12.03.1963
Neðri deild: 52. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í C-deild Alþingistíðinda. (2422)

187. mál, strandferðaskip fyrir siglingaleiðina Vestmannaeyjar - Þorlákshöfn

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt tveimur öðrum þm. úr Suðurlandskjördæmi að flytja hér frv. til l. um smíði nýs strandferðaskips fyrir siglingaleiðina Vestmannaeyjar–Þorlákshöfn. Efni frv. er það, að ríkisstj. sé heimilað að byggja nýtt strandferðaskip, 500–1000 lesta stórt, til þess að flytja fólk og farartæki, en einnig eigi að vera í skipinu farmrými og hluti af því farmrými eigi að vera búinn kælitækjum, þannig að auðvelt sé að flytja mjólk á milli þessara staða, en fyrir þá flutninga er mikil þörf. Þá er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður reki þetta skip, en geti falið Skipaútgerð ríkisins eða öðrum aðilum að annast reksturinn, en reksturinn eigi að vera þannig, að skipið fari jafnaðarlega a.m.k. eina ferð hvora leið á þessari siglingaleið daglega. Ríkisstj. er síðan heimilað að taka lán til þess að standa straum af undirbúningi og byrjunarkostnaði við smíði skipsins.

Það má öllum ve ljóst, að á okkar tímum er það miklum annmörkum bundið að halda blómlegri byggð á eyjum, enda höfum við horft á það að undanförnu, að fjölmargar þær eyjar hér við land, þar sem smærri byggð hefur verið, hafa ekki tekið þeirri framþróun, sem aðrar byggðir landsins hafa náð, heldur hafa þær yfirleitt heldur gengið saman og ýmsar eyjar lagzt í eyði, ekki vegna þess, að þar væri síður búsældarlegt eða möguleiki til lífsafkomu heldur en á öðrum stöðum, en hinu er ekki að neita, að samgönguerfiðleikar eru miklir við eyjabyggðir, þannig að fólkið, sem þar býr, fer að verulegu leyti á mis við ýmislegt það í menningarlífi nútímans, sem aðrir geta veitt sér. Einasta ráðið til þess að halda í horfinu um þessa hluti og gera því fólki, sem eyjar byggir, lífið svipað og öðru fólki, er að halda uppi við slíkar eyjar sem allra greiðustum samgöngum.

Vestmannaeyjar eru eftir okkar mælikvarða allfjölmennt byggðarlag, þar sem atvinnulíf hefur blómgazt vel, og búskapur þar hefur verið ríkinu sem slíku mjög hagkvæmur. Þar hefur verið dregin mikil björg í þjóðarbúið, svo að illa mætti íslenzka þjóðfélagið við því, að þar yrði á samdráttur, hvað þá að hugsa til þess, að sú framleiðsla gæti lagzt niður. Til þess er heldur engin ástæða, því að það er hægt að búa svo í haginn, að byggð í Vestmannaeyjum sé álíka vel sett og þær byggðir, sem á fastalandinu eru. En til þess verður að leggja verulega rækt við það að halda uppi góðum og greiðum samgöngum við þennan stað. Á því hefur á umliðnum árum verið mikill misbrestur, og um skeið var svo komið, að samgöngur við Eyjar voru með öllu óviðunandi. Þetta kom ekki fram í óánægju Eyjabúa einna saman eða þeirra, sem samskipti þurftu við þá að hafa, heldur kom það beinlínis fram í því, að kyrkingur hljóp í framþróun mála þar á staðnum og fólki fækkaði þar um skeið. En eftir að samgöngur komust þar í betra horf, var bót á þessu ráðin. En það er greinilegt, að á tímum þeirrar framþróunar og þess hraða, sem við lifum á núna, þá er ekki lengi hægt að standa í sömu sporunum um þessa hluti, heldur verður stöðugt að fylgjast með ötlum þeim möguleikum, sem skapast til bættra samgangna, og nýta þá eins og bezt eru möguleikar til á hverjum tíma.

Fyrir rúmlega 3 árum kom til sögunnar nýtt skip, sem ríkissjóður lét byggja til að halda uppi samgöngum milli Vestmannaeyja og nálægra hafna. Það var strandferðaskipið Herjólfur, og hefur það nú um skeið sinnt þessu hlutverki með þeim árangri, að Vestmanneyingar segja gjarnan, að það sé næsta óskiljanlegt, hvernig var hægt að komast af án þess skips fyrir tilkomu þess. Og ef það skip hætti ferðum sínum einhvern góðan veðurdag og ekki yrði hlaupið þar í skarðið, er alveg vist, að það mundi hafa verulega þungar búsifjar í för með sér fyrir Vestmanneyinga. En eins og ég hef áður tekið fram, þá er ekki vert að miða Vestmannaeyjasamgöngur eingöngu við það, hvað eru þarfir Vestmanneyinga, því að það eru ekki síður þarfir íslenzka þjóðarbúsins, að byggð sé blómleg í Vestmannaeyjum, heldur en hitt, að Vestmanneyingar geti verið ánægðir og unað vel við sínar samgöngur.

Þegar strandferðaskipið Herjólfur var smíðað, var auðvitað undirbúningur þeirrar smíðar míðaður við það, að siglingaleið skipsins væri fyrst og fremst á milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja. Þetta er sjóleið, 112 mílna löng, liggur yfir einn erfiðasta kaflann af siglingaleiðinni hér við íslenzku ströndina. Á þessari leið er t.d. yfir Reykjanesröst að fara, en hún er oft mjög ill yfirferðar, og þar hefur margur farþeginn goldið veltuskatt á sinn máta og búið við slæma liðan. Ferð skipsins tekur yfirleitt um það bil 10 klst. Það er svo löng leið, að hún er í rauninni ófarandi, nema því aðeins að farþegar allir geti haft legurúm og notið næðis með þeim hætti á leiðinni. Á hinn bóginn hefur verið tekin upp sú regla, að yfir sumarmánuðina siglir Herjólfur einnig eina ferð í viku hverri á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar hvora leið. Sú leið er ekki nema rösklega 40 sjómílur — 41 sjómíla nánar til tekið — og verður auðveldlega farin á svo sem eins og 31/2 klst. Sú leið er ekki lengri en svo, að það reynist ekki nauðsynlegt, ekki a.m.k. á öllum árstímum, að farþegar á þeirri leið þurfi að njóta legurúms, heldur eru það fjölmargir farþegar, sem kjósa heldur að sitja uppi á þeirri leið, og þannig er hægt að flytja með sama skiprými miklu meiri fjölda farþega á þeirri leið heldur en á hinni löngu sjóleið milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja.

Nú hagar því svo til, að fyrirhugaðar eru og raunar á döfinni allmiklar hafnarbætur í Þorlákshöfn. Þegar þeim áfanga hefur verið náð, sem nú er unnið að í þeirri hafnargerð, verður að ætla, að hægt væri að taka upp fastar siglingar strandferðaskips á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar allt árið. Að vísu er vitað, að einhverjir dagar, einhverjir aftaka illviðrisdagar koma, sem mundu trufla þá siglingu. En venjan er sú, að slíkt skeður ekki nema fáa daga á ári hverju, og er því greinilega að opnast nýr möguleiki til þess að bæta samgöngur við Vestmannaeyjar með því að taka upp fastar áætlunarsiglingar með góðum farkosti, sem flutt gæti farþega og farartæki, svo sem eins og bíla og bifhjól, án þess að það þyrfti að vera mjög miklum vandkvæðum bundið að koma slíkum farartækjum fyrir í skipi á milli þessara staða, og mundu þá skapazt alveg ný viðhorf hjá bæði Vestmanneyingum og þeim öðrum, sem hygðu á Vestmannaeyjaferðir eða Vestmannaeyjaviðskipti, ef hægt væri að komast hvora liðina sem væri, til Vestmannaeyja eða frá Vestmannaeyjum, hvern dag vikunnar, sem menn óskuðu eftir. En það er greinilega þetta, sem verður að koma, ef framþróun á að geta orðið með eðlilegum hætti í Vestmannaeyjum, þannig að menn fyndu sig í föstu og öruggu sambandi við aðrar byggðir þessa lands.

Það hefur frá fornu fari tíðkazt, að Vestmanneyingar og þeir, sem byggja sveitir Suðurlands, hafa haft mikil samskipti hvorir við aðra. Fyrr á árum var það titt, að farið var á milli Vestmannaeyja og landeyja eða Eyjafjalla á bátum, en auðvitað voru það stopular ferðir, þar sem ekki var um annað en brimlendingu að ræða á suðurströnd landsins, á söndum suðurstrandarinnar. Nútímahættir hafa lagt þessar ferðir algerlega niður, og við það hefur rofnað býsna eðlilegt samband og æskilegt, sem vera ætti á milli Vestmanneyinga og íbúa sveitanna á Suðurlandsundirlendinu. Með tilkomu skips eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. er líklegt, að hægt væri að tengja þarna gömul viðskipta- og menningarbönd að nýju, þótt rofin hafi verið um skeið. Það er t.d. alkunna, að Vestmanneyingar fá núna langmest af sinni daglegu neyzlumjólk ofan úr sveitum Suðurlands, en allt slíkt gengur nú í gegnum höfuðborg landsins. Það væri til þæginda, ef hægt væri að taka upp beinni samskipti á þessu sviði en verið hafa. Og fjölmargt er það annað í viðskipta- og menningarlífi á þessum slóðum, sem svipuðu máli gegnir um, að ávinningur væri, að hér gætu myndazt beinni tengst en áður hafa verið. En þrátt fyrir það, þótt Vestmanneyingar og íbúar sveitanna á Suðurlandi gætu komizt í nánari tengsli hvorir við aðra en nú er, þá breytir það ekki því, að veruleg samgönguþörf er milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur, bæði vegna vöru- og fólksflutninga.

Það mundi breyta svo svip á þessum samgöngum, ef til kæmi skip eins og hér er gert ráð fyrir, að það má segja, að það væru alger umskipti.

Að vísu geta menn komizt nú á hálfri klukkustund á milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur flugleiðis. En þær ferðir eru, eins og allir vita, ærið stopular og aldrei hægt að dagsetja þær fyrir fram með neinu öryggi, því að það fer allt eftir tiltölulega litlum veðrabrigðum, hvort þá leið verður komizt eða ekki. Sjóleiðin er að því leyti og verður um einhverja framtíð a.m.k. miklu öruggari, þannig að þær ferðir mundu geta talizt nokkurn veginn dagvissar þrátt fyrir það, að þar getur aðeins borið af áætlun, en aðeins litið í samanburði við það, sem af ber um flugferðir. Öll leiðin á milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur, sem farin yrði þá almennt í farþegaflutningum, væri sú, að það yrði farið með bifreið frá Reykjavík til Þorlákshafnar. Sú leið er 55 km löng nú, eftir að Þrengslavegurinn nýi hefur verið tekinn í notkun. Hana er því auðvelt að fara á einni klst. Síðan tæki við sjóferð, sem tæki um það bil 31/2 stund, eða alls mundi það taka farþegann um það bil 41 klst. að komast á milli þessara staða, og þar af þyrfti hann ekki að vera á sjó nema 31/2 klst., en það er einmitt ósk margra farþega að losna við langar sjóferðir. Það hnígur því allt að því, að um leið og hafnarskilyrði myndast í Þorlákshöfn, beri að taka upp fastar daglegar ferðir á sjó milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar, en síðan yrði farþegaleiðin framlengd með bílferðum milli Þorlákshafnar og Reykjavíkur. Ég tel þess vegna hina brýnustu nauðsyn, að jafnsnemma og hafnarskilyrði leyfa í Þorlákshöfn, verði slíkar ferðir teknar upp. En til þess að svo geti orðið, þarf þegar að fara að huga að farkosti á þessa leið, og ég tel því í alla staði eðlilegt, að það yrði verkefni ríkisins að láta byggja skip til þessara siglinga.

Hér á Alþingi hafa að undanförnu heyrzt um það raddir, að tími sé til þess kominn að endurskipuleggja í megindráttum starfsemi Skipaútgerðar ríkisins. Ég tel eðlilegt, að svo verði gert, en ég tel, að sú endurskoðun eigi fyrst og fremst að miða að því, að landsmenn geti notið aukinnar og bættrar þjónustu af siglingum við strendur landsins. Inn í þá endurskoðun, sem fyrirhuguð kann að vera á starfsemi Skipaútgerðarinnar, tel ég nauðsynlegt að taka möguleikana á því að breyta aðalsiglingaleiðinni með farþega á milli Vestmannaeyja og lands á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv. Ég vænti þess svo, að hv. alþm. sjái þá nauðsyn, sem hér er á, og ég vænti þess einnig, að sú nefnd, sem fær þetta frv. væntanlega til meðferðar, muni athuga það í allri vinsemd og leggja sig fram um það að tryggja því greiða afgreiðslu.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til samgmn.