14.02.1963
Efri deild: 44. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í C-deild Alþingistíðinda. (2511)

27. mál, Tunnuverksmiðjur ríkisins

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég kveð mér hér hljóðs til að vekja athygli á vissum staðreyndum, sem skipta máli varðandi þetta frv. til l. um breyt. á l. nr. 49 frá 29. maí 1957, um Tunnuverksmiðjur ríkisins. Ekki kveð ég mér þó hljóðs til þess að vera á móti frumvarpinu, því að ekki er það óeðlilegt, þó að þingmenn leggi til, að byggðar verði fleiri tunnuverksmiðjur en nú eru í landinu, með tilliti til þess, að síldargöngur hafa breytzt mjög mikið og síldveiðin er orðin eins mikil sunnanlands og austanlands og raun ber vitni. En með tilvísun til ákveðinna setninga í grg. langar mig til að segja nokkur orð. Það, sem segir þar, er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Svo sem fyrr segir, hefur allmikið á skort, að tunnuverksmiðjurnar hafi fullnægt þörfinni. Framleiðsla þeirra hefur s.l. 5 ár verið sem næst 130 þús. tunnur til jafnaðar á ári. Það er því í alla staði eðlilegt, að tunnuframleiðslan sé aukin og fleiri verksmiðjur stofnsettar.“

Hv. þdm. geta hæglega dregið þær ályktanir af þessum fullyrðingum, að tunnuverksmiðjur á Siglufirði og Akureyri séu fullnýttar. En það er langt frá því, að svo sé. Siglufjarðarverksmiðjan er starfrækt aðeins frá nóvember og þar til í maí, og sjá allir, að það er ekki hálf nýting á verksmiðjunni. Þar að auki er vinnslan í þessari ágætu verksmiðju ekki nema ca. 8 stundir á sólarhring. Það er auðvitað sjálfsagt að nýta þessa verksmiðju mun betur. Fyrsta flokks tunnuverksmiðja eins og tunnuverksmiðja ríkisins á Siglufirði á að starfa a.m.k. 10 mánuði. Það er skiljanlegt, að í júlí og ágúst sé stöðvað og e.t.v. í þrjá mánuði, ef mikil síld veiðist. En hún á að vera jafnan starfrækt 9 mánuði minnst og það altan sólarhringinn, því að það segir sig sjálft, að verksmiðja, sem aldrei er látin stöðvast og gæti gengið 24 klukkustundir á sólarhring, getur skilað ódýrari tunnum og ódýrari framleiðslu en verksmiðja, sem aðeins er látin ganga 8 stundir á sólarhring. Og ég sakna þess, að í grg. skuli ekki vera einmitt getið um þessa möguleika. Svo er það vitað mál, að tunnuverk. smiðja ríkisins á Akureyri er aðeins látin vinna 4–5 eða í hæsta lagi 6 mánuði á ári.

Það, sem veldur því m.a., að Sunnlendingar vilja fá tunnuverksmiðjur, er hinn mikli dreifingarkostnaður innanlands á tunnum. Telja þeir það eðlilegt, að verksmiðjurnar séu staðsettar þar eða sem næst því sem aðalframleiðslumagnið er. Eru þetta allsterk rök fyrir frv. Ég vildi þó leyfa mér að segja, að þetta er stærðfræðidæmi. Hvað er hægt að lækka framleiðsluverð tunna frá verksmiðjunum á Siglufirði og Akureyri, ef unnið væri 9–10 mánuði ársins allan sólarhringinn, og mundi sú lækkun á framleiðsluverði ekki geta borið að einhverju leyti uppi þann kostnað, sem er við að flytja tunnurnar frá þessum stöðum, sem ég hef nefnt, til Suðurlands, Suðvesturlands og Austurlands?

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, en ég vildi ekki láta þessa umr. fara fram, án þess að bent væri á það, að í landinu eru tunnuverksmiðjur, sem kosta milljónir króna, og þær eru alls ekki nýttar til fulls, ekki nýttar 50%, hvað þá meira.