um sig eftir kröfum hverrar stéttar á fætur annarri. (Forseti: Ég vil spyrja hv. þm., hvort hann gæti lokið máli sínu á nokkrum mínútum eða óski eftir að fresta framhaldi ræðunnar). Ég mundi nú, held ég, óska eftir því að fresta ræðunni. Það er að vísu ekki mjög mikið, sem ég á eftir, en ég á eftir að víkja að því, sem hér hefur verið dregið inn í umr. um vinnuþrælkunina og um afstöðu verkalýðshreyfingarinnar til vinnurannsókna og ákvæðisvinnu. Ég tel bæði atriðin, sem hafa verið gerð hér að umræðuefni í umr., vera þess eðlis, að það sé ekki óeðlilegt, að ég viki að þeim nokkrum orðum, og mundi því fallast á það að fresta nú ræðunni.