04.04.1963
Neðri deild: 65. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í C-deild Alþingistíðinda. (2500)

223. mál, hámark útlánsvaxta

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Í þessum umr. hafa menn fengið að kynnast tveimur útgáfum af hæstv. viðskmrh. Sú útgáfa, sem birtist af honum hér í ræðustólnum áðan, var sú, að vaxtalækkun væri eiginlega hinn mesti fjárhagslegur glæpur, kæmi niður á þeim, sem sízt skyldi, mundi draga úr sparifjáraukningu, torvelda framkvæmdir og þar fram eftir götunum. Þetta var útgáfan af hæstv. viðskmrh., sem talaði hér úr ræðustólnum áðan. En ég las upp hér áðan allt aðra útgáfu af hæstv. viðskmrh. Það var útgáfan 1962, í marzmánuði 1962. Þá fórust hæstv. viðskmrh. þannig orð í þinginu, með leyfi hæstv. forseta:

„Sem betur fer stefnir nú á svo mörgum sviðum í rétta átt, að sá tími er vonandi ekki langt undan, að hægt sé að færa vextina aftur niður í það, sem þeir voru, áður en til viðreisnarráðstafana núverandi ríkisstj. var gripið.“

Útgáfan af hæstv. viðskmrh. 1962 hljóðar á þá leið, að þess sé vonandi ekki langt að bíða, að hægt verði að lækka vextina og framkvæma hinn voðalega efnahagslega glæp, sem hann var svo að lýsa hér áðan. Þetta er ágætt dæmi um málflutning hæstv. viðskmrh.: eitt í dag og annað á morgun. En í þessum efnum vil ég segja það, að mér finnst útgáfan af hæstv. viðskmrh. frá því í marz í fyrra vera miklu réttari en sú, sem birtist af honum hér áðan.

Hæstv. viðskmrh. talaði mikið um það, hverjir það væru, sem mundu græða á vaxtalækkuninni. Það er alveg sjálfsagt að athuga það spursmál. Ég er ekki þeirrar skoðunar, sem hann segir, að þeir, sem mundu fyrst og fremst græða, væru atvinnurekendur og stórskuldarar. Það eru allt aðrir aðilar, sem mundu græða miklu meira á þessu, aðilar, sem hafa miklu meiri þörf fyrir það, að létt sé á þeirra byrðum. Ég á við þá aðila, sem hinir háu vextir hvíla þyngst á. Og hinir háu vextir hvíla þyngst á hinum efnaminni borgurum í landinu og alveg sérstaklega á unga fólkinu, sem er að ráðast í framkvæmdir og er að byggja upp sín eigin heimili og sína eigin atvinnu. — Það er sérstaklega á þessu fólki, sem hinir háu vextir eru þungbærir. Það er verið að greiða fyrir þessu fólki fyrst og fremst með því að lækka vextina, en ekki hinum stóru atvinnurekendum og skuldurum. Hinir háu vextir hvíla tiltölulega þyngst á hinum efnaminni, hinum mörgu efnaminni einstaklingum í landinu, sem hafa verið að ráðast í framkvæmdir á undanförnum árum eða ætla sér að ráðast í þær. Og alveg sérstaklega leggjast þeir þungt á unga fólkið, sem er að mynda sín eigin heimili og er að koma sér upp sínum eigin atvinnufyrirtækjum. Og ef það er nokkurt fólk í landinu, sem við eigum að hugsa um, sem ríkisstj. á að hugsa um, sem Alþ. á að hugsa um, þá er það hin unga og vaxandi kynslóð. Það er mál þessa fólks, sem við eigum að leggja megináherzlu á og vinna fyrst og fremst fyrir. Ég segi, að með hinum háu vöxtum, með hinum miklu okurvöxtum, sem nú eru hér, erum við að þyngja byrðarnar á því fólki, sem sízt getur undir þeim risið, hinum efnaminni borgurum og unga fólkinu í landinu.

Ég segi það aftur, að það á að vera aðalverkefni hverrar ríkisstj. og hvers Alþ. að vinna að því að skapa hinum efnaminni borgurum og hinu unga fólki í landinu sem bezt og viðunanlegust starfsskilyrði. En það gerum við sannarlega ekki með þeirri stefnu, sem nú er ríkjandi í þessum efnum.

Hæstv. ráðherra úthellti sér mjög út af því, hvað hann bæri hag sparifjáreigenda mikið fyrir brjósti. Ég held, að það hafi sjaldan heyrzt öllu meiri hræsni úr þessum ræðustól heldur en þegar hæstv. viðskmrh. er að tala um það, að hann beri hag sparifjáreigenda fyrir brjósti. Ég var að rifja það upp hér rétt áðan, hvernig var farið með sparifjáreigendur á sumrinu 1961. Með einu pennastríki voru ekki teknar af sparifjáreigendum 100 millj., eins og hæstv. viðskmrh. var nú að tala um, — með einu pennastriki voru þá teknar af sparifjáreigendum 500 millj. kr., með gengisfellingunni 1961. Ég sýndi fram á það með þeim tölum, sem ég greindi áðan, að fyrir gengisfellinguna 1961 nam sparifé í bönkum og sparisjóðum landsins um 89.6 millj. dollara, miðað við það verðgildi, sem þá var á krónunni. Eftir gengisfellinguna, eftir þetta eina pennastrik var verðmæti þess sparifjár, sem var í bönkum og sparisjóðum, komið niður í 70.1 millj. dollara eða hafði lækkað með þessu eina pennastriki um hvorki meira né minna en 450 millj. ísl. kr., miðað við núverandi gengi. Og þó er hér ekki talið með mikið sparifé, sem er annars staðar en í bönkum og sparisjóðum, eins og t.d. innlánsdeildum kaupfélaganna og í mörgum öðrum sjóðum. Hvernig getur svo hæstv. viðskmrh., sem er frumkvöðull þessarar stefnu, komið hér fram og látizt vera einhver sérstakur verndari sparifjáreigenda í landinu, — maðurinn, sem hefur haft forustu um hið mesta gerræði gegn þeim, sem hægt er að finna dæmi um í íslenzkri sögu, hina algerlega tilefnislausu gengislækkun 1961? Ég satt að segja hafði ekki átt von á því af hæstv. viðskmrh., að hann skyldi vera jafnblygðunarlaus og leyfa sér slíkt eins og það að tala hér eins og hann væri alveg sérstakur velunnari og verndari sparifjáreigenda í landinu, eftir þær aðfarir gegn sparifjáreigendum, sem áttu sér stað sumarið 1961.

En svo er um það að ræða í þessu sambandi, hvort það væri óhagstætt fyrir sparifjáreigendur í raun og veru, ef vextirnir lækkuðu. Væri það þeim til óhags? Það, sem væri um að ræða, ef vextir lækkuðu t.d. á innlánsfé og sérstaklega við lækkun á útlánsvöxtum, væri það, að þeir, sem hafa nú örðugustu aðstöðu í landinu, fengju kjör sín verulega bætt, eins og t.d. unga fólkið og aðrir þeir, sem standa í framkvæmdum. Þetta mundi verða til þess, að það mundi draga úr kaupskrúfunni. Kaupskrúfan yrði minni en ella, vegna þess að með þessum hætti fengju þessir aðilar, sem annars kannske knýja fastast á með kaupbætur, af því að þeir eru lakar settir, kjarabætur, án þess að til kauphækkunar mundi koma. Vaxtalækkun mundi þannig verða til þess að draga úr kaupskrúfunni og draga úr verðbólguhættunni. Jafnframt yrði vaxtalækkun til þess að draga verulega úr dýrtíð, vegna þess að þá gætu þeir aðilar, sem fengjust t.d. við verzlun og framleiðslu, lækkað að einhverju leyti verðlag á vörum sínum eða sem svaraði vaxtalækkuninni, og þannig yrði þetta til lækkunar á verðlagi í landinu. M.ö.o.: lækkun vaxtanna mundi verða til þess að draga úr dýrtiðinni, lækkun vaxtanna mundi verða til þess að draga úr kaupskrúfunni og verðbólguhættunni í landinu, mundi verða til þess að gera gjaldmiðilinn stöðugri en hann er, draga úr þeirri hættu, að til nýrrar gengislækkunar þyrfti að koma, eins og margir tala um nú. Og hvort halda menn að sé nú þýðingarmeira fyrir sparifjáreigendur, að vextir séu eitthvað lægri á innlánsfé þeirra eða að það fáist aukin trygging fyrir því, að ekki komi til gengisfalls?

Hæstv. viðskmrh. var að tala um það, að vaxtamunur á innlánsfé frá því, sem nú er, og miðað við það, sem var fyrir viðreisnina, væri eitthvað í kringum 100 millj. á ári. En gengislækkun eins og sú, sem gerð var hér sumarið 1961, svarar til þessarar upphæðar í fimm ár. Og hvort hefði nú verið betra fyrir sparifjáreigendur sumarið 1961, að vextirnir hefðu verið eitthvað lækkaðir og þannig skapaður betri rekstrargrundvöllur fyrir frystihúsin, sem stóðu kannske einna höllustum fæti, í stað þess að það var gripið til þeirrar gengislækkunar, sem þá átti sér stað? Ég held, að hver og einn sparifjáreigandi, sem athugar þetta mál, mundi hiklaust segja, að það hefði verið betra að lækka vextina sumarið 1961 heldur en að fella gengið, eins og þá var gert, og bíða það tjón, sem ráða má af framangreindum tölum.

Hæstv. ráðherra kom hvað eftir annað að því, að sú verðbólguþróun, sem hefði átt sér stað í landinu á undanförnum missirum, væri kauphækkunum að kenna. Þetta er rangt. Það eru allt aðrar ástæður, sem liggja til þessarar dýrtíðar- og verðbólguþróunar. Það er fyrst og fremst sú stefna ríkisstj. að fella gengið hvað eftir annað, leggja á nýja skatta hvað eftir annað og skerða kjör manna á þann hátt, sem hefur leitt til þeirrar verðbólguþróunar, sem hefur átt sér stað í landinu á undanförnum missirum. Kauphækkanirnar eru ekki annað en afleiðing af þeirri hækkunarstefnu og gengisfellingarstefnu, sem hæstv. ríkisstj. hefur fylgt. Það er hæstv. ríkisstj., en ekki launþegarnir, sem ber ábyrgð á þeirri verðbólguþróun, sem hefur orðið hér í landinu á undanförnum missirum.

Hæstv. viðskmrh. var að gera mikið úr þeirri sparifjáraukningu, sem hefði átt sér stað í landinu á undanförnum árum, eða síðan hin svonefnda viðreisn kom til sögunnar. Ef hæstv. viðskmrh. lítur á tölurnar einar, hefur átt sér stað talsverð aukning sparifjár. En það eru ekki tölurnar, sem tala réttustu máli í þessu efni, heldur það verðgildi, sem þessar tölur hafa. Og ef við t.d. breytum sparifjárinneigninni, sem var hér, þegar viðreisnin kom til sögunnar, í erlendan gjaldeyri, og svo aftur þeirri sparifjárinneign, sem við eigum í dag, í erlendan gjaldeyri, þá munum við sjá, að munurinn á sparifénu er svo að segja enginn á þessu tímabili, ef við miðum sparifjáreignina við réttan gjaldeyri eða. gjaldeyri, sem hefur staðið í stað allan þennan tíma. Slík hefur orðið hin gífurlega rýrnun á verðmæti peninganna á þessum árum, að jafnvel þó að sparifjáreignin í tölum sé nú allt að því helmingi hærri en hún var fyrir 3 árum, er raunverulegt verðmæti hennar næstum hið sama og þá var, ef miðað er við erlendan gjaldeyri eða gjaldeyri, sem haldizt hefur stöðugur allan þennan tíma.

Því fer þess vegna fjarri, sem hæstv. ráðh. er að tala um, að hér hafi orðið raunverulega mikil aukning á sparifé vegna hinna háu vaxta. Slík aukning hefur ekki átt sér stað, ef miðað er við raunverulegt verðgildi peninganna.

Hæstv. ráðherra var að reyna að gera mikið úr því, að það væri rangt, sem segir í grg. þessa frv., að vextir séu miklu hærri hér en í flestum nálægum löndum. Og hann vitnaði til nokkurra landa í þessu sambandi. Hann vitnaði til Danmerkur, þar sem vextir eru hæstir í Evrópu utan Íslands. En hæstv. ráðh. veit líka, að vextirnir þar voru að verulegu leyti ákveðnir gegn vilja þeirrar ríkisstj., sem nú fer þar með völd. Seðlabanki þar í landi hefur vald til að ákveða vextina og ákvað þá hærri en danska stjórnin óskaði eftir og taldi sanngjarnt. Af hálfu beggja stjórnarflokkanna þar í landi, jafnt jafnaðarmanna og radikala, var þessi vaxtahækkun í Danmörku mjög gagnrýnd. Í blöðum flokkanna, t.d. aðalmálgagni jafnaðarmanna, komu fram eindregin mótmæli gegn því, að hér væri um réttmæta ráðstöfun að ræða. Það var í tveimur löndum, Danmörku og V.-Þýzkalandi, að þar voru vissir vextir nokkuð háir. En ef hæstv. ráðherra fer til Englands, eins og hann gerði, eru útlánsvextir 3–4% lægri þar en hér. Í Noregi eru þeir enn lægri. Í Svíþjóð eru þeir einnig mun lægri en hér. Í Bandaríkjunum eru þeir miklu lægri. Þess vegna er það engin fjarstæða, sem sagt er í grg., að vextir séu yfirleitt mun lægri í öðrum nálægum löndum en þeir eru hér á landi.

Hæstv. ráðherra var svo mikið niðri fyrir, að hann sagði hér setningar, sem ég trúi ekki að hann hafi meint alvarlega. Ég trúi því t.d. ekki, að hæstv. ráðherra hafi meint það alvarlega, þegar hann var að tala um, að verið væri að kveða verðbólguna í kútinn. Er það virkilegt, að hæstv. viðskmrh. finnist þetta, að nú sé verið að kveða verðbólguna í kútinn? Finnst honum merki um það, að verið sé að kveða verðbólguna í kútinn, þegar svo að segja allir kaupgjaldssamningar í landinu eru lausir? Og ég get vitnað hér til ágæts flokksbróður hæstv. ráðherra, sem er ekki þeirrar skoðunar, að verið sé að kveða verðbólguna í kútinn, og það er sjálfur hæstv. forseti deildarinnar, ef ég mætti hafa hér yfir ummæli, sem hann skrifaði í blað sitt 30. sept. s.l., með leyfi hans. Þau hljóða á þessa leið, með leyfi forseta:

„Verðbólgan hlýtur að verða aðalmál þess þings, sem hefst í steinhúsinu við Austurvöll eftir 10 daga. Landsfólkið hefur miklar áhyggjur af verðbólgunni og mun fyrst og fremst biða eftir að heyra, hvað ríkisstj. geri á því sviði. Að vísu er hreyfing verðlags og kaupgjalds enn ekki eins hröð og hún var flest árin milli 1950 og 1958, en hættan er engu að síður geigvænleg.“

Þetta sagði hæstv. forseti í byrjun þings. Síðan hefur, eins og ég rakti hér áðan, ekki bólað á neinum ráðstöfunum af hálfu hæstv. ríkisstj. til að draga úr verðbólgunni, heldur hafa yfirleitt öll þau mál, sem hún hefur flutt hér á þingi, frekar stuðlað að því að auka verðbólguna heldur en hið gagnstæða. Sú lýsing, sem hæstv. forseti d. gaf á þessu ástandi, þegar þing kom saman, er alveg rétt, og ég er alveg viss um, að það eru allir fúsir til að taka undir hana nema kannske hæstv. viðskmrh., sem kemur hér upp geysilega rogginn og segist vera að kveða verðbólguna í kútinn! Ég trúi því nú satt að segja ekki, að hæstv. ráðh. hafi meint þetta alvarlega. Ég held, að þetta hafi hrotið úr honum eins og hálfgerð öfugmæli, eins og margt annað, sem hann sagði í þessari ræðu sinni.

Ég vil að síðustu rifja það upp aftur, hverjir það eru, sem mundu græða mest á því, ef vextirnir væru lækkaðir, hverjir það eru í landinu, sem vextirnir leggjast á með mestum þunga, og þess vegna sé eðlilegt, að vaxtalækkun eigi sér stað.

Þeir aðilar, sem hinir háu vextir leggjast þyngst á, eru tvímælalaust hinir efnaminni borgarar í landinu og það alveg sérstaklega unga fólkið. Og það er einmitt hagur þessa fólks, sem ríkisstj. og Alþingi á fyrst og fremst að hugsa um. Þess vegna er það knýjandi réttlætismál, að dregið sé úr hinum miklu okurvöxtum, sem nú eiga sér stað. En af þeirri ræðu, sem hæstv. viðskmrh. flutti hér, er það bersýnilega langt undan, að vextir verði lækkaðir, ef hæstv. ríkisstj. og hennar flokkar eiga að halda áfram völdum, því að eftir því sem hæstv. viðskmrh. dró upp myndina hér, verða vextir aldrei lækkaðir, því að til þess að það væri mögulegt, mætti þjóðin ekki eiga frekari hættu á kauphækkun yfir höfði sér, það þyrfti að vera komið algert jafnvægi og annað þar fram eftir götunum, eða sem sagt alls konar forsendur, sem engar líkur eru til að verði fyrir hendi hér í náinni framtíð og alls ekki að óbreyttri stjórnarstefnu. Það er þess vegna alveg augljóst, að ef hæstv. ríkisstj. heldur áfram völdum, þá mun þjóðin búa áfram við sama vaxtaokrið og á sér stað í dag, það verður ekki dregið úr því. Það kom alveg ljóst fram í því, sem hæstv. viðskmrh. sagði hér áðan. Þess vegna er það, að þeir, sem vilja vinna að því að bæta hag þeirra, sem lakast eru settir í landinu, hinna efnaminni borgara og unga fólksins alveg sérstaklega, munu ekki vinna að framgangi þeirra mála með því að styðja hæstv. ríkisstj., sem hefur lýst því raunverulega hér yfir í gegnum munn hæstv. viðskmrh., að vaxtaokrinu verði haldið áfram um ófyrirsjáanlegan tíma.