15.03.1963
Neðri deild: 54. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í C-deild Alþingistíðinda. (2429)

188. mál, veiting prestakalla

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Vegna ummæla hv. 7. þm. Reykv., þegar þetta frv. var fyrst á dagskrá, þykir mér rétt að skýra frá því, að frv. þetta hefur verið samþ. á kirkjuþingi og er till. þess. Á sínum tíma var kvartað um það á kirkjuþingi, að þau frv., sem þar væru samþykkt, hefðu ekki öll verið lögð fram á Alþingi, og hét ég því þá, að meðan ég væri kirkjumálaráðh., skyldi ég hlutast til um, að slíkar till, kirkjuþings, sem fjölluðu um lagafrv., kæmu fram á Alþingi með einum eða öðrum hætti, þannig að Alþingi gæfist kostur á því að taka afstöðu til slíkra till. kirkjuþings. Ég gat þess, að að sjálfsögðu gæti ég ekki beitt mér fyrir, að þau frv., sem ég annaðhvort væri mótfallinn eða hefði ekki tekið afstöðu til, væru flutt sem stjórnarfrv., en þó mundi ég, þegar svo stæði á, eiga hlut að því, að þau væru send réttri n. Alþingis, sem síðan tæki ákvörðun um það, hvort hún mundi flytja þau eða ekki.

Mér sýnist það ve sjálfsögð hæverska við kirkjuþing, sem er fulltrúastofnun þjóðkirkjunnar, sett með lögum, að þess till. fái a.m.k. meðferð á Alþingi, þannig að tryggt sé, að það falli ekki algerlega dautt niður, sem kirkjuþingið gerir till. um. Og einmitt miðað við þetta loforð, sem ég gaf kirkjuþinginu, þá taldi ég rétt, að frv. þetta yrði flutt í því formi, sem gert hefur verið.

Ég hef sjálfur ekki til hlítar tekið afstöðu til þess málefnis, sem hér er um að ræða, en mér finnst það þess eðlis, að sjálfsagt sé, að það komi til athugunar hjá Alþingi. En m.a. hef ég ekki sjálfur tekið afstöðu til þess enn, vegna þess að ætlunin var bæði hjá biskupi og kirkjuþingi, að samtímis því, sem þessi breyting yrði gerð á skipun sóknarpresta, yrði einnig gerð breyting á skipun sóknarnefnda og kosningu til þeirra. Frv. um þetta náði ekki samþykki á síðasta kirkjuþingi, m.a. vegna þess að sú n., sem um það fjallaði, var andvíg breytingunni á skipun sóknarpresta og taldi því ekki tímabært að taka afstöðu til frv. um aðra skipun sóknarnefndanna. Þessi skoðun n. varð undir á kirkjuþingi og samþ. frv. um breyt. á skipun sóknarpresta.

Biskup ætlaði svo að beita sér fyrir, að samið yrði nýtt frv. um skipun sóknarnefnda, en af ýmsum ástæðum er því verki ekki lokið enn, en hann óskaði þó eftir því, að þetta frv. um skipun sóknarprestanna yrði lagt fyrir Alþingi nú, ekki í þeirri veru, að knúin yrði fram samþykkt frv. á þessu þingi, eins og hv. 7. þm. Reykv. í öðru orðinu gerði ráð fyrir, að vera kynni ætlunin. Ég hygg, að biskup sé fyllilega ásáttur með, að frv. nái ekki fram að ganga að þessu sinni og raunar ekki fyrr en fyrir liggja hinar fyrirhuguðu till. um skipun sóknarnefndanna, enda er það ljóst, að hún er undirstaðan undir þessari nýju skipan á vali sóknarpresta, og því ekki eðlilegt, að menn geti tekið afstöðu til þess til hlítar, fyrr en það frv. liggur fyrir. Og það er heldur engan veginn óeðlilegt, að slíkt mál, svo viðkvæmt og viðurhlutamikið, sem hér er um að ræða, verði athugað a.m.k. á tveimur þingum. En eins og ég segi, þá þótti mér það sjálfsögð hæverska við kirkjuþing og í samræmi við yfirlýsingu mína þar, að málinu yrði hreyft í þessu formi nú þegar á þessu Alþingi.

Ég vil einnig leiðrétta, ef svo má segja, þá skoðun, sem kom fram hjá hv. 7. þm. Reykv., að með þessu frv. væri í raun og veru verið að fara á bak við sóknarnefndirnar. Það er að vísu rétt, að frv. hefur ekki verið sent hverri einstakri sóknarnefnd til umsagnar. Hins vegar hefur málið verið lagt fyrir alla héraðsfundi í landinu, og á þessum héraðsfundum eiga sæti sóknarprestar og safnaáarfulltrúar, þ.e.a.s. einn maður kjörinn frá hverjum söfnuði, og það er að nokkru leyti byggt á till. þessara héraðsfunda í því frv., sem fyrir liggur. Og ég tel víst, að safnaðarfulltrúarnir hafi ekki tekið afstöðu til málsins nema í samráði við sínar sóknarnefndir, a.m.k. hafa þeir haft fullt tilefni til þess og aðstöðu að hafa samráð við sóknarnefndirnar. Það er þá þeirra sök, ef það hefur ekki verið gert. Ekki svo að skilja, að ég hafi á móti því, að málið sé sent til sóknarnefnda til umsagnar, ef alþm. telja það eðlilegt. Málið hefur hingað til verið í höndum biskups og hann með þessum hætti leitað til sóknanna í landinu, og ég get ekki séð, að hann sé ámælisverður fyrir að hafa haft þann hátt á.

Um sjálft efni málsins skal ég ekki ræða á þessu stigi. Ég tel, að málið þurfi að grandskoða og að það verði ekki skynsamleg ákvörðun í því tekin, fyrr en það liggur fyrir í heild, eins og ég reyndar lýsti í fyrri hluta minnar ræðu. Hitt er engan veginn óeðlilegt, eins og þegar hefur komið fram hjá hv. 7. þm. Reykv., að menn láti uppi almenna skoðun sina á þessu máli, og það er ljóst og hefur ætíð verið vitað, að málið mundi verða mikið ágreiningsefni og það yrði ekki fyrirhafnarlaust að taka kosningarréttinn af mönnum, þann rétt, sem þeir hafa svo lengi notið. Hitt verðum við einnig að játa, að þeirri skipan, sem nú er, fylgja ýmsir ókostir, m.a. sá og e.t.v. ekki síztur, að það er mjög erfitt fyrir þá menn, sem komnir eru af — það má segja annaðhvort unglingsárum eða a.m.k. af léttasta skeiði, að fá tilflutning í starfi með þeirri skipan, sem verið hefur. Þetta er verulegur ókostur og leiðir m.a. til þess, að það verði í vaxandi mæli erfitt að fá menn til þess að taka að sér prestsþjónustu á unga aldri í hinum strjálu byggðum landsins, smærri sóknum, vegna þess að þeir óttist, að ef þeir eru einu sinni þangað komnir, þá eigi þeir ekki kost á öðru en sitja þar alla sína starfsdaga. Þetta er ekki einungis ókostur fyrir mennina sjálfa, heldur hlýtur að bitna á öðrum, ef sú skoðun festir rætur, að það þýði lítt fyrir aðra en tiltölulega unga menn að sækja um hin eftirsóknarverðari brauð. Nú vitum við, að frá því eru undantekningar og nokkrir rosknir menn hafa fengið tilfærslu í starfl. En þetta er þó annmarki, sem prestarnir mjög hafa á orði og telja, að sé sinni stétt og sínu starfi til mikils trafala.

Eins og ég segi, þá er ekki ætlan ríkisstj. og ekki heldur ósk biskups, að málið verði knúið fram á þessu þingi, heldur er það fyrst og fremst af hæversku við kirkjuþing, að málið er hér lagt fram, og til þess að menn geti af meiri alvöru en áður hafið athugun á því vandamáli, sem hér er óneitanlega við að etja, hvort sem menn telja, að þetta sé heppilegasta lausnin á því eða ekki.