05.02.1963
Neðri deild: 35. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í C-deild Alþingistíðinda. (2391)

117. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki mjög miklu að svara. Það er óviðkunnanlegt, að hæstv. viðskmrh. hleypur út, þegar hann er búinn að halda ræðu sína, svo að það er leiðinlegra að svara honum. Hann talaði aðallega um mjólkurduft og hrakti ekki eina einustu tölu, sem ég hafði fram að færa.

Hæstv. landbrh. virtist vera að rengja tölur, sem ég kom með, en það byggðist á misskilningi hans eða misheyrn, — ég veit ekki, hvort heldur var, — því að ég nefndi aldrei árin 1961 og 1962 viðvíkjandi þessum hagskýrslum, heldur árið 1960. Það er síðasta hagskýrslan, sem hefur komið út, og ég skal standa við hverja einustu tölu, sem ég nefndi. Ég er hér með hagskýrsluna og get sýnt hæstv. ráðh. hana, ef hann vill. Landbúnaðartekjurnar eru, eins og ég sagði, 55840 kr., ef hæstv. ráðh. vildi gera svo vel að skrifa það upp. Og heildartekjur bóndans eru 66104 kr., ef ráðh. vildi skrifa það upp. Og þá er eftir að draga frá vexti af eigin fé, sem hann taldi raunar að hefðu komið til greina síðar en þeir komu. Ég tók einnig fram, hvað mikið það væri, upp á krónu, og skal ég gefa honum það upp. Það eru 6896 kr. vextir af eigin fé, sem þarf að draga frá þessum 66104 kr., og kemur þá út 59208 kr., ef hæstv. ráðh. vildi skrifa það hjá sér. Og þetta getur hann allt borið undir Arnór Sigurjónsson í hagstofunni, hvort þetta er ekki allt satt hjá mér. Ég hef ekki farið með eina einustu tölu nema sem ég get staðið við, ekki eina. En það er ekki hægt fyrir mig að byggja endanlega á landbúnaðarskýrslu nema fyrir árið 1960, vegna þess að það er ekki búið að vinna úr árunum 1961–1962. Og ég hef ekki sagt neitt um, hvernig verðlagsgrundvöllurinn hefði staðizt s.l. haust. Það á eftir að koma í ljós, hvort afurðamagnið verður eins mikið og áætlað var og hvernig landbúnaðarskýrslur koma þá út. Tekjur af meðalbúinu eru 59208 kr. nákvæmlega útreiknað af hagstofunni. Þetta getur hæstv. ráðh. allt saman farið með til þeirra og vitað hvað ég skrökva miklu. Það getur ekkert verið rangt í þessu, nema ef hæstv. viðskmrh. hefur sagt eitthvað rangt, því að það var hann, sem lýsti því hér yfir í ræðu fyrir jólin, að meðaltekjur sjómanna, verkamanna og iðnaðarmanna hefðu árið 1960 verið 78 þús. kr. Og ég tek enga ábyrgð á því, hvort hann hefur sagt satt eða ekki, en ég reiknaði með, að hann gerði það. Ég býst við, að hann hafi þessar tölur frá hagstofunni líka, og reikna með, að þar sé rétt með farið. Ef eitthvað er rangt í þessu máli, þá er það sú tala. Hitt er allt saman skjalfest hérna, og ég get meira að segja lofað hæstv. ráðh. að sjá þetta prentað hér, ef hann vill, undireins.

Bændur fá um 20 þús. kr. minna en aðrir launþegar þetta ár, sem þýðir um 30% lægri tekjur.

Viðvíkjandi umr. um búskap, sem hæstv. landbrh. hélt, þá er það hlutur, sem má halda langa ræðu um. Út af fyrir sig var það ekki ádeila á það, sem ég hef sagt, og ég þarf ekki að svara því.

Viðvíkjandi fóðurmjöli er það í rauninni athyglisvert, að það eru vissar vörutegundir, sem ekki er skynsamlegt eða hyggilegt að flytja út og greiða miklar niðurgreiðslur á. Út af fyrir sig skiptir það bændur ekki máli. Þeir geta gefið sitt fóðurmjöl og selt mjólkina dýrar. Þeir þurfa bara að fá ákveðið verð fyrir mjólkina. Það er alveg eins hægt að selja mjólkina hærra og bændur gæfu sjálfir sitt fóðurmjöl. Fóðurmjölið er einhver bezta fóðurtegund, sem til er, og það borgar sig fyrir bændur að kaupa hana miklu hærra en nokkra aðra fóðurvöru. Ég hygg, að það borgi sig að kaupa hana tvöfalt hærra en síldarmjölið, og nú er síldarmjölið orðið eitthvað 6 kr. Það er sannarlega athugandi, að það eru vissar vörutegundir, sem ekki er rétt að flytja út og borga svo og svo mikið niður. Það er þá betra að bæta mjólkina meir upp og bændur gæfu sem fóðurbæti fóðurmjölið, því að það er tvímælalaust langbezta fóður handa mjólkurkúm, sem til er.

Það er atriði, sem þarf að athuga og ræða, en það kemur ekki því við, sem ég sagði, hvort bændur hafi fengið minna en þeir áttu að fá fyrir afurðir sínar 1961 og 1962. Það er órannsakað mál. En bændur segja mér, að þetta sé versta ár, sem þeir hafi fengið, og þeir hafi aldrei átt örðugra en nú. Það var einmitt vegna umkvörtunar frá bændum, að ég fór að rannsaka þetta og studdist þá við hagskýrslur Arnórs Sigurjónssonar. Ég fór að fikra mig áfram og leita í öllum verðlagsgrundvellinum, í hverju þetta lægi. Og útkoman er þessi, eftir að ég er búinn að athuga verðlagsgrundvöll margra ára, að yfirleitt hefur vörumagnið, sem bóndinn átti að framleiða, verið áætlað of hátt, stundum miklu hærra, og enn fremur hefur verðið reynzt lægra en þeir áttu að fá, einkum hjá mjólkurbúum, sem hafa ekki mjólkursölu í stærri kaupstaði.

Ég held satt að segja, eins og ég benti á áðan, að á erfiðleikaárunum eftir 1950, þegar bændur urðu að skera niður fé sitt, má eiginlega undarlegt teljast, að þeir héldust í húsum. Það var veitt yfir þá flóðbylgju af sauðfjársjúkdómum. Það, sem verndaði bændur frá því að flosna upp, voru hagstæð lán. En nú, þegar atvinnan eykst við sjávarsíðuna, þá þrengir fyrst og fremst að þeim vegna verðhækkana, sem hafa orðið á öllum hlutum, og hárra vaxta. Ef eitthvað amar nú að bændum umfram það, sem hefur verið, þá er það fyrst og fremst þetta. Ég get vel gengið inn á, að þó að bændum fækki eitthvað, þá sé hægt að framleiða nóg kjöt og mjólk í landinu. En það er kannske ekki aðalatriðið. Sveitirnar hafa verið og munu verða beztu uppeldisskólar þessa lands. Og ef við athugum, hvaðan þeir koma, skipstjórarnir, sem mest afla nú, þá eru það ekki synir hagfræðinga eða prófessora hér úr Reykjavík, heldur eru það menn, sem komnir eru frá eyjum og útskerjum og hafa háð sína hörðu lífsbaráttu á smábátum við ýmsa örðugleika. Það eru þeir sem færa drýgstar tekjurnar í þjóðarbúið nú. Með því að flæma fólkið frá þessum stöðum, þá getur vel verið, að þjóðin hafi nóg af kjöti og mjólk, en ég efast um, að hún hafi of mikið af manndómi á eftir.