04.04.1963
Neðri deild: 65. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í C-deild Alþingistíðinda. (2504)

223. mál, hámark útlánsvaxta

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst segja það, sem ég hef oft sagt hér áður í þessum ræðustól, að ég tel það alveg víst, að þeir háu vextir, sem ríkisstj. hefur innleitt hér, fá alls ekki staðizt til lengdar. Það er alveg víst.

Þetta eru einhverjir hæstu vextir, sem þekkjast á byggðu bóli, og þeir fá ekki staðizt. Íslenzkt atvinnulíf getur alls ekki staðið undir þessum vöxtum í samkeppni við atvinnurekstur annarra landa, en íslenzkir framleiðendur verða að framleiða mjög mikið af vörum til útflutnings. Og það er óhugsandi, að það geti staðizt að hafa svona miklu hærri vexti hér — hreina okurvexti — en tíðkast annars staðar í þeim löndum, sem við Íslendinga keppa. Framleiðslan stenzt þetta ekki.

Enn fremur er það alveg ljóst, að almenningur í landinu, sem þarf á lánsfé að halda, stenzt þetta ekki heldur, t.d. þeir, sem þurfa að koma sér upp þaki yfir höfuðið eða leggja í stofnkostnað við atvinnurekstur og þurfa á mjög miklu lánsfé að halda. Þeir standast alls ekki þessar háu vaxtagreiðslur. Þær verða hreinlega til þess, að ef fólkið á að geta lifað, verður kaupgjaldið að skrúfast upp og þar með dýrtíðin og framleiðslukostnaðurinn, eins og reynslan hér hefur sýnt.

En þó er reynslan hér ekki búin að sýna nema sáralítið af þessu enn þá, og það sjáum við á því, að því fer víðs fjarri, að dýrtíðin, sem ríkisstj. hefur magnað í landinu undanfarin ár, sé enn þá komin inn í kaupgjaldið eða afurðaverðið t.d. Ekki nema lítið brot af afleiðingum dýrtíðarstefnunnar og vaxtaokursins — ég hefði talið rétt, að hæstv. ráðh. hefði hlustað á þetta — ekki nema lítið brot er komið inn í kaupgjaldið eða framleiðslukostnaðinn. Við þurfum ekki annað en líta t.d. á aðstöðu launamannsins varðandi t.d. íbúðabyggingar og annað slíkt. Vísitalan er komin upp um 29 stig, var verið að segja hér áðan, en vísitalan fyrir vörur og þjónustu mun vera komin upp um 45 eða 47 stig — það eru 94 stig með gamla laginu — á örfáum missirum. En samt sem áður er t.d. kostnaðurinn við húsnæðið, sem vextirnir hafa alveg gífurleg áhrif á, eiginlega ekki að neinu leyti enn þá kominn inn í þessa dýrtíðarvísitölu. Það er enn þá reiknað með 888 kr. húsnæðiskostnaði á mánuði í þessari vísitölu, og ef tekinn er kostnaður við sæmilega íbúð, eins og hún kostar núna, og vaxtagreiðslurnar teknar til greina, eins og þær eiga að vera eftir kerfi ríkisstj., og aðrir liðir teknir og leiðréttir þannig, þá þarf vísitölufjölskyldan eitthvað í kringum 130 þús. kr. tekjur á ári til að geta borgað vísitöluútgjöldin, þegar búið er að taka tillit til vaxtaokursins í húsnæðisliðnum.

Á þessu sjáum við, hvað við eigum eftir fram undan, hvað er fram undan í þessum efnum, og hversu sáralítið enn er komið inn í kaupgjaldið og dýrtíðina af afleiðingum vaxtaokursins og dýrtíðarstefnunnar. Þetta virðist hæstv. viðskmrh. bara ekki sjá.

Ef við tökum svo aftur afurðaverðið, landbúnaðinn, sem er mikill þáttur í þessum málum, og íhugum það atriði, þá sjáum við alveg sams konar mynd. Þá sjáum við, að inn í verðlagið núna er ekki komið nema sáralítið brot af þeim vaxtaútgjöldum, sem meðalbóndinn verður að standa undir, sá sem ætti að byggja upp og búa við vexti ríkisstj., sem hún hefur sett inn í okkar efnahagskerfi. Fyrir utan það, að í verðlagsgrundvellinum er reiknað til afskrifta, — ég vil skjóta því inn í í leiðinni, — er reiknað til afskrifta sem svarar andvirði hálfrar dráttarvélar. Það á að vera allur vélastofninn, sem leyft er að afskrifa og reikna vexti af.

Hvað halda menn, að sé eftir að gerast í þessari grein út af þessari stefnu, sem upp hefur verið tekin í landinu? Heldur hæstv. viðskmrh., að allar afleiðingar af okurvöxtunum séu komnar fram núna í þjóðarbúskapnum? Ég held það væri rétt fyrir hæstv. ráðh. að gefa sér tíma, áður en hann talar næst, til þess að skoða vísitölugrundvöllinn, áður en hann fullyrðir, að hér sé of hátt kaupgjald í landinu og það sé það, sem allt ætli að eyðileggja. En hvers konar kaupgjald ætlar hann vísitölufjölskyldunni, sem innan stundar þarf a.m.k. 130 þús. kr. til að standa undir vöxtunum hans og öðrum útgjöldum, sem valdhafarnir hafa búið í haginn? Það dugir ekki að standa hér og æpa, að kaupgjaldið sé of hátt, en vinna svo öllum stundum að því að spenna upp kostnaðinn eins mikið og hugsazt getur, bæði með okurvöxtum og öllum öðrum hugsanlegum ráðum.

Sannleikurinn er sá, og það veit hæstv. ráðh., að meginefnahagsmálastefna ríkisstj. hefur verið fólgin í því að reyna að ná því, sem þeir kalla jafnvægi í efnahagsmálum landsins, með því að hækka verðlagið, með því að gera lánsféð dýrara ag með því að takmarka aðganginn að lánsfénu. Með þessum aðferðum hafa þeir ætlað sér að ná jafnvægi í búskapnum. En hver hefur afleiðingin orðið? Ekkert jafnvægi, auðvitað, heldur óstöðvandi dýrtíðarskriða, sem enginn ræður nokkurn skapaðan hlut við. Þeir byrjuðu með því að spenna verðlagið upp sem svaraði 1100 millj. a.m.k. í fyrstu umferð, og afleiðingarnar hlutu að verða alveg óstöðvandi verðbólgubylgjur áfram. Og þær hafa orðið það. Það þýðir ekkert að koma hér og formæla mönnum fyrir það, að kaupið hafi eitthvað verið lagfært, eða kalla menn svikara fyrir það. Hvernig áttu menn að geta haldið kaupinu óbreyttu, miðað við það, hvernig undir var kynt? Vill ekki hæstv. viðskmrh. reyna að gera einhverja ofur litla grein fyrir því, hvernig það var hugsanlegt?

Svo kemur hæstv. viðskmrh. hér og er að tala um, hverjir það séu, sem fyrst og fremst verða að borga þessa okurvexti? Það er unga fólkið, sem þarf að taka lánin mest til þess að koma upp þaki yfir höfuðið og koma sér inn í atvinnurekstur og stofna heimili. Það er unga fótkið. Það er á það, sem okurgjöld vaxtanna eru lögð fyrst og fremst, og svo þá, sem eru að reyna að rétta sig úr kútnum efnalega með því annaðhvort að stækka búskap eða komast yfir fiskiskip og báta, efla atvinnurekstur sinn, en eiga ekki nægilegt fjármagn sjálfir. Það eru þessir aðilar í þjóðfélaginu, sem verða fyrst og fremst að borga þessa vexti.

Er það rétt stefna að punda alveg tillitslaust á þetta fólk slíkum gjöldum? Nei, það er áreiðanlega ekki rétt stefna. Það er stefna, sem hefnir sín alveg herfilega, eins og er að koma fram núna í sambandi við afleiðingar af því, sem gert hefur verið, en er þó ekki nema að litlu leyti komið fram, eins og ég sagði áðan.

Er því sannast að segja, að hæstv. ríkisstj, ræður auðvitað ekki við neitt, en heldur sér bara dauðahaldi í dýrtíðarhjólið og harðneitar að reyna að stíga nokkurt skref til þess að fá það til að stöðvast, hvað þá heldur að reyna aðra útvegi.

En þá kemur spurningin: Græða þá sparifjáreigendur? Er það alveg víst, að þeir græði? Hæstv. ráðh. er að tala hér um, að það yrði svo mikill tekjumissir fyrir þá, ef vaxtapólitíkinni yrði breytt. Hvað hafa sparifjáreigendur grætt á þessari pólitík ríkisstj.? Þeir hafa bókstaflega orðið fyrir óbætanlegu tjóni. Það er ekki hægt að slíta vextina út úr, eins og þeir hafi engin áhrif á neitt í þjóðarbúskapnum, og reikna bara dæmið þannig: Vextirnir eiga að vera svona og svona háir, þá er öllu borgið og þá græða sparifjáreigendur í landinu svona og svona mikið.

Það er ekki sæmilegt að flytja málið á þessa lund, vegna þess að vextirnir eru stórfelldur, áhrifamikill og verulegur þáttur í öllu efnahagskerfinu og hafa áhrif alls staðar og út frá sér á nýjan leik endalaust. áhrifin spinna sig áfram í kerfinu, áhrifin af vaxtapólitíkinni. Og vaxtapólitíkin og heildarstefna ríkisstj. hefur orðið þannig fyrir sparifjáreigendurna, að þeir hafa orðið fyrir stórkostlegu tjóni, eins og hér hefur verið sýnt fram á í þessum umr.

Dýrtíðarholskeflurnar og dýrtíðarvöxturinn hefur miklu meira en étið upp þann hagnað, sem látið var í veðri vaka að sparifjáreigendur mundu hafa af þessari nýju pólitík, hvar í vaxtahækkunin var þýðingarmikill líður.

Ég er alveg sannfærður um, að eitt af því, sem hlýtur að verða gripið til, er vaxtalækkun. Þetta hlýtur að láta undan. Þetta er ekki hægt. Hæstv. ríkisstj. lét reyndar undan strax dálítið. Um fyrstu áramótin neyddist hún til þess að lækka vextina frá því, sem hún hafði sett þá, og með því viðurkenndi ríkisstj., að það er ekki einhlítt ráð að hækka bara vextina. Hún tók strax til baka, ef ég man rétt, 2% af því, sem hún upphaflega hafði hækkað vextina um. Hvers vegna gerði hæstv. ríkisstj. það? Gerði hún það til þess að níðast á sparifjáreigendum, til þess að hafa af þeim fé? Nei, hún gerði það auðvitað vegna þess, að hún sá, að hún hafði gert stórfellda skekkju í því, hve mikið hún hafði hækkað vextina. En eftir skildi hún samt sem áður meginhlutann af vaxtahækkuninni, með þeim afleiðingum, sem hér hefur verið lýst í þessum umr. og ég var að drepa á.

Það þarf enginn að halda, að Það verði hægt t.d. að leysa hér íbúðamálin á næstu árum og missirum öðruvísi en slaka eitthvað á vöxtunum. Það er óhugsandi. Það kostar nú ca. 10%, lánsfé í lausalánum, og við vitum, að það eru sáralitlu lægri vextir í íbúðakerfinu og allt þar fram eftir götunum. Undir þessu er ekki mögulegt að standa. Það verður áreiðanlega eitt af þeim úrræðum, sem gripið verður til að reyna að stöðva dýrtíðarhjólið og vitleysuna. Það verður að lækka vextina t.d. á íbúðalánum og alveg eins í landbúnaðinum og atvinnurekstrinum yfirleitt. Það verður ekki eingöngu farin sú leið að hækka verðið til að geta greitt okurvextina.

Menn skulu ekki halda, að það sé til lengdar hægt t.d. að halda landbúnaðinum þannig, að verðgrundvöllurinn sé slík fásinna sem hann er nú. Þetta verður að breytast, og það verður náttúrlega ekki einhliða hægt að leysa það mál með því bara að hækka verðlagið á afurðunum, eins og það þyrfti að hækka til að borga okurvexti. Leiðin verður auðvitað líka sú að gera gangskör að því að lækka vextina. Það verður að fara margar leiðir, og það verður ein af þeim leiðum, sem farnar verða. Að ætla sér að halda jafnvægi í lánastarfseminni hér í landinu, eins og allt er í pottinn búið, og skapa jafnvægi í efnahagspólitíkinni með þessari okurvaxtastefnu er alveg vonlaust mál.

Ég heyri, að hér hefur borið á góma gengislækkunina 1961, og það er ekkert einkennilegt, vegna þess að í sambandi við það frumhlaup allt saman kom náttúrlega vaxtamálið til íhugunar. Það er ekkert vafamál, að hæstv. ríkisstj. fór alveg skakkt að 1960. En það tók þó alveg steininn úr, þegar hæstv. ríkisstj. rauk út í gengislækkun 1961. Hún átti að vera til þess að sýna alþýðusamtökunum í landinu, að ríkisstj. gæti ráðið og það væri bezt fyrir þau að hafa sig hæg. Það var ekki efnahagsleg ráðstöfun gengislækkunin 1961, heldur var hún gerð til þess.

Það var engin ástæða til þeirrar gengislækkunar, og það skýrir kannske einna bezt muninn á stefnu Framsfl. og stjórnarfl., að ef Framsfl. hefði ráðið við þær aðstæður, sem voru 1961, þá hefði gengislækkun alls ekki komið til mála. Og ég skal færa fyrir því nokkur rök, sem áður hafa komið hér fram á Alþingi og eru algerlega pottþétt og alls ekki er hægt að hrekja. Það varð nokkur kauphækkun 1961, og framleiðslan gat borið þá kauphækkun án nokkurrar gengislækkunar. Þetta hefur margsinnis verið sannað. Iðnaðurinn var gerður upp, verðlagsmál iðnaðarins voru gerð upp, eftir að kauphækkanirnar áttu sér stað, og þá kom út úr því dæmi, eins og getið var um og yfirlýst í stjórnarblöðunum þá, að þær hækkanir, sem leyfðar voru á iðnaðarvörum, voru ekki vegna kauphækkunarinnar. Iðnaðarfyrirtækin fengu ekki hækkun út af kauphækkuninni nema í einu eða tveimur dæmum, sem beinlínis voru tilgreind, aðeins lítils háttar. Það var sagt frá því skilmerkilega í stjórnarblöðunum báðum, að þær hækkanir, sem hefðu verið leyfðar á iðnaðarvörum, væru vegna hækkunar á hráefnunum, sem til kom eingöngu vegna gengisbreytingarinnar. Það er staðreynd, að iðnaðurinn gat borið þessa kauphækkun og var látinn bera hana.

Þá var það aðalútflutningsatvinnuvegurinn. Ég man ekki nákvæmlega þær tölur, sem þá voru raktar, en í höfuðdráttum var þetta þannig, að kauphækkunin var ca. 11%, en menn deildu nokkuð um það þó, hvað kauphækkunin var mikil. En vegna þess að kaupið er ekki nema eitthvað rúmlega 20% af rekstrarútgjöldum t.d. frystihúsanna, þá kom í ljós, að kauphækkunin svaraði aðeins til örfárra prósenta breytingar á útflutningsverði sjávarafurðanna. Verð á sjávarafurðum var þá hækkandi, og það kom fram í skýrslu Seðlabankans fyrir 1961, að verð á sjávarafurðum hafði hækkað á árinu 1961. Það var því enginn grundvöllur til fyrir gengisbreytingunni í rekstri sjávarútvegsins árið 1961 þrátt fyrir kauphækkanirnar. Þar að auki hef$i verið hægt að bæta við útveginn til hagsbóta nokkurri vaxtalækkun. T.d. hefur 2% vaxtalækkun fyrir sjávarútveginn alveg stórkostlega þýðingu. Ég hef ekki alveg við höndina núna, hversu nákvæmlega miklu það jafngildir í kauphækkun, 2% lækkun á vöxtum, en það jafngildir verulegri kauphækkun, vafalaust hátt upp í þá kauphækkun, sem varð 1961. Um þetta hef ég í fórum mínum greinilegar tölur, sem þá voru upplýstar allar saman æ ofan í æ og byggðust á verðútreikningum frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sem ég hafði þá undir höndum og sýndu, hve kaupgjaldið var mikill líður í heildarverðmæti útflutningsins, annars vegar og hins vegar, hve vextirnir voru mikill líður af framleiðslukostnaðinum í heild. Þetta dæmi lá algerlega glöggt fyrir, fyrir utan það, eins og ég sagði áðan, að verðlag á sjávarafurðum fór hækkandi árið 1961, og er vitnisburður hreinn og klár um það í skýrslu Seðlabankans fyrir árið 1961.

Varðandi síldarútveginn er þess að geta, að strax um vorið, þegar síldarafurðirnar voru verðlagðar, var kauphækkunin tekin inn, svo að það þurfti ekki þeirra vegna að breyta gengisskráningunni fremur en vegna annarrar útgerðar.

Það eru einhver sorglegustu mistök, sem hér hafa átt sér stað, þessi gengislækkun 1961. Hún jafngilti því, að þá væri benzíni hreinlega kastað á eld, og síðan hefur hæstv. ríkisstj. ekki ráðið við nokkurn skapaðan hlut og ræður ekki við enn í dag, því að allt er á óðaflugferð, eins og öllum er kunnugt, upp á við og sér ekki fyrir endann á neinu.