18.03.1963
Neðri deild: 55. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í C-deild Alþingistíðinda. (2439)

200. mál, fiskveiðar í landhelgi

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég held, að það sé heppilegast fyrir okkur hæstv. viðskmrh. að halda okkur við aðalefni þessa máls, sem hefur verið það, hver sé afstaða hans til þess, að útlendingar megi reka fiskiðjuver hér á landi, þ.e. að halda sér við þau ummæli hans, þegar hann ræðir þetta mál sérstaklega, en það gerir hann ekki í skýrslu sinni til Alþingis um Efnahagsbandalagið, og eins að halda sér við þau ummæli hans, áður en hann er nokkuð farinn að flækja þetta mál, og segir þess vegna hug sinn allan.

Í ræðunni, sem hann flutti á þingi Verzlunarráðsins, stendur alveg skýrum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Hins vegar kæmumst við ekki hjá að athuga stefnu okkar varðandi réttindi útlendinga til löndunar á fiski og rekstrar fiskiðjuvera, ef til aðildar okkar ætti að koma, enda yrði sú stefna, sem nú er fylgt, okkur sjálfum ekki lengur nauðsynleg, ef tryggja mætti með öðru móti, að breyting á henni leiddi ekki til ofveiði.“

Það kemur alveg greinilega fram í þessum ummælum hæstv. ráðh, svo að ekki verður um villzt, að hann telur frá sínu sjónarmiði ekkert athugavert við það að veita útlendingum rétt til fisklöndunar á Íslandi eða rétt til þess að reka hér fiskiðjuver, ef aðeins sé sett sú eina regla, að þetta leiði ekki til ofveiði. Aðrar reglur nefnir hann ekki. Innan þess ramma telur hann ekkert athugavert við það, að þeim verði veitt þessi réttindi. Það kemur ekki neitt fram í þeim ummælum, sem hann var að vitna til í skýrslu ríkisstj. um Efnahagsbandalagið, sem dregur úr þessu varðandi fiskiðjuverin, því að allt það, sem hann segir þar, rúmar það fullkomlega, hvað fiskiðjuverin snertir, að þá þurfi ekki að setja aðrar hömlur en þessar. Og það eru að sjálfsögðu hömlur, sem ekki aðeins verða settar gagnvart útlendingum, heldur og gagnvart okkur sjálfum. En ég er hins vegar hræddur um það, að þegar svo væri komið, að útlendingar væru búnir að ná verulegum tökum á fiskiðnaði hér á landi og þeirri aðstöðu, sem því fylgdi, þá gæti verið erfitt fyrir okkur að framfylgja einhverjum reglum, sem kynnu að vera settar til tryggingar því, að komið væri í veg fyrir ofveiði. Ég er hræddur um, að hinir erlendu hagsmunir væru þá orðnir svo sterkir hér á landi, að það gæti orðið erfitt fyrir okkur að framfylgja þeim reglum. En það er alveg ljóst mál af því, sem hæstv. viðskmrh. hér segir og hann dregur ekkert úr í sínum síðari ummælum, þó að hann sé að reyna að halda því fram núna, að hann og að því er virðist ríkisstj. eru því fylgjandi, að útlendingar fái rétt til að reka hér fiskiðjuver innan þess ramma, að það leiði ekki til ofveiði. En ég er hræddur um, að ef við leyfðum þeim slík réttindi, þá gæti svo komið að það yrði erfitt fyrir okkur á eftir að framfylgja reglum, sem kynnu að vera settar til að koma í veg fyrir, að ofveiði ætti sér stað.

Þessar umr. okkar hæstv. viðskmrh. um þetta atriði eru í raun og veru alveg óþarfar, vegna þess að það stendur alveg svart á hvítu í Morgunblaðinu, hvað hæstv. viðskmrh. sagði um þetta mál, um rekstur útlendinga á fiskiðjuverum hér á landi, og hvaða afstöðu hann hefur til þess.

Og það er alveg tilgangslaust fyrir hæstv. viðskmrh. að vera að afneita þeim ummælum. Hann getur að sjálfsögðu lýst því yfir, að hann sé orðinn annarrar skoðunar núna. Og það væri ekki nema þakkarvert, ef svo væri. En ég verð að segja það, að þau ummæli, sem hann las upp úr skýrslu ríkisstj. frá 12. nóv. s.l., gefa það alls ekki nægilega til kynna, því að hann er að tala um það fram og aftur, eins og hann sjálfur las upp, að það sé rétt að veita útlendingum atvinnuréttindi hér á landi. Hann er að tala um, að það verði settar þessar eða þessar hömlur gegn því, að atvinnuréttindi útlendinga gangi úr hófi fram. Ég er hræddur um, að þegar svo er komið, að við förum að semja við erlenda aðila um þau mál, þá geti verið erfitt fyrir okkur að setja slíkar hömlur, og þess vegna sé það bezta og hyggilegasta fyrir okkur í þessum efnum að byrja aldrei á slíkum viðræðum, gefa aldrei fangs á því, að það færu fram nein viðtöl um það, hvaða atvinnuréttindi útlendingar ættu að hafa hér á landi umfram það, sem nú er. Og að sumu leyti væri eðlilegt að þrengja þau.

Ég vænti, að það komi líka fram í sambandi við afgreiðslu þessa máls á þinginu, hver er hin raunverulega afstaða ríkisstj. í þessu máli. Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, eru sett ákvæði til að tryggja það, að útlendingar geti ekki stundað fiskiðju hér á landi. Ef ríkisstj. er komin á skoðun mína í þessu máli, eins og hæstv. viðskmrh. virtist vilja vera láta, þá ætti ekki að vera nein fyrirstaða á, að þetta frv. yrði samþ. á þinginu og fengi nú þegar afgreiðslu. Það mundi styrkja það, sem kom fram hjá hæstv. viðskmrh., að ríkisstj. hefði nú einhverja aðra og betri skoðun á þessu en þá, sem kom fram í ræðu hæstv. viðskmrh. á fundi Verzlunarráðs Íslands fyrir 2 árum. Og við sjáum þess vegna nokkuð viðhorf hæstv. ríkisstj. til þessa máls á því, hver verður afstaða hennar og stjórnarflokkanna til þess frv., sem hér hefur verið lagt fram.

Hæstv. viðskmrh. var að ræða um það, að þó að það væri lögð fram umsókn um aðild að bandalaginu, þá þyrfti ekki að fylgja því nein skuldbinding um það að ganga í bandalagið. Þetta er að sjálfsögðu ekkert nema orðaleikur. Það gerir enginn aðili það að gamni sínu eða bara í einhverju spaugi að sækja um fulla aðild eða aukaaðild að slíku bandalagi. Hann gerir það ekki nema vegna þess, að hann ætli sér að ná samkomulagi, annaðhvort um fulla aðild eða aukaaðild, ef það er takmark hans með umsókninni. Mér dettur ekki í hug t.d., að hæstv. viðskmrh. vilji halda því fram, að Bretar hafi verið að sækja um fulla aðild að Efnahagsbandalaginu í einhverju alvöruleysi og það hafi ekki verið markmið þeirra að komast inn í bandalagið. Að sjálfsögðu sóttu Bretar um fulla aðild að Efnahagsbandalaginu með það fyrir augum að verða slíkur aðili að bandalaginu. Það var þeirra ákveðni ásetningur. Á sama hátt var það fullur ásetningur Svía, þegar þeir sóttu um aukaaðild að bandalaginu, að ná aukaaðildarsamningi. Þeir gerðu það ekki til að sýnast, það gerðu þeir í fullri alvöru. Og mér dettur ekki í hug, að hæstv. ríkisstj., þó að ég beri að vísu takmarkað traust til hennar, sé nokkuð alvörulausari en aðrar ríkisstj. í þessum efnum, að hún fari að sækja um aukaaðild eða fulla aðild að ríkjabandalögum, nema hún ætli sér eitthvað með því, nema það sé einhver tilgangur með því, að það sé ekki bara gert í einhverju prófunarskyni. Að sjálfsögðu er hæstv. ríkisstj. ekki svo ábyrgðarlaus, að hún fari fram á slíkt, nema því aðeins að það sé ásetningur hennar að komast inn í viðkomandi bandalag. Og þess vegna dettur mér ekki í hug að halda því fram, að gerður hafi verið í einhverju alvöruleysi allur þessi mikli málatilbúnaður, sem hæstv. ríkisstj. hafði í frammi sumarið 1961, það hafi ekki verið vegna þess, að hún hafi haft einhvern ákveðinn ásetning, hún hafi ekki ætlað sér að fá sitt mál fram, þ. e. að komast inn í Efnahagsbandalagið. En það, sem stöðvaði það, að umsókn var nokkurn tíma lögð fram, var það, að ríkisstj. í Bonn sagði fulltrúum íslenzku ríkisstj., að það væri tilgangslaust að senda inn umsókn um slíka aðild, og það var það eitt, sem réð því, að frestur varð á þessu máli, en ekki það, að hæstv. ríkisstj. hafi nokkuð skipt um skoðun. Annars verður að sjálfsögðu tækifæri til þess að ræða nánar um þetta atriði, þegar framhaldsumr. verða hér um skýrslu ríkisstj. varðandi Efnahagsbandalag Evrópu.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri skrýtið, þegar svo væri komið, að stjórnarandstæðingar gætu ekki deilt á ríkisstj. fyrir annað í þessum málum en það, sem hún hefði ætlað að gera, en ekki það, sem hún ætlaði að gera nú. Ég held, að það sé ekki neitt ósamræmi í þessu, því að ég held, að hina raunverulegu stefnu ríkisstj. megi fyrst og fremst marka af því, sem hún ætlaði að gera, en ekki því, sem hún segir nú. Ég held, að það eigi eftir að koma á daginn eftir kosningar, að þá reyni ríkisstj. að framkvæma það, sem hún ætlaði sér að gera, en fari ekki eftir því, sem hún segir nú.

Nú segir hæstv. ríkisstj., t.d. hæstv. dómsmrh., að þetta mál sé úr sögunni, það sé búið að taka þann vanda frá okkur að þurfa að taka nokkra afstöðu til Efnahagsbandalags Evrópu. Hæstv. viðskmrh. segir það líka. $g deili fullkomlega á hæstv. ríkisstj. fyrir að halda slíku fram eins og þessu. Ég álit, að það sé fullkomlega rangt, og ég álít, að hæstv. ríkisstj. sé að blekkja þjóðina með því að halda því fram, að það sé búið að taka þann vanda frá henni að þurfa að taka afstöðu til þessa máls. Ég er fullkomlega sannfærður um, að það á eftir að gerast, áður en mjög langur tími líður, að það verður óhjákvæmilegt fyrir Íslendinga að taka einhverja afstöðu til Efnahagsbandalags Evrópu. Við verðum þá að velja á milli þess, hvort við viljum heldur fara tolla- og viðskiptasamningsleiðina eða aukaaðildarleiðina, ef menn vilja þá ekki stefna að fullri aðild, eins og Adenauer hefur af einhverjum einkennilegum ástæðum alltaf verið að gefa í skyn. Þess vegna er það ekki rétt hjá hæstv. ráðh., að við stjórnarandstæðingar deilum ekki á ríkisstj. fyrir þá afstöðu, sem hún segist hafa í dag. Við deilum á þá afstöðu hennar að halda því fram, að það sé búið að taka þennan vanda frá okkur og það komi ekki til þess, að við þurfum að taka afstöðu til Efnahagsbandalagsins. Ég held því, að það sé fullkomlega rangt hjá hæstv. ríkisstj. að halda slíku fram. Og þó að ríkisstj. hafi nú loðna afstöðu í málinu og að því er virðist kannske, eins og hæstv. viðskmrh. segir, að ýmsu leyti aðrar fyrirætlanir en hún áður virtist hafa og við deildum á hana fyrir áður, þá hygg ég, að það eigi einmitt eftir að koma á daginn, að eftir kosningar muni stefna hennar vera nokkuð svipuð og hún áður var, á þeim tíma, þegar hún var að hugsa um það í fullri alvöru að sækja um fulla aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu. Ég hygg, að það eigi þá einnig eftir að koma upp, að stefna hæstv. ríkisstj. hvað fiskiðjuver snertir verði líkari því, sem stendur í ræðu hæstv. viðskmrh. á verzlunarráðsfundinum fyrir 2 árum, heldur en því, sem hann var að halda fram hér úr þessum ræðustól. Og ég held, að þjóðin eigi að taka miklu meira mark á því, sem hæstv. viðskmrh. sagði fyrir tveimur árum um þetta mál, áður en hann var nokkuð byrjaður að flækja málið, heldur en því, sem hann segir nú fyrir kosningarnar, þegar hann vill reyna að dylja sina raunverulegu afstöðu til þess.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að lengja þessar umr. að sinni. Eins og ég áður sagði, gefst tækifæri til þess að ræða námar um efnahagsbandalagsmálið, þegar framhaldsumr. verða um skýrslu ríkisstj. um það mál. En ég vil aðeins að lokum segja það, að ef það er rétt, sem hæstv. viðskmrh. heldur nú fram, að það sé orðin stefna ríkisstj. að sporna sem mest gegn óeðlilegum atvinnurekstri útlendinga hér á landi, þá ætti það frv., sem hér liggur fyrir, að fá greiða göngu gegnum þingið.