05.04.1963
Neðri deild: 66. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í C-deild Alþingistíðinda. (2456)

200. mál, fiskveiðar í landhelgi

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð. Ég þarf ekki mörg orð til þess að svara þessum tveim síðustu ræðum, sem haldnar hafa verið af hálfu Framsfl. um þetta mál eða raunar öllu heldur um efnahagsbandalagsmálið.

Varðandi síðasta atriðið, sem hv. þm. gerði að umtalsefni, þ.e. skýrslu mína til utanrmn. 2. júní 1961, er það að segja, að það var niðurstaða þeirrar skýrslu, að ríkisstj. teldi, eins og hann vitnaði til, aðild að Efnahagsbandalaginu og Fríverzlunarbandalaginu ekki koma til greina og ríkisstj. hefði ákveðið að bíða átekta enn um sinn, eins og hún og gerði. Sú könnun, sem fór fram hjá hagsmunasamtökum tveim mánuðum síðar, átti að vera ríkisstj. til leiðbeiningar, ef ný viðhorf sköpuðust í málinu. Ríkisstj. taldi slík viðhorf ekki skapast í málinu, að ástæða væri til að hverfa frá þeirri stefnu, sem hún hafði markað, að biða átekta. Það er því ekkert ósamræmi í skýrslu minni til utanrmn. og þeim skýrslum, sem ég flutti hagsmunasamtökunum raunar oftar en einu sinni.

En það var sérstaklega það atriði í sambandi við ræðu hv. 1. þm. Austf. (EystJ), sem gefur mér tilefni til örfárra orða, að hann sagði, að það hefði verið ósmekklegt af mér að draga ummæli ungs manns í Framsfl., Steingríms Hermannssonar, inn í þessar umr. hér á Alþingi, þar sem hann gæti ekki svarað fyrir sig hér. Þessu verð ég að vísa alveg heim til föðurhúsanna. Þessi ungi maður er enginn einkaaðili, hann tekur þátt í opinberu lífi á Íslandi, hann er stjórnmálamaður, hann er formaður stærsta æskulýðsfélags næststærsta stjórnmálaflokks landsins, og þegar það hefur gerzt, eins og hér hefur átt sér stað á hinu háa Alþingi, að ræðumenn Framsfl. hafa gert það að sérstöku árásarefni á mig og ríkisstj., að við í ríkisstj. og þeir flokkar, sem að okkur standa, höfum þá stefnu að opna íslenzkt atvinnulíf og þá sérstaklega íslenzkan fiskiðnað fyrir útlendingum og erlendu fjármagni, og gert þetta með mjög hæpnum málflutningi, þá getur enginn maður undrazt það, þótt ég neiti mér ekki um það að tilfæra skoðanir eins af forustumönnum Framsfl. sjálfs, þó að hann eigi ekki sæti hér á hinu háa Alþingi, því að formaður ungra framsóknarmanna hlýtur að teljast í hópi forustumanna Framsfl. Það er því alveg óþarfi að kvarta undan því, þó að vitnað sé til hans skoðana í þessum efnum, einkum og sér í lagi þegar hans skoðanir hljóta að teljast beinlínis þjóðhættulegar að dómi formanns Framsfl. og ritstjóra aðalmálgagns hans, því að formaður ungra framsóknarmanna hér í Reykjavík lýsti því greinilega í ræðu tveim mánuðum áður en ég hélt þá ræðu, sem hér er aðallega vitnað til, að gera ætti stofnun erlendra fyrirtækja á Íslandi sem allra frjálsasta, það ætti að kappkosta að fá einkafjármagn til Íslands til nota jafnvel í þágu íslenzkra fiskveiða, en einkum og sér í tagi í íslenzkum fiskiðnaði. Með hliðsjón af því, að sjálft aðalmálgagn Framsfl. hafði birt þessa ræðu alla í heild, tveim mánuðum eftir að ég flutti mína ræðu í Verzlunarráðinu, og aldrei gert við þessa ræðu hinar allra minnstu aths., ekki haggað við efni hennar einu orði, þá hlaut mér að þykja það undarlegt, að nú eftir næstum 2 ár skuli vera rifjuð upp ræða, sem ég hafði haldið, áður en formaður Félags ungra framsóknarmanna talaði, tekin úr þeirri ræðu ein setning, sem fjallar um sama efni og klukkutímaræða formanns ungra framsóknarmanna fjallaði, og þessi eina setning er gerð að rökstuðningi fyrir árásum ekki aðeins á mig og minn flokk, heldur ríkisstj. í heild varðandi stefnu hennar í þessu máli. Ég tel mig því hafa fullgildar afsakanir fyrir því að hafa skýrt frá því, hvaða skoðanir formaður ungra framsóknarmanna hafði fyrir tveimur árum og ég hygg að hann hafi enn á þessum málum.

Í ræðu hv. 7. þm. Reykv. í gær voru ýmis atriði, sem ég mundi svara, ef þessari umr. væri ekki að ljúka, og ég tel, að það sé tími til þess kominn, að henni ljúki, hún er þegar orðin löng, en það eru þó atriði, sem ég verð að andmæla.

Þegar hv. þm. endurtók staðhæfingar sínar um það, að ríkisstj. hafi ætlað að sækja um fulla aðild að Efnahagsbandalaginu sumarið 1961, þá vitnaði hv. þm. til ummæla Adenauers kanzlara, sem oft hafa verið gerð að umtalsefni og ég skal ekki fjölyrða neitt um hér, en hann vitnaði einnig í það, sem hann kallaði skjalfestar erlendar heimildir, sem er skýrsla Evrópuráðsins, eins konar fréttabréf Evrópuráðsins, sem gefið er út öðru hverju og þar sem segir, að ýmislegt bendi til, að íslenzka ríkisstj. muni ætla að sækja um fulla aðild að Efnahagsbandalaginu. Ég hef séð þetta fréttabréf Evrópuráðsins og þessi tilvitnun hv. þm. í það gefur mér mjög kærkomið tilefni til þess að lýsa því yfir, að höfundur þessa fréttabréfs Evrópuráðsins hefur aldrei haft neitt samband við íslenzkan ráðh. né við neinn íslenzkan embættismann, sem hafi getað gefið honum tilefni til þess að viðhafa þessi ummæli, sem eru alröng, sögð algerlega á ábyrgð þess fréttamanns Evrópuráðsins, sem hér á hlut að máli, og ekki er fótur fyrir. Það er því miður mjög algengt, að rangar fregnir birtist í erlendum blöðum, fregnir erlendra fréttastofnana, og jafnvel hjá fréttamönnum alþjóðlegra samtaka. Hér er engin ný bóla á ferðinni, og undrar mig satt að segja nokkuð, að jafnvanur blaðamaður og hv. 7. þm. Reykv. skuli treysta sér til þess að vitna í ummæli erlends blaðamanns, starfsmanns hjá Evrópuráðinu, sem óyggjandi sönnun fyrir því, hvað íslenzka ríkisstj. hafi ætlað að gera, þvert ofan í margendurteknar yfirlýsingar ríkisstj. sjálfrar.

Hv. 7. þm. Reykv. sagði einnig, að í fyrirætlunum ríkisstj. um að sækja um fulla aðild að Efnahagsbandalaginu árið 1961, sem að vísu alls ekki voru fyrir hendi, fælist raunveruleg afstaða ríkisstj. til málsins. Þetta snertir einnig þýðingarmikið atriði, sem formaður Framsfl. kom að í ræðu sinni áðan, og skal það, sem ég segi um þetta, vera það siðasta, sem ég hef til þessara mála að leggja.

Hv. formaður Framsfl. sagði, að ríkisstj. hafi í upphafi ekki fengizt til þess að lýsa því yfir, að full aðild að Efnahagsbandalaginu kæmi ekki til greina, og hann bætti við með að vísu mjög óljósu orðalagi, að enn í dag hafi stjórnin ekki fengizt til þess að lýsa því yfir, að Íslendingar gætu ekki eða vildu ekki gangast undir samstjórnina, sem hann svo kallaði, hvað sem hann á við með því. En þetta gefur mér tilefni til þess að segja eftirfarandi, og ég legg á það áherzlu og veit raunar, að hv. formanni Framsfl. er algerlega ljóst, að í því, sem ég nú segi, fer ég með rétt mál og rétta lýsingu á því, sem gerðist í þessu máli í upphafi, þegar málið fyrst kom á dagskrá.

Ríkisstj. var frá upphafi þeirrar skoðunar, að ekki kæmi til mála fyrir Íslendinga að gangast undir Rómarsáttmálann, að samþykkja ákvæði Rómarsáttmálans, eða m.ö.o. að taka á sig þær skuldbindingar, sem í Rómarsáttmálanum fælust. Ég trúi því ekki, að hv. formanni Framsfl. detti í hug að andmæla því, að þetta sé rétt. Það hefur aldrei hvarflað að ríkisstj. að samþykkja Rómarsáttmálann, að undirgangast ákvæði hans. Það var ljóst þegar í upphafi og kom fram í fyrstu viðræðunum, sem við áttum um þetta mál fyrir löngu. Hins vegar gat enginn vitað í upphafi, hvaða form væri framkvæmanlegast og skynsamlegast til þess að koma Íslendingum undan ákvæðum Rómarsáttmálans, hvort formið væri sérsamningur samfara fullri aðild, hvort það væri aukaaðildarsamningur, og þá ekki í hvaða formi, né heldur gat nokkur maður vitað, hvort hugsanlegt væri, að samfara tollasamningi gætu fylgt réttindi innan Efnahagsbandalagsins. Þetta gat í upphafi engum manni verið ljóst. En mjög fljótlega skýrðust málin þó svo, að það mundi vera útilokað að fá undanþágu frá mikilvægum ákvæðum Rómarsáttmálans samfara fullri aðild, jafnframt sem það virtist koma í ljós, að mjög erfitt mundi vera að fá réttindi innan Efnahagsbandalagsins samfara tollasamningi. Þó að þessi atriði tvö virtust sæmilega skýr, var samt sem áður ógerningur að fá nokkra haldgóða vitneskju um, hvað í aukaaðildarsamningi gæti falizt og mundi felast. Og þannig stendur málið enn í dag, og þetta er meginástæðan fyrir því, að íslenzk ríkisstj. taldi aldrei tímabært að taka endanlega afstöðu til þess, hvaða leið Íslendingum hentaði bezt í málinu. Þetta er hv. formanni Framsfl. án efa ljóst að eru meginsbaðreyndir málsins, og þess vegna harma ég mjög, ef þeim ljóta leik á að halda áfram að reyna að gera afstöðu ríkisstj. í málinu tortryggilega á þann hátt, að hún hafi einhvern tíma getað talið koma til greina, að Íslendingar gengjust almennt undir skuldbindingar Rómarsáttmálans, því að ef ríkisstj. hefur haft í hyggju að sækja um fulla aðild að Efnahagsbandalaginu og gerast fullgildur aðili að því, þá hlýtur það að þýða, að ríkisstj. hafi verið reiðubúin til þess að gangast undir skuldbindingar Rómarsáttmálans, sem Framsfl. vissi frá upphafi að ríkisstj. aldrei taldi koma til greina.