02.04.1963
Neðri deild: 64. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í C-deild Alþingistíðinda. (2451)

200. mál, fiskveiðar í landhelgi

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Maður var nefndur MacCarthy. Hann átti heima í Ameríku, og um skeið varð hann víðfrægur í landi sínu og ekki aðeins þar, heldur um víða veröld. Það, sem gerði þann mann frægan, var sú viðleitni hans að leita uppi þjóðhættulega menn í sínu eigin landi, menn, sem sætu á svikráðum við brýna hagsmuni þjóðar sinnar, Bandaríkjamanna. Hann var þó ekki einvörðungu frægur fyrir þennan tilgang sinn, heldur öllu heldur fyrir þá aðferð, sem hann beitti til þess að ná þessu markmiði sínu. En aðferð hans við að leita að þjóðhættulegum mönnum og þá fyrst og fremst kommúnistum var sú að grafa upp gömul ummæli ýmissa stjórnmálaandstæðinga sinna, slita þau úr samhengi og segja: Þessi ummæli bera sannarlega vott um, að um þjóðhættulegan mann sé að ræða, að um kommúnista sé að ræða. — Eins gerði hann og hans fylgismenn mikið að því að vitna til einstakra athafna manna, sem taldar voru bera vott um mjög grunsamlegar fyrirætlanir. Það var í það vitnað, ef menn áttu kunningja, sem voru taldir hafa grunsamlegar skoðanir eða grunsamlegar fyrirætlanir á prjónunum. Þá var frá því sagt, það undirstrikað, allt saman í því skyni að koma því orði á hlutaðeigandi menn, að þeir væru þjóðhættulegir, hefðu vafasamar skoðanir og við þeim ætti að gjalda mikinn varhug.

Ég rifja upp feril þessa manns, sem nú er að vísu næstum alveg gleymdur, og þeir fáu, sem eftir honum muna enn sem atkvæðamiklum stjórnmálamanni, hafa lítið álit á honum satt að segja. En þess vegna minni ég á feril þessa manns, að mér sýnist nokkrir forustumenn Framsfl. vera að falla fyrir þeirri sömu freistingu og hann gerði að ævistarfi sínu að sverta einstaka menn, jafnvei stjórnmálaflokka, jafnvel ríkisstj., með því að leita að einni, tveimur, þremur setningum úr gömlum ræðum, gömlum blaðaskrifum, til þess að eigna hlutaðeigandi mönnum allt aðrar skoðanir en þeir sjálfir segjast nokkurn tíma hafa haft eða hafi í dag. Og undir þessum kringumstæðum virðist það vera jafngagnslítið gagnvart þessum leiðtogum Framsfl. og það reyndist mönnum í Bandaríkjunum á sínum tíma gagnvart MacCarthy að vitna til annarra ummæla, gamalla og nýrra, sem í felst önnur skoðun en sú, sem MacCarthy vildi að mennirnir hefðu. Ef hlutaðeigandi menn sögðu: Ég er ekki þessarar skoðunar, — þá endurtók MacGarthy og hans menn það tvisvar, þrisvar sinnum, að þeir væru þessarar skoðunar.

Nokkuð líkt gerðist við fyrri hluta 1. umr. þessa frv., þegar flm. þess, einn af helztu og ágætustu leiðtogum Framsfl., sem jafnframt er ritstjóri aðalblaðs hans, hv. 7. þm. Reykv., Þórarinn Þórarinsson, gerði það að einu aðalatriði í sinni framsöguræðu um breyt. á l. um fiskveiðar í landhelgi Íslands að leiða rök að því, að núv. ríkisstj. og þá alveg sérstaklega ég hefði mikinn áhuga á því að leyfa útlendingum atvinnurekstur á Íslandi og þá alveg sérstaklega í íslenzkum fiskiðnaði. Og rökin, sem flutt voru fyrir þessari staðhæfingu, þessum brigzlum í garð minn og ríkisstj., voru ein setning í ræðu, sem ég flutti í Verzlunarráði Íslands hinn 11. júli 1961, eða fyrir næstum tveimur árum. Ég átti að sjálfsögðu ekki von á þessu og hafði auðvitað ekki texta þessarar ræðu við höndina, þegar framsöguræðan var flutt. En hér á skrifstofu Alþingis var að sjálfsögðu skýrsla sú, sem ég nú nýlega hef flutt hinu háa Alþingi um stefnu ríkisstj. í efnahagsbandalagsmálinu. Ég las kafla úr þeirri skýrslu, þar sem rædd er sérstaklega stefna ríkisstj. varðandi rétt útlendinga til að stunda atvinnurekstur á Íslandi og þá sérstaklega í fiskiðnaðinum, þar sem tekin voru af öll tvimæli um, að það væri ekki stefna ríkisstj. að greiða útlendingum gang eða bæta aðstöðu útlendinga, veita útlendingum rétt til atvinnurekstraraðstöðu í íslenzkum fiskiðnaði. En það hefur ekkert þýtt, þótt ég hafi lesið skýrt og greinilega, endurtekið skýrt og greinilega, hver stefna ríkisstj. í þessu máli sé. Það skal vera skoðun mín og ríkisstj. að vilja hleypa útlendingum inn í íslenzkan fiskiðnað og þá væntanlega íslenzkan atvinnurekstur yfir höfuð að tala.

Nú hef ég hér fyrir framan mig texta þeirrar ræðu, sem ég flutti 11. júlí 1961, og sú setning, sem hefur verið gerð að þessu mikla árásarefni á mig, bæði hér á hinu háa Alþingi og í aðalmálgagni Framsfl., hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta, — ég hef áður verið að ræða um fiskveiðilögsöguna og segi í framhaldi af því:

„Hins vegar kæmumst við ekki hjá að athuga stefnu okkar varðandi réttindi útlendinga til löndunar á fiski og rekstrar fiskiðjuvera, ef til aðildar okkar ætti að koma, enda yrði sú stefna, sem nú er fylgt, okkur ekki lengur sjálfum nauðsynleg, ef tryggja mætti með öðru móti, að breyting á henni leiddi ekki til ofveiði.“ Og hér lýkur tilvitnuninni.

Þetta segi ég á miðju sumri 1961, þegar allir ábyrgir og hugsandi menn á Íslandi eru að hugleiða, hvort við Íslendingar eigum að sækja um einhvers konar tengsl við Efnahagsbandalagið til þess að fá það upplýst, með hverjum hætti, með hvaða skilyrðum Íslendingar gætu tengzt Efnahagsbandalaginu, ef þeir teldu það óhjákvæmilegt vegna brýnna viðskiptahagsmuna sinna. Ég hélt satt að segja, að það hefði þá legið alveg í augum uppi og það liggi alveg í augum uppi enn, að það hlyti að bera á góma í viðræðum milli Íslands og fulltrúa Efnahagsbandalagsins, hver stefna Íslendinga nú er og skyldi vera varðandi réttindi útlendinga til löndunar á fiski og rekstrar fiskiðjuvera, því að það er öllum mætavel kunnugt, sem nokkuð þekkja til þessara mála, að eitt grundvallaratriði Efnahagsbandalagsins er að jafna rétt borgara landanna í Efnahagsbandalaginu til hvers konar atvinnurekstrar, og til einhvers slíks ætlast ríki Efnahagsbandalagsins og stjórn þess af þeim, sem tengjast Efnahagsbandalaginu einhverjum böndum, hver svo sem þau bönd eru. Það er gersamlega útilokað fyrir annan aðilann í viðræðum að ráða því, hvað hinn aðilinn talar um. Og það er ekki annað en einfaldasta skynsemisregla að gera sér fyrir fram grein fyrir því, um hvað hinn aðilinn mundi tala, sé líklegur til þess að tala, ef til viðræðu kæmi. Og getur nokkrum heilvita manni dottið í hug annað en það sé líklegt, ef til einhvers konar viðræðna við Efnahagsbandalagið kæmi, að af hálfu Efnahagsbandalagsins mundi einmitt verða rætt um það, hvaða réttindi til handa útlendingum til löndunar á fiski og til rekstrar fiskiðjuvera kæmu til greina af íslenzkri hálfu? Ég fullyrði, að það er nákvæmlega sama, hvort rætt yrði við Efnahagsbandalagið, — um fulla aðild er ekki að ræða í þessu sambandi, vegna þess að full aðild grundvallast á því, að réttindi skuli vera jöfn, — en ég fullyrði, að það er nákvæmlega sama, hvort Íslendingar ræddu við stjórn Efnahagsbandalagsins um aukaaðild eða um tolla- og viðskiptasamning, sem Framsfl. telur að hefði átt að gera við Efnahagsbandalagið, — ég fullyrði, að það er nákvæmlega sama, hvort Íslendingar vildu ræða við stjórn Efnahagsbandalagsins um hugsanlegan aukaaðildarsamning eða hugsanlegan tolla- og viðskiptasamning, þessi mál mundu verða rædd af hinum aðilanum. Þau mundu verða rædd af hinum aðilanum, og ef við á annað borð hugsuðum okkur ekki, að þeim viðræðum lyktaði þannig, að við ætluðumst til alls af gagnaðilanum, en vildum sjálfir bókstaflega ekkert gera í staðinn, þá kæmumst við ekki hjá því að athuga stefnu okkar í þessum málum, og hingað til hef ég ekki haldið, að það væri neitt skaðlegt fyrir nokkurn mann að hugsa sig vel um. Það ber nú eitthvað nýrra við á Íslandi, ef það er verra að hugsa, áður en menn hafast að. Það er ekkert annað, sem ég sagði í þessari ræðu, en þetta, að Íslendingar yrðu að sjálfsögðu að hugleiða þennan mikla vanda, sem þeim og öllum öðrum er búinn, sem leita tengsla við Efnahagsbandalagið. Hvort sem tengslin eiga að vera í formi aukaaðildar eða í formi tolla- og viðskiptasamnings, þá eru þetta atriði, sem ber á góma af hálfu forvigismanna Efnahagsbandalagsins, og þess vegna er sjálfsagt að hugsa vel og vandlega, hvernig við eigum að taka á því máli eða þeim rökum af hálfu þeirra. Það var engan veginn tímabært í júlí 1961. Það ræddi ég hins vegar í skýrslu stjórnarinnar til hins háa Alþingis á s.l. hausti. Þar var farið nánari orðum um þetta efni, og þar segi ég, með leyfi hæstv. forseta:

„Við verðum að hafa það á okkar valdi, hvern atvinnurekstur útlendingar megi stunda hér og hver áhrif þeirra í hverri atvinnugrein megi verða. Fiskveiðar útlendinga innan íslenzkrar fiskveiðilögsögu koma að sjálfsögðu ekki til greina. Hugsanlegur aukaaðildarsamningur yrði að veita Íslendingum rétt til þess að setja reglur um þessi efni. Aðalspurningin í sambandi við aukaaðildarsamning eins og þann, sem ég hef hér rætt, yrði að sjálfsögðu, hvort Efnahagsbandalagið teldi slík ákvæði, sem takmörkuðu skyldur okkar, samrýmanleg því, að við hefðum tollfrjálsan og ótakmarkaðan aðgang að sameiginlega markaðinum.“

Hér er stefna ríkisstj., hér er stefna mín persónulega í þessu máli. Og hún tekur af öll tvímæli um það, að hvorki ríkisstj. né ég höfum hugsað okkur að veita útlendingum rétt til löndunar á fiski eða rekstrar fiskiðjuvera hér á Íslandi, ef til tengsla okkar við Efnahagsbandalagið kæmi. En þrátt fyrir þetta, þó að öllum hv. þm. séu ummæli skýrslunnar ljós, þá skal það samt vera endurtekið aftur og aftur, að við séum fylgjandi því að losa um löndunarreglurnar og hleypa útlendingum inn í fiskiðnaðinn, af því að ég hef sagt það fyrir tæpum tveimur árum, að í þessum viðræðum kæmumst við ekki hjá því að athuga stefnu okkar í þessum málum.

Ég held, að ég þurfi ekki að fara frekari orðum um þetta til þess að sýna fram á, að hér er beitt þeirri aðferð, sem sá löngu látni Ameríkumaður varð heimsfrægur fyrir, að slíta setningar úr samhengi, til þess að reyna að gera menn tortryggilega á þann hátt að eigna þeim aðrar skoðanir en þær, sem þeir hafa haft eða vilja hafa. En fyrst hv. leiðtogar Framsfl. hafa viljað nota þessa gömlu ræðu mína til árása á mig og ríkisstj., þó að ég hafi að vísu sýnt fram á, að þær árásir eru með öllu óréttmætar, og þetta er eins konar hólmgönguáskorun þeirra til mín, þá skal ég taka þeirri áskorun og ræða það við þá, hvort hér séu virkilega til menn, sem ástæða sé til þess að vara við í þessum efnum, hvort ég hafi haldið fram skoðunum, sem ástæða er til þess að berjast gegn og reyna að kveða niður. Ég þarf ekki að taka það fram, að ég mun ekki beita sams konar aðferðum og þessir leiðtogar Framsfl. hafa beitt gagnvart mér í málinu, og mun málflutningur minn á eftir leiða í ljós, að það geri ég ekki.

Hv. framsóknarmenn virðast undanfarið hafa verið að leita að hættulegum mönnum, mönnum með þær hættulegu skoðanir að vilja leyfa útlendingum atvinnurekstur á Íslandi og þá alveg sérstaklega í fiskiðnaðinum. En slíkir menn eru ekki til í Alþfl., þá þekki ég ekki. Slíkir menn eru ekki heldur til í ríkisstj. Íslands. En slíkir menn eru til á Íslandi. Ég þekki t.d. einn mann, sem gegnir mjög mikilli trúnaðarstöðu í ákveðnum stjórnmálaflokki og gegnir jafnframt mjög mikilli trúnaðarstöðu hjá sjálfu ríkisvaldinu. Sá flokkur, sem þessi maður gegnir trúnaðarstöðu hjá, hver skyldi hann vera? Það er Framsfl., flokkurinn, sem hv. flm. frv. er aðalritstjóri fyrir, og flokkurinn, sem síðasti ræðumaður í málinu, hv. 1. þm. Austf., er formaður fyrir. Starf þessa manns hjá ríkinu er það að vera framkvstj. rannsóknarráðs ríkisins, mjög mikilvæg staða. Það skiptir mjög miklu máli, hvaða skoðanir menn í þeirri stöðu hafa einmitt í þessum málum. Og hann er hvorki meira né minna en formaður Félags ungra framsóknarmanna í Reykjavík og heitir Steingrímur Hermannsson. Ég mundi nú eflaust ekki gera skoðanir formanns rannsóknaráðs ríkisins að tilefni umr. hér á hinu háa Alþingi, þegar um slíkt mál er að ræða og þetta, til þess tel ég ekki ástæðu. En fyrst sá maður tekur þátt í stjórnmálabaráttunni og hefur hlotið þann sérstaka trúnað að vera kjörinn formaður Félags ungra framsóknarmanna, formaður pólitískra samtaka framsóknarmanna í sjálfum höfuðstaðnum, þá getur hann að sjálfsögðu ekki til annars ætlazt en skoðanir hans á þessu mikilvæga máli, hvort eigi að leyfa hagnýtingu erlends fjármagns á Íslandi, í hversu ríkum mæli eigi að leyfa útlendingum atvinnurekstur á Íslandi, veki sérstaka athygli, og ekki hvað sízt þegar tveir aðalleiðtogar Framsfl. hafa gert það að aðaluppistöðum í ræðum hér á Alþ. og skrifum í sínu aðalmálgagni, að það séu aðrir menn og þá sérstaklega í ríkisstj., sem hafi stórhættulegar skoðanir í þessum efnum.

Ég minnist þess, að formaður ungra framsóknarmanna, Steingrímur Hermannsson, hafi haldið framsöguræðu um erlent fjármagn á Íslandi á fundi Stúdentafélags Reykjavíkur, sem haldinn er í nóv. 1961, eða eftir að ég held ræðu mína í Verzlunarráði. Ég skal enga tilraun gera til að slíta hér neitt úr samhengi fyrir formanni ungra framsóknarmanna, heldur skal leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa nokkra heila kafla úr þessari ræðu, þannig að við kynnumst ýtarlega skoðunum þessa leiðtoga ungra framsóknarmanna á því máli, sem tveir höfuðforingjar Framsfl. hafa gert að umræðuefni hér í sölum Alþingis.

Að loknum löngum inngangi spyr formaður ungra framsóknarmanna, hver afstaða okkar Íslendinga sé til þess að fá erlent einkafjármagn, sem hann kallar erlent áhættufjármagn, en það er einkafjármagn, sem hann á við — hann spyr orðrétt: „Viljum við leita samstarfs við erlent áhættufjármagn við uppbyggingu okkar atvinnuvega?“ Hann svarar því afdráttarlaust játandi. En svo spyr hann orðrétt: „Hvað höfum við þá upp á að bjóða þeim, sem hér vildu festa erlent fjármagn, þeim einkaaðilum, sem hér vildu festa ertent fjármagn?“ Hann segir nokkru síðar orðrétt: „Við höfum vatnsorku og getum á vissum stöðum boðið upp á ódýrari raforku en þekkist annars staðar í Evrópu.“ Síðar segir hann orðrétt: „Við höfum einnig hverahita, og er ekki ólíklegt, að í sambandi við hann megi byggja upp ýmsan efnaiðnað. Við eigum einhver auðugustu fiskimið í heimi. Og þó að ég álíti í flestum tilfellum ekki nauðsynlegt eða æskilegt að beina erlendu áhættufjármagni inn á þau svið, sem við ráðum sjálfir yfir bæði tæknilega og markaðslega,“ — þetta held ég, að ég verði að lesa aftur, ef það kynni að hafa farið fram hjá ritstjóra Tímans og formanni Framsfl. „Við eigum einhver auðugustu fiskimið í heimi. Og þó að ég álíti í flestum tilfellum ekki nauðsynlegt eða æskilegt að beina erlendu áhættufjármagni inn á þau svið, sem við ráðum sjálfir yfir bæði tæknilega og markaðslega, er það staðreynd, að okkur hefur ekki tekizt að fullnýta svo okkar sjávarafurðir sem skyldi. Á vissum sviðum fiskiðnaðar gæti e.t.v. verið gott að leita samstarfs við aðila, sem hafa fullkomna þekkingu og e.t.v. einhverjar aðrar aðferðir en við eigum að venjast: M.ö.o.: formaður ungra framsóknarmanna í Reykjavík útilokar alls ekki þann möguleika að hleypa útlendu einkafjármagni inn á sjálf fiskimiðin, og hann undirstrikar gagnsemi þess að hleypa útlendu einkafjármagni inn í íslenzkan fiskiðnað. Um það er öll seinni setningin. Svo heldur formaður ungra framsóknarmanna áfram siðar í ræðu sinni orðrétt:

„Eins og ég hef áður sagt, er nauðsynlegt að athuga þegar reynslu annarra þjóða af erlendu áhættufjármagni og lög og reglur, sem þar gilda. Þetta þurfum við að aðlaga að innlendum staðháttum. Hver niðurstaðan verður, veit ég ekki. Slíkt verður að byggjast á ýtarlegri athugun. En í fljótu bragði virðist mér, að hafa ætti í huga eftirfarandi höfuðsjónarmið.“ — Og takið þið, hv. þm., nú vel eftir því, sem nú kemur, sérstaklega leiðtogar Framsfl.: „1) Við eigum að gera stofnun erlendra fyrirtækja í landinu sem frjálsasta.“ Þarna hafa menn það. „Við eigum að gera stofnun erlendra fyrirtækja í landinu sem frjálsasta, en kappkosta hins vegar að hafa tögl og hagldir í okkar eigin hendi með því að krefja slíka aðila um leyfi til þess að kaupa fasteignir, raforku og e.t.v. fleira, sem nauðsynlegt er flestum atvinnurekstri. 2) Við eigum að kappkosta að beina hinu erlenda fjármagni inn á svið, þar sem okkur skortir tækni, reynslu og markaðsöryggi, inn á nýjar atvinnugreinar, sem mundu breikka fjárhagsgrundvöll okkar og gera þjóðarbúskapinn fjölbreyttari og öruggari.“

Að síðustu langar mig til þess að leyfa hv. þdm. að heyra einn kafla enn úr þessari ræðu, og skal hann vera sá síðasti, annars er hún öll mjög fróðleg aflestrar. Formaður ungra framsóknarmanna segir hér, — og það er engu líkara en hann hafi verið forspár og séð fyrir hv. 7. þm. Reykv., aðalritstjóra Tímans, vera að halda þá ræðu, sem hann hélt hér síðast, þegar frv. hans var til umr., en formaður ungra framsóknarmanna segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég hef ekkert minnzt á þá hræðslu, sem lengi vel hefur ríkt hér á landi og víðaannars staðar við óviðráðanleg áhrif erlends stórfjármagns í allri þjóðfélagsþróun. Ég tel okkur Íslendinga skynsama og menntaða þjóð, sem skilur, að nýiendutíminn er liðinn. Jafnvel undirokaðar og ómenntaðar þjóðir Afríku brjóta nú hver eftir aðra af sér fjötra nýlenduveldanna, og fá þau lítið að gert. Ef við leitum samstarfs við erlent áhættufjármagn, er á engan hátt um að ræða einhliða ákvörðun þess um fyrirkomulag og aðbúnað. Við setjumst við samningaborðið eins og tveir sjálfstæðir aðilar og semjum um hagnað báðum til handa. Af þessu stafar sáralítil hætta. Þjóðir, sem eru stórar á okkar mælikvarða, sjá sig tilneyddar að hópast saman til þess að geta keppt við efnahagsþróun stórveldanna. Getum við Íslendingar til lengdar staðið einir, 180 þús. manns, og boðið þessari þróun byrginn? Áhrif einstakra erlendra fyrirtækja í landinu munu reynast hverfandi borið saman við þátttöku okkar í þessum samböndum.“ — Einhverjum kynni nú að detta í hug, að hann væri hér að mæla með inngöngu í Efnahagsbandaiagið. Hefðu aðrir sagt þetta, hefði ekki staðið á þeirri túlkun, en nú held ég áfram: „En ýmsir telja, að hjá því eða einhvers konar samstarfi verði varla komizt til lengdar. Að þeirri niðurstöðu fenginni, að leita beri samstarfs við erlent áhættufjármagn, er nauðsynlegt að kanna lög og reglur, sem gilda hjá öðrum þjóðum um þessi efni, og reynslu þeirra af slíku samstarfi.“

Svo mörg eru þau orð, og sé ég ekki ástæðu til þess að vitna meira í formann ungra framsóknarmanna hér í höfuðstað landsins. En í þessari löngu ræðu hans, sem birt er í tveimur eintökum í sjálfu blaði flokksins, í Tímanum, í tveimur tölublöðum þar, — í þessari ræðu formanns ungra framsóknarmanna er sterkari áróður en ég minnist eftir að hafa heyrt eða séð áður á Íslandi fyrir því, að erlent einkafjármagn sé flutt til landsins, meira að segja í því formi, að stofnun erlendra fyrirtækja á Íslandi sé gerð sem frjálsust. Og svo mikill er áhugi formanns ungra framsóknarmanna í Reykjavík fyrir því að fá erlent einkafjármagn til landsins, að hann útilokar ekki möguleikana á því, að erlendir aðilar fái að nota íslenzka fiskveiðilögsögu. Hann útilokar ekki möguleikana á því, en telur alveg sjálfsagt, að þeir fái aðstöðu til þess að reka fiskiðnað á Íslandi, og telur verkefnin þar einmitt vera mest, af því að þar séu líkur á mestri aukningu, á mestum nýjungum.

Ég held, að ekki verði komizt hjá að spyrja, hvort formaður Framsfl., sem hér talaði síðast, og ritstjóri aðalblaðs Framsfl., sem flytur frv., sem hér er til umr., hafi stutt mann með þessar skoðanir til einnar helztu trúnaðarstöðu innan Framsfl. Og það er ekki ástæðulaust, að um það er spurt, hver sé afstaða þeirra til starfs þessa manns í þeirri stöðu, sem hann nú gegnir. Og ef ástæða er til þess fyrir þessa tvo aðalleiðtoga Framsfl. að hefja sérstakan áróður gegn mér og ríkisstj. á röngum forsendum, hvernig geta þeir þá þolað mann með þessar skoðanir, sem ég hef hér lýst rækilega með hans eigin orðum, og ég veit, að hann hefur þessar skoðanir, hafði þær þá og hefur þær enn, — hvernig geta þeir látið mann með þessar skoðanir vera í þeirri valdaaðstöðu, sem hann er innan þeirra eigin flokks, ef þeir raunverulega telja það jafnhættulegt og kom fram í ræðum þeirra hér áðan, að menn hafi slíkar skoðanir? Hvers vegna snúa þeir ekki geiri sínum þangað, sem nærtækara væri fyrir þá, að fela ekki þeim mönnum trúnað, sem sannanlega hafa skoðanir, sem þeir ráðast harkalega á aðra fyrir að hafa, þótt með röngu sé?

Í rauninni var þetta erindið, sem ég átti í ræðustólinn, að upplýsa þessi atriði, sem ég nú hef upplýst. En í ræðu hv. 1. þm. Austf, voru áðan nokkur atriði, sem ég kemst ekki hjá að leiðrétta og skal gera það stuttlega.

Hv. þm. sagði, þegar hann var að lýsa aðdragandanum að hinum margumtalaða fundi mínum með fulltrúum hagsmunasamtaka 18. ágúst 1961, að hann hefði verið utanbæjar, fyrir norðan, og rekið í rogastanz, þegar hann sá blaðafregnir af þessum fundi, kom í skyndi í bæinn til að kippa í þá þræði, sem hann taldi tilkippilega. Og hann sagði, og í því fólst alvarleg ásökun, að ég og ríkisstj. hafi rætt við fulltrúa hagsmunasamtaka um viðhorf í þessu máli án þess að hafa látið stjórnarandstöðuflokkana fylgjast nokkurn skapaðan hlut með, þeir hafi bókstaflega ekkert um það vitað, hvað var að gerast í málinu, fyrr en þeir lásu blaðafregnir um viðræður, sem fram höfðu farið við fulltrúa hagsmunasamtakanna. En um þessa nefnd hagsmunasamtakanna er það að segja, að strax og markaðsmálin í Evrópu komust á dagskrá, bað viðskmrh. öll helztu hagsmunasamtök í landinu um að tilnefna fulltrúa til að koma öðru hvoru saman til skrafs og ráðagerða í viðskmrn. við þá embættismenn, sem einkum fjölluðu um málið í stjórnarráðinu, og mig. Þeir tóku þessu mjög vel. Ég hef aldrei fundið annað en þeir hafi verið þakklátir fyrir að hafa fengið tækifæri til að fylgjast með og beina fsp. um málið til okkar, sem fylgdumst með því af hálfu ríkisstj. Margir slíkir fundir hafa verið haldnir, auk þess sem sérstök embættismannanefnd hefur starfað að málinu frá því að það yfir höfuð kom á dagskrá. Það var um einn slíkan fund að ræða 18. ágúst, og einn af mörgum, sem nú hefur orðið svo umtalaður. En í því, sem hér hefur verið sagt af hálfu sjálfs formanns stærra stjórnarandstöðuflokksins, felst alvarleg ásökun, ef það væri rétt, að ríkisstj, hefði gefið upplýsingar hagsmunasamtökum í landinu og beint til þeirra ákveðnum fsp. án þess að hafa rætt nokkuð áður við stjórnmálaflokkana, sem sæti eiga á hinu háa Alþingi, því að að sjálfsögðu eiga stjórnarandstöðuflokkar rétt til þess að fylgjast með jafnveigamiklum málum og hér er um að ræða. Vitneskja á ekki að vera einkamál ríkisstj., þegar um slík mál er að ræða. Mér og ríkisstj. hafði aldrei dottið í hug að ræða þetta mál jafnýtarlega og gert var við fulltrúa hagsmunasamtakanna án þess að vera áður búinn að ræða málið við fulltrúa þingflokkanna. Af því að ég mundi og vissi, að það hafði verið gert, lét ég senda eftir gerðabók utanrmn. og hef hana hér fyrir framan mig. Það er haldinn fundur utanrmn. 2. júní 1961, kl. 4, í alþingishúsinu, og þótt að sjálfsögðu sé ekki venja að lesa fundargerðir utanrmn., ætla ég að leyfa mér að lesa upphaf hennar, þar sem greint er frá því, hverjir eru viðstaddir og hvert fundarefnið var, og láta þar staðar numið, en þar stendur: „Mættir voru Gísli Jónsson, Gylfi Þ. Gíslason, er mættur var fyrir Emil Jónsson, Finnbogi R. Valdimarsson, Þórarinn Þórarinsson, Hermann Jónasson og Jóhann Hafstein. Fyrir var tekið að ræða viðskiptabandalög Evrópu.“ Það var fundarefnið. Fundargerðin er mjög löng. Ég flyt hér skýrslu í upphafi fundarins og frásögn af henni er 4 síður, af skýrslunni, sem ég flyt á þessum fundi, og á fundinum eru Hermann Jónasson, sem ég hygg að þá hafi enn verið formaður Framsfl., og Þórarinn Þórarinsson, aðalritstjóri flokksins. Og það var ekki aðeins, að þarna væri gefin ýtarleg skýrsla um allt viðhorf málanna, eins og var þá, 21/2 mánuði áður en hinn margumtalaði fundur með fulltrúum hagsmunasamtakanna var haldinn, heldur fengu allir fundarmenn mjög ýtarleg gögn um allt málið, öll þau gögn, sem þá lágu fyrir um málið í íslenzka stjórnarráðinu. Þrátt fyrir þetta leyfir formaður Framsfl. sér að halda því fram hér í hinu háa Alþingi, að stjórnarandstöðuflokkarnir hafi bókstaflega ekkert fengið að vita um málið, fyrr en þeir fréttu í blöðum af því, að þessi margumtalaði fundur hafi verið haldinn 18. ágúst 1961. En þannig eru því miður ýmsar staðhæfingar fulltrúa stjórnarandstöðunnar í því máli, sem hér er um að ræða.

Þá ræddi hv. 1. þm. Austf. nokkuð um afstöðu fulltrúa Sambands ísl. samvinnufélaga á þessum margumtalaða fundi. En ég tel, að hann eins og raunar nær allir, sem þennan fund og aðra slíka fundi hafa setið, hafi tekið mjög ábyrga afstöðu til málsins, því að hann svaraði þeirri spurningu, sem ég hafði áður með góðum fyrirvara beint til fundarmanna um það, hvort þeir teldu, eins og ástand mála væri þá, rétt að leggja fram umsókn um einhvers konar tengsl við Efnahagsbandalagið, ef fyrir lægi og staðfest væri, að sú umsókn væri algerlega óskuldbindandi. SÍS-fulltrúinn svaraði þessu játandi eins og allir aðrir aðilar á fundinum að einum undanteknum, fulltrúa Alþýðusambandsins. Þessa afstöðu taldi ég mjög ábyrga, fagnaði henni og þótti vænt um hana. Nú hins vegar veit ég, sem ég hef ekki vitað áður, hvað gerðist, skömmu eftir að fundurinn var haldinn. Það gerðist, að 1. þm. Austf. skundaði í bæinn að norðan, kynnti sér málið og hélt um það fund í framkvæmdastjórn Framsfl. til að móta aðra afstöðu en fulltrúi Sambands ísl. samvinnufélaga hafði tekið á þessum fundi, en það er að sjálfsögðu mál, sem kemur þeim við og aðrir þurfa ekki að skipta sér af.

Af því að hv. þm. ræddi nokkuð um það og vildi enn reyna að gera það tortryggilegt, hvers vegna yfir höfuð var rætt sumarið 1961, hvort Íslendingar ættu að senda umsókn um einhvers konar tengsl að Efnahagsbandalaginu, skal ég fara um það örfáum orðum.

Sumarið 1961 var yfirleitt talið, að miklu meiri hraði yrði á öllum viðræðum um stækkun Efnahagsbandalagsins en í ljós kom, að raun varð á. Það töldu meira að segja ýmsir, að í raun og veru væri samið um aðild Breta að Efnahagsbandalaginu, það væri búið að semja um það bak við tjöldin, það væru formsatriði ein, sem ætti eftir að ganga frá. A.m.k. var talið, að hraðinn á málinu mundi verða mikill. Þannig litu öll hin Norðurlöndin á málið, og þess vegna flýttu þau sér öll að leggja fram sínar umsóknir, ýmist um fulla aðild eða um aukaaðild, af því að það var skoðun þeirra eins og allra annarra, að umsókn um einhvers konar aðild eða tengsl væri eina leiðin til þess að fá viðræður við Efnahagsbandalagið. Það var líka ekkert leyndarmál, að Efnahagsbandalagið sjálft, hvorki stjórn þess né helztu aðildarríki þess voru sérlega áfjáð í það, að Efnahagsbandalagið stækkaði. Það er komið á daginn nú, að grunur manna um þetta, jafnvel þá strax var á fullum rökum reistur. Þess vegna sýndi Efnahagsbandalagið mikla tregðu gagnvart þeim ríkjum, sem vildu tengjast því, jafnvel skoraðist undan því að hafa viðræður við ríki, sem þó höfðu sótt um fulla aðild eða aukaaðild eða einhvers konar tengsl. Hitt var talið gersamlega útilokað, að nokkurt ríki fengi aðstöðu til þess að ræða við Efnahagsbandalagið, án þess að slík umsókn lægi fyrir.

Allir menn, sem eitthvað þekktu til mála og þekkja til mála enn, munu vita, að þetta var rétt skoðun á sínum tíma. Hitt var líka alveg augljóst mál, að umsókn gat verið algerlega og hlaut raunar að vera algerlega óbindandi. Þess vegna tel ég víðs fjarri, að það geti verið ásökunarefni á ríkisstj. eða nokkurn þann aðila, sem hugleiddi það í alvöru, hvort ekki væri tímabært fyrir Íslendinga að leggja fram umsókn um einhvers konar tengsl á sumrinu 1961, og það hefði verið ábyrgðarleysi að hugleiða þennan möguleika ekki. Ríkisstj. vildi hins vegar ekki stiga neitt slíkt spor án þess að vera viss um, að ef til kæmi, hefði hún skoðun hagsmunasamtakanna, sem hér áttu hlut að máli, bak við sig, og hún reyndist hafa þau á bak við sig, hefði haft þau bak við sig, ef hún hefði stigið slíkt spor, en það gerði hún ekki og það er líka staðreynd í málinu, að það gerði hún ekki. Á því hafa komið fram ýmsar skoðanir, hvers vegna stjórnin gerði það ekki. því var enn haldið fram af formanni Framsfl., hv. 1. þm. Austf., í ræðu hans hér áðan. sem hefur verið margsagt í blaði hans, Tímanum, að ástæðan til þess, að ríkisstj. hafi ekki sótt um fulla aðild sumarið eða haustið 1961, hafi annars vegar verið hörð andstaða Framsfl. og hins vegar, að ég og íslenzkir embættismenn hefðum fengið þær upplýsingar hjá þýzku ríkisstj., að við mundum ekki fá fulla aðild að Efnahagsbandalaginu, þó að við sæktum um hana. Ég sé enga sérstaka ástæðu til að andmæla þeirri staðhæfingu, að ríkisstj. hafi ekki sótt um fulla aðild að Efnahagsbandalaginu eða tengsl við það sumarið eða haustið 1961 vegna andstöðu Framsfl. Um það tel ég enga ástæðu til þess að fara nokkrum orðum yfir höfuð að tala. Ríkisstj. er einfær um að mynda sér skoðun í málum yfirleitt og gerir það í þessu máli eins og öðru, sem hún sjálf telur rétt vera. Hitt er alvarlegri ásökun, þegar því er haldið fram, að þýzka ríkisstj. hafi sagt okkur, að ekki þýddi að sækja um fulla aðild, og þess vegna hefðum við hætt við það. Hér er sannleikanum svo gersamlega snúið við, að þýzku ríkisstj. var gert jafnljóst og aðilum hér heima og öllum þeim öðrum ríkisstj., sem við höfðum átt viðræður við um þetta mál, að engum stjórnmálaflokki á Íslandi hefur dottið í hug, að Ísland ætti að gerast fullgildur aðili að Efnahagsbandalaginu. (EystJ: Sagði ráðh. þetta í þeim umræðum?) Þetta hefur öllum aðilum, sem við höfum átt viðræður við, verið gert ljóst, að full aðild að Efnahagsbandalaginu kemur ekki til greina frá íslenzku sjónarmiði. Þá fer skörin að færast upp í bekkinn, ef á að endurtaka það enn við mig hér, að ég og þá væntanlega aðrir ráðh. höfum viljað og viljum enn fulla aðild að Efnahagsbandalaginu.

Þær upplýsingar, sem við fengum í Þýzkalandi hjá þýzku ríkisstj. og fulltrúum hennar haustið 1961, voru, að þróun málanna mundi ekki verða eins hröð og gert hafði verið ráð fyrir um sum. arið og Íslendingum lægi því ekki á að taka ákvörðun í málinu, auk þess væri sjálfsagt fyrir Íslendinga að ræða við aðrar ríkisstj. aðildarríkja Efnahagsbandalagsins og stjórn þess í Brussel, og þó að það gæti ekki orðið fyrr en á næsta vori eða næsta sumri, mundu Íslendingar á því engu tapa, hagsmunir Íslendinga mundu í engu skerðast, þó að Íslendingar biðu með að taka ákvörðun sina í málinu þangað til vorið eða sumarið 1962, eftir að hafa þá rætt við hinar ríkisstj. Efnahagsbandalagsins og stjórn bandalagsins í Brussel. Þegar við skýrðum frá þessum niðurstöðum af viðræðunum við þýzku ríkisstj. haustið 1961, skýrðum ríkisstj. og fulltrúum Framsfl. frá þessari niðurstöðu og skýrðum opinberlega frá henni, var ríkisstj. á einu máli um að hafast ekki að í málinu, að bíða átekta, taka engar ákvarðanir, leggja málið ekki fyrir Alþingi, því að það væri ótímabært, heldur biðja um viðræður við ríkisstj. hinna efnahagsbandalagsríkjanna og stjórnina í Brussel. Þessar viðræður fóru svo fram vorið og sumarið 1962. Í þeim viðræðum fengust ýmsar aðrar mjög gagnlegar upplýsingar, og þegar þær höfðu verið skoðaðar vandlega ofan í kjölinn, markaði ríkisstj. þá stefnu, sem kemur fram í skýrslunni, sem ég flutti fyrir hönd ríkisstj. nú á þessu hausti, að full aðild kæmi ekki til greina fyrir Íslendinga, en þær leiðir, sem mundu geta hentað Íslendingum til þess að leysa þeirra viðskiptavandamál, væru annaðhvort aukaaðildarsamningur eða tolla- og viðskiptasamningur. Þetta var sú ályktun, sem ríkisstj. dró af þeim upplýsingum, sem fengust í viðræðunum vorið og sumarið 1962. En jafnframt voru upplýsingarnar þess eðlis, að það var ekki talið tímabært að taka ákvörðun um, hvor leiðin hentaði Íslendingum betur, vegna þess að nógu góðar upplýsingar lægju enn ekki fyrir, væru enn ekki fyrir hendi. Og þetta var stefna ríkisstj., þangað til þeir stóru atburðir gerðust nú alveg nýlega, að útséð er um það, að Efnahagsbandalagið stækki á næstunni.

Það er rétt, sem hv. formaður Framsfl. sagði, að Framsfl. var á móti því, að til þessara viðræðna við stjórn Efnahagsbandalagsins og ríkisstj. aðildarríkjanna væri efnt. Engu að síður urðu þær stórgagnlegar við það að móta stefnu Íslendinga í málinu, þá stefnu, sem fylgt hefur verið, að rasa ekki um ráð fram, að bíða átekta, og það, sem var mikilvægast við viðræðurnar, var það, að í þeim fengum við upplýsingar um, að það væri engin hætta fyrir Íslendinga fólgin í því að bíða. Það var kannske ein mikilvægasta niðurstaðan, sem af viðræðunum fékkst. Við gátum beðið átekta, eins og við vildum gera, með góðri samvizku, vegna þess að við vorum ekki að stefna hagsmunum Íslendinga í neinn voða með því að biða. Slíka ályktun hafði engin önnur þjóð í Vestur-Evrópu þorað að draga. Allar aðrar þjóðir, að Finnum undanskildum, sem af augljósum ástæðum höfðu aldrei hugsað sér að leita neinna tengsla við Efnahagsbandalagið, — allar aðrar þjóðir höfðu haldið, að það stefndi sínum viðskiptahagsmunum í bráðan voða, ef þær biðu með að leita tengsla við Efnahagsbandalagið. Það gat því verið, að ýmis öfl hér héldu því fram, að íslenzka ríkisstj. væri sofandi, hún svæfi á verðinum, hún vanrækti að gæta hagsmuna Íslendinga með því að fá ekki upplýsingar um, hvers konar tengsl við Efnahagsbandalagið við gætum fengið. En einmitt vegna þessara viðræðna, sem áttu sér stað haustið 1961, vorið 1962 og sumarið 1962, var augljóst mál, að við vorum engum hagsmunum Íslendinga að stofna í voða með því að bíða. Þess vegna gerðum við það með góðri samvizku. Og nú hefur reynslan sýnt, að það var ekki aðeins að við stofnuðum ekki hagsmunum í voða með því að bíða, heldur gerðum fullkomlega rétt og það eina rétta með því að bíða eins og við gerðum.

Að síðustu er svo eitt atriði, sem varðar umr., sem fram fóru á ráðstefnu Frjálsrar menningar um efnahagsbandalagsmálið í janúar 1962. Eysteinn Jónsson segir, að á þeim fundi hafi ég haldið því fram af miklu kappi, að tolla- og viðskiptasamningsleiðin væri Íslendingum ekki fær. Þetta er ekki rétt, og þetta teljum við verða að leiðrétta, og það þarf að segja nokkra sögu í þessu sambandi.

Það er alveg rétt, sem hv. formaður Framsfl. heldur fram hér og skal ég með ánægju staðfesta það, að hann hefur frá upphafi talið, að tolla- og viðskiptasamningsleiðin væri eina leiðin, sem hentaði Íslendingum í þessu máli. Það kom fram í fyrsta samtalinu, sem við áttum um málið. Á því hefur aldrei verið nokkur vafi í mínum huga, að hv. 1. þm. Austf. hefur haft þessa skoðun, þó að ég hafi hins vegar talið, að á sínum tíma í upphafi hafi hún ekki verið nægilega vel rökstudd, en það er annað mál. Þess vegna verð ég að segja, að mér kom ræðan, sem hann flutti á ráðstefnu Frjálsrar menningar í janúar 1962, dálítið á óvart, vegna þess að þótt það væri augljóst aðalatriði í boðskap hans, að leysa ætti vanda Íslendinga eftir tolla- og viðskiptasamningsleiðinni, sagði hann í ræðunni, því tók ég eftir strax, — þá sagði hann í ræðunni, að Íslendingar gætu e.t.v. leyst vanda sinn á grundvelli 238. gr. Rómarsamningsins, en það er sú grein, sem fjallar um aukaaðild. Ég verð að segja, að þegar á fundinum kom ég þessu ekki heim og saman, að hv. þm. boðaði sem aðalatriði stefnu sinnar, að Íslendingar ættu að gera viðskipta- og tollasamning við Efnahagsbandalagið, sem ég vissi að var í samræmi við skoðanir hans, en sagði jafnframt, að taka ætti til athugunar, hvort leysa mætti vanda Íslands á grundvelli 238 gr. samningsins, sem er aukaaðildarleiðin. Þessu kom ég ekki heim og saman og hef satt að segja ekki komið heim og saman enn í dag.

Nú sagði hv. þm. í ræðu sinni áðan, að þá hafi hann talið, að tolla- og viðskiptasamningur væri hugsanlegur sem einhvers konar form á aukaaðildarsamningi. Hann tók ekki fram, hvort hann væri þessarar skoðunar enn. En ef hann hafði þá þessa skoðun, er náttúrlega hreinlega verið að deila um keisarans skegg, hvort menn tala um aukaaðildarsamning eða tolla- og viðskiptasamning. Þá er enginn munur á þessu tvennu. Mér virtist það vera alveg augljóst mál á ræðu hans á þessari umræddu ráðstefnu, að um einhvers konar misskilning væri að ræða hjá hv. formanni Framsfl., og misskilningurinn gat verið tvenns konar, annaðhvort að hann héldi, eins og hann segir núna, að tolla- og viðskiptasamningur gæti orðið á grundvelli 238. gr. Rómarsamningsins, þ.e. tolla- og viðskiptasamningur gæti orðið eitt form aukaaðildarsamnings. Þetta segir hann nú að sé misskilningur. Hann telur þetta nú vera misskilning. Hinn misskilningurinn, sem verið gat um að ræða og mér datt strax í hug á þessum fundi, var, að hv. formaður Framsfl. héldi, að Íslendingar gætu fengið tolla- og viðskiptasamning, sem í fælist lækkun á tollum Efnahagsbandalagsins gagnvart Íslendingum einum, að hugsanlegt væri, að það mætti ræða þess konar tollasamning við Efnahagsbandalagið, að það lækkaði tolla á sjávarafurðum og sú tollalækkun gilti gagnvart einni þjóð, Íslendingum einum. Ég hélt satt að segja, að um þennan misskilning hjá hv. þm. væri að ræða á þessum fundi, og þess vegna stóð ég upp svo að segja strax á eftir til að undirstrika það, að þetta væri misskilningur. Það var það atriði, sem hann vitnaði í hjá mér hér áðan, þegar ég leiðrétti þennan alveg augljósa misskilning, því að ég sagði, — það er endurtekning á tveimur stuttum ræðum, sem ég hélt um málið:

Ég vil vara menn við að halda, ef einhverjum dettur það í hug, að Íslendingar gætu átt kost á þess konar tollasamningi við Efnahagsbandalagið, að tollalækkunin gilti gagnvart Íslendingum einum, og skýringin á þessu er einfaldlega sú, að öll ríki Efnahagsbandalagsins eru aðilar að GATT, þ.e. alþjóða tolla- og viðskiptasamningnum, en reglur hans eru þannig, að ef eitt ríki lækkar tolla sina, verður sú tollalækkun að gilda gagnvart öllum þjóðum. Það er því fullkomlega útilokað, sagði ég, að hugsanlegt væri, að Íslendingar fengju lausn á sínum vandamálum með sértollum við Efnahagsbandalagið. Slíkur viðskipta- og tollasamningur kemur ekki til greina, sagði ég strax í janúar 1962.

Ég vissi vel, hvað ég var að segja um þetta, og öll reynsla síðan hefur staðfest, að þetta var auðvitað fullkomlega rétt. En nú segir hv. þm. enn í ræðu áðan, að ég hafi á þessari ráðstefnu prédikað af kappi gegn tolla- og viðskiptasamningsleiðinni. Ég talaði ekki nema gegn slíkum ímynduðum tolla- og viðskiptasamningi, sem ég vissi þá og veit enn að útilokað er að Íslendingar og nokkur önnur þjóð geti fengið. Ef jafnáhrifamikill maður og fær maður og hv. formaður Framsfl. kynni enn að vera í einhverjum vafa í þessu atriði, ef hann kynni enn að trúa því, að tolla- og viðskiptasamningsleiðin, sem hann er alltaf að mæla með fyrir Íslendinga, geti þýtt þetta, þá satt að segja held ég, að það mundi aldrei hafa hvarflað að nokkrum manni hér að taka ekki tolla- og viðskiptasamningsleiðina fram yfir allar aðrar hugsanlegar leiðir um tengsl við Efnahagsbandalagið. Það gefur alveg auga leið, að þá væri þetta það eina, sem við ættum að keppa og stefna að. En þetta er ímyndun. Slík leið er ekki og hefur aldrei verið fyrir hendi, hvorki fyrir okkur né fyrir nokkra aðra þjóð. Raunar væri mjög gott að fá það staðfest af hálfu formælenda Framsfl., að um þennan misskilning sé a.m.k. ekki lengur að ræða, hafi hann einhvern tíma verið fyrir hendi.

Að síðustu skal ég svo aðeins segja, að mér finnst í raun og veru hið háa Alþingi hafa annað þarfara við sinn tíma að gera á þessum síðustu annadögum þingsins en eyða tíma sínum í umr., sem fyrst og fremst virðast hafa það að markmiði að snúa út úr gömlum ummælum manna og eigna mönnum skoðanir, sem þeir hafa varla við að afneita, að þeir hafi eða hafi nokkurn tíma haft.