22.03.1963
Neðri deild: 58. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í C-deild Alþingistíðinda. (2474)

210. mál, stækkun Mosfellshrepps í Kjósarsýslu

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. hefur lagt hér fram frv. til l. um stækkun Mosfellshrepps í Kjósarsýslu. Hann kom að því í sinni framsöguræðu með þessu frv., að deilur hafi átt sér stað í Kjalarneshreppi í Kjósarsýslu, og er það rétt, og er það út af staðsetningu og byggingu félagsheimilis. Þetta mál hefur verið nokkuð lengi á döfinni þar, og hafa menn skipzt nokkuð á skoðunum, en ég held, að það sé ekki neinum blöðum um það að fletta, að sú ákvörðun, sem tekin var varðandi staðsetningu félagsheimilisins, hafi verið löglega tekin og að Kjalarneshreppur sé á löglegan hátt aðili að þessu félagsheimili, það sé líka fyrir hendi, a.m.k. var það samþykkt af hálfu sýslunefndar á s.l. sumri, að sýslunefndin fyrir sitt leyti samþykkti, að hreppurinn gerðist aðili að þessu félagsheimili.

Í grg. sinni fyrir þessu frv. rekur flm. ýmsa þætti í félagsmálalífi þeirra Kjalnesinga, getur um kirkjusóknir og félög. Hann nefnir t.d., að Austur-Kjalnesingar og Mosfellshreppsbúar hafi sameiginlega kirkjusókn, og það er rétt. En þeir, sem búa vestast í Kjalarneshreppi, hafa líka sameiginlega kirkjusókn með hluta af Kjósarhreppi, svo að ekki sýnist það beint vera ástæða fyrir því að gera skiptingu á hreppnum, enda um kirkjusóknir oft og tíðum ekki farið eftir hreppamörkum. Hann nefnir sameiginlegt búnaðarfélag. Það hefur hingað til verið eitt búnaðarfélag í Kjalarneshreppi. Hins vegar hafa nokkrir bændur úr Kjalarneshreppi óskað eftir inngöngu í Búnaðarfélag Mosfellshrepps, eftir að þessar deilur risu, og fengið þar inngöngu. Sameiginlegt ungmennafélag hefur ekki verið með þessum tveim hreppum, heldur sérstakt ungmennafélag í Kjalarneshreppi. Hitt má svo vel vera, að einhverjir íbúar Kjalarneshrepps hafi haft meiri samskipti við ungmennafélagið í Mosfellssveit og búnaðarfélagið nú síðast, en þarna hafa ekki verið sameiginleg félög, eins og um getur í grg.

Það er að sjálfsögðu ekki hægt á þessu stigi málsins að segja ákveðið um afstöðu til frv., því að eins og frsm. gat um áðan, þá liggur ekki fyrir umsögn þess hrepps, sem hér er ætlað að kljúfa frá, þ.e.a.s. Kjalarneshrepps, hreppsnefndarinnar, ekki heldur umsögn hreppsnefndarinnar, sem ætlazt er til að taki við þessu fólki, og því síður sýslunefndar, sem að sjálfsögðu mundi fjalla um þetta mál. En eins og flm. gat um, var óskað eftir því, að sú nefnd, sem fjallaði um þetta, leitaði umsagnar þessara aðila, og er það sjálfsagt, eins og venja er til, þegar mál eru flutt inn í þingið, sem skipta sérstaklega einhver félagssamtök.

Flm. getur um það í sinni framsögu réttilega, að þetta frv. sé flutt að eindreginni ósk íbúa þess hluta Kjalarneshrepps. Nú á síðustu tveimur árum hafa tvær jarðir úr austurhlutanum, sem undir þennan hluta falla, verið seldar ríkissjóði, svo að þá dettur manni í hug að varpa fram þeirri spurningu, hvort landbrn., sem fer með þær jarðir fyrir hönd ríkisstj., sé aðili að þeirri ósk, sem hér liggur fyrir. Það kemur ekki fram í grg., og væri sjálfsagt að óska eftir því eða fá það fram líka. Áður en efnisafstaða yrði tekin um þetta frv., þurfa þessar umsagnir að liggja fyrir, svo að aðilar geti gert sér grein fyrir því, hvernig þessum málum er háttað, og þær hreppsnefndir, sem hér um ræðir, og sýslunefnd fá tækifæri til að fjalla um þetta frv. og segja álit sitt á því.

Ég ætla ekki að ræða það, sem fram kemur hér líka í sambandi við landfræðilegar staðreyndir í málinu. Þær eru nú æði misjafnar, og ef ætti að leiðrétta öll hreppatakmörk í sambandi við það, þyrfti að gera töluvert mikla gangskör að því. Hvort þessi hluti sé eðlilega með í Mosfellshreppi eða þá í Kjalarneshreppi, það geta að sjáifsögðu verið um það misjafnar skoðanir. Við getum aðeins til skýringar skotið því fram hér, að Garðahreppur hér fyrir sunnan er sundurlimaður og lítill hluti hans er fyrir sunnan Hafnarfjörð, — og væri ekki ástæða til að sameina þennan hluta Vatnsleysustrandarhreppi, sem hann liggur næst? Þannig mundu rísa ótal spurningar, ef það landfræðilega ætti að ráða í þessum efnum. En ég er sammála flm. um, að um svo viðkvæm mál sem þessi mál tvímælalaust eru, þá verði rækilega athugað, hver afstaða þessara aðila er, áður en afgreiðsla á þessu máli fer fram. Ef hins vegar flm. hefði verið akkur í því að fá þetta mál afgreitt á þessu þingi, mundi hann að sjálfsögðu. hafa aflað sér umsagnar um þetta og lagt það fram í grg., því að þá hefði e.t.v. ekki þurft á öðru að halda en hafa viðtöl við oddvitana, sýslunefndar og hreppsnefnda, og málið þar af leiðandi getað gengið töluvert greiðar í gegnum þingið. En þetta er að sjálfsögðu grundvallaratriði, sem þarf að koma fram og hefði verið mjög æskilegt að hefði getað legið fyrir nú.