28.03.1963
Neðri deild: 61. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í C-deild Alþingistíðinda. (2466)

208. mál, sjúkrahúsalög

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Hæstv. forseti. Tilefni þess, að þetta frv. er flutt, er það, að bæjarstjórinn á Ísafirði skrifaði þm. Vestf. í byrjun þessa mánaðar svo hljóðandi bréf, með leyfi hæstv. forseta:

„Ísafirði 4. marz 1963.

Ég leyfi mér að tilkynna yður, hv. alþm., eftirfarandi einróma samþykkt bæjarstjórnar Ísafjarðar:

Bæjarstjórn Ísafjarðar skorar á þm. Vestf. að flytja þegar á þessu þingi frv. um breyt, á l. um sjúkrahús, nr. 93 frá 31. des. 1953, þess efnis, að ríkisstyrkur til sjúkrahúsa verði hækkaður í hlutfalli við hækkun, sem orðið hefur á rekstri sjúkrahúsa frá því, að umræddum lögum var breytt 1958. Bæjarstjóra sé falið að semja grg. með till.

Eftir að við höfðum fengið þetta bréf, þótti mér einsýntað verða við þessum sanngjörnu og réttmætu tilmælum og ræddi það við samþm. mína í Vestfjarðakjördæmi. Nokkrir þeirra höfðu þá vikið því frá sér að flytja um þetta frv. til breyt. á sjúkrahúsal. og höfðu án samráðs við mig eða þm. Framsfl. í kjördæminu ákveðið að flytja þáltill., þar sem skorað væri á ríkisstj. að undirbúa til næsta þings endurskoðun á sjúkrahúsalögunum í þá átt, sem bæjarstjórnin hafði farið fram á. Ég taldi hins vegar rétt að verða við tilmælunum, og standa hv. þm. Framsfl. í Vestf. einnig að flutningi málsins, en geta af eðlilegum ástæðum ekki verið flm., þar sem þeir eiga sæti, eins og kunnugt er, í hv. Ed., en hv. 3. þm. Vesturl. er meðflm. að málinu, þar sem breyt. á sjúkrahúsalögunum varðar einnig sérhver önnur sjúkrahús í landinu.

Bæjarstjórinn á Ísafirði gerir samkv. fyrirmælum bæjarstjórnarinnar grein fyrir þeirri þörf, sem Ísafjarðarkaupstaður telur vera á, að sjúkrahúsalögunum verði breytt þegar á þessu þingi. Bæjarstjórinn upplýsir m.a., að á árunum 1956–1963, að báðum meðtöldum, nemi fjárframlög Ísafjarðarkaupstaðar til fjórðungssjúkrahússins þar í bæ 3 millj. 765 þús. kr., og segir hann réttilega, að þessa upphæð hafi orðið að innheimta með auknum álögum á bæjarbúa og nemi framlagið á þessu ári t.d. 840 kr. á hvern útsvarsgjaldanda í bænum.

Nú spyrja menn sjálfsagt, þegar þeir heyra um þessi fjárútlát Ísafjarðarkaupstaðar vegna fjórðungssjúkrahússins þar, hvort ekki sé hægt að sjá þessu sjúkrahúsi og þá öðrum sveitarfélögum fyrir hallalausum rekstri með hækkun daggjalda. En bæjarstjórinn gerir grein fyrir því, að þess sé ekki kostur. Til þess gefist ekki svigrúm frá ríkisvaldsins hendi. Tryggingastofnun ríkisins samþykki ekki, að sjúkrasamlög greiði hærri daggjöld en Landsspítalinn innheimtir, og daggjöld fyrir ríkisframfærslusjúklinga séu samkv. fyrirmælum stjórnarvalda einskorðuð við daggjöld, sem Tryggingastofnun ríkisins heimili sjúkrasamlögunum að greiða. Þannig sé það í föstum skorðum, hvernig hægt sé að haga tekjuöflun handa sjúkrahúsunum.

Nú er það upplýst, að því er snertir fjórðungssjúkrahús Ísafjarðar, að sjúklingarnir, sem nota fjórðungssjúkrahúsið, eru auðvitað engan veginn aðeins meðlimir Sjúkrasamlags Ísafjarðar eða bæjarmenn, heldur er það þannig, að um 40% af vinnudagafjölda þessa sjúkrahúss er vegna fólks, sem er búsett í bænum og meðlimir í Sjúkrasamlagi Ísafjarðar, en 60% eru utanbæjarmenn og ríkisframfærslusjúklingar. Á árunum 1956–1962, að báðum árum meðtöldum, voru legudagar í þessu sjúkrahúsi alls 89034, fyrir öl1 árin. Þar af voru legudagar Sjúkrasamlags Ísafjarðar 35163, legudagar sjúklinga annarra sjúkrasamlaga 31605 og legudagar framfærslusjúklinga ríkisins 22266. Það er því enginn vafi á því, að hinn mikli halli á rekstri sjúkrahússins stafar að 60% af kostnaði vegna sjúklinga annarra héraða og ríkisframfærslusjúklinga. Legudagafjöldi í fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði hefur ekki aukizt á undanförnum árum, með því að mörg undanfarin ár hefur sjúkrahúsið oftast nær verið fullnotað, svo að ekki getur það orðið því til tekjuauka. Ástæðan til hallans er því auðvitað sú dýrtíðaraukning, sem átt hefur sér stað, síðan sjúkrahúsalögunum var síðast breytt 1958, að því er snertir aðstoð ríkisins við rekstur sjúkrahúsa. Þá var ákveðið, að hin smærri sjúkrahús sveitarfélaganna skyldu fá 10 kr. á legudag, hin stærri sjúkrahús sveitarfélaganna, sem hefðu a.m.k. tvo fastráðna lækna í þjónustu sinni og væru vel búin að tækjum, skyldu fá 15 kr. á legudag sem ríkisstyrk og hin stærstu og bezt búnu sjúkrahús sveitarfélaga með eigi færri en 3 fastráðna lækna og sem bezt væru útbúin að tækjum, ásamt fjórðungssjúkrahúsunum, skyldu fá 25 kr. frá ríkissjóði á legudag. En síðan þessar tölur voru ákveðnar með l. frá 1958, hefur dýrtíð gífurlega aukizt og rekstur sjúkrahúsa auðvitað eins og annað.

Í þessu frv., sem ég og hv. 3. þm. Vesturl. flytjum, er lagt til, að ríkisstyrkur til rekstrar hinna almennu sjúkrahúsa sveitarfélaganna, sem nú er 10 kr. á legudag, verði 20 kr., þeirra sjúkrahúsa, sem hafa a.m.k. tvo fastráðna lækna og eru allvel búin að tækjum og nú er 15 kr. á legudag, verði 30 kr. á legudag og að ríkisstyrkurinn til fjórðungssjúkrahúsanna og hinna bezt búnu sjúkrahúsa sveitarfélaga, sem hafa þrjá fastráðna lækna, verði 45 kr. á legudag. Það er álit okkar flm., að ef þetta frv. yrði samþ., mundi þó aðstoð ríkisins til rekstrar sjúkrahúsanna sízt vera ríflegri nú, miðað við rekstrarkostnað, heldur en ríkisaðstoðin var, þegar þessir ríkisstyrkir voru ákveðnir með l. frá 1958.

Ég held, að ég þurfi ekki að gera frekari grein fyrir frv. Þetta er sú efnisbreyting, sem nú er lagt til að samþykkt verði á sjúkrahúsal., og held ég, að þetta sé tímabær lagfæring, miðað við þá dýrtíðaraukningu, sem orðið hefur frá árinu 1958, því að að öðrum kosti verður rekstur sjúkrahúsanna óbærileg byrði á þeim sveitarfélögum, sem sjúkrahús reka. En það, að hallinn verður svona óbærilegur, stafar af því, að sveitarfélögin hafa algerlega bundnar hendur um tekjuöflunina vegna þess, sem ég áðan gerði grein fyrir og mjög skýrt er fram tekið í grg. bæjarstjórans með ályktun bæjarstjórnar Ísafjarðar.

Ég taldi sjálfsagt að verða við ósk bæjarstjórnar Ísafjarðar um að flytja þessa breytingu á sjúkrahúsalögunum. Það var ekki beiðni bæjarstjórnarinmar, að við þm. Vestf. beittum okkur fyrir því á þessu þingi að flytja þáltill. um endurskoðun á sjúkrahúsalögunum á næsta þingi eða síðar, og þeir menn, sem þannig hafa tekið erindi bæjarstjórnar Ísafjarðar, hafa vikið sér undan því að verða við þeirri ósk. Sá vandi, sem hvílir á herðum Ísafjarðarkaupstaðar vegna fjórðungssjúkrahússins þar, hvílir og á flestum þeim sveitarfélögum, sem sjúkrahúsi hafa komið á fót hjá sér og reka sjúkrahús með þeim ríkisstyrkjum, sem nú eru orðnir allsendis ófullnægjandi. Ég hygg því, að fleiri þm. muni á það fallast, að þörf sé á að gera þessa lagfæringu á sjúkrahúsalögunum, sem fram á er farið, því að það er sízt farið fram á hlutfallslega meira nú en Alþingi féllst á að veita sem aðstoð til sveitarfélaganna í sambandi við rekstur sjúkrahúsa á árinu 1958, og ég sé engin rök mæla með því, að úr þeirri ríkisaðstoð sé dregið, því að það hefur áreiðanlega ekki verið of ríflega skömmtuð þá aðstoðin til sveitarfélaganna til rekstrar sjúkrahúsanna.

Ég legg til, hæstv. forseti, að frv. verði, þegar þessari umr. lýkur, vísað til hv. heilbr.- og félmn.