22.03.1963
Neðri deild: 58. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í C-deild Alþingistíðinda. (2473)

210. mál, stækkun Mosfellshrepps í Kjósarsýslu

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef borið fram þetta litla frv. samkv. eindreginni ósk íbúa þess hluta Kjalarneshrepps, sem liggur austan Kleifa á Kjalarnesi. Er frv. þess efnis, að þessi hluti Kjalarneshrepps verði sameinaður Mosfellshreppi.

Landfræðilega hagar þarna þannig til, að Kjalarneshreppi er í rauninni skipt í tvennt, og skiptist hreppurinn um svonefndar Kleifar við Kollafjörð. Vegna legu þess hreppshluta, sem liggur austan Kleifa, hafa mestöll félagsleg samskipti íbúanna þar fyrr og síðar verið við íbúana í Mosfellshreppi, og virðist allt benda til þess, að í framtíðinni muni þessi samskipti frekar aukast en minnka. Sem dæmi um þessi nánu samskipti milli Kjalnesinga austan Kleifa og Mosfellshreppsbúa má nefna það, að þessir aðilar hafa sameiginlega kirkjusókn, þeir hafa sameiginlegt búnaðarfélag, sameiginlegt ungmennafélag og kvenfélag, og barnafræðslan í þessum hluta Kjalarneshrepps fer fram að langsamlega mestu leyti í Mosfellshreppi. Samskipti hins vegar á milli austur- og vesturhluta Kjalarneshrepps eru mjög lítil eða nær því engin. Það er því staðreynd, að landfræðilega liggur Kjalarneshreppur þannig, að austurhluti hans á í rauninni ekki heima með vesturhlutanum, heldur miklu frekar með Mosfellshreppi, og fyrst og fremst af þessari ástæðu hafa íbúar austurhlutans mjög eindregið óskað eftir því, að þeir yrðu sameinaðir Mosfellshreppi.

Við þetta bætist og, að á seinustu tveimur árum hafa komið upp miklar og alvarlegar deilur um byggingu félagsheimilis í Kjalarneshreppi, sem sýna mjög ljóslega, hvernig íbúar þessa sveitarfélags eiga í raun og veru ekki heima í einu sveitarfélagi, og hefur það ráðið úrslitum að ýta á eftir ósk íbúa austurhlutans um, að þetta frv. yrði samþ.

Íbúarnir í austurhlutanum eru 60–70 talsins, en í vesturhlutanum um 120 talsins. Það má vel vera, að á því verði auknir erfiðleikar fyrir íbúa vesturhlutans að halda uppi sínu sveitarfélagi, ef úr skiptingu sem þessari yrði. Það hafa verið nokkrir erfiðleikar, má segja, og þetta yrði að sjálfsögðu frekar til þess að auka þá erfiðleika en draga úr þeim, og gæti þá komið til athugunar, hvort ekki væri heppilegt, að Kjalarneshreppur nyrðri athugaði sinn gang um sameiningu við Kjósarhrepp. Ég hef ekki viljað fara út í þá hluti í sambandi við þetta frv., enda engin ósk borizt um slíkt.

Um flutning frv. hef ég ekki haft samráð við hreppsnefndir Mosfellshrepps né Kjalarneshrepps og ekki heldur við sýslunefnd Kjósarsýslu. Ég vildi því óska eftir því, að sú nefnd, sem fær frv. til athugunar, sendi það báðum þessum hreppsnefndum til umsagnar og einnig sýslunefnd Kjósarsýslu. Ég sé ekki ástæðu til að fara um frv. fleiri orðum, en leyfi mér að leggja til, að því verði vísað til 2. umr., og ég hygg, að það eigi heima í allshn.