16.11.1962
Efri deild: 17. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

99. mál, framkvæmdalán

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ríkisstj. hefur unnið að undirbúningi margvíslegra framkvæmda og reynt að gera sér grein fyrir, hvernig skyldi aflað fjár til þeirra. Þar er um að ræða bæði framkvæmdir á vegum ríkisins og ríkisstofnana annars vegar og hins vegar á vegum einstaklinga eða félaga þeirra og samtaka, sem leitað hafa eftir stuðningi ríkisvaldsins. Ég skal nefna hér í stórum dráttum nokkur þessara viðfangsefna. Það er í fyrsta lagi stuðningur við útflutningsiðnaðinn og þá ekki sízt síldarvinnsluna, bæði að því er snertir bræðslu, niðursuðu, niðurlagningu, reykingu síldar o.fl. Þá má nefna hafnargerðir, en brýn nauðsyn er til að gera á næstu árum stórfelld átök til að bæta hafnarskilyrðin víðs vegar um land. Þá má nefna raforkumálin, og er þar bæði um að ræða framkvæmd 10 ára áætlunarinnar virkjunarrannsóknir, sem kosta mikið fé, virkjanir, sem þarf að ráðast í nú alveg á næstunni og nú jafnvel er byrjað á, eins og stækkun Írafossstöðvar, undirbúning að stórvirkjunum o.fl. Þá má nefna vegamálin, en þar þarf að gera stór átök, og þarf til þess bæði ný framlög og vafalaust einnig lánsfé. Þá má nefna lausn húsnæðismálanna. Einnig má nefna eflingu iðnaðarins, ekki sízt smíði dráttarbrauta, skipasmíðastöðva o.fl. Þá má nefna eflingu fiskveiðasjóðs, eflingu iðnlánasjóðs, eflingu stofnlánadeildar landbúnaðarins. Þannig mætti lengi telja, en ég skal láta þessa stóru drætti nægja að sinni.

Þegar ríkisstj. hefur reynt að gera sér grein fyrir, hversu afla skyldi fjár til þessara margvíslegu framkvæmda, sem ég nefndi í stórum dráttum, og ýmissa annarra, verða að sjálfsögðu ýmsar leiðir fyrir hendi. Í fyrsta lagi:

Hvað er hægt að gera ráð fyrir miklum opinberum framlögum í þessu skyni? Í öðru lagi: Hvað má gera ráð fyrir, að bankakerfið sjálft geti veitt mikið fé til slíkra framkvæmda? Veltur það að sjálfsögðu mikið á því, að áfram haldi sú ánægjulega þróun, sem verið hefur nú um 21/2 ár, með hinni miklu aukningu sparifjársöfnunar landsmanna. Í þriðja lagi koma svo lánsmöguleikar ýmissa sjóða, eins og t.d. atvinnuleysistryggingasjóðs, sem er orðinn mjög öflugur, og tryggingafélaganna. Og loks koma til greina erlend lán.

Við höfum um margra ára skeið fengið töluvert fé af hinu bandaríska vörukaupaláni, sem venjulega er kennt við PL-480. En það var ljóst, að til þess að gera þau átök, sem nauðsynleg eru á næstunni um ýmsar verklegar framkvæmdir til þjóðarheilla, verður að taka erlend lán og það jafnvei stór erlend lán. Ríkisstj. ákvað því að kanna ýmsa möguleika á erlendum lántökum, og Seðlabankinn hefur kannað þessa möguleika fyrir ríkisstj. fyrst og fremst, og hefur dr. Jóhannes Nordal bankastjóri unnið að þeim athugunum erlendis, sem koma svo fram í þessu frv., sem hér liggur fyrir. Þessum athugunum og samningaumleitunum er nú svo langt komið, að ríkisstj. telur nauðsynlegt að fá heimildarlög til að ljúka þeim samningum. Það, sem hér er um að ræða, er að taka lán í Englandi allt að 2 millj. sterlingspunda, en það verður í íslenzkum krónum um það bil 240 millj. kr. Þetta lán mundi geta orðið til langs tíma. Lánstíminn mundi verða 25—26 ár. Lánið yrði afborgunarlaust fyrstu 51/2 ár, þannig að fyrsta afborgun mundi fara fram á miðju ári 1968, en síðasta afborgun í árslok 1988. Það er mjög mikils virði að fá lán til svo langs tíma. í því sambandi má geta þess, að Alþjóðabankinn, sem veitir mjög hagkvæm lán, veitir að jafnaði ekki lengri lán en til 20 ára, og það lán, sem íslenzka ríkið tók nú fyrir skömmu vegna hitaveituframkvæmda í Rvík, var til 18 ára. En það er ekki sízt þýðingarmikið að fá lán til svo langs tíma sem hér ræðir um og hafa það afborgunarlaust fyrstu 51/2 ár, þegar þess er gætt, hve skuldagreiðslubyrðin út á við vegna lána og skulda til skamms tíma er þung nú í ár og á næstu árum. Vextir af þessu láni má búast við að verði 6 1/2 %.

Til þess að ganga frá þessari lántöku, sem eru góðar horfur á að takist, þarf að fá heimild, sem greinir í þessu lagafrv. Og eftir þeirri tímaáætlun, er gerð hefur verið um þetta mál, er nauðsynlegt, að hv. Alþingi hafi afgreitt frá sér þetta frv. föstudaginn 23. nóv., eða eftir rétta viku, og vil ég því mælast til þess við hv. n., sem fær málið til meðferðar, og hæstv. forseta og aðra þdm., að þeir greiði fyrir því, að málið geti gengið rösklega í gegnum þessa hv. deild.

Íslenzka ríkið hefur tekið mörg lán á undanförnum árum, en mörg þeirra lána hafa fengizt fyrir atbeina og fyrirgreiðslu annarra ríkisstjórna, en ekki á almennum lána- eða viðskiptagrundvelli. Um þetta lán, sem hér um ræðir, er á annan veg farið, og það er vafalaust mjög mikilvægt, að nú eru horfur á því, að Íslandi takist að komast inn á einn af helztu peningamörkuðum heimsins á hreinum viðskiptagrundvelli.

Í 2. gr. þessa frv. segir, að lánsfé því, sem um ræðir í 1. gr., skuli varið til framkvæmda á vegum ríkisins, sem eru mikilvægar fyrir þjóðarhag, eða endurlánað öðrum aðilum í sama skyni gegn fullnægjandi tryggingu. Þá segir í 2. málsgr., að ríkisstj. skuli ákveða skiptingu lánsfjárins milli einstakra framkvæmda, skuli um skiptinguna farið eftir mikilvægi framkvæmdanna og þeim möguleikum öðrum til fjáröflunar, sem fyrir hendi eru. Varðandi aðra möguleika vil ég vísa til þess, sem ég sagði hér fyrr í ræðu minni. Það væri ekki óeðlilegt, að fram kæmu óskir um það á Alþingi, að í þessu frv. eða væntanlegum lögum yrði ákveðið nákvæmlega, hver upphæð skyldi ganga til hverrar einstakrar framkvæmdar. En eins og sagt er í greininni, eru ekki möguleikar á því að framkvæma nú þegar endanlega skiptingu lánsfjárins. Veldur því m.a., að ekki er enn kannað til hlítar það, sem ég gat um hér áður, hversu mikils megi afla af innlendu fé, ýmist frá bankakerfinu, atvinnuleysistryggingasjóði og tryggingafélögum eða öðrum aðilum, sem til greina koma, né heldur um einstakar framkvæmdir, hvort eigi að afla til þeirra erlends fjár að öllu leyti eða innlends fjár að öllu leyti eða hafa hvort tveggja saman. Þetta þarf að kanna nokkru nánar, áður en með lögum er ákveðið um skiptingu milli einstakra framkvæmda.

Í niðurlagi 2. gr. er svo almenn stefnuyfirlýsing um það, að fénu skuli varið til að efla útflutningsiðnað, til hafnargerða, til raforkuframkvæmda og til annarra framkvæmda, sem stuðla að aukningu þjóðarframleiðslunnar og gjaldeyrisöflun.

Ég vænti þess, að mál þetta fái góðar undirtektir Alþingis, og legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.