18.03.1963
Neðri deild: 55. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í C-deild Alþingistíðinda. (2435)

200. mál, fiskveiðar í landhelgi

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Eins og kom fram í þeim umr., sem hér urðu um skýrslu hæstv. ríkisstj. varðandi Efnahagsbandalag Evrópu, þá er þetta frv. flutt að verulegu leyti að gefnu tilefni. En áður en ég vík að því, finnst mér rétt að minnast á nokkur atriði, sem koma fram í grg. frv. Eins og nú háttar íslenzkri löggjöf, geta útiendingar átt og rekið atvinnutæki hér á landi, ef þeir eru búsettir í landinu. Á þessu er þó sú undantekning, sem sett var í lögin um rétt til fiskveiða í landhelgi árið 1922, að Íslendingar einir geti átt og rekið fiskiskip, sem mega stunda veiðar innan fiskveiðilandhelginnar. Þetta ákvæði þótti nauðsynlegt að setja þá, vegna þess að fiskveiðar voru á þeim tíma taldar sá atvinnuvegur, sem útlendingar mundu helzt sækjast eftir að ná tökum á hér á landi, og þar af leiðandi væri það nauðsynleg öryggisráðstöfun að setja þessi ákvæði, að það væru aðeins íslenzkir ríkisborgarar, sem ættu að eiga og reka skip, sem stunduðu veiðar innan fiskveiðilandhelginnar.

Síðan þessi lög voru sett fyrir 40 árum, hafa að sjálfsögðu margar og miklar breytingar orðið, ekki sízt á fiskvinnslu og fiskiðju, sem hafa haft það í för með sér, að þessi atvinnugrein er orðin miklu eftirsóknarverðari en áður, og ef að líkum lætur, verður einmitt fiskvinnslan og fiskiðjan álitlegasta framtíðaratvinnugreinin á Íslandi næstu áratugina. Þetta leiðir að sjálfsögðu til þess, að útlendingar hafa meiri áhuga á því en áður að koma sér fyrir innan þessarar atvinnugreinar og ná meiri og minni tökum á henni, ekki sízt ýmsir útlendir hringar, sem eru í þessari atvinnugrein erlendis, enda hefur talsvert borið á því að undanförnu, að slíkir aðilar væru að sækjast eftir því að komast yfir atvinnufyrirtæki hér á landi í þessari grein. Þar af teiðandi er alveg nauðsynlegt að setja sömu ákvæði um fiskiðjuverin og fiskvinnslustöðvarnar og nú gilda um fiskiskipin, að það séu aðeins Íslendingar eða íslenzkir ríkisborgarar, sem hafi rétt til þess að eiga og reka þessi atvinnutæki.

Ég held, að ef menn athuga þetta nokkru nánar, sjái þeir það fljótt, að hér sé um svo mikilvæga atvinnugrein að ræða, að Íslendingar geti ekki treyst öðrum en sjálfum sér til að fást við rekstur hennar. En alveg sérstök ástæða er til þess að gefa þessu máli gaum og taka það til meðferðar nú vegna þess, að það hefur komið mjög greinilega fram í sambandi við þær umr., sem hafa orðið um hugsanlega aðild Íslands að Efnahagsbandalagi Evrópu, að af hálfu útlendinga væri sótzt eftir því að komast inn í fiskiðjuna hér á landi. Ég vildi í þessu sambandi með leyfi hæstv. forseta — rifja upp ummæli, sem hæstv. viðskmrh. lét falla á fundi hjá Verzlunarráði Íslands sumarið 1961, en sú ræða hans var síðar birt í Morgunblaðinu. Hæstv. viðskmrh. fórust þá þannig orð samkv. því, sem Morgunblaðið segir 12. júlí 1961, og hef ég þau nú yfir, með leyfi hæstv. forseta. Það, sem hæstv. viðskmrh. sagði, hljóðaði á þessa leið:

„Það skiptir sérstöku máli fyrir Íslendinga, að gert sé ráð fyrir því, að öll aðildarríki bandalagsins hafi jafnan rétt til þess að koma á fót fyrirtækjum á öllu bandalagssvæðinu og að öllu leyti jafna aðstöðu til atvinnurekstrar. Ef til einhvers konar aðildar okkar að þessu bandalagi kæmi,“ — þar er að sjálfsögðu bæði átt við fulla aðild og aukaaðild, — „hlytum við að ætlast til þess, að þessi almenna regla gilti ekki um fiskveiðar. Hagnýtingu fiskimiða innan íslenzkrar fiskveiðilögsögu getum við ekki deilt með öðrum þjóðum, enda hafa fiskstofnar algera sérstöðu samanborið við aðrar náttúruauðlindir. Hins vegar kæmumst við ekki hjá að athuga stefnu okkar varðandi réttindi útlendinga til löndunar á fiski og rekstrar fiskiðjuvera, ef til aðildar okkar ætti að koma, enda yrði sú stefna, sem nú er fylgt, okkur sjálfum ekki lengur nauðsynleg, ef tryggja mætti með öðru móti, að breyting á henni leiddi ekki til ofveiði.“

Eins og fram kemur í þessum ummælum hæstv. viðskmrh., telur hann það bersýnilega óhjákvæmilega afleiðingu af fullri aðild eða aukaaðild okkar að Efnahagsbandalagi Evrópu, að útlendingar fengju hér rétt til fisklöndunar og rétt til að reka hér fiskiðjuver, og það kemur líka fram í þessum ummælum hæstv. viðskmrh., að hann álitur þetta engan veginn óeðlilegt, og gefur fullkomlega til kynna, að þetta sé í lagi, aðeins ef það sé tryggt í leiðinni, að þetta leiði ekki til ofveiði innan fiskveiðilandhelginnar. Það virðist því af þessu mega ráða, að hæstv. viðskmrh. og hæstv. ríkisstj. telji það ekkert óeðlilegt, þó að erlendum aðilum yrðu veitt þessi réttindi, þ.e. réttur til fisklöndunar á Íslandi og réttur til að reka hér fiskiðjuver.

Þetta sama kemur líka fram í grein, sem aðalhagfræðingur og ráðunautur ríkisstj. í efnahagsmálum, Jónas Haralz, birti í Fjármálatíðindum, sem Seðlabankinn gefur út, vorið 1962. Hann minnist þar á ýmsa fyrirvara, sem við þyrftum að setja, ef við gerðumst einhvers konar aðilar að Efnahagsbandalagi Evrópu, og segir m.a. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Þeir“ — þ.e. fyrirvararnir — „verða enn fremur að tryggja það, að erlendir fiskimenn geti ekki stundað veiðar innan íslenzkra fiskveiðitakmarka og að hugsanleg þátttaka útlendinga í rekstri fiskvinnslustöðva leiði ekki til ofveiði fiskstofna við Ísland.“

Það kemur hér fram alveg sama hugsunin eða skoðunin hjá Jónasi Haralz og hæstv. viðskmrh., að af þátttöku okkar í Efnahagsbandalaginu, hvort sem þar væri um að ræða fulla aðild eða aukaaðild, muni leiða hugsanlega þátttöku útlendinga í rekstri fiskvinnslustöðva hér á landi, og við það sé ekki annað að athuga en það, að það þurfi að setja einhverjar reglur til tryggingar því, að þessi þátttaka þeirra leiði ekki til ofveiði fiskstofna við Ísland. Að öðru leyti sé ekkert við slík sérréttindi að athuga.

Nú hefur það líka greinilega komið fram í þeim umr., sem síðar hafa orðið um þessi mál, að ekki aðeins viðskiptamálaráðherrann og Jónas Haralz, heldur þeir flokkar og þau málgögn, sem að núv. ríkisstj. standa, hafa bersýnilega ekki neitt við það að athuga, þó að slík réttindi væru veitt, því að t.d. málgögn þessara flokka hafa hafið mjög harða sókn gegn þeim mönnum, sem hafa mælt gegn því, að útlendingum yrðu veitt atvinnuréttindi hér á landi, því að í blöðum stjórnarflokkanna heita þessir menn nú einangrunarsinnar, og það er talað um, að þeir vilji halda í úrelt sjálfsæði, og ýmis önnur álíka ummæli eru höfð um þessa afstöðu, þ.e. þá afstöðu að vilja ekki veita útlendingum atvinnu. réttindi hér á landi, og sérstaklega og þó ekki sízt það að vilja ekki gefa útlendingum aðstöðu til að flytja fjármagn sitt og atvinnurekstur hingað til landsins.

Mér finnst nú ekki úr vegi af þessu tilefni, áður en lengra er haldið, að ræða nokkuð um það, hvort það sé nokkuð hættuleg einangrunarstefna eða úrelt sjálfstæði að vilja hafa nægar hömlur á því, að útlendingar nái fótfestu til atvinnurekstrar á Íslandi, og hvort reynsla annarra þjóða, sem hefur fengizt í þessum efnum, sé s1ík, að við eigum að kalla það úrelt sjálfstæði eða einangrunarstefnu, ef menn vilja ekki á þetta fallast. Ég vil í þessu sambandi rifja upp reynslu nokkurra landa. Ég vil rifja upp t.d. reynslu landanna í Suður-Ameríku af því að hafa hleypt erlendu einkafjármagni og erlendum atvinnurekendum inn í þeirra land og gefið þeim möguleika til þess að hafa þar með höndum ýmiss konar stórkostlegan atvinnurekstur. Það er alveg rétt, að á vissu tímabili höfðu löndin í Suður-Ameríku nokkurn hagnað af þessu, eða mönnum virtist það. Þá var flutt allmikið erlent fjármagn til landsins, og það reis þar upp einhver atvinnurekstur, og þetta virtist vera ekki óheppileg uppbygging um nokkurt skeið. En þegar fram leið, þá kom það í ljós, að þessu fylgdu margvislegir ókostir og m.a. sá, að í fyrstunni var það að vísu þannig, að fjárfesting útlendinganna leiddi til þess, að það var flutt þangað meira af erlendu fjármagni en það, sem þurfti að láta í staðinn. Nú er þetta orðið algerlega breytt. Sáðan útlendingarnir komu sér þarna fyrir með sinn atvinnurekstur, flytja þeir ekki aðeins í burtu vexti og afborganir af því fé, sem þeir lögðu í þessi fyrirtæki sin, heldur flytja þeir nú út meiri og minni gróða, svo að þetta leiðir til stórkostlegs halla á greiðslujöfnuði þessara landa við önnur ríki, þannig að útlendingarnir taka nú það aftur mörgum sinnum, sem þeir einu sinni lögðu í þessi fyrirtæki. Auk þess kemur það í ljós, að hinir útlendu aðilar hafa ekki neina sérstaka hagsmuni eða sérstakar skyldur að rækja í sambandi við þessi fyrirtæki. Ef t.d. illa horfir með rekstur, þá draga þeir að sér höndina og eru alveg óragir við að láta skella á atvinnuleysi, og hugsa ekki heldur um uppbyggingu þessara fyrirtækja eins og vera skyldi og landsmenn sjálfir mundu gera, ef þessi atvinnurekstur væri í þeirra höndum.

En það eru fleiri aðilar en Suður-Ameríkumenn, sem hafa þessa sögu að segja. Fyrir nokkrum árum mátti lesa um það í blöðum, hve stórkostlegan hagnað Kanada hefði af því, að amerískt fjármagn flyttist þangað til lands, og amerískir iðjuhöldar ynnu að því að koma þar upp stórfelldum atvinnurekstri. Nú sjást slík skrif ekki lengur. Nú er ekki lengur talað um þann hagstæða greiðslujöfnuð í Kanada, sem fylgdi þessari fjárfestingu útlendinganna. Nú er dæminu snúið við. Nú flytja útlendingarnir miklu meira í burtu af fjármagni en það, sem þeir láta í staðinn, þannig að greiðslujöfnuðurinn verður óhagstæður af þessum sökum, því að þeir flytja ekki aðeins út vexti af sínu fjármagni og afborganir, heldur meiri og minni gróða í ýmsu formi, og þetta veldur stórkostlega óhagstæðum greiðslujöfnuði við Kanada. En það er meira en þetta, sem Kanadamenn hafa þurft að reyna í þessu sambandi. Það er stórkostlegt atvinnuleysi í Kanada núna, vegna þess að þegar eitthvað fer að ganga illa í sambandi við atvinnurekstur, sem útlendingar hafa sett fjármagn sitt í, þá kippa þeir að sér hendinni og hugsa ekki um hann lengur, eins og t.d. innlendir aðilar mundu gera, láta atvinnureksturinn dragast saman og hirða ekki um þá uppbyggingu, sem nauðsynleg er. Þetta veldur því stórkostlegum samdrætti í atvinnurekstri í Kanada nú og á sinn mikla þátt í því atvinnuleysi, sem þar er um þessar mundir.

Það hefur að undanförnu verið allmjög rætt um það, að Vestur-Evrópa hefði notið góðs af því, að þangað hefði verið flutt mikið einkafjármagn frá Bandaríkjunum, og það er alveg rétt, að það hefur átt sér stað stórfelld uppbygging eða fjárfesting amerísks fjármagns í Vestur.. Evrópu á undanförnum árum. Og það er óneitanlegt, að þetta hefur átt nokkurn þátt í þeirri uppbyggingu, sem þar hefur orðið. Og enn sé komið er, þá er V- Evrópa í þessum efnum á sama stigi og Suður-Ameríka og Kanada voru, áður en dæmið snerist við. En nú stefnir óðum í þá áttina, að þetta dæmi snúist við og það verði útlendingarnir, sem flytji meira fjármagn frá V- Evrópu en það, sem þeir flytja þangað inn, þegar þeir fara í vaxandi mæli ekki aðeins að flytja afborganir og vexti aftur heim til sín, heldur líka þann mikla gróða, sem þeir hafa af atvinnurekstrinum í þessum löndum. Það er líka ekkert leyndarmál, að sá ágreiningur, sem nú er að skapast á milli V.-Evrópu annars vegar og Bandaríkjanna hins vegar og de Gaulle er talinn sérstakur forsvarsmaður fyrir, hann stafar ekki sízt af þessu. Og það hefur komið mjög fram í afstöðu franskra stjórnmálamanna að undanförnu, að þeir vilja verja V- Evrópu fyrir meira einkafjármagni frá Bandaríkjunum, verjast því, að bandarískt fjármagn nái t.d. meiri tökum á atvinnufyrirtækjum í Frakklandi en átt hefur sér stað að undanförnu. Og það er t.d. ekki talið hafa ráðið litlu um þá afstöðu de Gaulle nú fyrir nokkrum vikum, þegar hann hindraði áframhaldandi umræður um aðild Breta að Efnahagsbandalagi Evrópu, að amerískir auðhringar voru nýlega búnir að kaupa upp 2 mjög stórar og þýðingarmiklar verksmiðjur í Frakklandi. Þessa þróun taldi de Gaulle nauðsynlegt að stöðva, og það réð vafalaust ekki litlu um þá afstöðu, sem hann tók gagnvart aðild Breta, vegna þess að Bretar hafa verið taldir ekki eins sterkir á svellinu í þessum efnum og a.m.k. de Gaulle vill vera láta. Og það er alveg víst, að það eiga menn eftir að sjá, að það verður fátt, sem mun koma til með að valda meiri erfiðleikum í sambúð vestrænna þjóða en sá ágreiningur, sem rís út af því, hve bandarískt einkafjármagn hefur skapað sér sterka aðstöðu í V- Evrópu, og farin að rísa upp sérstök sjálfstæðishreyfing til þess að vinna gegn þessu og vinna að því, að fyrirtækin verði ekki amerísk, heldur evrópsk, Við eigum áreiðanlega eftir að sjá fram á það, að sá lofsöngur, sem nú er um hina amerísku einkafjárfestingu í Evrópu, á eftir að breytast verulega.

Þannig mætti halda áfram að rifja það upp, hvernig öðrum þjóðum hefur gefizt að láta útlendinga fá sterka aðstöðu í sínum atvinnu.. rekstri. En í raun réttri þurfum við Íslendingar ekki að fara til annarra landa í þeim efnum til þess að gera okkur grein fyrir þessu. Við höfum þessa reynslu sjálfir, og við höfum þessa reynslu meira að segja í fiskiðnaðinum sjálfum. Ég rifjaði það upp hér á sínum tíma, þegar rætt var um skýrslu ríkisstj. um Efnahagsbandalagið, hvernig Íslendingum hefði gefizt það að láta útlendinga fá fótfestu í síldariðnaðinum á sínum tíma. Það eru ekki mjög margir áratugir síðan sú síldariðja, sem var til hér á landi, bæði síldarbræðsla og síldarsöltun, var að langsamlega mestu leyti í höndum útlendinga. Og reynslan, sem fékkst af þessum rekstri útlendinga, var slík, að á Alþingi 1928 voru allir flokkar sammála um það. Sjálfstfl., sem að vísu þá hét Íhaldsflokkur og er yfirleitt ekki fylgjandi þjóðnýtingu, taldi óhjákvæmilegt að grípa til þjóðnýtingar í síldariðnaðinum þá til þess að koma í veg fyrir það hörmungarástand, sem þá ríkti í síldariðnaðinum vegna þess, hvernig útlendingar hefðu haldið á þessum málum. Útlendingar ráku síldariðnaðinn eingöngu með sina hagsmuni fyrir augum, skeyttu ekkert um hagsmuni Íslendinga, hvorki útvegsmanna né sjómanna eða annarra íslenzkra aðila, sem þar komu nálægt. Og niðurstaðan var líka sú, að það voru ekki talin önnur ráð út úr þessum vanda en að taka upp allsherjar þjóðnýtingu í síldariðnaðinum. Og ég held, að þeir menn, sem þykjast fylgjandi einkarekstri og vilja nú opna útlendingum leið inn í fiskiðjuna á Íslandi, ættu að athuga vel þessa reynslu, áður en þeir gengju þau spor að hleypa útlendingum inn í þennan atvinnurekstur.

Það hefur verið talað talsvert um það, að það væri vafalaust til ýmissa hagsbóta fyrir Íslendinga að hleypa erlendum atvinnurekendum og erlendum fjármagnseigendum inn í atvinnurekstur hér á landi. Þeir mundu leggja til fjármagn, sem annars væri ekki fyrir hendi. Þeir mundu koma með ýmsa tækni með sér, sem nú er hér ekki fyrir hendi, og þar fram eftir götunum. Ég vil aðeins svara þessu með því, að reynsla okkar Íslendinga á undanförnum áratugum er sú, að við höfum verið alveg einfærir um að byggja upp þann atvinnurekstur, sem nauðsyn hefur verið á í landinu, og alveg einfærir um að koma með þær nýjungar og tækni, sem nauðsynleg hefur verið. Ég held, að það megi fullyrða, að íslenzkir atvinnurekendur eru það vel færir um að gegna sínum störfum, og íslenzku verkamennirnir það vel færir um þá vinnu, sem þarf að leysa af hendi, að við þurfum ekki á neinni sérstakri erlendri aðstoð að halda til þess að notfæra okkur þær nýjungar og tækni, sem er að skapast í atvinnuvegunum hverju sinni. Íslenzkir atvinnurekendur hafa yfirleitt verið mjög fljótir til þess að hagnýta sér slíkar nýjungar og slíka tækni, og þess vegna sætir það undrum, hve okkur hefur tekizt að byggja hér ýmiss konar iðnað í landinu á undanförnum árum. Sú reynsla sýnir alveg ótvírætt, að það er hægt að bera fullt traust til íslenzkra atvinnurekenda og íslenzks verkalýðs til þess að leysa þetta starf af hendi, svo að vel sé, og við þurfum ekki að sækjast eftir útlendingum til þess að vinna það fyrir okkur. Ég held líka, ef við litum yfir okkar eigin reynslu og reynslu annarra þjóða í stórum dráttum, að þá sannist það vel í sambandi við atvinnureksturinn, að sjálfs er höndin hollust, að það sé hollast fyrir hverja þjóð að hafa hann í höndum eigin atvinnurekenda og eigin fyrirtækja, en láta útlendinga koma þar sem allra minnst nálægt. Og ég held, að því fari fjarri, að það sé nokkur einangrunarstefna eða það sé nokkurt úrelt sjálfstæði, þegar er verið að segja það og berjast fyrir því, að Íslendingar eigi sjálfir að annast atvinnurekstur hér á landi, en ekki gefa útlendingum kost á því að komast þar að meira og minna. Það er a.m.k. óhætt að fullyrða, að það er hið úrelta sjálfstæði, sem hingað til hefur gefizt Íslendingum bezt, og þeim hefur gefizt hitt jafnan illa, þegar þeir hafa látið útlendinga annast atvinnurekstur eða verzlun fyrir sig.

Við getum aðeins í þessu sambandi litið á okkar eigin höfuðstað í þessum efnum. Ef við litum þó ekki sé nema nokkra áratugi aftur í tímann, þá var verzlun hér í Reykjavík og allur atvinnurekstur í höndum útlendinga. Síðan hefur sú mikla breyting orðið, að verzlunin hér í höfuðstaðnum er í höndum Íslendinga sjálfra og atvinnureksturinn er í höndum Íslendinga að svo að segja öllu leyti. Eru þau umskipti þannig, að við eigum að hverfa aftur til gamla tímans í þessum efnum? Eigum við að vinna að því, að hér skapist aftur sú gamla Reykjavík, þegar atvinnurekstur og verzlun var í höndum útlendinga? Það er vist ekki úrelt sjálfstæði, eftir því sem þeir menn halda fram, sem vilja nú koma útlendingum sem mest inn í atvinnurekstur hér á landi. En ég segi það hiklaust sem mína skoðun, að ég kýs miklu heldur þá Reykjavík, sem blasir við í dag í þessum efnum, en þá Reykjavík, sem var hér fyrir 100 árum. Og ég held, að flestir verði þeirrar skoðunar, þegar þeir fara að athuga þetta mál, og þess vegna eigum við að halda í þetta úrelta sjáifstæði að vilja eiga okkar atvinnufyrirtæki sjálf, og trúa okkar eigin mönnum fyrir því, en sleppa útlendingum sem allra minnst inn í þá starfsemi. Það er reynsla okkar og annarra, að það sé langheppilegast.

Þess vegna vænti ég þess líka, að það frv., sem ég hef hér lagt fyrir, fái góðar undirtektir hér í þinginu og skjóta afgreiðslu, því að um það held ég líka að allir hljóti að vera sammála, að ef það sé nokkur atvinnurekstur hér á landi, sem Íslendingar þurfi sjálfir að hafa í sínum höndum, sem sé eiginlega lykillinn að öllu öðru, þá sé það reksturinn á raforkuverunum og reksturinn á fiskiðjuverunum, því að þeir, sem ná í aðra hvora þessa atvinnugrein, hafa orðið svo mikla lykilaðstöðu hér á landi, að þeir geta ráðið mjög miklu öðru á eftir. Þess vegna er þetta tvennt alveg sérstaklega, sem er nauðsynlegt fyrir okkur að verja. Í sambandi við orkuverin erum við búnir að setja ákvæði um það, að nú er það ríkið eitt, sem má reisa ölt meiri háttar orkuver. Við þurfum ekki og eigum ekki að fara þá leið í sambandi við fiskiðjuna, því að við eigum að hafa fiskiðnaðinn sem mest í höndum einstaklinga og samvinnufyrirtækja. Það er heppilegasta lausnin. En við eigum að gera ráðstafanir til að tryggja það, að þessi atvinnurekstur verði í höndum þessara aðila, en útlendingar fái þar ekki aðstöðu til að koma ár sinni fyrir borð, og að því er stefnt með þessu frv. Þess vegna vænti ég þess, að það fái góðar undirtektir. En að sjálfsögðu er það líka rétt, að það þarf að gera ýmsar fleiri ráðstafanir til að tryggja það, að atvinnureksturinn hér á landi verði í höndum Íslendinga einna. Og í sambandi við það vil ég geta þess, að af hálfu framsóknarmanna hefur í sameinuðu Alþingi verið lögð fram sérstök þáltill. um endurskoðun þeirrar löggjafar, sem þetta efni snertir, til tryggingar því, að atvinnurekstur verði í höndum landsmanna sjálfra, en færist ekki meira og minna í hendur útlendinga.

Ég læt þetta svo nægja að sinni, en sem sagt treysti því, að þetta frv. fái góðar undirtektir hjá þm. og afgreiðslu á þessu þingi.