05.04.1963
Neðri deild: 66. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í C-deild Alþingistíðinda. (2455)

200. mál, fiskveiðar í landhelgi

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að segja nokkur orð til viðbótar og þá ekki sízt í tilefni af ræðu hæstv. viðskmrh. á dögunum, en hann svaraði nokkuð því, sem ég hafði lagt til þessa máls. En mjög margt af því, sem hæstv. ráðh. sagði, var á hinn bóginn alveg út í hött.

Hann tók sér fyrir hendur að tilgreina hér mörg ummæli, sem ungur maður, Steingrímur Hermannsson, hafði viðhaft í ritgerð eða ritgerðum undir nafni í blöðum varðandi afstöðu hans persónulega til þess, hvort til greina kæmi og þá hvernig, að erlendu fjármagni yrði leyft að koma til greina í íslenzkum atvinnurekstri, Allt var þetta að sjálfsögðu þessu máli gersamlega óviðkomandi og óviðkomandi afstöðu Framsfl. varðandi rétt útlendinga til að taka þátt í fiskiðnaði eða landa hér fiski. Ekkert af því, sem hæstv. ráðherra sagði um þetta, kemur afstöðu Framsfl. í því atriði eða þeim mikilsverðu málum nokkurn skapaðan hlut við. En það var ósmekklegt af hæstv. ráðherra að lesa þessi ummæli og hártoga þau á ýmsa lund og leggjast af þeim, vegna þess að þessi ungi myndarmaður hefur ekki aðstöðu til þess að ræða hér við ráðherrann eða skýra sitt viðhorf. Þess vegna var þetta mjög ósmekklegt af hæstv. ráðherra. Og allur var hæstv. ráðherra í mjög óviðfelldnum ham í þessum ræðuhöldum, eins og kemur raunar fram óbeint af sumu því, sem ég mun segja hér á eftir.

Hann hafði hin furðulegustu ummæli um ýmislegt í sambandi við Steingrím Hermannsson, eins og t.d. hvernig forráðamenn Framsfl. gætu látið slíkan mann hafa trúnaðarstöðu í Framsfl. Þessi ungi maður er formaður í Félagi ungra framsóknarmanna í Reykjavík, og það er ekki síður í Framsfl., að svokallaðir framámenn í flokknum skipi menn í slíkar stöður. Menn eru valdir í þær, og hinir ungu menn velja þá menn í slíkar stöður, sem þeir vilja fyrir þeim trúa, algerlega íhlutunarlaust af öllum svokölluðum forráðamönnum flokksins, þannig að þetta var náttúrlega einnig mjög út í hött, eins og allt það, sem hæstv. ráðherra sagði um þetta efni.

En fyrst hæstv. ráðherra fór að ræða hér um skoðanir Steingríms Hermannssonar í þessu sambandi, finnst mér hann hafa brotið af sér, ráðherrann, stórkostlega með því að greina þá ekki líka frá skoðunum þessa unga manns, — fyrst hann vildi draga upp mynd af þeim hér í þinginu, — skoðunum þessa unga manns á afstöðu Íslands til Efnahagsbandalags Evrópu. En þær skoðanir hefur einmitt þessi ungi myndarmaður látið í ljós í skörulegri grein, sem birt hefur verið og ég efast ekki um, að hæstv. ráðh. er ákaflega vel kunnugt um. Hann hefur vafalaust fylgzt mjög vel með öllu því, sem ritað hefur verið um þau mál, efnahagsbandalagsmálin, í blöðin. Og þessa grg. er að finna í Tímanum laugardaginn 9. febr. 1962, og ég vil skora á hæstv. ráðh. að bæta úr með því að gera þingheimi grein fyrir þeim skoðunum, sem koma fram af hendi þessa unga manns í þeirri grein, til þess að menn fái heildarmynd af þeim. Ég skora á ráðh. að láta sig ekki henda að slíta út úr einstaka þætti, sem komið hafa frá þessum manni um þessi efni, og verða þannig sekur um það, sem hann ásakar aðra um, í sambandi við sjálfan sig. Hann segir sem sé, að öðrum hætti svo mikið við því að taka bara einstök atriði út úr, en gefa ekki heildarmynd af afstöðu hans og skoðunum. Vil ég því skora á hæstv. ráðherra að bæta úr þessu og bæta líka úr þeim órétti, sem hann hefur sýnt þessum manni, með því að gera grein fyrir skoðunum hans á afstöðu Íslands til Efnahagsbandalagsins, sem koma greinilega fram í þessari grein, sem ég vísaði ráðherranum á og er í Tímanum laugardaginn 9. febr. Ráðherra á aðgang að þessari grein hér frammi á lestrarsalnum og getur fengið hana á augabragði til að bæta hér um.

Það er ekki drengskaparlegt að haga sér eins og hæstv. ráðherra gerir í garð Steingríms Hermannssonar, með því að hártoga ýmislegt af því, sem hann sagði, og láta svo algerlega undir höfuð leggjast að gera grein fyrir afstöðu hans til Efnahagsbandalagsins og einmitt réttinda útlendinga í því sambandi til þess að hafa hér atvinnurekstur, þ. á m. fiskiðnað og annað slíkt, þar sem þetta lá allt saman fyrir og hæstv. ráðherra var það vel kunnugt.

Þá vil ég þessu næst víkja að aðalefni þess frv., sem hér er verið að ræða, þ.e.a.s. réttindi útlendinga til að reka hér fiskiðnað og landa hér fiskafurðum.

Ég hef haldið því fram, að hæstv. ríkisstj. hafi undanfarin missiri alveg ótvírætt látið það í ljós, að hún væri til með að breyta stefnu Íslendinga í sjávarútvegsmálum frá því, sem hún er mörkuð í fiskveiðilöggjöfinni, og þetta er ekki í eitt skipti látið í ljós, heldur þráfaldlega og kemur alls staðar þannig fram, að ríkisstj. telur geta komið til greina í samningum við Efnahagsbandalagið að leyfa útlendingum að landa hér fiski og fiskafurðum og að leyfa útlendingum að taka þátt í fiskiðnaði. Þetta kemur þráfaldlega fram. Hæstv. ráðherra vill drepa þessu á dreif og flækja þetta með því að segja, eftir því sem bezt verður skilið, að það sé ekki stefna hæstv. ríkisstj., að útlendingar eigi að hafa hér frjálsan aðgang að fisklöndunum og þátttöku í fiskiðnaði. En því hefur aldrei verið haldið fram af mér, að hæstv. ríkisstj. hafi ráðgert það í þessum yfirlýsingum, að útlendingar ættu að hafa hér frjálsan aðgang í þessum efnum. Hitt er öruggt, að ráðh. hlýtur að segja þetta beinlínis til að flækja málið og á einhvers konar flótta frá því, sem hæstv. ríkisstj. hefur marglýst yfir. Ríkisstj. hefur haft þann fyrirvara á um þetta, að þetta gæti ekki orðið frjálst. Alltaf í seinni tíð a.m.k. hefur ríkisstj. haft þann fyrirvara á, að þetta gæti ekki orðið frjálst, en jafnframt, að á hinn bóginn kæmi til greina að breyta þeim reglum, sem nú hafa verið í gildi um alllangt skeið varðandi landanir og stofnsetningu atvinnufyrirtækja útlendinga, þar sem þær séu að ýmsu leyti orðnar úreltar, eins og hæstv. ráðh. hefur orðað þetta á einum stað. Það er ekkert um þetta að villast, það þarf ekkert að vera að þræta um það, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki aðeins viljað halda þessum möguleika opnum og heldur honum opnum, heldur hefur hún beinlínis sífellt alið á því, að það væri ekki nema eðlilegt að breyta þannig stefnunni í sjávarútvegsmálum að hleypa útlendingum að. Þess vegna er það náttúrlega stórkostlega ámælisvert, þegar hæstv. ráðh. er að reyna að flækja þetta hér á þá lund, að helzt er að skilja, að hann vilji ekki kannast við það viðhorf ríkisstj., að það eigi að breyta um stefnu í sjávarútvegsmálum, ef á því þurfi að halda í samningum við Efnahagsbandalagið, og leyfa útlendingum landanir og þátttöku í íslenzkum fiskiðnaði, að vísu með þeim fyrirvara, að þetta eigi ekki að vera frjálst, heldur verði að vera um þetta reglur, og stundum er talað um, að þetta megi ekki ganga lengra en svo, að það megi ekki stafa af því ofveiði. Þetta er í mörgum yfirlýsingum hæstv. ráðh. og fleiri ráðh., bæði innanlands og utan, og í ræðunni, sem hæstv. ráðh. vitnar til og hann flutti hér sem skýrslu um Efnahagsbandalagsmálið, er sagt, að það verði að vera um þetta reglur.

En hitt er alveg augljóst, að ríkisstj. stefnir að því að breyta þessu í sambandi við aukaaðild Íslands að Efnahagsbandalagi Evrópu. Það getur því hver sem vill gert það upp við sig, hvort hann vill styðja ríkisstj. til að taka upp þessa stefnu eða ekki, og það er það, sem menn verða hreinlega að gera upp við sig. Vilja menn styðja ríkisstj. til að breyta stefnunni í sjávarútvegsmálum þannig að leyfa útlendingum landanir á fiski og þá eftir einhverjum óákveðnum reglum, sem ríkisstj. virðist hugsa sér að ákveða, því að hún segir ekkert um það núna, hversu víðtækt hún vill hafa þetta? En þetta er stefnan.

Um það á auðvitað ekki að vera hægt að deila, þar sem nokkurt siðferði ríkir í opinberum málum, að þetta hefur ríkisstj. margoft látið í ljós, bæði innanlands og utan, og það veit hæstv. viðskmrh. mætavel. Þess vegna á hann ekki að vera að þræta fyrir þetta, enda skildi ég hann sannast að segja tæpast þannig, heldur hafi hann helzt viljað flækja þetta með því að segja, að menn héldu því fram, að ríkisstj. hefði lýst því yfir, að útlendingarnir ættu að hafa hér frjálsan — algerlega frjálsan aðgang í þeim efnum. Það hefur ríkisstj. ekki beinlínis sagt, hún hefur haft fyrirvara þá, sem ég hef verið að lýsa. En það er augljóst, hvert hún stefnir. Hún stefnir að breytingu á viðhorfinu í sjávarútvegsmálum að þessu leyti, stefnir að því að setja hér nýja fiskveiðalöggjöf, og það er einmitt ein ástæðan fyrir því, að Framsfl. hefur ákveðið að taka upp baráttu gegn aukaaðild í efnahagsbandalagsmálinu, það er ein af ástæðunum fyrir því.

Í tilefni af þessu öllu viljum við líka endurskoða íslenzka löggjöf og gera strangari og gleggri ákvæði um, hverjir möguleikar útlendinga geti verið hér í landinu varðandi þátttöku í fiskiðnaðinum o.fl. Við teljum ákvæðin um þessi efni ekki nógu sterk. Og það eru þessar sífelldu bollaleggingar hæstv. ríkisstj. um að hleypa útiendingum inn í fiskiðnaðinn og láta þá landa hér fiski, sem gera það lífsnauðsynlegt að draga þetta mál núna mjög sterklega fram og fá sterkari og betri ákvæði í lögin en nú eru þar fyrir.

Ég veit, að það er hægt að vernda íslenzkan fiskiðnað talsvert mikið með beitingu útflutningslöggjafarinnar, því að það er ekki hægt að flytja vörur út úr landinu nema með leyfi yfirvaldanna, og þannig má náttúrlega styðja þá framkvæmd, að fiskiðnaðurinn sé algerlega í höndum íslenzkra að óbreyttri löggjöf. En núv. hæstv. ríkisstj. er alls ekki treystandi til að styðja íslenzka fiskiðnaðinn á þessa lund. Reynslan sýnir það. Núv. hæstv. ríkisstj. væri líklegust til þess að beita þannig útflutningslöggjöfinni, að útlendingum verði raunverulega hleypt hér inn í fiskiðnaðinn, yrði greitt fyrir þeim t.d. í gegnum leppa.

Við vitum, að það er ein af aðferðunum, sem útlendingar reyna að hafa á næstunni til að reyna að komast hér inn í fiskiðnaðinn, að brjóta niður fisksölusamtökin, mola þau niður. Og það ber nokkuð á þessu nú þegar. Það er reynt að mola niður fisksölusamtökin og fá fiskafurðirnar inn í sölukerfi erlendra hringa, í stað þess að sala þeirra sé á vegum íslenzkra samtaka, fiskframleiðendanna. Það er ekki hægt að treysta eins á útflutningslöggjöfina í þessu efni og menn hafa í raun og veru áður haldið, og það er vegna þess, að hæstv. ríkisstj. er veik fyrir í þessu og virðist ekki hafa skilning á því, hver lífsnauðsyn það er, að Íslendingar verndi sig fullkomlega að þessu leyti.

Alveg sérstaklega kemur þetta allt glöggt og skýrt fram í sambandi við Efnahagsbandalagið. Hæstv. viðskmrh. veit það ákaflega vel einmitt í sambandi við þau samtöl, sem hafa átt sér stað á milli okkar í Framsfl. og þeirra til að fylgjast með, hvað verið væri að gera í efnahagsbandalagsmálinu, að við höfum alveg sérstaklega varað sterklega við þessum bollaleggingum um breytingar á stefnunni í sjávarútvegsmálum Íslendinga, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið með, bæði innanlands og utan. Og þetta ætti hæstv. ráðh. að kannast mjög vel við.

Hér er því ekki verið að þeyta upp neinu moldviðri, eins og hæstv. ráðh. vildi láta í veðri vaka, og alveg ósæmilegt að minni skoðun af hæstv. ráðh. að kenna þetta við MacCarthyisma og annað þess konar. Hér eru bara dregnar fram í dagsljósið skýrar og glöggar stefnuyfirlýsingar hæstv. ríkisstj., sem ekkert lát hefur verið á.

Hitt er svo annað mál, að hæstv. ráðh. og ríkisstj. hafa nú beyg af þessum yfirlýsingum, þegar nálgast kosningaátökin. En hún kemst auðvitað ekki undan því, að í þessum kosningum, sem nú eru fram undan, verður það eitt stórmálið, hvort menn þora beinlínis að styðja stjórnarflokkana, sem bollaleggja þetta undanhald í fisklöndunar- og fiskiðnaðarmálunum, sem í framkvæmdinni þýddi í raun og veru sama sem að hleypa útlendingum inn í landhelgina sjálfa, eins og kröftuglega hefur verið sýnt fram á af fyrsta flm. þessa máls. Og það er alveg sama, hvernig ráðh. hamast, undan því verður vitanlega alls ekki komizt, að þetta dregst inn í það uppgjör, sem fram undan er, og á og hlýtur að gera það. Menn væru orðnir undarlega saman settir, ef þeir gætu hlustað á og vitað um sífelldar yfirlýsingar um stefnubreytingar í öðru eins máli og þessu án þess að ræða þær á Alþingi og annars staðar, þar sem vettvangur gefst með eðlilegu móti.

Einnig hefur það verið mjög skilmerkilega greint af flm. þessa máls og siðast í þeirri ræðu, sem hann flutti, þegar þetta var á dagskrá nú síðast, að afstaða stjórnarflokkanna í efnahagsbandalagsmálinu er sem sagt sú að vilja raunverulega aukaaðild. Það dylst engum, að það er það, sem þeir fyrst og fremst vilja, afstaðan er beinlínis byggð á því, að það verði samið um atvinnuréttindi fyrir útlendinga í landinu. Hún er byggð á því.

Allt, sem komið hefur frá hæstv. ríkisstj., og aliar fregnir og upplýsingar úr öðrum löndum benda alveg eindregið til þess, að slík aukaaðild sé alls óhugsandi öðruvísi en einhver veruleg réttindi verði látin í sambandi við fisklandanir og fiskiðnað.

Í skýrslunni, sem hæstv. ráðh. lagði hér fram, er þetta raunar hreinskilnislega sagt, en óhreinskilnin í skýrslugerðinni liggur í því, að þó að hæstv. ráðh. viti, að það er fiskiðnaðurinn og fisklandanirnar, sem hafðar eru í huga, þá nefnir hann það hvergi berum orðum. Það er bara talað um atvinnurekstrarréttindi. En þó að þar sé náttúrlega margt annað haft í huga, þá er það alveg sérstaklega fiskiðnaðurinn og fisklandanir, sem eru hafðar í huga. Og það hefur ekkert verið farið dult með það við hæstv. ráðh., og hann veit þetta.

En hvers vegna er þá hæstv. ráðh. að reyna að láta líta svo út sem fiskmálið sé ekkert þessu viðkomandi? Samt segir hæstv. ráðh. í skýrslunni, að gallinn á aukaaðildarleiðinni sé sá, að þá komi til samninga um viðkvæm mál. Það eru einmitt atvinnurekstrarmálin. Hvers vegna er ráðh. með þessi látalæti? Og hvað eru þeir yfirleitt að tala um aukaaðild og þykjast svo í öðru orðinu ekki vilja ljá máls á neinu í þessa stefnu? Þetta er alveg furðulegur málflutningur, að telja það árásir á sig, að á það sé bent, að þeir telji til greina koma nýja stefnu í þessum málum, þótt þeir jafnframt dragi sterklega fram aukaaðildarleiðina og segi, að henni fylgi einmitt þetta. Hver botnar í þessu? Menn mega nú ekki verða svo hræddir, að þeir tapi bókstaflega ötlu samhengi, eins og óneitanlega virðist helzt eiga sér stað í samhandi við það, sem frá hæstv. ríkisstj. kemur í þessu tilliti.

Þá er annað, sem er þessu skylt, sem hæstv. ráðh. drap á. Við vitum, að þó að hæstv. ríkisstj. hafi sagt upp á siðkastið og núna í skýrslunni, að tvær leiðir gætu komið til greina fyrir Ísland í efnahagsbandalagsmálinu, þá hefur hún kallað tolla- og viðskiptasamningsleiðina ábyrgðarleysi, því að hún hefur sagt það ábyrgðarleysi, að framsóknarmenn hafa gert það upp við sig, að þeir vilja taka hana fram yfir. Í því sambandi segir svo hæstv. ráðh., að þó að menn vildu fara tolla- og viðskiptasamningsleiðina, þá komi alls konar kröfur til greina frá Efnahagsbandalaginu og aðilum þar kannske, segir hann, og sótti svo í sig veðrið og fullyrti, að slíkt mundi koma til greina. En í skýrslu hæstv. ráðh., sem hann lagði fyrir þetta þing í haust, stendur orðrétt: „Ef tollasamningsleiðin er farin, kemur hins vegar alls ekki til slíkra samninga,“ þ.e.a.s. samninga um atvinnurekstrarréttindi og annað slíkt, sem fylgdi aukaaðildarleiðinni.

Ráðh., sem sagði þessi orð í haust og gerði svona grein fyrir tollasamningsleiðinni þá, að ef hún væri farin, kæmi ekki til samninga um viðkvæmu málin, hann segir nú alveg þveröfugt. Það er m.ö.o. ekkert að marka, sem þessi hæstv. ráðh. — og það er grátlegt að þurfa að segja það — sem þessi ráðh. segir um þessi mál. Ég segi: það er sorglegt. Ég sagði grátlegt, en ég meina nú fremur sorglegt, — sorglegt að þurfa að segja þetta. Ef ráðh. meinar, að þessi atriði komi líka til í sambandi við tolla- og viðskiptasamningsleiðina, hvers vegna sagði hann þá í haust í skýrslunni eftir margra missira athuganir á þessum málum, að ef tollasamningsleiðin væri farin, kæmi hins vegar alls ekki til slíkra samninga? Og þetta „slíkra“ vísar til samninganna um atvinnurekstrarréttindin, þ.e.a.s. hin viðkvæmu efni.

Í framhaldi af þessu sagði svo hæstv. ráðh., að menn yrðu að búa sig undir að taka afstöðu til slíks, og ef menn gerðu það ekki, en væru til viðtals, ætluðust menn til alls og vildu ekkert láta.

Hér er allt orðið öfugt í huga hæstv, ráðh. Ef samningar eru teknir upp um tolla- og viðskiptamál, þá er ekkert gagnkvæmt til í því, að hér sé krafizt atvinnurekstrarréttinda af okkur í staðinn fyrir tollalækkanir. Það er auðvitað hliðstætt, að tollalækkun komi á móti tollalækkun og fyrirgreiðsla í viðskiptum á móti fyrirgreiðslu í viðskiptum. Þetta veit ég, að hæstv. ráðh. hefur oft sjálfur bent á í sambandi við þessi mál og það alveg réttilega og tekið fram á réttum stöðum. Það er þetta, sem e,r hliðstætt. En hvers vegna er hann allt í einu núna að snúa þessu við? Ég skil þetta ekki — og skil það þó, því að hér getur ekki legið annað til grundvallar en kviði hæstv. ráðh. út af því, að þjóðin vilji alls ekki þessa nýju stefnu m.a. í fiskimálum og atvinnurekstrarmálum, sem stjórnin er sífellt að bollaleggja og þjóðinni mun ekkert þykja aðgengilegri, þó að hæstv. ráðh. láti fylgja einhverja fyrirvara um, að réttur útlendinga eigi að vera eftir einhverjum reglum og ekki ótakmarkaður. Við þekkjum nú svona hér um bil, hvernig það mundi verða í framkvæmdinni hjá þeim, sem nú stjórna a.m.k. En það er rétt, þeir hafa látið slíka fyrirvara fylgja. En þeir hafa í mínum augum sáralítið gildi og sennilega í augum fleiri. Þeir fylgja, fyrirvararnir, oftast nær, en stundum er ákafinn svo mikill, að það eitt er látið nægja sem fyrirvari, að þátttaka útlendinga megi ekki valda ofveiði. En ég held því fram, að hér sé um svo stórkostleg mál að ræða, að allgóður þjóðarbúskapur Íslendinga og það, að við höfum getað lifað hér menningarlífi, byggist beinlínis á því, að við höfum haft fiskveiðarnar fyrir okkur eina, fisklandanirnar fyrir okkur eina og fiskiðnaðinn fyrir okkur eina. Og ég held því fram, að ef þessu verður breytt, öllu snúið við og útlendingar látnir taka við þessum málum, þá sjáum við okkar sæng útbreidda, þess vegna sé aldrei of varlega farið í þeim efnum. Og ég verð að segja eins og er, að mér hefur fátt gramizt meira síðustu missirin en þessar léttúðugu bollaleggingar hæstv. ríkisstj. um, að það eigi að breyta stefnunni í þessum málum og það sé Íslendingum fyrir beztu með meiru.

Hæstv. ráðh. sagði ýmislegt fleira í þessu sambandi, sem full ástæða er til að minnast aðeins örfáum orðum á, ekki sízt þar sem sá nýstárlegi háttur er nú hafður á, að efnahagsbandalagsmálið fæst alls ekki rætt. Ég benti á það hér utan dagskrár, að þm., sem kvöddu sér hljóðs um efnahagsbandalagsmálið í nóvember í fyrra, eru ekki farnir að fá að taka til máls enn og komið fram undir páska. Þetta er nú þingræðið á Íslandi og lýðræðið í dag. Og þetta er bara fyrir það, að hæstv. ríkisstj. vill bæla niður umr. um efnahagsbandalagsmálið, af því að hún óttast málstað sinn, að hann sé ekki vinsæll meðal þjóðarinnar. Þess vegna er haldið svona á þessum málum, og á 64 þingdögum hefur málið einu sinni verið tekið til umr.

En hæstv. ráðh. sagði, og vildi leiðrétta hv. 7. þm. Reykv., að það hefðu allir flokkar undireins gert sér ljóst, að full aðild gæti ekki komið til greina, og það hefði verið kirfilega látið vitnast í aliar áttir, — efnislega var það þannig, sem hæstv. ráðh. tók fram. Þetta veit hæstv. ráðh. að er alls ekki rétt. Og ég er alveg hissa á honum að segja þetta. Það er til dæmis um þetta, að í októbermánuði í fyrra vildum við láta segja þetta, stungum upp á því, fulltrúar Framsfl., að þetta væri sagt strax. Við vildum helzt, eins og margkunnugt er, ekki láta neinar viðræður fara fram erlendis um þessi mál, en ef viðræður færu fram, þá vildum við láta segja það sem lágmark strax, til þess að fyrirbyggja allan misskilning, að full aðild kæmi ekki til greina og það kæmi aldrei til greina, að Íslendingar gengju undir samstjórnina. Ríkisstj. vildi alls ekki segja þetta þá, og það var ekki fyrr en síðar, að full aðild kæmi ekki til, og enn í dag hefur hæstv. ríkisstj. ekki viljað lýsa því yfir, að það kæmi ekki til greina, að Íslendingar gengju undir samstjórnina í efnahagsmálum. Enn í dag hefur hæstv. ríkisstj. ekki viljað lýsa því yfir, að það kæmi ekki til greina, að Íslendingar gengju undir samstjórnina. Og það var ekki fyrr en hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. voru búin að heyra hljóðið erlendis, að þeir fóru smátt og smátt að síga í þá átt, að full aðild kæmi ekki til greina. Þetta eru staðreyndir.

Mér finnst vera alveg óþarfi að vera að deila um þetta, og ég skil satt að segja ekkert í því, að hæstv. ráðh. skuli reyna að standa í því. Í því sambandi má benda á margt. Það voru miklar bollaleggingar um fulla aðild, sem breyttust svo og úr varð aukaaðild. En við vitum, að a.m.k. sú aukaaðild, sem hæstv. ráðh. túlkar í sinni skýrslu, ráðgerir svo sterk tengsl, að þar má fullkomlega tala um aðild að bandalaginu. Og það er ákaflega langt síðan það var sagt hér í umr. á Alþingi í sambandi við efnahagsbandalagsmálið einmitt af hæstv. dómsmrh., formanni Sjálfstfl., og valið sem fyrirsögn fyrir því, sem hann sagði í þinginu, af Morgunhlaðinu, að rödd Íslands yrði að heyrast innan EBE. Það var tekið út úr sem einkunnarorð fyrir stefnunni í ræðu hæstv. ráðh.

Þá vil ég aðeins minnast á eitt, sem vakti líka furðu mína og ég verð að leiðrétta, og það er þetta: Ég gerði nokkuð grein fyrir því, sem skeði sumarið 1961 í sambandi við EBE, eins og það horfði við frá mínum sjónarhól, og ég sagði, að ég hefði 18. ágúst séð í Morgunblaðinu tilkynningu um, að fulltrúar félagssamtaka í landinu hefðu lýst sig fylgjandi umsókn um aðild að Efnahagsbandalaginu. Og ég varð alveg þrumu lostinn, — ég orðaði það þannig, og það er ekki ofsagt, — ég varð alveg þrumu lostinn, vegna þess að það hafði ekkert samband verið haft við stjórnmálaflokkana um þetta mál, aðeins við þessi félagssamtök, og við í Framsfl. höfum ekkert fengið um þetta mál að vita, að það yfirleitt gæti komið til mála hjá stjórninni að sækja um aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu. Þetta var efnislega það, sem ég sagði hér um þetta.

Út af þessu brást hæstv. viðskmrh. mjög hart við og sagði, að ég hefði gefið af þessu algerlega ranga mynd, — ég man nú ekki, hvort hann sagði, að ég hefði farið rangt með, en a.m.k. allur málflutningurinn var þannig, að menn áttu að skilja það svo, að ég hefði farið beinlínis rangt með. Það hefði verið haft samráð við stjórnmálaflokkana, sagði ráðh., um þessi efni og þeim hefði ekki þurft að koma neitt á óvart. Síðan kom,hann með gerðabók, hafði í höndunum hér gerðabók utanrmn. og sagði síðan með miklum þjósti, að í gegnum utanrmn. hefðu flokkarnir verið látnir fylgjast með og þar hefði verið haldinn fundur, sagði hæstv. ráðh., 2. júní og gefið yfirlit um þessi mál, þannig að flokkunum hefði ekki þurft að koma neitt á óvart það, sem var að gerast í júli og ágúst og t.d. það, sem skeði 18. ágúst. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að gera svo vel að gera hlé á ræðu sinni. Það var ætlunin að fresta fundi núna til kl. 5.) Ég á ekki eftir nema svo sem 3 mínútur. (Forseti: Þá finnst mér sanngjarnt, að þm. fái að ljúka máli sínu.) Já, 5 mínútur eða svo. — Það var haldinn fundur 2. júní í utanrmn. Nú las ég þessa fundargerð frá 2. júní í utanrmn., og ég legg áherzlu á, að menn taki vel eftir, að það er það siðasta, sem stjórnmálaflokkarnir heyra frá ríkisstj. um þetta mál þangað til 18. ágúst, að það er tilkynnt í Morgunblaðinu, að það hafi fengizt þessi svör frá fulltrúum fyrirtækjanna. Og hvað er sagt í þessari fundargerð? Hvað er það, sem Gylfi Þ. Gíslason segir 2. júní 1961 að sé stefna stjórnarinnar varðandi þessi mál? Hann segir, að stefna sexveldanna, þ.e. Efnahagsbandalagið, er þannig að áliti ríkisstj., að ekki er raunhæft fyrir Ísland að gerast þar aðili, eins og stendur. Þetta er það siðasta, sem stjórnmálaflokkarnir fá að heyra frá ríkisstj., þetta er yfirlýsing hæstv. viðskmrh. 2. júní á fundi utanrmn. Og síðan heyrist ekkert og ekkert samband haft, engar upplýsingar gefnar, fyrr en menn lesa Morgunblaðið 18. ágúst. Svo kemur þessi ráðh. hér, belgir sig út og segir, að það sé furðulegt að heyra, að forráðamenn stjórnmálaflokkanna í landinu skuli kvarta yfir því, að þeir hafi ekki verið látnir fylgjast með í þessu máli. Hverju eiga menn að trúa um málflutninginn, þegar önnur eins dæmi og þetta gerast? Og hæstv. ráðh. sagði meira 2. júní skv. fundargerðinni. Hann sagði: „Ríkisstj. álítur því, að rétt sé að bíða og sjá, hvað setur.“

Þetta er það, sem stjórnmálaflokkarnir heyra um þessi efni 2. júní og síðan ekki meir. Þetta eru þau samráð, sem við þá eru höfð, og svo gerast þessir atburðir 18. ágúst. Síðan kemur þessi ráðh. hér og segir, að það séu mikil býsn, að menn skuli finna að því að hafa ekki verið látnir fylgjast með í þessum málum, sækir þennan doðrant, fundargerðabók utanrmn., og veifar honum hér framan í menn og segir: Það var haldinn fundur 2. júní 1961. — Já, það var haldinn fundur 2. júní, til þess að hæstv. viðskmrh. lýsti því yfir fyrir hönd ríkisstj., að hún sæi ekki, að það væri neitt raunhæft í því fyrir Ísland að gerast aðili að EBE eins og stæði og hún væri ákveðin í því að bíða. Til þess var fundurinn haldinn.